Fullvalda með útlenskan kóng og utanríkismál hjá Dönum

Íslenskir þjóðernissinnar rangfæra ótrúlega margt til réttlætingar útlendingafordómum sínum í garð Evrópubúa.

-sigurgledi_i_paris_1273.jpgMegin þema þjóðernissinnaðra andstæðinga ESB er tvö, það fyrra að útlendingar/Evrópubúar hafi illan ásetning í garð Íslands; og hitt er að Íslendingar sem vilji föst samskipti við Evrópu hafi í raun ásetning um að selja landið sitt ef ekki að gefa það (vondum) útlendingum. Margskonar tilbrigði við þessi einföldu áróðursstef útlendingahaturs og þjóðernishyggju eru svo sungin í hvert sinn sem orðað er að Ísland ætti að eigi samskonar tengsl við fullvalda og sjálfstæðar þjóðir Evrópu og Danir, Svíar og Finnar hafa, þ.e. ganga í ESB.

Þetta eru einnig nákvæmlega sömu stefin og voru sungin fyrrum. Hvort sem er við inngöngu í EFTA, EES eða í þeim miklu deilum þegar lagður var símastreng yfir hafið frá Íslandi til Evrópu 1904 (ef ég man árið rétt). - Þessi söngur hefur alltaf mikil áhrif því enginn vill jú vera talinn ætla að svíkja land sitt í hendur ræningjum.

city0115.jpgMest ber á staðhæfingum um að með ESB-aðild værum við að afsala okkur „fullveldinu“ og sjálfu sjálfstæði þjóðarinnar (eins og áður). Foringjar þjóðernissinna til hægri og vinstri þ.e. bæði þess hóps sem fylgir Davíð Oddssyni og þjóðernissinnans Steingrími J Sigfússonar eru þó vel upplýstir og menntaðir menn og vita best hve röng og villandi þessi staðhæfing er. Þeir vita vel að ESB er samtök sjálfstæðra og fullvalda Evrópuríka og að öll aðildarríki ESB eru óvefengjanlega fullvalda og sjálfstæð bæði að þjóðarrétti og í augum umheimsins og þjóðanna sem ríkin byggja. Þeir vita líka vel að enginn getur átt samfélag við aðra án þess að deila með því samfélagi einhverjum ákvörðunum og um leið að fá hlutdeild í miklu fleiri ákvörðunum. Og að enginn í mannheimum er neitt einn, hvorki þjóð eða einstaklingur.

Þeir vita líka að þrátt fyrir allt er umfang ESB ekki meira en svo að það veltir um 1% af þjóðarframleiðslu ríkjanna og skilar þar af strax 50% til niðurgreiðslum landbúnaðarvara og svo stórum upphæðum til byggða-, vísinda og mennta.

1918: „Fullvalda“ með útlenskan kóng og utanríkismál í höndum annarar þjóðar

Folk_0114Þessir upplýstu en öfgafullu(1) þjóðernissinnar vita manna best að íslensk þjóð taldist „fullvalda“ frá og með 1. desember 1918 ...  - en réð þá samt engu um utanríkismál sín sem voru í höndum Dana og höfðu útlenskan kóng sem að stjórnarskrá skyldi staðfesta eða hafna lögum Alþingis.

Þ.e. óumdeilt er að við urðum fullvalda þennan dag en langur vegur var að við teldumst þátttakendur á skákborði heimsins eða sjálfstæð og fullvalda í þeirri merkingu sem við nú teldum hæfa.

Önnur mjög alvarleg skröksaga þjóðernissinna er að eignaréttur á orkuauðlindum Íslands sé í hættu með ESB-aðild þó vita þessir menn vel að ESB hefur almennt ekkert með auðlindir ríkjanna að gera hvað þá að bandalagið hafi nokkru sinni ásælst eignarétt eða nýtingarétt orkuauðlinda ríkjanna eða arðinn af þeim eða annarra auðlinda þeirra

Um fiskveiðar vita þjóðernissinnarnir líka vel að stjórn fiskveiða var og er umhverfisverndarmál í þeim skilningi að frá 1906 hafði verið reynt að koma á sameignlegri stjórn fiskveiða úr sameiginlegum fiskistofnum ríkjanna við Norðursjó. Fiskistofnar virða ekki landamæri og lögsögumörk sama hvað predikað er yfir þeim, en þörf fyrir vernd þeirra var og er rík svo til varð „sameiginlega fiskveiðistefnan“ CFP undir þemanu: „sameiginlegt vandamál krefst sameinilegra lausna“. Hluti af lausninni er að mismundandi reglur og stjórnkerfi gilda á ólíkum hafsvæðum til að ná þessu verndarmarkmiði. Þannig gildir annað stjórnkerfi á Miðjarðarhafinu og í Eystrasalti en á Norðursjó. Þ.e. „sérstakar aðstæður krefjast sérstakra lausna“ og að „hverja ákvörðun skal taka eins nærri vettvangi og unnt er“. Þessa vegna hafa þar lengst af stjórnað fiskveiðum Eystrasaltsráð í Eystrasalti og Miðjarðhafsráð í Miðjarðarhafi. OG  eyjur Frakka í Karabískahafinu sem teljast aðilar að ESB annast sína fiskveiðistjórnun án afskipta ESB. Stífni um fiskveiðistefnuna og meginreglur er stífni um verndarmarkmið hennar, ótrúlega margir aðilar í hverju landi vilja á hverju ári fá undanþágu fyrir sig til að veiða meira og vernda minna. Þeir félagar Davíð Oddsson, Steingrímur J Sigfússon og Styrmir Gunnarsson vita vel að það þarf ekki undanþágur fyrir Ísland til að semja um fiskveiðar fyrir Ísland eða að allar veiðar á Íslandsmiðum verði á höndum Íslendinga, heldur þekkingu og góða röksemdarfærslu til að draga fram eigin reglur ESB og rétt fordæmi sem best henta Íslenskum aðstæðum og hagsmunum, auk þess er ekki ágreiningur við ESB um verndarmarkmið - er það nokkuð?  Mantran: „engar undanþágur fást“ er því í senn villandi og merkingarlaus, fyrir utan að hún er röng.

Í tilefni fullveldisdagsins og ástandsins ættu allir að byrja segja satt, í það minnsta eins satt og þeir geta - líka öfgafullir þjóðernissinnar sem berjast gegn aðild að ESB. 

(1) Ég kalla þá öfgafulla þjóðernissinna sem endurtekið rangfæra um grundvallaratriði í þágu þjóðernishyggjunnar þó ljóst megi vera að þeir vita betur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll félagi, ég er með einna spurningu fyyrir þig:

 Hvaða samningsmarkmið myndir þú sætta þig við varðandi fiskveiðar við Ísland?

Sigurður Þórðarson, 1.12.2008 kl. 23:02

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Ef ég kýs að ganga ekki í ESB, er ég þá sekur um útlendingafordóma? Ef  ég væri skeptískur á færslu ákvörðunarvalds í hendur sambands margra ríkja, getur þú þá fullyrt að ég telji útlendinga vont fólk með illan ásetning í garð Íslands?

Ef ég segi "við ættum ekki að ganga í ESB" er það þá áróðursstef útlendingahaturs? Ef menn treysta í fullri alvöru ekki á að halda óskoruðum yfirráðarétti yfir auðlindum og taka afstöðu grundvallaða á því, telja þeir þá sambandssina vilja "svíkja land sitt í hendur ræningjum"? Hvernig er hægt að segja svona?

Ég virði það mjög að menn setji fram upplýsingar um nýtingarrétt orkuauðlinda og stjórn fiskveiða, sem þú gerir í síðari hluta greinar þinnar. En með þessum makalausa inngangi ertu samt búinn að eyðileggja hana. Slíkur inngangur þýðir að það sem á eftir kemur virkar sem ótrúverðugur áróður, með réttu eða röngu.

Haraldur Hansson, 1.12.2008 kl. 23:40

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Haraldur, menn eru á móti ESB af ýmsum ástæðum en ef útgangspunktur þinn er:

„að Evrópa/ESB hafi illan og hættulegan ássetning í garð okkar litlu saklausu þjóðar“

... þá byggir afstaða þín á útlendningaótta og þjóðernishyggju.

Helgi Jóhann Hauksson, 2.12.2008 kl. 00:09

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Það er ekki útgangspunktur minn. Skil ekki hvaðan þú getur fengið þá hugmynd og veit ekki í hvað þú ert að vitna, með skáletrun og gæsalöppum.

Punkturinn minn var þessi: Það er sama hversu rétt einhver kann að hafa fyrir sér, röng framsetning getur skemmt innihaldið. Þá er ég að vísa til inngangsins hjá þér.

Sjálfur er ég óviss í afstöðu minni og í leit að upplýsingum. En ég neita því ekki að ég er skeptískur út í þær breytingar sem kunna að leiða af Lissabon samningnum. Það er eðlilegt að gjalda varhug við því sem maður skilur ekki til fulls og hefur nákvæmlega ekki neitt með útlendingahatur að gera.

Las líka svar þitt við spurningu Sigurðar. Mér fannst það meira upplýsandi en færslan sjálf, líklega vegna þess að þar er ekki minnst orði á andstæðinga aðildar. Aðeins upplýsingar um fiskveiðar og hagsmuni sem þeim tengjast.

Haraldur Hansson, 2.12.2008 kl. 00:34

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég segi alls ekki það sé þinn útgangspunktur Haraldur heldur „ef svo væri“ og er með því að skýra hvað ég á við. Það er hart alið á útlendingaótta til að hræða fólk frá því að skoða efnisatriði ESB-málsins.

Ég er mjög heitur útí bullkolla sem staðhæfa um sjálfstæðis- og fullveldisafsal og að um ESB ásælist orkuauðlindir landsins.

Þetta eru nótur til að spila rakaklaust á rótgróna hræðsluna við ókunnnugt og útlenskt.

Helgi Jóhann Hauksson, 2.12.2008 kl. 00:41

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Takk fyrir að spyrja Sigurður.

Ég hef fært fyrir því rök í ritgerð 1997 að megin samningsmarkmið ætti að vera að hafsvæðið umhverfis Ísland væri skilgreint sem sérstakt hafsvæði eins og Miðjarðarhafið og Eystrasalt eru skilgreind sérstök svæði með sérstaka svæðastjórn, „sérstakar aðstæður krefjast sérstakra lausna“ er rökstuðningur ESB fyrir því. Þar sem Ísland er eina landið á íslenska hafsvæðinu/fiskimiðunum þá komi íslensk svæðisstjórn í stað Miðjarðarhafsráðs og Eystrasaltsráðs. Einnig þá um leið að það værum við sem settum verndarreglur svo lengi sem ekki væru efnisleg rök fyrir því að þær væru vistkerfinu skaðlegri en tíðkaðist á örðum hafsvæðum og að jafnræðis væri gætt meðal íslenskra aðila í sögulegu samhengi.

Réttlæting ESB fyrir sameiginlegri fiskveiðistefnu er að fiskistofnar virði ekki lögsögumörk ef við eigum enga botnfiskstofna sameiginlega með ESB eru engin rök fyrir að Norðursjávar-fiskveiðistjórnunin nái til Íslands.

(Aðildarríki ESB, hvert fyrir sig annast úthlutun kvóta til þegna sinna ríkja, kvótar ESB eru til ríkjanna sjálfra og byggja á veiðihefð í rannsóknahólfum ICES - alþjóða hafrannsóknaráðsins (Hafró).)

-

Gott væri að við gerðum okkur fyrirfram grein fyrir að fram myndu koma  allskyns kröfur frá einstökum löndum ESB sem þó enginn fótur væri fyrir og yrði bara sópað af borðinu, einnig að ESB gæfi okkur ekki ávæning um sérstakar nýjar lausnir fyrirfram enda ekki þeirra hlutverk að leggja upp okkar málsstað heldur okkar þó bestu rökin væru tekin úr eigin röksemdasafni ESB.

-

Þá myndi ég óska sérstaklega eftir því við ESB að það setti nú fram líkan að sátt við fiskveiðiþjóðir norðursins, og minnti þá á að ESB hét Færeyingum því formlega forðum að finna fyrir þá ásættanlega lausn umfiskveiðimál þegar Færeyjar ákváðu að fara ekki inn með Dönum án þess þó að á það hafi reynt síðan og Norðmenn hafa tvisvar fellt samning vegna fiskveiðimálanna.

Málið er hinsvegar að við eigum þessi sterku rök um vistfræðilega aðskilið sérstakt hafsvæði en ekki Norðmenn og Færeyingar þar sem þeirra fiskimið eru ekki vistfræðilega aðskilin fiskimiðum ESB. Þess vegna eigum við ekki endilega samleið með Norðmönnum til að láta reyna á þetta. Ef ESB vill og við minnum þá á þeirra eigin orð og söguna getur það hinsvegar notað samninginn við okkur til að koma þeim skilaboðum til annarra fiskveiðiþjóða norðursins að þeim sé loks óhætt við borðið hjá þeim. Sá hluti ætti að færa okkur aukabita. Þá er það hefð hjá ESB að þær þjóðir sem eru háðastar ákveðnum þáttum fái mest útúr þeim þáttum hjá bandalaginu. Þess ætti að sjást einhver merki í samningi okkar.

-

Í því samhengi er í raun kostur að við höfum fjárhagslega misst fótanna því miklu erfiðara væri fyrir ESB að réttlæta gagnvart þjóðunum 27 að við fengjum sérstakaívilnun á þessu sviði ef við værum enn ríkast þjóð í heimi.

-

Fjölmargt fleira myndi ég hafa með í fyrstu hugmyndum sem allt er hægt að rökstyðja af sanngirni og með tilvísun til orða, raka og fordæma ESB auk þeirrar kröfu að ESB marki nú veg til sátta við norðrið Norðmenn, Færeyjar og ísland. Flestarhugmyndir færu aftur útaf borðinu en hjálpaðu til við að verja kröfuna um sérstakt hafsvæði með íslenskri svæðisstjórn. Sem ég vildi helst ekki sætti mig við að færi af borðinu og er í samræmi við mörg grunnþemu ESB og er ekki   fordæmi úr korti gagnvart seinni samningum ESB.

-

ESB fer eftir ráðgjöf ICES, Alþjóða hafrannsóknarráðsins, og Hafró er þeirra samstarfsaðili hér og upplýsingaveita svo tillögur ICES væru tillögur Hafró. Allar reglur ESB eru lágmarksreglur, -ekkert bannaði okkur að vera strangari við vernd fiskistofna en ESB legði upp með og hvort ákvörðun „íslenska svæðisráðsins“ þyrfti stimplun ESB eða ekki hef ég ekki meiri áhyggjur af en Kyoto eða Ríó eða hafréttarsáttmála Sameinu þjóðanna.

-

Hvað er andstætt ísl. útgerðarfyrirtækjum?

Reyndar hef ég verið að lesa ýmislegt með það í huga að átta mig á „konkret“ hvað annað en stimpill ESB valdi því að útvegsmenn geti ekki sætt sig við fiskveiðistefnuna ESB sem slíka - hvaða atriði hennar eru útgerðinni sjálfri óásættanleg, stefnan tryggir lágmarksverð á fiski og býður úreldingarstyrki og fleira beint í vasa útgerðarinnar,  auk hafrannsókna, kvóta utan ESB og fleira, en hvað er beinlíns slæmt fyrir útgerðina sjálfa?

- Ég lýsi því eftir upplýsingum um hvaða atriði fiskveiðistefnu ESB  (fyrir utan stimpil ESB) eru sjálfum útgerðarfyrirtækjunum óásættanleg.

Þær upplýsingar vantar „konkret“ til að vita hvað mætti sætta sig við, og þær koma reyndar aldrei fram.

Helgi Jóhann Hauksson, 2.12.2008 kl. 05:57

7 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Frábær grein.

Já andstæðingar ESB hér á landi láta nánast að því liggja að ESB sé einhverskonar erlent hervald sem hersetur Evrópu og gerir ekkert annað en að stela frá Evrópu. Alveg furðuleg umræða stundum.

Síðan er ESB bara einmitt það sem hentar ESB andstæðingum hverju sinni. T.d vilja vinstri grænir ekki ganga í ESB því það sé svo rosalega hallt undir stórfyrirtæki (gríðarlega öflug neytendavernd ESB ætti nú reyndar að reka svona rugl aftur ofan í kokið á Steingrími) og hægri sinnað batterí með þvílíkum endemum að það er ekki hægt að bjóða íslensku þjóðinni upp á aðild. Sjálfstæðismenn eru svo algjörlega sammála Vinstri grænum að ganga ekki í ESB því það sé svo rosalega  vinstri sinnað batterí með þvílíkum og öðrum eins skattbyrðum og búrókrataflækjum að við myndum bara hreinlega, ja bara drukkna. Þetta þrátt fyrir að skattheimta hefur þanist út á ævintýralegan hátt undir stjórn Sjálfstæðismanna undanfarin ár. Eitt er þeir síðan alltaf sammála um, að ESB sé gerspillt batterí, en þetta er argasta bull því ég leyfi mér að fullyrða að Ísland sé spilltasta land í Vestur Evrópu og ESB embættismönnum blöskrar nú bara held ég hvernig komið er fyrir stjórnmálum hér á landi. 

Jón Gunnar Bjarkan, 2.12.2008 kl. 09:38

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég ætla ekki að blanda mér í umræðuna um það í hverju aðild að ESB sé fólgin því að flestar röksemdirnar með og á móti hafa komið fram hér að ofan.

Hins vegar finnst mér menn horfa oft fram hjá því hve gríðarlega mikil umskipti urðu með sambandslögunum 1918. Það er rétt að hæstiréttur Dana var Hæstiréttur Íslendinga fyrstu árin eftir 1918, þjóðhöfðinginn var danskur og Danir fóru með utanríkismál og þar með landhelgisgæslu Íslendinga.

En ekkert af þessu var aðalatriðið heldu hitt að í samningum stóð skýrum stöfum að eftir 25 ár gæti hvor þjóðin um sig eða báðar í sameiningu krafist endurskoðunar eða uppsagnar samningsins.

Það þýddi einfaldlega að Íslendingar gátu orðið algerlega fullvalda og þess vegna stofnað lýðveldi eftir 1943 ef þeir kröfðust þess í viðræðum við Dani.

Svonefndir lögskilnaðarmenn vildu að beðið yrði stríðsloka og rætt við Dani áður en lýðveldið yrði stofnað, þá væntanlega árið 1946.

Svonefndir hraðskilnaðarmenn höfðu þó betur og töldu bæði löglegt, heppilegt og raunsætt að framkvæma þennan skilnað með fulltingi bandamanna strax árið 1944.

Þótt Dönum sárnaði urðu engin eftirmál vegna þessa af því að í samningnum 1918 fólst viðurkenning á rétti Íslendinga til þess að taka sín mín algerlega í sínar hendur frá og með árinu 1943.

Sambandslögin 1918 voru því einfaldlega langmerkustu tímamót í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar fyrr og síðar og því tímabær ummæli forseta Íslands um það að hefja 1.desember ár hvert til þeirrar virðingar sem honum var sýnd allt framundir 1970.

Ómar Ragnarsson, 2.12.2008 kl. 09:49

9 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Set inn svar til flokksbróðurs míns

Að breyttu breytanda er það jafngilt hér.

Guðbjörn minn.

Þú þarft ekkert að stofna annann flokk.

Farðu bara til hinna sem eru sama sinnis og SAMFYLKIÐ GEGN ÍSLANDI með aðildarbullinu í ykkur.

Það liggur fyrir, að við fáum EKKI undanþágur frá fiskveiðsistefnu ESB.

 Það liggur fyrir, að við fáum EKKI undanþágur frá tilskipun um orkusölufyrirtæki og námur.

Þatta hefur aðeins í för með sér, að við verðum útjaðar með engin áhrif (hugsanlega 4 atkvæði af fl hundruð)

Einnig að þegar útlendingar haf afengið að versla á MARKAÐI með Kvótann og orkufyrirtækin, verður það þannig, að skipuin koma EKKI að landi hér, nema þa´stundum þegar þarf að gera smotterí við  þau.

Orkufyrirtækin verða búsett erlendis go greiða sína skatta þar, því samkvæmt LÖGUM ESB má ekki leggja á gjöld vegna námuvinnslu eða borana, vikrjan fallvatna eða annars orku öflunaraðgerðum (sett inn vegna Breta og Norðusjávar olíuborana)

Hvaða TEKJUR verða þa´til að greiða reikninginn vegna hjúkrunar okkar og skólagöngu barna okkar?

Nei minn kæri vinur, Samfylktu bara gegn afkomendum mínum hér á landi og ég mun snúast gegn þér af grimmd.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 2.12.2008 kl. 10:43

Bjarni Kjartansson, 2.12.2008 kl. 11:16

10 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Sæll Bjarni

EKKERT varðandi fjórfrelsið sem við erum aðilar með EES mun breytast með inngöngu okkar í ESB, þar á meðal EKKERT varðandi viðskipti með orku eða hráefni eða um starfsemi náma né nein önnur viðskipti en bara þau sem snerta sjávarútveg og landbúnað. Svo skýrt og einfalt er það.

-

Við HÖFUM ÞEGAR innleitt tilskipunina um orkusölu - og margoft hefur komið fram að öll rök hníga til þess að það hefði verið óþarft þar sem við erum ekki inná hinum stóra sameiginlega orkumarkaði Evrópu, en við gerðum það samt.

(Tilskipun hjá ESB er MILDASTA regluformið. Þ.e. grunnhugmynd af reglu sem ríkjunum er svo falið að útfæra sjálfum í sínu heimalandi. )

-

Megin grunnur kvótakerfis ESB er að kvótar ESB eru RÍKJAKVÓTAR þ.e. ESB úthlutar þeim til ríkjanna sjálfra eftir hefð um veiðar í rannsóknahólfum ICES. Mörg dómsmál hafa verið til lykta leidd um þetta atriði og það skilgreint og fest að kvótarnir ERU ríkjakvótar ætlaðir þegnum ríkjanna og að það merkir að EKKI má færa kvóta sem ríkin svo úthluta áfram til sinna þegna úr landi til þegna annarra ríkja.

Ríkin sjálf búa til úthlutunarreglur til sinna þegna eina regla ESB um þær er jafnræðisregla ESB að reglunar verða vera málefnalegar gagnvart þegnunum.

-

Nokkur dómsmál fyrir ESB-dómnum reyndu á það strax fyrir mörgum árum að Bretar MÁTTU hindra „kvótahopp“ þar sem spænsk og portúgölsk fyrirtæki reyndu að skrá sig bresk en landa öllum afla á Spáni og Portúgal. Bretar settu reglur um að til að þau teldust bresk og fengju úr árlegri kvótaúthlutun Breta yrðu þau að landa mest öllum afla í Bretlandi og starfsmenn flestir að hafa breskt ríkisfang, - og Evrópudómstóllinn úrskurði þessar reglur réttmætar til að tryggja að RÍKJAKVÓTI Breta héldist í BRETARÍKI. - DANIR hinsvegar lentu aldrei í vanda vegna kvótahopps því þeir byggðu á öðrum úthlutunarreglum.

-

Þegar menn mála Evrópuskrattann á vegginn gleyma þeir oftast að við erum ÞEGAR fullgildir aðilar að fjórfrelsinu og allt það illa sem þeir draga upp hefur  þegar tekið gildi hér.

Persónulega er ég mjög hlynntur Íbúðalánasjóði en sem dæmi um hve oft mönnum yfirsést að reglur viðskipta breytast ekki með ESB-aðild frá EES. Þá fyrir nokkrum árum tóku ESB andstæðingar (þingmenn) uppá því að mála þann skratta á vegginn að ef við gengjum í ESB  yrði okkur bannað að reka Íbúðalánasjóð. Ég benti á í einhverju svari að það hvað væri leyfilegt í þeim efnum myndi í engu breytast með ESB aðild frá EES, annaðhvort væri starfsemi Íbúðalánasjóðs lögleg nú eða ekki.

- Enda kom það á daginn með kæru bankanna að allar reglur ESB gilda um starfsemi sjóðsins nú þegar - og vonandi finnum við okkar rök og flöt á því að hann gegni sínu hlutverki óbreyttu áfram. Það breytist hinsvegar EKKERT með ESB-aðild fremur en flestir skrattarnir sem ESB-andstæðingar mála á veggi. - Nema jú að við fáum í aðildarviðræðum tækifæri til að taka á því máli gangnvart ESB.

Helgi Jóhann Hauksson, 2.12.2008 kl. 14:46

11 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Sæll Ómar, þakka þér fyrir innleggið og að bæta við um að hæstiréttur og landhelgisgæslan var um sinn áfram á höndum Dana.

Það er hárrétt að með sambandslagasamningnum sem tók gildi 1. des 1918 var okkur tryggt að geta sjálf ákveðið fullt sjálfstæði frá Dönum að 25 árum liðnum. Þessvegna vannst sjálfstæðisbaráttan í reynd með sambandslagasamningnum 1918.

Ég er heldur ekki að gera lítið úr „fullveldinu“ sem við öðluðumst þennan dag heldur að benda á hvernig menn skilgreina fullveldi með ólíkum hætti þegar þeir minnast fullveldisdagsins 1918 eða þegar þeir hrópa um að Ísland missi fullveldi sitt og jafnvel sjálfstæði með aðild að ESB.

Helgi Jóhann Hauksson, 2.12.2008 kl. 14:56

12 identicon

Sæll Helgi Jóann.

Það er ekki aðeins skerðingin á sjálfstæði og fullveldi okkar sem gerir mig og marga fleiri mjög andvíga því að við göngum þessu Bandalagi á hönd.

Ég tel svona miðstýringar apparöt engu skila þegar allt er skoðað. Við höfum hræðilega reynslu af alræðisríkinu þar sem svona allt um vefjandi miðstýringar nefndir áttu að leysa öll hin stóru og smæstu mál samfélagsins. Þetta var gert í bandalagi "sjálfstæðra" ríkja eins og það hét hjá Sovétríkjunum sálugu.

ESB valdið minnir mann óþyrmilega alltaf meira og meira á þessu sömu Sovétríki.

Einn helsti andófsmaður Sovétríkjanna gömlu hét Vladimir Búkovski hann sat mörg ár í fangabúðum Gulagsins fyrir gagnríni sína á kerfið og apparatið.

Hann hefur margsinnis varað við Evrópusambandinu og alveg rakið hvað þessi tvo apparöt eru alltaf farin að líkjast hvort öðru meira og meira.

Hann er búinn að lifa við hvoru tveggja. Hann nefnir sérstaklega að í þessum kerfum embættismannanna þrífst spillingin og sóunin sem aldrei fyrr. Ég skora á þig Helgi Jóhann að skoða betur hvað Búkovski hefur sagt um þetta.

ESB VALDIÐ stefnir allt í það að búa til Stórríkið, þar sem regluverk þeirra og tilskipanir verður æðra öllu öðru.

Veistu það mér flökrar alltaf þegar ég hugsa um þetta. Mér finnst þetta ómannuskjulegt viðbjóðs kerfi.

Það sést alveg að hjá BRUSSEL valdinu veður spillingin uppi, það er talið að árlega týnist þar 50 milljarðar Evra í meðförum þessa spillingarliðs. Enda er það svo að skipaðir löggiltir endurskoðendur Sambandsins hafa ekki fengist til þess að undirrita eða setja nafn sitt undir reikningsskil Sambandsins af því að þeir segjast bara ekki fá neinar haldbærar skýringar á því hvað af þessum fjármunum öllum verður. Og þetta var ekki bara að ske í fyrra eða hitti fyrra, nei ó nei. Þeir hafa þverneitað að undirrita þessa reikninga samfellt á hverju einasta ári síðast liðinn 14 ár. 

Lýðræðishallinn verður alltaf meiri og meiri og völdin færast alltaf lengra og lengra frá fólkinu og kjörnum fulltrúum fólksins. Embættismanna liðið tekur alltaf til sín meiri og meiri völd. Þetta er bara innbyggt í svona apparöt.

Þessvegna er alveg sama hversu góðum samningum við náum hugsanlega í sjávarútvegsmálum eða ýmsum öðrum málum, það kemur bara ekki til greina að ég muni styðja það að ganga þessum fjanda á hönd !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 16:44

13 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Gunnlaugur þakka þér tilskrifin.

Af þeim er þó skýrt og einfalt að þú hefur ekki kynnst eða kynnt þér ESB. Til að kynnast ESB verða menn að kynna sér stjórnsýslu og ákvörðunartökuferla og hverjir koma að þeim og hvernig þeir koma að þeim.

Einnig reglur ESB um hvaða mál eru mál ESB og hvaða mál eru ekki mál ESB. Sameiginleg viðfangsefni ríkjanna eru mál ESB en mál sem ekki eru sameiginleg viðfangsefni þ.e. sérmál eru ekki mál ESB.

Einnig er það grunnrelga ESB að taka á hverja ákvörðun sem næst vettvangi. Það hefur leitt til þess að fjölmörg mál eru flutt til sveitarfélaga ríkjanna og ESB hefur því styrkt mjög sveitastjórnarstig landanna og fært því fé, úrræði og áhrif.

Einnig að ESB hefur fært verklýðasfélögum, sjúklingasamtökum, neytendasamtökum og reyndar hverskyns hagsmunasamtökum almennings áhrifavald á þau mál sem eru þar á annað borð, langt umfram það sem annarsstaðar tíðkast í veröldinni

Valddreifinga er meiri í ESB en nokkru öðru stjórsýslu og ákvörðunartökukerfi. Í ESB er hvergi til ákvörðunartökuvald sem er á einni eða fárra hendi. Allar ákvarðanir fara ótrúlega langa leið til að tryggja að allir hagsmunaðilar og aðildarríki geti haft áhrif á niðurstöðuna og að niðurstaðan verði sem best og varanlegust, - og ef hún breytist á þessu ferli þá er farinn annar hringur. Mjög fá mál eru ákvörðuð með ágreiningi um niðurstöðuna.

Af þeirri ástæðu er oft sagt að ákvörðunartökuferlar ESB sé mjög seinlegir, tilgangurinn er hinsvegar alltaf að ná sem bestri niðurstöðu með aðkomu allra sem málið snertir þ.e. með sem mestu raunverulegu lýðræði með sem mestri samstöðu.

Af þessari ástæðu þekkir ASÍ vel til ESB því ASÍ er aðili að samtökum evrópska verklýðsfélaga og hefur því langa og góða reynslu af ákvörðunartökuferlum ESB.

Oft hentar það hinsvegar ríkisstjórnum aðildarríkjanna að kenna „Brussel“ um. Ríkisstjórnirnar eru jú sá aðili sem endanlega tekur ákvarðanir í ráðherraráði ESB og leiðtogaráði ESB.

Gerðu það nú að kynna þér þessi mál fórdómalaust Gunnalugur.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.12.2008 kl. 00:18

14 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

PS

Í ESB er ýmislegt sem ég vildi hafa með öðrum hætti -  enn hef ég ekki verið í félagi, stjórnmálaflokki eða samfélagi þar sem allt er eins og ég vildi hafa það. Það merkir þó ekki að ég taki ekki þátt.

ESB verður aldrei mótað í einhverri endalegri mynd frekar en neitt annað samfélag, - og jú sá tími kemur að það verður ekki lengur til og eitthvað annað ástand hefur tekið við, - líkt og EFTA sem við gegnum í 1970 og nær allir hafa yfirgefið.

- Það eru þó ekki rök fyrir því að taka ekki þátt núna.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.12.2008 kl. 00:24

15 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Um peninga sem týnast hjá ESB þá er það fyrst og fremst styrkjakerfi og niðurgreiðslukerfi landbúnaðarins sem gefur aðilum í ríkjunum sjálfum tækifæri til misnota það. Sjálf stjórnsýsla ESB er mjög ströng á alla meðferð fjár, en misnotkun er því miður hliðarkostnaður allra styrkja- og niðurgreiðslukerfa og eina endanlega leiðin til að engin misnotkun eigi sér stað er að leggja af alla styrki og niðurgreiðslur.

-

Sú misnotkun á sér þó fyrst og fremst heima hjá hverju ríki. Hin leiðin er þó að leita saman aðferða til að takmarka sem mest misnotkun styrkja, en misnotkun hverfur aldrei alveg.

-

Annars fer ESB með um 1% af landsframleiðslu ríkjanna og um helmingur þeirrar upphæðar fer beint í landbúnaðarframleiðslu ríkjanna.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.12.2008 kl. 00:45

16 identicon

Þetta er nú dæmigerður esb áróður þ.e. að kalla alla sem eru á móti, útlendingahatara og þjóðernisinna.

Ef Ísland gengur í esb fer löggjafarvaldið úr landi þ.e. æðsti handhafi löggjafarvalds verður í höndum embættismanna í Brussel. Hvort sem þeir hafa illan ásetning gagnvart Íslandi eða ekki kemur þessu í raun ekkert við. Öll yfirstjórn verður hjá ESB. Lissabon sáttmálinn eða stjórnarskráin mun veita sambandinu gífurleg völd um ákvörðunartöku á öllum sviðum m.ö.o. við höfum ekkert um okkar mál að segja. 

Það sem þú þarft að gera og þér hefur ekki tekist Helgi er að sýna fram á að við missum ekki fullvedi við að ganga í ESB. 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 23:10

17 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Vilhjálmur lestu til tilbreytingar innleggin sem þú svarar. Ég skilgreini skýrt hverja ég segi að byggi áróður sinn á útlendingahatari og þjóðremu - og tek fram og ítreka í athugasemd það eigi ekki við alla andstæðinga ESB heldur þá sem syngja sinn áróður byggðum á þeim útgangspunkti að „Evrópubúar hafi illan ásetning í garð Íslands“ og ætli Íslandi allt annað en dæmin sanna um öll önnur aðildarríki sem hafa gengið til liðs við ESB. Slíkur útgangspunktur er áróður byggður á fordómum og útlendingahræðslu og -hatri, og ekkert annað.

-

Í upphafsinnlegginu er þessi skilgreining: (1) Ég kalla þá öfgafulla þjóðernissinna sem endurtekið rangfæra um grundvallaratriði í þágu þjóðernishyggjunnar þó ljóst megi vera að þeir vita betur.

Helgi Jóhann Hauksson, 10.12.2008 kl. 23:39

18 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Lissabon sáttmálin myndi reyndar styrkja ennfrekar völd smáríkja innan ESB. Þannig værum við með 6 þingmenn en danir t.d 12, aðeins helmingi fleiri þingmenn en við þrátt fyrir að þeir séu 20 falt stærri þjóð en við. T.d hefði Grænland og Færeyjar samanlegt í raun meiri völd innan ESB en Danir því samanlagt þá hefðu þeir 12 þingmenn en síðan tvo aðila innan ráðherraráðsins samanlagt á móti einum Dana. Menn sem tala þannig um að hlutur smáríkja innan ESB sé lítill eða enginn er algjör helsteypa bara. Joe Borg er sjávarútvegsráðherra, hann er frá Möltu. Mig minnir að Orkumálaráðherran komi frá Lettlandi. Jean Claude Juncker er forseti Eurogroup en hann er frá Lúxembourg. Nefnið mér einn íslenskan embættismann sem hefur 1/10 af völdum einhverra þessara manna. Það liggur alveg fyrir að vægi Íslands í alþjóðamálum mun stóraukast ef ekki hreinlega margfaldast við inngöngu í ESB.

Lissabon sáttmálinn var bara hreinlega alltof flókin og þannig komust popúlistar(meðal annars með fjárstuðningi frá Amerískum Neo-Conum) upp með að gera hann "vafasaman" í augum kjósenda, t.d Íra. Með Lissabon sáttmálanum var verið að reyna uppfæra ESB í takt við þá stofnun sem hún er í dag og er það mjög flókið fyrirbæri. T.d var hamrað á því af ESB andstæðingum að það væri verið  færa alræðisvöld í hendur ESB með því að fella úr gildi allskyns neitunarvöld(en flestir ESB andstæðingar vita ekki að ESB er stútfullt af neitunarvöldum), en svo kom í ljós að verið var að fella úr gildi eldgömul og úr sér genginn neitunarvöld eins og t.d að neitunarvald breta gegn því að Austur og Vestur Þýskaland sameinist.

Það er því hálfgerð understatement að segja að þeir ESB andstæðingar séu þjóðernissinnar og jafnvel rasistar, heldur eru þeir líka popúlistar og lýðskrumarar og væri þjóðin betur sett án þeirra inn á Alþingi eða Seðlabanka. En fólk svona almennt sem eru ESB andstæðingar eru kannski minna sek um þetta allt saman og meira sek um fáfræði varðandi ESB.

Jón Gunnar Bjarkan, 11.12.2008 kl. 05:00

19 identicon

Gott og vel Helgi ef ég hef farið rangt með hverja þú kallar útlendingahatara þá dreg ég þau orð mín til baka. Eftir stendur samt fullveldissalið. Ég get ekki á nokkurn hátt túlkað inngöngu í ESB sem annað en fullveldissal. Hvernig er hægt að fá það út að færsla á löggjafarvaldi frá Alþingi til Brussel sé eitthvað annað en fullveldissal? Hægt er að nálgast fjöldann allan af dómum frá Evrópudómstólnum þar sem lög aðildarríkja eru látin víkja fyrir lögum sambandsins. Þá hefur dómstólinn mikið vægi enda binda úrskurðir hans dómstóla aðildarríkjanna við þá túlkun sem hann setur. Æðsta stig löggjafarvalds verður þá í Brussel og æðsti dómstóll landsins í Lúxemborg (Evrópudómstólinn hefur aðsetur sitt þar). Í hverju felst þá fullveldi Íslands?

Jón Gunnar það er hárrétt hjá þér að ef Ísland gengur í ESB þá fáum við samkvæmt Lissabon-sáttmálanum (stjórnarskrá ESB) allt að 6 þingmenn. Hlutfalsleg völd okkar verða því gífurleg og ef við fáum eitthvað ráðherrasæti þá verður sá einstaklingur heldur betur valdamikill. Ég get þrátt fyrir það ekki með nokkru móti séð hvernig það mun auka mín áhrif á mitt samfélag að einhver Íslendingur fái ákvörðunarrétt fyrir 400 milljón einstaklinga í einhverju tilteknu málefni/málaflokki.

Við verðum að líta til þeirra raunveruleg valda sem íslenskir kjósendur munu hafa yfir þeim lögum og reglum sem þeir þurfa að fylgja. Í dag getur meirihluti þjóðarinnar eða í það minnsta þeirra sem kjósa valið sér fulltrúa á Alþingi sem síðan hafa ákvörðunarvald yfir þeim lögum og reglum sem við þurfum að fylgja. Með inngöngu í ESB munu íslenskir kjósendur velja sér 6 fulltrúa á Evrópuþingið sem þrátt fyrir hlutfarslega mikil völd munu ekki hafa nokkur raunveruleg áhrif.

Veistu Jón Gunnar að þegar á öllu er á botni hvolft þá skiptir það mig engu máli hvaða völd Ísland mun hafa, það sem skiptir máli er að einstaklingar hafi hvað mest um sitt líf að segja og það hafa þeir ekki innan ESB.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 08:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband