Leyndardómurinn á bak við fylgishrun Framsóknar:

dal-03-09Heill pólitískur vetur er liðinn síðan Halldór Ásgrímsson hvarf úr stjórnmálum og Jón Sigurðsson tók við Framsóknarflokknum eftir áfall Framsóknar í sveitarstjórnarkosningunum fyrir ári.
Til að finna aftur rætur sínar og hverfa skýrt frá Evrópustefnu Halldórs heyrðist  “þjóðhyggja” í hverri setningu Jóns Sigurðssonar í haust og fram eftir vetri, - en ekkert breyttist, fylgið hélt áfarm að kvarnast af Framsóknarflokknum þó nær ekkert væri eftir. Þegar dró að kosningum vildi flokkurinn leika sama leik og hann lék undir forystu Halldórs Ásgrímssonar fyrir fjórum árum þegar flokkurinn tvöfaldaði fylgi sitt frá afar óhagstæðum skoðanakönnunum við upphaf kosningabaráttu til kjördags, - en það tókst ekki nú enda hvorki Evrópustefnan eða Halldór Ásgrímsson rót vanda Framsónar.

Önnur skýring sem týnd er til er samstarf við Sjálfstæðisflokkinn sem samkvæmt kenningunni á alltaf að skilja samstarfsflokkinn eftir fylgislausan og er þá vísað til Alþýðuflokksins sem varð aðeins tæp 11% í kosningunum 1971 þegar Viðreisnarstjórnin féll og álíka lítill 1995 eftir 4 ára samstarf með Sjálfstæðisflokki Davíðs Oddssonar. Í báðum þeim tilvíkum er litið framhjá því að 1971 og 1995 komu fram öflug klofningsframboð úr Alþýðuflokknum sem tóku frá honum fylgi, 1971 Samtök frjálslyndra og jafnaðarmanna, og 1995 Þjóðvaki undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur sem fékk yfir 7% fylgi. 

Ég held því að þessi kenning um að allir flokkar komi illa útúr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sé einfaldlega rökleysa og eigi ekki stoð í raunveruleikanum heldur sé það einfaldlega undir flokkunum sjálfum komið hvernig þeir komi út úr ríkistjórnarþátttöku hverju sinni.

Helgi einn í heiminumEn snúum okkur aftur að Halldóri Ásgrímssyni og kenningunni um að kjósendur séu enn að refsa Framsókn fyrir Halldór Ásgrímsson og stefnu hans.
Hún stenst engan veginn. Fyrir utan að engin leið er lengur að refsa Halldóri þar sem hann er farinn á braut, þá hefur pólitískur minnisskortur kjósenda miklu fremur verið vandamál en langrækni þeirra langt yfir pólitísk líf og pólitískan dauða stjórnmálamanna og verk þeirra. Við sáum flokka sveiflast ótrúlega á 8 vikum í kringum kosningar, VG missti 13% frá toppi skoðanakannana til kosninga og Samfylking bætti við sig 8% og fyrir fjórum árum tvöfaldaði Framsókn fylgi sitt í kosningabaráttunni, - og samt eru til þeir sem halda að kjósendur séu svo langræknir að þeir séu enn að refsa Halldóri Ásgrímssyni sem hvarf á braut fyrir ári síðan.

Menn létu fyrir ári sem Evrópustefna Halldórs ætti sök á fylgishruni flokksins  - samt varð fylgishrunið mest í þéttbýlinu þar sem stuðningur við Evrópuaðild er mestur. Forysta Framsóknar keypti þó skýringuna og nýi formaðurinn sem sumir tóku að uppnefna “fornmann” talaði um “þjóðhyggju” í hverri setningu til að slíta nýju Framsókn frá Evrópu-Framsókn Halldórs, -en skoðanakannanir sýndu engan bata enda var hún ekki rót vandans.

Framsókn kemur nú út úr kosningum álíka illa og Alþýðuflokkurinn í sínum verstu kosningum  og var þó Alþýðuflokkurinn alltaf miklu minni flokkur en Framsókn og ekki svona lítill nema þegar burðarmikil klofningsframboð forystumanna hans sjálfs tóku frá honum fylgi.

Hver er þá skýringin á hruni Framsóknar?

dal-17-08Tryggð og hollusta eru sterkustu og vanmetnustu öfl stjórnmálanna.  Framsóknarflokkurinn hefur einfaldlega verið að skreppa saman síðan SÍS hrundi og  kaupfélögin tóku að loka. Fólk sem bar tryggð til kaupfélaganna bar flest líka tryggð til Framsóknarflokksins. Tryggð við kaupfélögin var uppspretta tryggðar við Framsókn. Fólk átti öll sín viðskipti í Kaupfélögunum sem sáu landsbygðarfólki víða fyir öllum nauðsynjum. Kaupfélögin voru samvinnufyrirtæki fólksins sjálfs, það lagði þar inn framleiðsluvörur sínar og tók út hráefni, tæki og aðrar bjargir sínar, eða starfaði í frystihúsum og fiskvinnslufyrirtækjum kaupfélaganna um allt land og iðnaðarfyrirtækjum samvinnuhreyfingarinnar sem sá fólki á landsbyggðinni beint og óbeint fyrir vinnu og lifibrauði. Atkvæði greitt Framsóknarflokknum var framlag til atvinnu, vöruframboðs og öryggis í skjóli Samvinnuhreyfingarinnar og Samvinnuhreyfingin sá fólkinu fyrir öryggi. – En svo hrundi það allt og hefur ekki komið til baka. – Í þess stað urðu jafnvel sum bæjarfélög án verslana, án frystihúsa og án heimilda til fiskveiða og kaupfélögin með allri sinni atvinnustarfsemi hurfu, ...og tryggð við Framsókn hefur verið að fjara út síðan.

Að hluta til er auðvitað um að kenna vanmætti forystu Framsóknar til að bregðast við þessum nýju og breyttu aðstæðum en um það hefur Jón Sigurðsson augljóslega verið jafn vanmáttugur og Halldór Ásgrímsson, og óvíst að Framsóknarflokkurinn hafi átt neitt mögulegt svar til að halda fyrri stöðu sinni eða nú að endurheimta hana. Hann ætti þó að geta í krafti þeirrar tryggðar sem hann enn nýtur að geta endurskipulagt sig og styrkt eitthvað, en til þess verður hann að horfast í augu við hverjar voru rætur þeirrar miklu tryggðar sem hann naut og þá veit hann líka hversvegna hana þvarr og að fyrri staða næst aldrei aftur.

Þegar kaupfélögin hurfu morknuðu tryggðarrætur Framsóknar og fylgið hefur verið að skolast í burtu síðan.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll. Kvitt fyrir lesningu!

Sveinn Hjörtur , 21.5.2007 kl. 18:40

2 identicon

Þetta er ein sú bezta greining á þessu fyrirbrigði (fylgishruni Framsóknarflokksins). Mér er þó ekki grunlaust um að Evrópumálin hafi ýtt á eftir. Ekki það að stefna Halldórs sé endilega verri en hver önnur, heldur var hún svo gjörsamlega á skjön við það sem áður hafði komið frá þessum flokki. Flokkurinn fór fram 1991 með stefnu Steingríms: "xB en ekki EB" sem beint var gegn inngöngu í EES. Að fara svona enda á milli í einu máli á örfáum árum er ekki traustvekjandi. Auk þessa hefur taumlaus valdagræðgi Framsóknar hleypt illu blóði í marga, en etv. ekki stuðningsfólk Framsóknar. Þessi valdagræðgi kom fram þegar formanni Framsóknar var troðið í forsætisráðherrastól með það litla fylgi sem sá flokkur fékk fyrir 4 árum. Aftur eftir kosningar á síðasta ári þegar Framsókn fékk mikinn hluta valda í borgarstjórn Reykjavíkur út á 1 mann af 15. Þeir í forystusveit Framsóknar sem væri hægt að treysta til einhvers hafa flúið af hólmi (svo sem Finnur og Árni Magnússson). Það má ímynda sér að streita myndist í svo þröngum hópi þegar bitlingar og valdastöður hellast yfir óstöðvandi og hömlulaust.

Skúli Víkingsson (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 18:43

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Mikil ósköp, þá hefði Framsókn alveg getað verið einhverjum pósentum hærri núna, -eða lægri, en eftir sem áður skilja menn hvað er að gerast ef þeir líta til þess hvað kaupfélögin voru fólkinu með allri sinni starfsemi og tryggð kaupfélagnna við fólkið í plássunum sem aftur svarði með tryggð við Framsóknarflokkinn sem í raun áratugum saman tjáði enga aðra stefnu en að styðja kaupfélögin og samvinnuhreyfinguna. Samvinnuhugsjónin sem slík er þó raunveruleg stjórnmálaheimspekileg stefna sem Framsókn getur alveg hrist rykið af og endurfundið grundvöll sinn sem er hvorki sveitamennska eða þjóðhyggja heldur samvinnuhugsjónin, -hugsjón um samvinnu.

Helgi Jóhann Hauksson, 21.5.2007 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband