Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Frábær dómsmálaráðherra

Ragnar Árnadóttir sýnir nú að hún er alvöru leiðtogi í sínum málaflokki. Þorir að umgangast flóttafólk eins og manneskjur með alvöru mannréttindi, þorir að taka ákvarðanir, þorir að  tala við mótmælendur sem alvöru borgara þessa lands og án þess að beita ógnandi vopnum og storkandi brynjum lögreglu.
mbl.is Mótmæltu meðferð á hælisleitendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að borga? Þeir sem eiga eða þeir sem ekkert eiga?

Mynd 2009 01 24 16 07 49Ljóst er að við höfum orðið fyrir afar miklu fjárhagslegu áfalli og miklum skaða. Með einhverjum hætti verður í senn að draga úr tekjutapi ríkisins og afla fjár fyrir tjóninu og afborgunum lána. Ljóst er einnig að óhjákvæmilegur er niðurskurður í útgjöldum ríkisins. Eftir sem áður til að halda uppi  velferðarsamfélagi við þessar erfiðu aðstæður verður að sækja einhverstaðar fé. - Ljóst er að þeir sem voru fyrir á mörkum þess að geta framfleytt sér þurftu ekki mikið til að lenda undir þeim mörkum - þar sem þeir eru nú, einnig að þeir eiga nú síður til annarra að sækja sem sjálfir hafa minna en áður.

Sjálfstæðismenn fagna gengishruni krónunnar og lýsa því sem mikilvægu skrefi til bjargar atvinnulífinu sem evran hefði ekki leyft. Gengishrunið merkir þó aðeins að (raun-)laun eru lækkuð og kostnaður heimilanna aukinn. Álagið var flutt frá atvinnugreinum yfir á allan almenning án neinna samninga eða sáttar þar um. 

- Sjálfstæðisflokkur vill ekki að skattar séu auknir á þá tekjuhæstu og þá sem lifðu á fjarmagnstekjum og þurftu nær enga skatta að borga undir þeirra stjórn, og þá sem eru nú og á hverjum tíma að fá mestar tekjur í sinn hlut. Það merkir aðeins að Sjálfstæðisflokkurinn vill enn að allur almenningur og þeir sem ekkert eiga beri óskipt tekjutap ríkisins og skuldir þess. 

Stóra spurningin nú er því sú hvort við, íslenska þjóðin, viljum að þeir sem mest eiga leggi aukalega að mörkum vegna þess mikla tjóns sem þeir og Sjálfstæðisflokkurinn hefur skapað okkur eða hvort enn eigi að hlífa þeim en allur almenningur að bera byrðarnar óskiptar.


Áköf útrás bankanna og hraður vöxtur var vilji Sjálfstæðisflokks

samson2.jpgSamson var eini hópurinn sem lagði mikla áherslu á útrás og vöxt í sínu tilboði, [...]. Fyrir vikið skoraði hópurinn hátt varðandi framtíðarsýn...“ segir á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu sl sunnudag.

Í prýðilega unnum fréttaskýringum Morgunblaðsins um söluna á Landsbanka og Búnaðarbanka sl. sunnudag og mánudag, kemur það skýrt fram að Samson var fært það til þeirra tekna sem réðu úrslitum við mat á tilboðum í Landsbankann að hafa mikinn hug til útrásar og vaxtar bankans og að sú stefna hafi fallið best að hugmyndum og vilja ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem að sölunni stóð. Fyrir vikið fékk Samson að kaupa ráðandi hlut í Landsbankanum fyrir aðeins um 12 milljarða króna. - Hvað ætli ríkið þurfi nú að leggja í bankann bara fyrir endurstofnun íslenska hluta hans að glötuðu öllu lánstrausti og öllu erlendum eignum?

í þessu mati á tilboðsgjöfum í Landsbankann fólust skýr skilaboð og krafa ríkisvaldsins og Sjálfstæðisflokksins til kaupendanna að þeir myndu ráðast í harða útrás og öran vöxt. Einnig að við eftirfylgjandi sölu á Búnaðarbankanum væri tilboðsgjöfum vissast að hafa áþekkar hugmyndir ef þeir ættu að eiga möguleika til að hreppa hnossið.

Geir þarf því að biðjast afsökunar á fleiru en bara hugmyndinni um kjölfestufjárfesti í stað dreifðar eignaraðildar. Það var líka þeirra stefna, Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnar hans, samkvæmt þessu að sá fengi bankana sem hefði stórbrotnastar hugmyndir um útrás þeirra og öran vöxt.

samson3.jpg

samson1_819061.jpg


Ekki ólíklegt að Bárðarbunga fari að kræla á sér

grimsvotnÞað hefur verið óvenju rólegt í gosmálum á Íslandi það sem af er þessari öld. Að jafnaði má reikna með gosi á 3ja ára fresti en enn hefur ekkert eldgos orðið á þessu árþúsundi, þó mörg svæði og eldfjöll séu komin á tíma.

Í nokkur ár eða allt frá 2001 hefur farið hægt vaxandi virkni í og útfrá Bárðarbungu. Það kæmi mér ekki á óvart að hún myndi láta til sín taka á þessu ári eða því næsta. Í raun er liðinn langur tími frá síðustu goshrinu í Bárðarbungukerfinu jafnvel yfir 220 ár, þegar aftur lengst af gaus í Bárðarbungukerfinu á um 40 ára fresti. Á 18. öld gaus þar 10 sinnum svo vitað sé.

Frá gossprungum Bárðarbungukerfisins hafa flætt mikil hraun á stundum þar á meðal Þjórsárhraunin miklu alla leið í sjó fram í Ölfusi. Þá er Veiðivatnasvæðið og hraun þaðan er öll mynduð af umbrotum frá Bárðarbungu. Þá hafa allmikil vatnsflóð vegna jökulhlaupa farið í Jökulsá á fjöllum sem og í Tungná, Þjórsá og Skjálfandafljót vegna umbrota í Bárðarbungu.

Kannski þarf að huga að þessu?


Ágætt að prófkjörin eru yfirstaðin og pólitíkin getur tekið við

Harmonikkuleikari á þing 1Prófkjör eins og við framkvæmum þau hér á Íslandi eru ekki góð leið til að velja á lista.

Árni Páll Árnason er þó vissulega vel að sigri sínum kominn, hann er hreinskiptinn og heiðarlegur stjórnmálmaður, með góða menntun og víðtæka reynslu. Það er heldur ekki valið í efsta sætið sem prófkjörin ráða ekki við heldur miklu fremur það fyrirkomulag að gera kjósendum að númera 6-10 frambjóðendur til að velja í sætin fyrir neðan fyrsta sætið. Flestir sem kjósa í prófkjöri gera það til stuðnings einhvers eins eða tveggja og mest þriggja, en svo verða þeir að fylla uppí töluna og velja þá viðkunnanleg þekkt nöfn til að fylla uppí. Í mínu kjördæmi átti að númera 6-8. Lýðræðislegra væri í raun af hver kjósandi í prófkjöri hefði bara 2-3 atkvæði í stað 6-8, þar sem stærsti kjósendahópurinn gæti þá ekki einn dekkað öll sætin eins og nú er hægt.

Samkvæmt prófkjörsreglum var svo bannað að auglýsa og á móti því banni stóð flokkurinn ekki fyrir sameiginlegri blaðaútgáfu eða neinu þessháttar. Ef flokkurinn hefur ekki efni á slíku og vill samtímis hindra að fjármagn ráði hve vel frambjóðendur geta kynnt sig, verður hann að standa öðruvísi að valinu - nýtt fólk verður að fá að kynna sig með myndarlegum hætti. Ein leiðin væri að við netkosningu yrði að fara í gegnum síður með kynningu á frambjóðendum til að geta kosið, önnur að til að fá leyniorðið þyrfti að mæta á framboðsfundi og svo sem margt fleira. 

Aðalatriðið er að ef Samfylkingin vill takmarka hvað auglýsingar og fé ræður miklu um niðurstöðu prófkjörs verður Samfylkingin að finna lýðræðislegar útfærslur sem gefa nýjum frambjóðendum verðug tækifæri til að kynna sig. Við sjálft kjörið ætti svo ekki að fela hverjum kjósanda að merkja nema við helming þeirra sem prófkjörið á að velja. T.d. 2 ef prófkjör á að velja 4 frambjóðendur og 3 ef velja á 6. Það kemur í veg fyrir að stærsti kjósendahópur geti í raun ráðið öllum eða flestum sætum sem kosið er um.

En það er ágætt að prófkjörin eru yfirstaðin og pólitíkin getur tekið við en menn ættu að draga meiri lærdóm en þeir gera af prófkjörunum.


mbl.is Víglínan markast í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar vilja ekki „fólk með vesen“

Gamli maðurinn og þinghúsiðÍslendingar líta almennt þannig á að fólkið sem bendir á hvað er að og vill af alvöru taka á ógnum og vandamálum áður en við hnjótum um þau sé „fólk með vesen“ og Íslendingar vilja ekki „fólk með vesen“ á framboðslista.

Það er reyndar megin ástæða þess hvernig komið er fyrir okkur ásamt því hvernig aðferðir við höfum notað um langt skeið til að velja fólk á framboðslista. „Fólk með vesen“ á ekki nokkra möguleika á að komast í þokkaleg sæti á framboðslistum. Við viljum ekki að neinn ruggi bátnum og ef við mætum vandamáli viljum við að tekist sé á við það með minnstu mögulegu aðgerð og ekki fyrr en við beinlínis rekumst á vandamálið sem beina hindrun. Við erum þannig hinir fullkomnu fulltrúar „smáskrefaákvarðana“ sem í raun láta vandamálin leiða sig með því að marka aldrei eigin stefnu nema þá að skipta um kúrs við beina hindrun, í raun jafn gáfulega og „gáfaða ryksugan“.  Þess vegna skjótum við sendiboðana  sem segja okkur slæm tíðindi, svo ekki sé talað um þá sem reka framan í okkur spegil í viðleitni til að neyða okkur til að horfa framan í okkur sjálf.

Þeir sem því veljast til forystu eru þeir sem þögðu og gættu þess best að brosa framan í alla og vera ekki með neitt vesen.

Prófkjörin eins og við höfum þau þar sem hver kjósandi á að velja marga frambjóðendur hvort sem hann mætir til leiks til stuðnings aðeins einum eða fleirum, tryggja það svo að „fólk með vesen“ á enga möguleika.  Þeir sem þátttakendur númera í annað sæti og neðar eru fyrst og fremst þeir sem fólk kannast við, þ.e. þekkt nöfn og hefur ekki verið með neitt vesen - þægilegt þekkt fólk. - Íslendingar velja því fólk í prófkjörum sem er þægilegt og þekkt en ekki með neitt vesen.

Það veljast ekki leiðtogaefni eða hreinskilnir skörungar með þessum aðferðum heldur aðeins þægileg þekkt andlit sem eru ekki með neitt vesen.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband