Íslendingar vilja ekki „fólk með vesen“

Gamli maðurinn og þinghúsiðÍslendingar líta almennt þannig á að fólkið sem bendir á hvað er að og vill af alvöru taka á ógnum og vandamálum áður en við hnjótum um þau sé „fólk með vesen“ og Íslendingar vilja ekki „fólk með vesen“ á framboðslista.

Það er reyndar megin ástæða þess hvernig komið er fyrir okkur ásamt því hvernig aðferðir við höfum notað um langt skeið til að velja fólk á framboðslista. „Fólk með vesen“ á ekki nokkra möguleika á að komast í þokkaleg sæti á framboðslistum. Við viljum ekki að neinn ruggi bátnum og ef við mætum vandamáli viljum við að tekist sé á við það með minnstu mögulegu aðgerð og ekki fyrr en við beinlínis rekumst á vandamálið sem beina hindrun. Við erum þannig hinir fullkomnu fulltrúar „smáskrefaákvarðana“ sem í raun láta vandamálin leiða sig með því að marka aldrei eigin stefnu nema þá að skipta um kúrs við beina hindrun, í raun jafn gáfulega og „gáfaða ryksugan“.  Þess vegna skjótum við sendiboðana  sem segja okkur slæm tíðindi, svo ekki sé talað um þá sem reka framan í okkur spegil í viðleitni til að neyða okkur til að horfa framan í okkur sjálf.

Þeir sem því veljast til forystu eru þeir sem þögðu og gættu þess best að brosa framan í alla og vera ekki með neitt vesen.

Prófkjörin eins og við höfum þau þar sem hver kjósandi á að velja marga frambjóðendur hvort sem hann mætir til leiks til stuðnings aðeins einum eða fleirum, tryggja það svo að „fólk með vesen“ á enga möguleika.  Þeir sem þátttakendur númera í annað sæti og neðar eru fyrst og fremst þeir sem fólk kannast við, þ.e. þekkt nöfn og hefur ekki verið með neitt vesen - þægilegt þekkt fólk. - Íslendingar velja því fólk í prófkjörum sem er þægilegt og þekkt en ekki með neitt vesen.

Það veljast ekki leiðtogaefni eða hreinskilnir skörungar með þessum aðferðum heldur aðeins þægileg þekkt andlit sem eru ekki með neitt vesen.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er eitthvað skrítið við þetta prófkjörskerfi að velja með því að númera 5-8 nöfn. Þannig er það sami meirihlutinn, sama fólkið, sami hópurinn sem ræður öllum sætunum, það velur ekki bara sinn mann heldur ræður í raun öllum sætum sem mögulega gætu orðið þingsæti og rúmlega það. Þannig er eins líklegt að nýr, efnilegur og skeleggur frambjóðandi, leiðtogaefni sem nokkur hluti kjósenda sæi hvaða mann hefði að geyma, en enn ekki nærri allir, kæmist hvergi í sæti jafnvel þó hann hefði þriðjungs eða fjórðungs stuðning til að leiða listann. Fólk sem fær næst flest atkvæði í fyrsta sæti lendir þannig oft miklu neðar á lista en í annað sæti.

Sigurður Guðm (IP-tala skráð) 7.3.2009 kl. 14:48

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Ertu nú að byrja með eitthvað vesen?

Júlíus Valsson, 7.3.2009 kl. 16:47

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Passar!

Helgi Jóhann Hauksson, 7.3.2009 kl. 17:24

4 identicon

Ég vil fólk með vesen, ógnarvesen, sem tekur á ógnum og spillingu og öllu illu.  Í fullri alvöru.  

EE elle (IP-tala skráð) 7.3.2009 kl. 19:12

5 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það er einhver vonbrigðatónn í þessu hjá þér og jafnvel skortur á rökhyggju.

Nú situr ríkisstjórn sem er tilkomin vegna þess að fólk gerði "vesen". Þetta fólk er nú sest í helgan stein; hefur unnið sitt verk fyrir sína "valdhafa".

Þú verður bara að sætta þig við það að byltingin á sér ekki sjálfstætt líf.

Ragnhildur Kolka, 8.3.2009 kl. 09:12

6 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þetta er ekki rétt hjá Ragnhildi. Bara það að Helgi sé með "vesen" gæti verið byrjun á breytingu. Byltingin þarf líka stundum  að hvíla sig.

María Kristjánsdóttir, 8.3.2009 kl. 09:35

7 identicon

Helgi kemur með góð rök að mínum dómi þó ég hafi sagt að ofan að ég vildi fólk með vesen.  En eru ekki pesónukjör, í kosningunum sjálfum, svarið?

EE elle (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 11:55

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég hef nú verið með töluvert vesen í Framsóknarflokknum og ég er nú nokkuð sátt við 4. sætið. Ég sóttist eftir "einu af efstu sætunum" þannig að þetta er nú allt í áttina.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.3.2009 kl. 13:33

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir þessa ábendingu Helgi - og hlýleg orð í minn garð sem ég sá á ónefndri bloggsíðu.

Kær kveðja.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.3.2009 kl. 11:54

10 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Ágætis blogg sem að venju fær mann til að hugsa út fyrir kassann sem er alltaf eitthvað að þvælast fyrir.

Ólafur Þórðarson, 14.3.2009 kl. 02:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband