Ágætt að prófkjörin eru yfirstaðin og pólitíkin getur tekið við

Harmonikkuleikari á þing 1Prófkjör eins og við framkvæmum þau hér á Íslandi eru ekki góð leið til að velja á lista.

Árni Páll Árnason er þó vissulega vel að sigri sínum kominn, hann er hreinskiptinn og heiðarlegur stjórnmálmaður, með góða menntun og víðtæka reynslu. Það er heldur ekki valið í efsta sætið sem prófkjörin ráða ekki við heldur miklu fremur það fyrirkomulag að gera kjósendum að númera 6-10 frambjóðendur til að velja í sætin fyrir neðan fyrsta sætið. Flestir sem kjósa í prófkjöri gera það til stuðnings einhvers eins eða tveggja og mest þriggja, en svo verða þeir að fylla uppí töluna og velja þá viðkunnanleg þekkt nöfn til að fylla uppí. Í mínu kjördæmi átti að númera 6-8. Lýðræðislegra væri í raun af hver kjósandi í prófkjöri hefði bara 2-3 atkvæði í stað 6-8, þar sem stærsti kjósendahópurinn gæti þá ekki einn dekkað öll sætin eins og nú er hægt.

Samkvæmt prófkjörsreglum var svo bannað að auglýsa og á móti því banni stóð flokkurinn ekki fyrir sameiginlegri blaðaútgáfu eða neinu þessháttar. Ef flokkurinn hefur ekki efni á slíku og vill samtímis hindra að fjármagn ráði hve vel frambjóðendur geta kynnt sig, verður hann að standa öðruvísi að valinu - nýtt fólk verður að fá að kynna sig með myndarlegum hætti. Ein leiðin væri að við netkosningu yrði að fara í gegnum síður með kynningu á frambjóðendum til að geta kosið, önnur að til að fá leyniorðið þyrfti að mæta á framboðsfundi og svo sem margt fleira. 

Aðalatriðið er að ef Samfylkingin vill takmarka hvað auglýsingar og fé ræður miklu um niðurstöðu prófkjörs verður Samfylkingin að finna lýðræðislegar útfærslur sem gefa nýjum frambjóðendum verðug tækifæri til að kynna sig. Við sjálft kjörið ætti svo ekki að fela hverjum kjósanda að merkja nema við helming þeirra sem prófkjörið á að velja. T.d. 2 ef prófkjör á að velja 4 frambjóðendur og 3 ef velja á 6. Það kemur í veg fyrir að stærsti kjósendahópur geti í raun ráðið öllum eða flestum sætum sem kosið er um.

En það er ágætt að prófkjörin eru yfirstaðin og pólitíkin getur tekið við en menn ættu að draga meiri lærdóm en þeir gera af prófkjörunum.


mbl.is Víglínan markast í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hann dinglar með EBé, það nægir bleika liðinu.

Jón Valur Jensson, 15.3.2009 kl. 01:02

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Árni Páll er flottur kandidat og ég er klár á því að hann á eftir að reynast farsæll leiðtogi hér í Suðvesturkjördæmi. Það var margmenni á sigurhátíð hans í gærkvöldi og við erum sannfærð um að vegur flokksins og hans mun fara vaxandi enda algjörlega eðlilegt að flokkurinn/flokkarnir sem standa fyrir jöfnuði og félagshyggju skuli leiða næstu ríkisstjórn. Miðað við yfirlýsingu þína hér að neðan þá ert þú því í góðri stöðu.

Það varð endurnýjun á lista okkar, þó sjálfsagt eigi margir eftir að benda á að alþingismennirnir hafi fengið góða kosningu í 3 af 4 efstu sætunum. Hitt er annað að í 3. sæti er farsæll leiðtogi úr Hafnarfirði og í sæti 5, sem ég lít á sem baráttusæti, er ungur og mjög kraftmikll maður, Magnús Orri Schram og það verður gaman að sjá hvernig honum og flokknum mun ganga í kosningunum.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 15.3.2009 kl. 09:43

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Í upphafi stóð til að hver kjósandi merkti aðeins við fjóra frambjóðendur í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvestrurkjördæmi. Það voru frambjóðendurnir sjálfir, sem óskuðu eftir því að menn merktu við fleiri.

Hvað kynningar varðar þá var gefin út bæklingur, sem var borin út í öll hús í kjördæminu þar, sem allir frambjóðendur voru kynntir auk þess, sem fram kom slóðin á vefsíður eða blogsíður þeirra. Það var líka kynniung á öllum frambjóðendum á heimasíðu kjördæmaráðsins. Svo fengu allir frambjóðendur að senda kynningu á sjálfum sér á póstlista allra aðildarfélaga Samfylkingarinnar í kjördæminu og einnig á netföng þeirra stuðningsmanna, sem skráðu netfönd þegar þeir skráðu sig á kjörskrá. Einnig voru haldnir fimm fundir í kjördæminu þar, sem allir frambjóðendur fengu að tala og síðan fengu allri frambjóðendur eina spurningu frá funarmönnum. Þessir fundir voru haldnir í Hafnafirði, Garðabæ, Kópavogi, Seltjarnanesi og Mosfellsbæ.

Ég held því að varla sé hægt að tala um að frambjóðendur hafi haft takmarkaða möguleika til að kynna sig þó auglýsingabann hafi verið í gildi.

Sigurður M Grétarsson, 15.3.2009 kl. 17:40

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Á framboðsfundi mætir harðasti kjarni stuðningsmanna og virkustu flokksmenn - en ekki fjöldinn.  Það væri einfalt að hafa staðlaðar upplýsingar á netinu en þar var ekki einu sinni aldur frambjóðenda í Kraganum. Það væri líka einfalt að láta kjósendur fletta í gegnum upplýsingasíður um frambjóðendur áður en kæmi að atkvæðaseðlinum og auðvitað á flokkur sem bannar mönnum að auglýsa að gefa út eitt almennilegt kynningarblað.

Í raun vita þetta allir og þeir vita líka vel að því minna tækifæri sem nýir frambjóðendur hafa til að kynna sig því öruggara er að sitjandi þingmenn og aðrir merkismenn í flokknum sem þegar eru vel kynntir í prófkjörum fái örugga kosningu. - Samt er ekki bætt úr - hvað segir það?

Helgi Jóhann Hauksson, 15.3.2009 kl. 20:57

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hann er ekki baráttumaður fyrir fullveldi föðurlandsins, svo mikið er víst.

Jón Valur Jensson, 16.3.2009 kl. 00:21

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Reyndar aukum við vald okkar og því fullveldi um þau mál sem okkur varða með aðild að ESB.

Í dag erum við án áhrifa áskrifendur að ákvörðunum ESB sem beint og óbeint hafa áhrif á okkur bæði sem aðilar að EES og sem allar þjóðir sem eiga einhver viðskipti og samskipti við Evrópu.

Með aðild eignumst við rödd og vald við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar - og svo vill til að stefnumótandi ákvarðnir ESB eru aðeins teknar með samþykki allra aðildarríkja - hvort sem þær eru litlar eða stórar. - Það er því valds-aukning raunveruleg fullveldis-aukning og aukið sjálfs-forræði yfir þeim málum sem okkur varða sem fylgir aðild. 

Helgi Jóhann Hauksson, 16.3.2009 kl. 01:54

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er öfugmæla-skáldskaparviðleitni hjá þér, Helgi Jóhann. En hitt er rétt, eins og Friðrik Daníelsson o.fl. hafa fyrir löngu bent á – og fleiri til viðbótar síðustu mánuðina – að við eigum að segja upp þessum bannsettum EES-samningi.

Svo áttu að vita, að neitunarvald einstakra ríkja er á útleið, absolút á útleið. Og jafnvel á meðan það er virkt, fær eitt ríki, sem vill segja nei, ekki nokkurn frið, fyrr en það gefst upp, enda má það sín lítils gegn ofurþunga þrýstingsins frá Brussel.

Jón Valur Jensson, 16.3.2009 kl. 02:20

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Sæll Jón Valur og takk fyrir spjallið.

Neitunarvaldinu hvers ríkis er af mörgum þjóðum ESB lýst sem líminu sem heldur því saman.

Reyndar er það svo að ef mikilvægir grunnhagsmunir ríkis eru vanvirtir á einhverju sviði þar sem ekki er formlegt neitunarvald vofir yfir bandalaginu í heild að það ríki muni nota neitunarvald sitt næst á mikilvæg almenn mál og ekki losa um það nema samið sé um hitt

Neitunarvaldið er því bæði í praxis sem og í reynd á öllum málum sem ríkin telja mikilvæg. Þannig eru líka ákvarðanir teknar í ráðherraráðinu að þar er aldrei stefnumarkandi mál afgreitt gegn vilja aðildaríkis hvort sem um það gildir formlegt neitunarvald eða ekki.

Þetta er kallað samstöðu-ákvarðanna-kerfi, það er seinlegt og væri trúlrga ekki nothæft til að stjórna ríki en í ESB er það grundvöllur þess að þar eru enn öll 27 ríkin innanborðs.

Grundvöllur ESB er „sameignlegur vandi krefs sameiginlegra lausna“ og það ræður hvaða mál eru ESB-mál.

Þau mál sem ESB kemur sér ekki saman um þó þau sé skilgreind sem „sameiginleg vandamál“ fer hvert ríki með hjá sér.

Helgi Jóhann Hauksson, 16.3.2009 kl. 03:17

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og þetta neitunarvald er á útleið, Helgi Jóhann, gleymdu því ekki. Þar að auki setur bandalagið með ýmsum reglugerðum þeim ríkjum, sem "óþekk" teljast, stólinn fyrir dyrnar með ýmsum öðrum hætti.

Jón Valur Jensson, 16.3.2009 kl. 11:14

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jón. Það að segja upp EES samningmum mun leiða til mikillar lífskjaraskerðingar hér á landi vegna þess að við það munu viðskiptakjör okkar hjá ríkjum EES samningsins versna til mikilla muna.

Það mun einnig loka fyrir það að aðrir Íslendingar en þeir, sem eru með sérfræðimenntun, sem önnur EES ríki ásælast, munu ekki geta fengið atvinnu- og dvalarleyfi í EES ríkjum. Það mun þá líka eiga við um hin Norðurlöndin því þau eru ölli innan EES svæðisins.

Það mun gera íslenskum námsmönnum í öðrum EES ríkjum mun erfiðara fyrir að fá dvalarleyfi til náms og einnig mun það í mörgum tilfellum leiða til þess að kosnaður þeirra við það nám mun hækka mikið og jafnvel margfaldast.

Það er rétt hjá þér að neitunarvald er á útleið í Evrópusambandin og er það eðlileg afleiðing af fjölgun ríkja í sambandinu. Samband með of marga aðila með neitunarvald verður illa stjórntækt. Hins vegar hefur það aldrei átt sér stað í sögu Evrópusambandsins að gengið hafi verið gegn grunvallahagsmunum eins ríkis við ákvaðanatöku og það eru litlar líkur á að svo verði. Staðreyndin er nefnilega sú að Evrópusambandið er samtök evrópsrka lýðræðisríkja með það markmið að bæta hag almennings í ÖLLUM  aðildarríkjum þess. Þetta er ekki gráðugur þurs, sem leitast við að hrifsa til sín auðævi minni aðildarríkja eins og þú og sumir aðrir andstæðingar Evrópusambandsins reynið að halda fram.

Aðild að Evrópusambandinu mun bæta hér lífskjör og mun einnig auka frelsi íbúa hér á landi.

Sigurður M Grétarsson, 17.3.2009 kl. 11:28

11 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Helgi. Á framboðsfundina mætti fjöldi, sem nær um 10% af þeim, sem kusu. Það var dreift bæklingi í öll hús í kjörfæminu með upplýsingum um blogsíður frambjóðenda. Einnig voru helstu mál allra frambjóðenda á heimasíðu kjördæmaráðsins. Það var því lítið mál fyrir kjósendur að afla sér upplýsingar um frambjóðendur og það, sem þeir hafa faram að færa.

Einnig fengu frambjóðendur heimild til að senda öllum á póstlista einn tölvupóst og notfærðu nokkrir þeirra sér það. Þeir fengu einnig kjörskránna og gátu notað hana til að senda póst á þá, sem höfðu kosningarétt og notfærðu sumir sér það.

Það er því ekki hægt að segja að frambjóðendur hafi ekki haft tækifæri til að koma sér á framfæri. Því er hins vegar ekki að neita að það hefði verið betra aða gefa út blað með öllum upplýsingum um frambjóðendur eins og gert var í síðasta prófkjöri og var einnig gert í Suðurkjördæmi í þessu prófkjöri. Staðan er hins vegar sú að það var ekki til neinn peningur til þess. Fjárhagsstaða kjördæmaráðsins er einfaldlega þannig að það hafði einfaldlega ekki neinn möguleika á að eyða meiru í þetta prófkjör en þeim 600 þúsund kr. sem komi inn frá frambjóðendum og öðrum stuðningi, sem kominn var í hús. Því miður mun það sama eiga við um kosningabaráttuna sjálfa.

Sigurður M Grétarsson, 17.3.2009 kl. 11:37

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svissneska leiðin, gagnkvæmir tollasamningar, ekki EES-samningur, er rétta leiðin. Á þetta lögðu upplýstir menn áherzlu, s.s. dr. Hannes Jónsson sendiherra, Friðrik Daníelsson verkfræðingur, Ragnar Arnalds o.fl., en Davíð lét undan offorsinu í Jóni Baldvin, okkur til mesta skaðræðis.

Ég borgaði sjálfur mín skólagjöld í Bretlandi, án EBé- eða EES-afsláttar – það sama geta aðrir námsmenn gert. Hlutirnir KOSTA sitt.

Skaðinn af því að undirgangast EES-skilmálana er nú sennilega orðinn meira en hundraðfaldur á við hagnaðinn af því sama. Þar að auki var áþjánin á okkar stjórnkerfi vegna þýðingar og setningar laga frá Evrópusambandinu afar dýrkeypt fyrir ísl. skattgreiðendur. Kynntu þér það mál.

En fyrir hvern starfar þú, Sigurður M.?

Jón Valur Jensson, 17.3.2009 kl. 14:50

13 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Svissneski samningurinn er nánast eins og EES nema bankar þeirra höfðu meira frelsi og fullveldisafsal var meira í honum vegna þess að þar voru engar fúnksjónir til að hafa áhrif eins og þó var reynt með EES.

- Svisslendingar töldu sig betur setta vegna þess að þeir fengu rýmra svigrúm um bankaleynd og ýmislegt sem tilheyrir hefðbundinni neðanjarðarstarfsemi svissneska bankakerfisins, - og þeir fengu sérsamning vegna þess að hann var nánast eins og EES að öðru leiti.

Ábyrgð okkar sjálfra um hvaða og hverskonar bankastarfsemi við leyfðum og hvað ráðstafanir við gerðum til að tryggja grundvöll hennar er algerlega á okkar herðum og hefur ekkert með EES að gera. - Við kusum að setja bönkunum ekki ýmiskonar skorður sem t.d. Bretar gerðu en Bretar eru auðvitað líka undir EES - þvert á móti nýttum við okkur það að hafa allt frjálst svo okkar bankar teldu sig jafn eða betur setta en t.d. þá bresku. Breskir bankar máttu ekki þjónusta fólk búsett utan UK nema þá með dótturfélögum, þessvegna skiptu margir Bretar búsettir utan Bretlands við íslensku banakana því ísland setti þeim engar slíkar skorður.

Helgi Jóhann Hauksson, 17.3.2009 kl. 15:01

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, Helgi, Svisslendingar undirgengust ekki eins og við að taka við lögum frá EBé, m.a. af því að þeir vildu EKKERT FULLVELDISAFSAL.

Jón Valur Jensson, 18.3.2009 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband