Á Íslandi vegna hættunnar en flyst til kjörsvæða ef hættulaust

Mynd 2007 07 26 13 52 02Ævintýramenn í leit að skjótfengnum gróða í anda DeCode og ICESAVE vilja nú leggja Gunnarsholt, hjarta og lungu íslensks landbúnaðar undir ræktun og þróun erfðaverkfræðilega breytts byggs með manna-genum til ræktunar líffræðilega virkra efna í miklu magni.  Efna sem öllu jafna mannslíkaminn framleiðir í mjög litlum mæli en hafa mikil áhrif og suma menn skortir og þurfa fá gefin sem lyf.

Sem dæmi eru nefndir „vaxtaþættir“ manna en þeirra helstur er HGH (Human growth hormone).

Það er kannski lýsandi að nú hentar ekki lengur að kalla þessi efni „hormón“ á Íslandi heldur „þætti“. Miklu fleiri slíka manna-„þætti“ kemur þó til greina að rækta með þessum hætti. Það er gert með því að splæsa genum úr erfðaefni manna sem stýrir þessari framleiðslu í DNA þræði byggfræsins og láta byggið þannig framleiða virku efnin sem svo aftur eru unnin úr bygginu þegar það er full sprottið og skorið.

Við einfalda tilraun kom í ljós að bæði gæsir og mýs lögðust á uppskeruna og í roki fuku sum fræ 20 metra svo algerlega er óvíst að hægt sé að halda dreifingu í skefjum.

Með ræktun lyfja-byggsins á að framleiða líffræðilega virk efni sem suma menn skortir og þarf að gefa sem lyf. í dag eru slík lyf framleidd með aðstoð erfðabreyttra gerla í lokuðum verksmiðjum þaðan sem ekkert á að komast út í náttúruna. Með því að fela bygginu þetta hlutverk í opinni íslenskri náttúru í hjarta íslensk landbúnaðar er stigið risastórt skref sem engin önnur þjóð hefur leyft, og ef okkur tekst að sanna að þetta risaksref sé skaðlaust flyst þessi ræktun þangað sem byggrækt er hagkvæmust, ef hún sannast ekki skaðlaus sitjum við uppi með skaðann. Í hvorug tilvikinu að ræktunin sannast skaðlaus eða ekki getur Ísland talist hafa grætt neitt heldur ferkar stór skaðast.

Óvæntir hlutir gerast þegar tekið er að krukka í uppskriftir náttúrunnar með beinum inngripum og er það sífellt að sannast. Í tilviki byggsins var t.d. ekki gert ráð fyrir að virka efnið myndaðist nema bara í fræinu og því auðvelt að safna því öllu eða mest öllu saman með uppskerunni, en nú er ljóst að í einhverjum mæli myndast það einnig í laufunum og verður því eftir á ræktarlandinu. Uppskriftin sjálf, genið er til staðar í hverri frumu byggsins sem fræðilega getur tekið að stýra framleiðslu á virka efninu.

Reynt á Íslandi vegna hættunnar sem aðrir leyfa ekki, en flyst örugglega til kjörsvæða sannist það hættulaust.

Ísland er ekki kjörræktarsvæði byggs í heiminum og eina ástæðan fyrir því að þessar tilraunir eru nú gerðar á Gunnarsholti er að svona ævintýramennska er hvergi annarstaðar leyfð.

Komi í ljós að þetta sé örugglega algerlega skaðlaust mun ræktunin örugglega flytjast þangað sem hún er hagkvæmust þ.e. til þeirra landa eða svæða þar sem uppskera byggs er best og traustust, - það er ekki á Íslandi.

Reynist þetta hinsvegar skaðlegt eða hættulegt mun í besta falli aldrei verða hægt að leyfa byggrækt til manneldis á Íslandi, þar sem byggið gæti verið mengað líffræðilega virkum manna-„þáttum“. í verra falli rústar þessi ræktun orðspori og trausti íslensks landbúnaðar og landbúnaðarvara, skaðar íslenska náttúru og hefur langtíma ófyrirséð áhrif.

Við stofnum því okkur, Íslandi, íslenskri náttúru, íslenskum landbúnaði, þjóð og ferðmannaiðnaði í hættu til einskis hvort sem þetta reynist hættulaust eða ekki. Þetta er aðeins gert hér á landi vegna þess að engin önnur þjóð leyfir þetta en verður aldrei hagkvæmt hér á landi í samanburði við kjörræktarsvæði byggs í heiminum, þar sem fræin verða stærri og uppskeran traustari og reynslan af byggrækt miklu meiri.

Þeir sem svo eiga að hafa eftirlit með þessu eru sömu aðilar og hrundu verkefninu af stað og ORF hefur verð starfrækt í húsnæði RALA með sömu aðstöðu og að hluta sömu starfsmenn og eiga að fjalla um öryggi og hættur starfseminnar.

Grein um efnið á Nei. hér

Sjá: undirskriftasöfnun til mótmæla hér


mbl.is Ætlar að rækta erfðabreytt bygg á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: jórunn

Þetta er rosalega góður punktur - Ísland fær bara að bera ábyrgðina á áhættunni sem þetta hefur í för með sér, og er gríðarleg, en mun aldrei njóta ágóðans. Ég hélt að svona hugsunarháttur og framkoma ætti ekki að vera liðin lengur á Íslandi, rann það ekki út 2008?

Hér er eitt gott dæmi af mörgum, um eitthvað sem vísindamenn fullyrtu að gæti aldrei gerst, en gerðist samt. Erfðatæknin er svo ung, og það er svo margt sem ekki er vitað með vissu að það er hreinlega óafsakanlegt að leggja íslenska náttúru og allt sem hún snertir að veði fyrir tilraunir af þessu tagi. Á fyrirlestri virtra prófessora virts háskóla í Bandaríkjunum varð mér ljós hversu gríðarlegur óvissuþátturinn er þegar einn prófessoranna, sem státaði þó af framförum í þekkingu og tækni á þessu sviði, útskýrði hvernig möguleg vensl gena og genamengja væru fleiri en öll atóm alheimsins!

Afleiðingar erfðabreyttra matvæla hafa reynst margvíslegar, og yfirleitt alltaf komið vísindamönnunum sem standa næst á óvart. Það er kannski akkurat það sem þarf, að þeir líti upp úr smásjánni og taki skref til baka svo þeir fái séð stærri hluta heildarmyndarinnar, sjái skóginn fyrir tjánum!

jórunn, 27.5.2009 kl. 18:22

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ekki sammála hér. Ástæðan fyrir því að ísland er sérstaklega hentugt fyrir þessa ræktun er einmitt sú að ísland er ekki kjörræktarsvæði fyrir bygg og bygg getur ekki sáð sér sjálft hér á landi. Byggið sem planta er líka valin vegna þess að hún frjóvgast aðeins við sjálfa sig, eða í mesta lagi við næstu byggplöntu við hliðina. Það er semsagt engin hætta á að náttúrlegt bygg blandist því erfðabætta sem alltaf yrði ræktað í góðri fjarlægð. Afurðin sem kemur út úr þessu er mjög verðmæt útflutningsvara sem kæmi okkur vel í dag.

Og svo verður að minna á að hér er ekki verið að rækta neitt til manneldis eða sem dýrafóður og öllum afgangi verður fargað.

Ég tek fram að ég þekki dálítið til þarna og ég veit að þetta eru ekki ævintýramenn í leit að skjótfengnum gróða.

Emil Hannes Valgeirsson, 27.5.2009 kl. 23:55

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Emil, eftir sem áður þá fer þessi ræktun eitthvert þangað sem meiri hefð og þekking er á byggrækt og sem næst kjöraðstæðum fyrir þessa ræktun um leið það telst óhætt að leyfa hana, þ.e. að hún sé hættulaus, en við sitjum uppi með hana ef hún er hættuleg.

Þó bygg noti dulfrjóvgun og frjóvgi jafnan aðeins sjálft sig þá er það ekkert annað sem gildir um byggið annarsstaðar í heiminum þegar menn meta hvort á að leyfa þetta en gildir hér. 

- Er það full víst að bygg geti alls ekki sáð sér sjálft hér eða víxlfjróvgast við annað bygg sem til stendur að rækta til eldis dýra eða manna? ég held ekki, en ef svo er, þá gildir það sama á eyjunum norður af Skotlandi og reyndar mjög víða á norðurslóðum.  Smærri eyja einhversstaðar er enn takmarkaðra og öruggara vistkerfi ef útí það er farið en að ógna öllu Íslandi fyrir svona tilraun, og sé þar einhver þekking og hefð fyrir byggrækt er hún strax risaskrefi framar en við - ef þetta yrði leyft einhversstaðar annarsstaðar en hér væri þetta strax farið héðan, ef það reynist ekki hættulaust sitjum við uppi með það.

Helgi Jóhann Hauksson, 28.5.2009 kl. 02:16

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er auðvitað í þessu eins og svo mörgu öðru að það er aldrei hægt að fullyrða að eitthvað geti ekki gerst á meðan einhver möguleiki er til staðar. Ef svo ólíklega vildi til að eitthvað kæmist í annan byggakur þá er að auki ólíklegt að nokkur skaði af því yrði fyrir þær skepnur sem neita byggsins og klárlega ekki erfðabreying. Ég sé ekki að sú staða geti komið upp að við sitjum uppi með einhvern skaða, því það er alltaf hægt að útvega hreint sáðkorn á hverju vori og stofna nýja byggakra.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.5.2009 kl. 09:45

5 identicon

 Þetta er umræða sem á fullan rétt á sér, en við sem erum í byggræktinni og tökum algjört mark á helsta sérfræðingi okkar Jónatan Hermannsyni höfum engar áhyggjur af málinu.

Ein af ástæðum þess að Ísland hentar í þetta, er að byggið á ekki skyldleika við neinar plöntur hér . Það er svo rétt að benda á að hér er í raun um byggræktun að ræða sem er í öllu áþekk ræktuninni sem er komin áratuga reynsla á í landinu .

 Það er fullvíst  í þeirri stöðu sem er uppi á Íslandi í dag yrði ekki um sjálfsáningu að ræða og náttúruleg víxlfrjóvgun er algjörlega útilokuð. Það er hinsvegar rétt að leyfa þetta aðeins á afmörkuðu svæði og skilyrða ræktunina rækilega með ásættanlegum öryggiskröfum.

Svanur Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 16:29

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Reyndar nú þegar ég aflað mér meiri gagna bregður mér meira yfir þessu fyrirtæki ORF og aðkomu Landbúnaðarháskólans að þessum málum.

Landbúnaðarháskóla Íslands gaf út árið 2005 rit sem heitir „Rit LBHÍ nr 1“. Þetta fyrsta rit sitt helgar Landbúnaðarháskólinn málsstað og tækni ORF (sem segir okkur eitthvað um stöðu hans til að hafa eftirlit með starfsemi ORF). Þar segir strax í inngangi:

„Dreifing á erfðaefni byggs yfir í villtar tegundir er óhugsandi hér á landi, því að hér lifir engin tegund svo skyld byggi að hún geti frjóvgast af byggfrjói.“

Nokkrum árum áður eða í heil sjö ár 1992-1999 hafði þó Landgræðsla ríkisins að Hellu stundað rannsóknir á mörgum kynslóðum afkvæmis byggs og melgresis og birti um þær lærðar og ritrýndar greinar. Á net-slóð um rannsóknina sem ég vísa í hér neðar segir í abstract:

„An offspring of the hybrid Hordeum vulgare (bygg) x Leymus arenarius (melgresi)  has been produced. This offspring at various generations is studied and permitted to be stabilized after some putative introgression from L. arenarius.“

Sjá hér

Í grein í Búvísindum 1994, á blaðsíðum 41-50 er svo önnur grein eftir SIGURDUR GREIPSSON og ANTHONY J. DAVY, sem er um mögulegar kynbætur með melgresi og þar kemur strax fram að skráð dæmi séu um fundin afkvæmi byggs og melgresis frá árunum 1952, 1970 og 1973.

Þessa grein má finna hér en þar er það orðað svona: 

„Hybrids (2n=35) between L. arenarius and barley (Hordeum vulgare) have been reported (Tsitsin and Petrova, 1952; Ahokas, 1970, 1973). On the spike of the hybrid between H. vulgare and L. arenarius there were 6–7 spikelets per node, compared to only 3 on that of H. vulgare (Tsitsin and Petrova, 1952).“

Þegar þetta er veruleikinn bak við afdráttalausu staðhæfingu í inngangi fyrsta rits Landbúnaðarháskólans frá 2005 hvað er þá að marka allar aðrar staðhæfingar þeirra?

Þetta endurtaka þeir útum allt, hvarvetna og aftur og aftur:

„Dreifing á erfðaefni byggs yfir í villtar tegundir er óhugsandi hér á landi, því að hér lifir engin tegund svo skyld byggi að hún geti frjóvgast af byggfrjói.“

Á Íslandi hefur melgresi miklu meiri og almennari útbreiðslu hér á  landi en annarstaðar þar sem það yfirleitt lifir aðeins við strendur en á Íslandi þrífst það vel í sendnum jarðvegi langt inn til landsins.

Til að valda verulegum vandræðu þyrfti ekki að verða til nema ein frjó planta afkomandi melgresis og lyfja-byggsins sem eignaðist lífvænlega afkomendur. Áratugum seinna gætum við svo vaknað upp við vondan draum ef ekki hreina martröð þegar grasjurt sem framleiddi vaxtahormón manna eða eitthvað álíka spennandi t.d. insúlín hefði dreift sér um allt land. 

Helgi Jóhann Hauksson, 29.5.2009 kl. 23:31

7 Smámynd: Oddur Vilhelmsson

Takk kærlega, Helgi Jóhann, fyrir að færa umræðuna upp á hærra plan og styðja mál þitt vísunum í ritrýndar rannsóknir. Svona á vísindaleg rökræða að fara fram! Ég mun skoða þetta við tækifæri. Ég á reyndar erfitt með að ímynda mér að kornyrki sem leggur mikla orku í að framleiða mannahormón eigi gott með að fóta sig í náttúrunni, en hef reyndar ekki kynnt mér hvaða genaferjur og aðferðir ORF notar við framleiðsluna, svo það væri óvarlegt af mér að tjá mig mikið nánar um þetta að svo stöddu. En, takk aftur.

Oddur Vilhelmsson, 30.5.2009 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband