Árans kjóinn tekur kríuunga - Myndir

Ég var uppá Snæfellsnesi að skoða kríuvarpið og taka nokkrar myndir þegar ég varð var við kjóa á flugi. Það var reyndar fjári hvasst en mér til undrunar komst kjóinn að mestu óáreittur inní kríuvarpið, settist fyrir framan stálpaðan unga sem ég hafði rétt áður myndað, en var kominn fjær. Unginn glennti upp munninn eins og hann ætti von á æti, kjóinn virti hann fyrir sér nokkur augnablik eins og hann hugsaði sig um, en reisti svo höfuðið hærra og teygði tærnar til að reiða betur til höggs og hjó svo goggnum af öllu afli í ungann og á næsta augabragði tók hann ungann upp og flaug á brott. Allan tímann að mestu óáreittur.

Kjóinn er öflugur fugl, hefur sterkar fætur og öflugan háls með beittum gogg og notar líkama sinn sem vopn. Má vera að hvassviðrið skýri aðgerðaleysi kríunnar gagnvart kjóanum en mögulega er krían varnarlaus gagnvart þessum öfluga fugli. þetta kom mér allt talsvert á óvart en hér eru nokkrar myndir þó ég hefði gjarnan viljað vera nær. Síðasta myndin sem ég tók og átti að vera af kjóanum að fljúga af stað sýndi hinsvegar bara autt grasið, svo snöggur var hann.

Til að stækka myndir má smella og smella svo aftur 

Kjoi 0b 2009 07 20 19 00 53Kjoi 0c 2009 07 20 19 00 54Kjoi 1 2009 07 20 18 53 36Kjoi 3 2009 07 20 18 53 31Kjoi 5 2009 07 20 18 53 42Kjoi 7 2009 07 20 18 53 44Kjoi 6 2009 07 20 18 53 43Kjoi 8 2009 07 20 18 53 45Kjoi 9 2009 07 20 18 53 45


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábærar myndir, af "harmleik " Krían er mikill uppáhaldsfugl hjá mér, Kjóan þekki ég minna, en þetta er er svona í lífinu, baráttan um brauðið.   B.P.

björk pétursdóttir (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 14:26

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Kjóinn er öflugur og frábær flugfugl.. og sá eini sem ég hef séð sem skákar krumma á flugi.. en annars merkilegt að hann skuli hafa komist svona óáreittur inn í kríuvarpið.. sem eflaust útskýrist af vindinum.. eða að unginn hafi verið kominn út fyrir sjálft verndarsvæði kríunnar.. sm líka útskýrir afhverju þú fékkst að taka myndir óáreittur :)

flottar myndir :)

Óskar Þorkelsson, 22.7.2009 kl. 14:44

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Sæll Óskar, líklega má segja að unginn hafi verið á jaðri byggðarinnar hléveðurs, en kríurnar snúa sér á móti vindinum þar sem þær sitja eða standa og því baka í kjóann og ungann. Kjóinn kemur svo inn líka á móti vindinum.

Helgi Jóhann Hauksson, 22.7.2009 kl. 22:23

4 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Flottar myndir, sérstaklega sú síðasta. Sjálfur hef ég spreytt mig við að taka myndir af fuglum á flugi og þekki hvað það er mikið happa og glappa, þó aðallega glappa. Mér sýnist þú hafa þurft að klippa þetta til og stækka upp eins og venjulega þarf við svona myndir.

Helgi Viðar Hilmarsson, 22.7.2009 kl. 23:27

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er hárrétt hjá þér nafni, bæði að af fjölmörgum ástæðum er fárálega erfitt að ná góðum myndum af fuglum á flugi, og að þessar myndir eru klipptar úr stærri. Hlutföllin eru 60% þ.e. ramminn sýnir á hvern veg 60% af upphaflegum myndfleti.

Varðandi það að taka af fuglum á flugi þá uppgötvar maður fyrst við slíkar tilraunir hve hratt margir fuglar fljúga og hve kvikir þeir eru í loftinu sem fara hægar eins og krían, hve erfitt er að halda þeim í fókus og í rammanum ef maður vill fara nærri því að fuglinn fylli rammann og að bjartur himinninn í bakgrunn ruglar allar sjálfvirkar ljósopsstillingar. Því miður var ég ekki með vélina stillta til að taka af fugli á flugi og á þessum myndum er kúrfan tekin talsvert niður í tölvunni til að litatónn sjáist í fuglinum.

Helgi Jóhann Hauksson, 23.7.2009 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband