Við þurfum ekki að sætta okkur við þetta

Mynd_2007-06-28_17-31-52Skelfilegt nýtt skipulag fyrir Nónhæð í Kópavogi var kynnt á hverfisfundi í Smáraskóla í gær. Í stað þess að þar verði opið svæði og kirkja eða bænahús eins og aðalskipulag og deiliskipulag hafa gert ráð fyrir í nær 20 ár, sem tígulegt kallast á við Kópavogskirkju hinum megin við dalinn úr lágreistri byggð efst á Nónhæð, voru á fundinum kynntar nákvæmlega útfærðar teikningar, líkön og tölvulíkön af nýjum og stærri Hamraborgarmassa sem skapar Kópavogi enn meiri steinsteypuímynd en áður, með allt að 14 hæða blokkum og 18.000 fermertra tveggja hæða bílastæðakjallara undir allri lóðinni. Hvergi á lóðinni væri hægt að stíga á náttúrlega jörð. Undir leiksvæðum og öllum "grænum svæðum" verða tvær hæðir af bílastæðakjallara og blokkamassinn er svo mikill að sólin nær nánast aldrei að skína niður á milli húsanna á leiksvæðin og "grænu" svæðin (sjá meira um skipulagið hér neðar).

Mynd_2007-06-28_17-34-36Sagt hefur verið "að sumarið sé tíminn" - til að kynna óvinsæl skipulagsmál og helst á miðjum sólríkum degi - enginn mæti á fundi og annarhver maður sé að heiman í sumarfríi. Það má því merkja hve mikinn hug íbúar hverfisins bera til málsins að salurinn sem ætlaður var til kynningarinnar varð strax fullur og þeir sem komu of seint urðu frá að hverfa. Alger einhugur var í fundarmönnum að andmæla þessum hugmyndum og öllum viðlíka.

Mynd_2007-06-27_18-34-15Mynd_2007-06-28_18-21-11Mynd_2007-06-28_19-55-18Gagnrýnt var að þó Arnarsmári 32 og gatan Nónhæð liggi saman og myndi eina heild voru húsin hvergi sýnd saman, Arnarsmári 32 sem kemur í stað bensínstöðvarinnar og svo massinn á kirkjureitnum.

Reyndar er það mitt álit að ekki eigi að taka í mál að breyta þessari landnýtingu úr opnu svæði með stofnun (kirkju) í íbúðasvæði. Íbúarnir í hverfinu eigi ekki að sætta sig við það. Setja eigi varnarlínuna þar strax því ef á þá breytingu er fallist eru hvergi skýrar línur handan hennar. Öll rök sem borin voru upp fyrir þeirri grundvallarbreytingu á fundinum voru léttvæg, þar á meðal að vegna þess að það væri búið að byggja svo mikið athafnarými upp í loftið á svæðinu yrði að troða íbúðarhúsnæði upp í loftið líka. Einnig að lóðaverð væri svo hátt að auðvitað yrði lóðareigandinn að fá að byggja þétt og mikið til að hafa fyrir lóðarkaupunum. Einfalt svar við því er að hann keypti land sem skipulagt var sem kirkja og opið svæði og það er það eina sem hann getur reiknað með að fá að gera þar.

Sjá líka heimsíðu íbúanna hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjartanlega sammála þessu Helgi, þessi framkvæmd er algjörlega út í hött miðað við það sem er fyrir á svæðinu.

Ég hef miklar athugasemdir við þessa framkvæmd, þetta myndi gjörbreyta hverfinu okkar mjög til hins verra. Þetta er fremur lítið hverfi og umferðin úr því er borin af Arnasmáranum, sem alls ekki má við meiri umferð en nú er. Ofan á allt annað, hávaða, sjónmengun, átroðning á grænt svæði (álfabyggð þar að auki) skugga af svæðinu og svo mætti lengi telja.

Maður hlýtur að spyrja sig eins og fram kom á fundinum í gær: Hvað er það sem dregur bæjaryfirvöld áfram í þessu máli? Hvað með hagsmuni íbúanna sem fyrir eru? Á að taka tillit til þeirra, eða á að valta yfir okkur? Af hverju má ekki byggja skynsamlega hér líkt og var t.d. gert hér á bæjarmörkunum nýlega af hálfu Garðabæjar, þar sem voru byggðar lágreist fjölbýlishús, mikið betur í takt við umhverfið en það sem verið er að bjóða okkur upp á?

Og af hverju ekki að nýta Nónhæðina a.m.k. að hluta sem útivistarsvæði eins og núverandi skipulag gerir ráð fyrir - það er jú þannig að krakkar úr þessu hverfi þurfa nú þegar að leita út í Garðabæ þar sem að það eru svo til engir sparkvellir hér sem má leika sér frjálst á, þau grænu svæði sem eru til staðar eru niðri í Kópavogsdalnum eru í eigu Breiðabliks og krakkar eru reknir þar í burtu ef þau eru ekki á skipulögðum æfingum.

Mér er næst skapi að líta svo á og læt það flakka hér að bæjaryfirvöld koma mér í þessu máli fyrir sjónir eins og Morrinn í Múmínálfunum, það virðist ekkert grænt þrífast í kringum þau, hér skal allt verða að steypu og það sem hæst upp í loftið. Skítt með lífsgæðin, sennilega eigum við bara að ráfa um í Smáralindinni ef við þurfum á hreyfingu eða upplyftingu að halda. Ég er hins vegar svo bjartsýn að eðlisfari að ég hlýt að búast við að menn hafi sjái að sér hér og endurskoði þessar ömurlegu tillögur að sbreytingar á skipulagi í Smárahverfi, sem nú stendur fyrir að verði auglýstar.

Elín Blöndal, íbúi í Brekkusmára 5 í Kópavogi.

Elín Blöndal (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 09:56

2 identicon

Þetta er óverjandi með öllu og toppar allt sem Kópavogsbær hefur gert fram að þessu ekki síst í framhaldi af háhýsadritinu niðri í dalnum, en það er þó niðrí dal Kópavogsbúar ættu allir sem einn að setja stopp hér - nú er komið nóg.
Þið ættuð sem flest að hafa samband við Skipulagsstofnun og jafnvel umhverfisráðuneytið og spyrja þar hvað hægt er að gera til að stoppa þetta. Þar fást öruggari upplýsingar um það en hjá bænum sjálfum sem er aðili að málinu. Það setur líka skipulagsstofnun og umhverfisráðuneytið svolítið á tærnar og gerir þá meðvitaða og tilbúna þegar málið kemur þangað, eða ætlar nokkur að sætta sig við fyrirframákveðna prúttlækkun um tvær hæðir eða svo.

Þið hljótið að gera ykkur grein fyrir að þetta er kynnt með það í huga eins og verstu prúttarar að byrja hærra til að þið sættið ykkur við 12 og 10 hæðir í stað 14 og 12, en hefðuð aldrei annars sætt ykkur við það.

Valur (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 11:37

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Takk fyrir góðar ábendingar, hér eru athgilsiverðir punktar sem má nota.

Helgi Jóhann Hauksson, 29.6.2007 kl. 11:40

4 identicon

Á þjóðfundi 1851 ætluðu Danir að setja Íslendingum nýja stjórnskipun, þar sem lítið tillit var tekið til óska Íslendinga. Fundinum lauk með því að fundarmenn risu úr sætum og sögðu: „Vér mótmælum allir.“

"Vér" íbúar Kópavogs (ekki bara Smárahverfis) "mótmælum allir" harðlega fyrirhuguðum framkvæmdum á Nónhæð og á lóðinni Arnarsmára 32.  Við óskum eftir því að Nónhæðin verðir "grænt" svæði - útivistarsvæði fyrir Kópavogsbúa.

Það er ótrúlegt að upplifa það á tuttugustu og fyrstu öldinni að íbúar þurfi að "prútta" við skipulagsyfirvöld í Kópavogi - sjá færslu frá Val í dag - um
stærðir húsa.  Við eigum ekki að þurfa þess.  Úr því að skipulagsyfirvöld
voru að koma með tillögur um að bygga á Nónhæðinni - þá hefðum við viljað að sjá raunhæfar tillögur um lágreista bygg og fallegt útvistarsvæði - ekki 8-9 hæða blokk 40 metra frá lágreistum húsum - ekki háa "skugga"
 turna eða blokkir sem eru í engan takt við lágreista byggð sem er þar fyrir -  ekki 1000 manna byggð þar sem gatnakerfið er þegar löngu sprungið.

Helst af öllu hefðu við ekki viljað að sjá þessar tillögur um byggð - heldur útivistarsvæði.

Í fréttum á RUV í gærkvöldi var viðtal við Ármann Kr. Ólafsson "forseta bæjarstjórnar Kópavogs" þar sem hann segir að það sem "valdi íbúum mestar áhyggjur  er hæð húsanna"  Ég spyr - var Ármann ekki á sama
fundi og við hin??

Ármann - Þetta er svo miklu stærra mál en bara "áhyggjur af hæð húsanna"!

Guðmundur Baldursson - íbúi í Brekkusmára 4.

Guðmundur H. Baldursson (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 13:20

5 Smámynd: Guttormur

Sendum ykkur baráttukveðjur héðan úr Laugardalnum í Reykjavík.  Vonandi að bæjaryfirvöld hlusti á ykkar raddir. Þetta er ótrúleg skammsýni að ekki megi sjá auðan blett að það þurfi að byggja á honum.

Í Laugardal eru nú einungis um 10-15% eftir af grænum óskipulögðum svæðum og enn er hart sótt að. Það virðist engu skipta í hvaða flokki stjórnmálamenn eru né í hvaða bæjarfélagi, alltaf skal byggja mikið og hátt og í andstöðu við íbúa.

Andrea Þormar

Guttormur, 29.6.2007 kl. 14:02

6 identicon

Ég vil hvetja alla sem eru á móti fyrirhuguðum breytingum á skipulagi á þessu svæði, til þess að senda vel rökstudd mótmæli á skipulagsnefndir í Kópavogi og Garðabæ, Skipulagsstofnun, Umhverfisráðherra og pólitíkusa í Kópavogi. Því fleiri sem senda inn mótmæli - því áhrifaríkara!

Ingibjörg, Nónhæð Garðabæ.

Ingibjörg (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 16:07

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Undarlegt að skipuleggja ávallt byggðina neðan frá. Að sjálfsögðu hefði átt að byrja ofan frá og vinna sig niður. Ef byggja á háhýsi á að BYRJA  á þeim og lækka síðan byggðina ÚT FRÁ ÞVÍ niður eftir byggingalandinu sem í boði er á hverjum tíma. Taka tillit tilSKUGGA OAF S'OLU,  ALLAN ársins hring og gera þetta eins og fólk. Hvað er eiginlega vanadamálið? Ekki nóg pláss? Við erum ekki með öllum mjalla. Leysa málið með landfyllingu? Við erum ekki í lagi. Er plássleysi virkilega vandamál??? Kommon?!?!?!

Halldór Egill Guðnason, 30.6.2007 kl. 00:56

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Í raun er eins og fullkomlega vanti heildarsýn, þeirri heildarhönnun sem stuðst var við í upphafi er bara hent út um gluggann og svo tekur tilviljannakennt háhýsadritið við.

Helgi Jóhann Hauksson, 30.6.2007 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband