Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Kveð að sinni - er fluttur á Eyjan.is

Slóðin er http://blog.eyjan.is/hehau/  - Bið að heilsa vinum sem enn eru hér eftir og vel má vera að ég kíki á þá stöku sinnum en því miður er Morgunblaðið, Mbl.is og Mogga-bloggið nú í hjartastoppi. Blóðið sem enn rennur er kalt og helblátt.  Þeir sem annast sjúklinginn neita þó að horfast í augu við að sjúkdómurinn á rætur í græðgi, stolti og stjórnlyndu einræði og er náskyldur fasisma og öfgaþjóðernishyggju. - Ég bara vona að sem fæstir smitist.

Skammarleg framkoma? - en ef við snérum þessu við?

Hvernig virðum við fólk, líf og manneskjur? Afhverju er það skammarlegt að „ónáða“ og „trufla“ efnað, vel menntað, valdamikið og vandlega tengt fullorðið fólk en ekki að slík manneskja hendi lífi 19 ára umkomulauss unglings á haugana?

Dögg Pálsdóttir fv þingmaður og hæstaréttarlögmaður segir það „skammarlega framkomu“ að hróp skyldu gerð að „mannréttindaráðherra“ sem átti að halda ræðu á ráðstefnu um mannréttindamál í kjölfar ómannúðlegrar meðferðar hennar á 19 ára ungling og fleirum.

Miklu fleiri virðast tilbúnir til að fordæma orð og „ónæði“ og „truflun“ sem ráðherra verður fyrir en að sá ráðherra hendi lífi fólks, jafnvel einstæðs unglings á haugana eins og hverju öðru rusli.

Ekkert við Dyflinnarsamkomulagið margumrædda skyldar ráðherra til að senda hælisleitanda til fyrsta viðkomulands Shengen — nema hann ætli annars að senda hælsleitandann án málsmeðferðar til heimlandsins sem hann flúði. Reyndar kveður Dyflinnarsamkomulagið  á um að ekki eigi að nýta þessa heimild ef lengri tími en 3 mánuðir líða án afgreiðslu, í tilviki Noors er miklu lengra um liðið.

Noor í stað Rögnu og öfugt

Ef við nú snérum þessu við, settum framkomuna við Noor í stað Rögnu og öfugt, myndi yfirstéttin á Íslandi telja það skammarlegri framkomu gagnvart Noor hinum 19 ára Íraka sem vart hefur fengið að njóta neins friðhelgis heimilis eða einklífs frá hendi íslenskra stjórnvalda, ef hann nú yrði fyrir „ónæði“ heima hjá sér af fólki utandyra og hann yrði „ónáðaður“ á ráðstefnu, væri það þá skammarlegra að mati fína fólksins en ef við tækjum Rögnu mannréttindaráðherra fyrirvarlaust og flyttum Rögnu síma- og peningalausa til Grikklands og án alls þar sem við vissum að hún yrði uppá stjórnvöld komin sem þó útveguðu aðeins 300 svefnpláss fyrir 50.000 manns sem væru í sömu stöðu og hún. Við vissum svo líka að hún fengi tveggja kosta völ annaðhvort að sitja áfram í fangelsi á flugvellinum í Aþenu svo fullu að þar væri hvergi pláss til að leggjast,  eða vera sleppt allslausri á staðnum rétt kominn í ókunnugt landi auralaus, vegalaus, skilríkjalaus og eiga í engin hús að leita og ekkert skjól að hafa ein á vergangi?

Ragna ætti að fara þetta ferli sjálf

Ætti Ragna ekki að bjóðast til að fara þetta ferli sjálf sem brottvísuðum hælisleitanda til Grikklands, þar sem hún staðhæfir að það sé í góðu lagi.  - Þó ekki væri nema í 5 - 6 daga til að vita hvað hún er að tala um. Það væri nú varla mikið mál fyrir fullorðna manneskju í samburði við 19 ára ungling. - Hversvegna ætti henni vera nokkur vorkunn sem telur þetta fullgot fyrir annað fólk, vel menntuð og lífsreynd og vílar ekki fyrir sér sjósund við strendur Íslands að vetri.  Ætti Ragna ekki að hafa af því fullt gagn að kynnast því í rannsóknarskyni að hún yrði handtekin, svipt símanum og peningum og flutt út eins og hver annar hælisleitandi og án þess að upplýsa ebættismenn í Girkklandi fyrir en eftir nokkrar daga hver hún raunverulega væri?


Bréf frá unglingnum sem við hentum í ruslið

„Ég hef grátið mikið og geri það enn. Ég elska Ísland svo mikið og ég var að vona að ég fengi að dvelja hér allt mitt líf, en þau gáfu mér ekki tækifæri til að komast af og lifa lífinu. Af hverju? Ég vil vita af hverju.

Ég hef aldrei séð eins gott fólk í lífinu eins og fólkið á Íslandi.

Ég er núna í Grikklandi og veit ekki hvað ég á að gera – hef ekki sofið í þrjá daga. Ég var settur í fangelsi á flugvellinum. Ég sver við líf mitt að í fangelsinu eru meira en hundrað manns. Ég gat ekki sofið, ég fann ekki stað eða rúm til að sofa á. Í morgun var mér sagt að ég þyrfti að koma með þeim í viðtal. Ég sver við guð að viðtalið tók ekki meira en tíu mínútur, og eftir það sögðu þau mér að ég væri frjáls. Ég spurði þau hvert ég ætti að fara, ég hef engan stað til að fara á hér í Grikklandil. Þau spurðu bara: Hvort villtu frekar fara eða vera áfram í fangelsi?

Ég vil ekki segja meira vegna þess að ég vil ekki láta mér líða mjög illa. Það sem ég vil segja núna, og ég er eins og grátandi barn, er:

Ég elskaði Ísland og ég vona að ég fái að sjá ykkur á Íslandi aftur og vil þakka ykkur kærlega öllum þeim sem hjálpuðu mér. ÉG ELSKA YKKUR ÖLL.

Með ást og einlægni og virðingu fyrir ykkur öllum.

Noor Al-Azzawi“
  

Hann er 19 ára Íraki og hefur dvalið hér hátt á annað ár við bið eftir svörum um hvort hann fengi hér skjól og þá hvort þessi hæfileikaríki ungi maður gæti hafið líf eins og annað ungt fólk sótt nám og byggt upp líf sitt til framtíðar. Við gerðumst formlegir aðilar að stríðinu sem hrakti hann á flótta og faðir hans kaus að aðstoða herliða okkar og Bandríkjanna sem þá kallaði ofsóknir yfir fjölskyldu hans og sérstaklega karllegginn. Hann er nú einn og vegalaus en hefur eignast fjölda vina og aðdáenda hér á landi þann tíma sem hann hefur beðið hælis, því Noor er mjög hæfileikaríkur ungur maður. 

Þrátt fyrir mikla erfiðleika við að fá vinnu og atvinnuleyfi án landavistarleyfis tókst honum það og sá vel um sig þegar hann var sóttur og sendur til Grikklands sömu nótt. - Þó hefur nefnd dómsmálarðaherra sjálfs sagt í skýrslu sinni að bíða eigi a.m.k. 15 daga frá því slík ákvörðun er kynnt hlutaðeigandi þar til hún er framkvæmd svo raunhæft sé að svara forsendum hennar.

Aleiga hans eru íslenskir peningar sem hann hefur unnið fyrir sér - en fékk ekki að skipta þeim í nothæfa mynt áður en honum var hent.

Ragna dómsmálaráðherra sjálf synjaði ósk Birgittu Jónsdóttur um að hann fengi að hafa símann sinn með sér svo hægt væri að halda tengslum og fylgjast með honum og að hann fengi þann 15 daga frest sem skýrsluhöfundar dómsmálráðuneytisins telja að beri að veita.

Má [kannski] en þarf alls ekki

Dyflinnar samningurinn á að tryggja að allir fái einhversstaðar lágmarks málsmeðferð og að ef ekkert annað landi vill geri það sé það skylda fyrsta viðkomulands. Grikkir ráða hinsvegar ekki við vandann og tryggja ekki fólki lágmarks meðferð, aðstoð og vernd jafnvel ekki svefnpláss.

- Allar ákvarðanir dómsmálaráðherra hér eru pólitískar ákvarðanir - hún má (kannski) en þarf alls ekki. - Engin lög eða reglur banna Rögnu að veita Noor og þeim öðrum sem hún sendi nú til Grikklands hæli, eða skylda hana til að senda hann úr landi - en Ragna gerir það samt, engin lög eða reglur banna Rögnu að leyfa Noor að hafa með sér símann - en Ragna gerir það samt, engin lög eða reglur banna Rögnu að veita Noor 15 daga málsmeðferðarfrest - en Ragna gerir það samt, enginn bannar Rögnu að sjá til þess að hann/þeir geti skipt krónunum sínum í nothæfan pening en Ragna gerir það samt, enginn skyldar Rögnu til að nota heimild Dyflinnarsamningsins um endursendingu til fyrsta Shengenlands en Ragna gerir það samt.


Geðþóttaákvarðanir dómsmálaráðherra

- Allt eru þetta geðþóttaákvarðanir sem Ragna ber ábyrgð á sem sést svo sorglega þegar þær eru færðar uppá raunverulega persónu, þennan 19 ára unga Íraka sem lenti á vergangi þegar fjölskylda hans aðstoðaði innrásarlið okkar og leitað var hefnda fyrir það í heimalandi hans. - Ekkert bannar okkur að veita honum hæli eða skyldar okkur til að senda hann til baka - en við gerum það samt afþví ráðherra telur sig mega það og geta það.

Mannréttindaráðherra ?

Ef það er ámælisvert að ónáða Rögnu á þeim einu stöðum sem til hennar næst og að hneykslanlegt að öskra á Rögnu þegar hún ætlar að tala um mannréttindi á ráðstefnu, þá nær skalinn ekki yfir þann glæp að henda fólki í ruslið eins og Ragna ÁKVEÐUR af geðþótta sínum og stefnu að gera í þessu máli.

Erum við kristið fólk?

Hvernig getur kristið fólk komið svona fram í nafni okkar sem kallar sig kristina þjóð og hefur krossmark í fána sínum?  Í Matteusarguðspjalli 25 segir:

„Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.  ....
Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?
... ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.`“

 

Sjá líka ágætar greinar á Smugunni Ruslið og Herþotur yfir Bagdad


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband