Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

"Tad er mælt med ad tu haldir kjafti um malefni Kopavogs..."

Mynd_2007-06-27_18-31-29Það eru miklir peningar í húfi þegar menn veðja milljónum til að fá að byggja stórhýsamassa og selja íbúðir fyrir milljarða þar sem áður var gert ráð fyrir opnu svæði og kirkju annarsvegar (nú gatan Nónhæð) og litlu þjónustuhúsi hinsvegar (Arnarsmári 32). Maður á samt aldrei beinlínis von á grófum viðbrögðum þessara aðila þó maður tjái skoðanir sínar um slíkar framkvæmdir. Hér hef ég lagt inn tvö innlegg á bloggið mitt um málið, tók til máls og talaði alls 4 mínútur á opnum kynningafundi bæjaryfirvalda í Smáraskóla 28. júní (eins og fjölmargir aðrir)- og ég lét hér inn óklippta og heila hljóðskrá af opna fundinum (sjá hér til hliðar).

En um hádegi daginn eftir fundinn þ.e. í gær þann 29. hringdi 19 ára sonur minn í mig; "heyrðu pabbi það eru að koma skilaboð á símann minn sem líklega eru ætluð þér." "Hvað er það?" "Ja, þau eru mjög skrítin" "viltu ekki bara segja mér hvað það er vinur?" "Nei ég sendi þér bara afrit" "OK". - Skilaboðin voru þessi: 

"Tad er mælt med ad tu haldir kjafti um malefni Kopavogs á almennum vettvangi. Tu skadar okkur."

Undirritað: Siminn.is 

Þegar sonur minn svo kom heim seinna um kvöldið sagði hann mér frá að hans mati undarlegu símtali og hljóðskráin (sjá hér til hliðar) var nefnd. Í kjölfarið fylgdi annað sem hann kaus að svara ekki en fékk þá skilaboð á símsvarann.

En svona til að þeir sem vilja þagga niður í lýðræðislegri umræðu geti komið um það skilaboðum beinustu leið til mín þá er tölvupóstfangið mitt hehau hjá internet.is og Gsm síminn minn er 661 6966, en vinsamlega látið vera að hringja eða senda skilaboð í síma sonar míns eða annarra heimilsmeðlima og hafið helst kjark til að láta fullt nafn fylgja með.

Annað er spurningin um hvort rangt sé gagnvart verktökum og bæjaryfirvöldum að setja inn hljóðskrá sem ég tók sjálfur upp mér til minnis á lítinn Sony diktaón. Fundurinn var opinn borgarafundur ætlaður til kynningar á efni fundarins til íbúa og almennings og þarna var m.a. sjónvarpsupptökuvél (kom í 10 frétum). Hlutur fulltrúa bæjarins og fulltrúa verktakanna hlýtur að teljast sanngjarn þeir héldu einir erindi án andmælenda og íbúar fengu aðeins að leggja fram spurningar (seinni helmingur fundarins) en voru jafnan stöðvaðir ef þeir ætluðu að lýsa skoðunum sínum eða koma með beinar athugasemdir.


Við þurfum ekki að sætta okkur við þetta

Mynd_2007-06-28_17-31-52Skelfilegt nýtt skipulag fyrir Nónhæð í Kópavogi var kynnt á hverfisfundi í Smáraskóla í gær. Í stað þess að þar verði opið svæði og kirkja eða bænahús eins og aðalskipulag og deiliskipulag hafa gert ráð fyrir í nær 20 ár, sem tígulegt kallast á við Kópavogskirkju hinum megin við dalinn úr lágreistri byggð efst á Nónhæð, voru á fundinum kynntar nákvæmlega útfærðar teikningar, líkön og tölvulíkön af nýjum og stærri Hamraborgarmassa sem skapar Kópavogi enn meiri steinsteypuímynd en áður, með allt að 14 hæða blokkum og 18.000 fermertra tveggja hæða bílastæðakjallara undir allri lóðinni. Hvergi á lóðinni væri hægt að stíga á náttúrlega jörð. Undir leiksvæðum og öllum "grænum svæðum" verða tvær hæðir af bílastæðakjallara og blokkamassinn er svo mikill að sólin nær nánast aldrei að skína niður á milli húsanna á leiksvæðin og "grænu" svæðin (sjá meira um skipulagið hér neðar).

Mynd_2007-06-28_17-34-36Sagt hefur verið "að sumarið sé tíminn" - til að kynna óvinsæl skipulagsmál og helst á miðjum sólríkum degi - enginn mæti á fundi og annarhver maður sé að heiman í sumarfríi. Það má því merkja hve mikinn hug íbúar hverfisins bera til málsins að salurinn sem ætlaður var til kynningarinnar varð strax fullur og þeir sem komu of seint urðu frá að hverfa. Alger einhugur var í fundarmönnum að andmæla þessum hugmyndum og öllum viðlíka.

Mynd_2007-06-27_18-34-15Mynd_2007-06-28_18-21-11Mynd_2007-06-28_19-55-18Gagnrýnt var að þó Arnarsmári 32 og gatan Nónhæð liggi saman og myndi eina heild voru húsin hvergi sýnd saman, Arnarsmári 32 sem kemur í stað bensínstöðvarinnar og svo massinn á kirkjureitnum.

Reyndar er það mitt álit að ekki eigi að taka í mál að breyta þessari landnýtingu úr opnu svæði með stofnun (kirkju) í íbúðasvæði. Íbúarnir í hverfinu eigi ekki að sætta sig við það. Setja eigi varnarlínuna þar strax því ef á þá breytingu er fallist eru hvergi skýrar línur handan hennar. Öll rök sem borin voru upp fyrir þeirri grundvallarbreytingu á fundinum voru léttvæg, þar á meðal að vegna þess að það væri búið að byggja svo mikið athafnarými upp í loftið á svæðinu yrði að troða íbúðarhúsnæði upp í loftið líka. Einnig að lóðaverð væri svo hátt að auðvitað yrði lóðareigandinn að fá að byggja þétt og mikið til að hafa fyrir lóðarkaupunum. Einfalt svar við því er að hann keypti land sem skipulagt var sem kirkja og opið svæði og það er það eina sem hann getur reiknað með að fá að gera þar.

Sjá líka heimsíðu íbúanna hér


Skelfileg skipulagsmistök yfirvofandi á Nónhæð í Kópavogi


Setja á massa af allt að 14 hæða húsum uppá Nónhæð í stað lítils bænahúss og opins svæðis. (Smellið á myndir til að stækka og svo enn til að stækka meira)NonhaedBaenahus2

 

 

Nónhæð_ljósmG7B

 

Í dag kl 17.30 þann 28. júní 2007 verður haldinn opinn fundir í Smáraskóla í Kópavogi vegna kynningar á nýju deiliskipulagi fyrir efsta hluta Nónhæðar. Á reit sem Baháar áttu og ætluðu að reisa þar tilbeiðsluhús með opnu svæði í kring. Þannig hefur þessi reitur verið á skipulagi Kópavogs frá því skipulag Nónhæðar var fyrst kynnt fyrir nær 20 árum.  Nú á að kynna nýtt skipulag  fyrir Arnarsmári 32 (bensísntöðin) og nýja götu sem fær nafnið Nónhæð með  allt að 14 hæða íbúðarhúsum og alls um 220 íbúðum á þessum litla reit og undir allri lóðinni verður tvöfaldur bílastæðakjallari, þ.e. hvergi verður stígið á náttúrulega jörð innan lóðarinnar nema með tvær steinsteypuhæðir undir fótum sér.

Nónhæð_ljósmG7BcSvo þétt og hátt á að byggja þarna að samkvæmt skuggalíkönum skín sólin nær aldrei á þau svæði þar sem börn gætu mögulega leikið sér við húsin og umferð og átroðningur um þetta kyrrláta hverfi í heild mun margfaldast.
Öll lóðin verður ofaná steinsteyptu neðanjarðarbílastæðahúsi eins og Kópavogur eigi svo góða reynslu af slíku. Í samanburði við Hamraborgina á hæðinni hinum megin við Kópavogsdalinn mun hún þó vera safn smáhýsa miðað við þetta. Öll þök eiga að vera flöt og þar með er stærsta húsið hærra en hæsta Gullsmárablokkin niðr í Kópavogsdalnum sem 13 hæðir með efstu hæðir innundir hallandi þaki.

Mynd_2007-06-23_16-35-26Ekki er haft fyrir því að senda upplýsingar til íbúanna með fundarboðinu og göng komu fyrst á vef Kópavogsbæjar í gær. Þar má sjá að þó þessi hús séu sett efst á hæðina og myndir úr þrívíddar tölvulíkönum settar inn í töllöguna er hvergi sýnt hvernig þetta mun bera við himinn heldur alltaf sýnt úr lofti með aðra byggð í bakgrunni - auðvitað til að vekja ekki athygli á hvernig þetta mun gnæfa upp úr byggðinni, því eftir að svona efni hefur verið sett í þrívíddarlíkan er fátt einfaldara en að snú því á alla kannta þar á meðal að sjá hvernig það lítur út frá sjónarhóli venjulegra manna með báða fætur á jörðinni.

Nónhæð_ljósm6Eitthvað alvarlegt er að afgreiðslu í skipulagsnefnd og bæjarstjórn í þessu máli. Ekki er að sjá að Samfylkingin hreyfi neinum andmælum við þessu og bókað er að fulltrúi Samfylkingar í skipulagsnefnd víkur hvert sinn af fundi þegar þessi reitur er til meðferðar án þess að fram komi að annar taki sæti hans. Af því er ekki annað að skilja en hann eigi þar hagsmuna að gæta án þess að sjá til að annar komi í hans stað. Má vera að það sé misskilningur minn. Allstaðar er þó verið að hrúga niður háhýsum í Kópavogi og hver gætir hagsmuna bæjarbúa gagnvart verktökunum og háhýsaplágunni ef fulltrúi Samfylkingar í skipulagsnefnd á þar líka verktakahagsmuna að gæta eins og bæjarstjóri Sjálfstæðismanna?Mynd_2007-06-17_16-18-03

Skipulag ræður miklu um hvernig hverfi þróast. Hér er mynd úr Nónhæðarhverfinu núna og hinsvegar neðar mynd úr undirgöngum í Hamraborginni.  Kópavogur ætti að þekkja vel hvernig háhýsi með tvöföldum bílastæðakjöllurum undir öllum massanum þróast til lengdar.Mynd_2007-06-21_14-55-42

. AdalskipulagKóp2000-2012NónH
Hluti af aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 þar sem eins og allt frá 1990 er gert ráð fyrir grænu svæði efst á Nónhæð  með  bæna- og tilbeiðsluhúsi og opnu svæði allt í kring.SkuggarSeptKl12

Samkvæmt nýju tillögunum hvílir skuggi stöðugt yfir öllu  útivistarsvæðum húsanna sjálfra og þar með lögboðnum leiksvæðum fyrir börn sem eiga að vera við hvert hús í ákveðnu reiknihlutfalli við fjölda íbúða. Þessi skuggamynd miðar við kl 12 í september.

Slóðin að kynningarefni Kópavogsbæjar er hér - smella 


Flottur 17. júní á Rútstúni í Kópavogi

Merkilegt hvað Kópavogur hefur skapað sér sterka 17. júní hefð með skrúðgöngu yfir á Rútstúni neðan við sundlaugina og síðan hátíðarhöldum þar. Þar er alltaf allt fullt af fólki ár eftir ár og þó örstutt sé yfir á skemmtanasvæði Reykvíkinga freistar það ekki þess mikla fjölda sem fylir Rútstúnið á hverju ári. Í raun er vart í annan tíma sem Kópavogsbúar finna svo vel til samstöðu og samkenndar og á Rútstúni 17. júní ár hvert.

Ég tók nokkrar myndir í dag þar á meðal af sýningu leikhóps sem dóttir okkar Hafdís Helga skipar með fimm öðrum sérlega hæfleikraíkum og frjóum stelpum á framhaldsskólaaldri. Ég set myndirnar af leikhópun hér í sér albúm.


mbl.is Á milli 20-30 þúsund manns í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt hvað fuglar leggja á sig til að verja afkvæmi sín

Skjabord_HJH_027Fuglar bera ótrúlega hlýjar og sterkar tilfinningar til unganna sinna. Það er merkilegt þegar gæsirnar geta forðað sér sjálfar svo auðveldlega með flugi gera þær það ekki ef öryggi unganna er í húfi heldur standa keikar tilbúnar til að berjast við risastórar skepnur, mennina, til að verja ungana sína, aðrir fuglar leika vængbrotna vesalinga hrópa á athygli og ginna ógnvaldinn á eftir sér í burtu frá ungunum, og þeir sem fljúga upp eru svo allt eins líklegir til að gera árásir úr lofti eins og krían og fleiri.

Það er ótrúlegt hvað allir fuglar leggja mikið á sig til að verja og koma upp ungum sínum þó með mismunandi hætti sé.Fuglar_Kria_7496+v

Fréttin er hér (einhverra hluta vegna birtist ekki linkurinn með venjulegum hætti). 


mbl.is Hingað og ekki lengra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðum að finna X-faktorinn, afhverju kerfið virkar ekki

FuglarK_Kria_008Það ætti nú að vera öllum ljóst að eitthvað veldur því að stjórnun fiskveiða á Íslandsmiðum leiðir ekki til þeirrar niðurstöðu sem vænst er þ.e. fiskistofnar hafa ekki eflst s.l. 20 ár heldur hrakar þeim enn þrátt fyrir aðgerðir sem áttu að leiða til hins gagnstæða fyrir löngu síðan. Í ritgerð sem ég skrifaði fyrir meira um 12 árum kallaði ég þetta óþekkta "eitthvað" X-þáttinn þ.e. þá þegar var ljóst að einhver óþekkt stærð og áhrifavaldur olli allt annarri niðurstöðu en vænst var. Enn er X-faktorinn ófundinn hann getur verið náttúrulegur en langlíklegast er að hann liggi í umgengni okkar við fiskimiðin og vistkerfi þeirra, trúlega í þáttum sem af ýmsum ástæðum er tabú að ræða svo sem plæging og sléttun botnsins með stórum botnvörpum sem minnkar yfirborðsflöt botnsins og eyðileggur skjól og búsvæði smádýra sem er grundvöllur að viðgangi botnfiska, afla framhjá vigt, meðafla hent vegna skorts á kvóta, ofveiði á fæðustofnum eins og loðnu og rækju, og margt fleira kemur til greina. Við ættum hinsvegar að gefa okkur að X-faktorinn er til og við þurfum að finna hann til að komast fyrir hann og með markvissri tengingu staðreynda má leiða hann í ljós - líkt og að leysa morðgátu. 
mbl.is Spá því að þorskkvótinn verði ákveðinn 155 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátt slær við stemningunni í vel heppnuðu brúðkaupi

Gifting 01Systurdóttir mín Kristín Ósk Hjartardóttir gifti sig um helgina honum Stebba sínum. Kristín er sjálf feiknlega góð söngkona með einstaklega mikla og falllega rödd sem hún hefur mikið vald yfir, og hefur eignast trygga og góða vini sem margir eru líka miklir tónlistamenn sem slógu hver öðrum við með frábærum söng- og tónlistaratriðum bæði við athöfnina og svo í veislunni. Léttleiki og óþvingað andrúmsloft gaf einhverja bestu skemmtun sem ég hef lengi orðið aðnjótandi.
Ég stóðst ekki mátið að taka myndir og ætla að smella hér inn nokkrum þeirra til gamans.

Fleiri myndir eru hér í albúmi við hliðina merkt Brúðkaup


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband