Við höfum engu að tapa með ESB-aðild og Evru

dalvikÞað ætti að vera sérstakt rannsóknarefni afhverju sumir foringjar Sjálfstæðisflokks og forysta sjávarútvegsins er raunverulega á móti ESB aðild. Nær allar ástæður sem ég hef heyrt nefndar eru í raun ómerkar t.d. töpum við engum fiskveiðastjórnunarrétti í reynd til ESB.

Þar er fyrir það fyrsta úthlutað ríkjakvótum sem ríkin sjálf svo endurúthluta og stjórna eins og hentar bara að reglur sé réttlátar gangi jafnt yfir alla þegna ríkisins. Ríkjakvótarnir taka mið af hefð og innri stöðugleika sem merkir t.d. að engin önnur þjóð fengi úthluta kvóta á íslandsmiðum. Í annan stað þá er það hefð hjá ESB að þær þjóðir sem eru sérlega háðar sérstökum þáttum fá ríkari rétt á því sviði en aðrar þjóðir það má því gera sér rökstuddar vonir um að við fengjum extra aðgang að kvótum ESB t.d. síldarkvótum ESB í norsk-íslensku síldinni, einnig að við hefðum meira um stjórn að segja á þessu sviði en aðrar þjóðir. - í það minnst ættum við þar aðgang ef hrun yrði á íslandsmiðum. Þá tryggir ESB lágmarks fiskverð til sjómanna og greiðir hluta þess úr sínum sjóðum ef þess þarf. Einnig eru þar margskonar sjóðir bæði til þróunar og verndar sem sjávarútvegurinn fengi aðgang að.

- Í heild væri um augljósan ávinning að ræða - nema einhver falin þáttur sé hin raunverulega orsök andstöðunnar. Folk_0114

Þá er því stundum haldið fram að ESB gæti breytt reglum sínum og ákveðið snarlega að hafa allt af íslendingum, það náttúrlega stenst engan vegin því allt regluverk ESB grundvallast á miklu strangri réttmætisreglum en við þekkjum og er því miklu fyrirsjálegra um allt slíkt. Það er í raun miklu meiri líkur á að Sameinuðu þjóðirnar ákvæðu fyrirvarlaust að fela USA yfirráð og stjórn íslands en ESB ákvæði einhliða að hafa af okkur fiskimiðin að hluta eða að fullu, Það er líka megin regla ESB að brjóta aldrei gegn grundvallarhagsmun neins aðildarríkis síns - þegar sú regla væri brotin væri ESB þar með liðið undir lok.

Ég velti því nú fyrir mér í ljósi úrskurðar mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um kvótann hvort enn sé þessi þjóð að blæða fyrir gjafakvótann  - að það sé í reynd ástæðan fyrir andstöðunni meðal útgerðarmanna og forystu Sjálfstæðisflokks við ESB aðild að menn viti að það að gefa útgerðinni kvótann og heimila þeim sem ekki vildu nota hann sjálfir að selja hann og hirða sjálfir söluverðið í stað þess að skila honum þjóðinni væri brot á mannréttindum þjóðarinnar og eignarétti hennar á fiskinum í sjónum.

Grundvallar regla ESB fyrir öllum afskiptum og reglum er að sameiginlegur vandi þarfnast sameiginlegra lausna þess vegna skiptir ESB sér ekki að veiðum við eyjar undir yfiráðum t.d. frakka í Kyrrahafi einfaldlega vegna þess að  fiskveiðistjórnun þar er ekki sameiginlegur vandi með öðrum ESB ríkjum, við eigum því að gera kröfu um að  ESB farði að eigin grunnreglum. Önnur er nándarreglan um að hverju máli eigi að leia til lykta eins nálægt vettvangi og unnt er. Þau rök gilda líka til að krefjast þess að ESB skipti sér ekki af okkar hafsvæðum heldur sættist á að við stjórnum þeim að fullu - nema ef vera kynni flökkustofnum.

- En jafnvel þó eigin reglur ESB gæfu okkur ekki slíka niðurstöðu þá hefur sjávarútvegur engu að tapa með ESB aðild og þjóðin sjálf allt að vinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Pétursson

Það er gott að þú vekur athygli á andúð foringjaliðs Sjkálfstæðisfl. á aðildinni að ESB. Flestir fokksbræður þeirra í atvinnurekstri vilja aðild að EBS og öllum ætti að vera orðið ljóst að krónan er ónothæf mynt á nánast öllum sviðum efnahags - og viðskiptamála.

Það er virkilega rannsóknarefni að fá fram í dagsljósið hvaða megin ástæður  eru fyrir því að ráðhr.og þingmenn flokksins eru allir andvígir aðildinni að ESB

Kristján Pétursson, 13.2.2008 kl. 21:56

2 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Ríkar þjóðir Evrópu borga inn í ESB, fátækar fá út úr ESB.  Það er alveg ljóst í hvorum hópnum við erum.  Við töpum alla vega þeim milljörðum árlega sem við þyrftum að greiða inn.  Síðan er spurningin hvað við fengjum marga til baka.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 13.2.2008 kl. 22:48

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ég gæti nú haldið langa ræðu um það hvers vegna við höfum ekkert að gera í Evrópusambandið, en ætla að láta nægja að tala um kjarna málsins fyrst því er haldið hér fram að við munum engu tapa á aðild. Við myndum fyrst og fremst tapa fullveldinu og sjálfstæðinu. Það er ekki flóknara en það þegar allt kemur til alls.

Í því sambandi nægir að lesa skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra þar sem m.a. er fjallað um þau áhrif sem við myndum hafa innan Evrópusambandsins. Engar líkur eru á öðru en að þau áhrif yrðu vægast sagt lítil, þ.m.t. þegar kæmi að sjávarútvegsmálum sem öðrum. Við hefðum þannig margfalt minna um það að segja sem gerðist innan sambandsins en Frjálslyndi flokkurinn hefur um mál að segja á Alþingi.

Hér er umfjöllun um þetta grundvallaratriði málsins byggð á skýrslu nefndarinnar:

Hver yrðu áhrif Íslands innan ESB?

Því er gjarnan haldið fram af þeim sem vilja ganga í Evrópusambandið að aðild sé nauðsynleg til þess að við getum haft áhrif innan sambandsins. Látið er eins og þessi áhrif yrðu mikil og jafnvel ýjað að því að við myndum ráða öllu þar á bæ sem við vildum. Minna er hins vegar farið út í það  nákvæmlega hversu mikil þessi áhrif kynnu að verða. Í ítarlegri og fróðlegri skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra, sem nefndin sendi frá sér í marz sl., er þessu gerð skil á bls. 83-85.

Formleg áhrif aðildarríkja Evrópusambandsins innan þess miðast fyrst og fremst við íbúafjölda þeirra sem verður að teljast afar óhagstæður mælikvarði fyrir okkur Íslendinga. Gera má því ráð fyrir að áhrif okkar innan sambandsins yrðu hliðstæð og Möltu en þar bjuggu um 400 þúsund manns í lok síðasta árs. Ísland yrði ásamt Möltu fámennasta aðildarríkið og þar með með minnstu áhrifin.

    "Formleg áhrif aðildarríkja Evrópusambandsins innan þess miðast fyrst og fremst við íbúafjölda þeirra sem verður að teljast afar óhagstæður mælikvarði fyrir okkur Íslendinga."

Ísland fengi einn fulltrúa í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Í Nice-sáttamálanum er gert ráð fyrir að þegar aðildarríkin eru orðin 27 (sem þau urðu um síðustu áramót) verði fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni færri en aðildarríkin sem kemur væntanlega til framkvæmda við skipun næstu framkvæmdastjórnar árið 2009 að óbreyttu. Í fyrirhugaðri stjórnaraskrá sambandsins er hins vegar gert ráð fyrir að hvert aðildarríki eigi aðeins fulltrúa í framkvæmdastjórninni annað hvert kjörtímabil en kjörtímabilið er 5 ár.

Þess ber þó að geta að fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni eru í raun einungis fulltrúar aðildarríkjanna að því leyti að ríkisstjórnir þeirra tilnefna þá. Þess utan er þeim óheimilt að draga taum heimalanda sinna og ber einungis að líta til heildarhagsmuna Evrópusambandsins.

Í leiðtogaráðinu sitja leiðtogar aðildarríkjanna og forsætisráðherra Íslands myndi sitja þar sem fulltrúi landsins. Í ráðherraráðinu myndi Ísland væntanlega fá þrjú atkvæði af 345. Á Evrópusambandsþinginu fengjum við 5 þingmenn af 785, 6 af 750 ef fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins verður samþykkt. M.ö.o. vel innan við 1% vægi í báðum tilfellum.

Í efnahags- og félagsmálanefnd sambandsins, sem og héraðanefnd þess, myndi Ísland væntanlega líkt og Malta fá fimm fulltrúa en alls eru 344 fulltrúar í þessum nefndum í dag.

Ísland myndi tilnefna einn dómara í dómstól Evrópusambandsins en hann væri, líkt og fulltrúann í framkvæmdastjórninn, ekki fulltrúi íslenzkra hagsmuna.

Aðildarríkin skiptast á að vera í forsæti ráðherraráðsins í sex mánuði í senn. Miðað við 28 aðildarríki færi Ísland með forsætið á 14 ára fresti. Ef stjórnarskráin verður samþykkt verður þetta kerfi afnumið og í staðinn kemur sérstakur kjörinn forseti ráðsins.

Að öðru leyti myndi í raun ekkert breytast við aðild hvað varðar áhrif okkar innan Evrópusambandsins. Aðaláhrif Íslands innan sambandsins myndu áfram byggjast á "lobbyisma", rétt eins og raunin er í dag. Á móti myndum við gefa eftir yfirráð okkar yfir flestum okkar málum en lítið sem ekkert hafa um þau að segja eftir það.

Hjörtur J. Guðmundsson

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.2.2008 kl. 00:12

4 Smámynd: Björn Heiðdal

Kæri Hjörtur er það ekki kjarni málsins.  Margir Íslendingar vilja losna við kosningar til Alþingis og alveg sérstaklega Ólaf forseta.  Þessir þjóðhollu Íslandsvinir bíða síðan með gæsina í hálsinum eftir að fá t.d. Tony Blair sem forseta eða Sarkozy.  

Já, já, sama fólkið sem er á móti Íraksstríðinu og tilbiður ekki páfann í Róm vill beygja sig fyrir nýjum forseta ESB.  Talandi um að sjá ekki skóginn fyrir trjánum og skilja ekki að ESB er ekki lengur sama fyrirbærið og fyrir 15 árum síðan. 

Björn Heiðdal, 14.2.2008 kl. 02:47

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er náttúrlega eins og hvert annað bull að við töpum fullveldinu og sjálfstæði og sýnir best hve rakalaus andstaða við þáttöku okkar í ESB er. Ekkert dæmi er um að þjóð hafi tapað fullveldi sínu eða sjálfstæði við að ganga í ESB þvert á móti fá smáþjóðir þar völd og áhrif sem þær höfðu aldrei áður - það segja allar smáþjóðirnar þar sjálfar t.d. Luxemborg.

Hvað Davíð fékk skrifað í forsætisráðherraskýrlsu um málið er bara bull við hliðina á svörum smáþjóðann sjálfra og reynslu þeirra.

- Ef við þorum ekki að setjast til borðs með alvöru þátttakendum alþjóðamála þá eiga menn að segja það - annars eigum við að sjálfsögðu að setjaðst við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar hjá ESB - allir sem koma þar að borði sem ákvarðanir eru teknar og hafa þar málfrelsi svo ekki sé talað um tillögu og atkvæðisrétt hafa áhrif. Hver sem það hefur reynt veit það.

Helgi Jóhann Hauksson, 14.2.2008 kl. 04:49

6 identicon

Þessi rök með að við töpum fullveldi og sjálfstæði eru ótrúleg þvæla. Sérstaklega þegar þau eru sett í samhengi við aldalanga baráttu við að öðlast sjálfstæði frá dönum. Það er auðvitað ekkert sameiginlegt með þessu tvennu. Eru hin ríkin, þ.m.t. Danmörk, Svíðþjóð og Finnland ekki fullvalda og sjálfstæð? Hér er frekar um að ræða einhverskonar stæka þjóðernisrembu ákveðinna einstaklinga sem skilja ekki þær breytingar sem hafa átt sér stað í Evrópu.

Þetta með áhrifaleysi Íslands innan ESB eru álíka léleg rök. Það er augljóst að smáríki eins og ísland hefur minni áhrfi en stærri þjóðir í öllu ríkjasamstarfi. Erum við ekki aðilar að Nato, Sameinuðu þjóðunum, WTO ofl. alþjóðlegum ríkjasamböndum? Hver eru okkar áhrif þar? Ástæðan fyrir því að við gengum inn í þessi ríkjasambönd voru þau að tryggja hagsmuni okkar. Það sama gildir um inngöngu í ESB. Hagsmunirnir eru einfaldlega miklu meiri en ókostirnir.  

Babbitt (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 10:48

7 identicon

Sæll Helgi. Er fyrrverandi bekkjarfélagi Hauks frá Laugum í Sælingsdag. Ég þori nú ekki að blanda mér í þessar umræður hér að ofan en er að velta fyrir mér hvort þú getur bjargað mér um netfang hjá honum Hauki. Erum að undirbúa bekkjarmót seinna á árinu og erum að safna netföngum. Ef þú getur hjálpað mér þá endilega sendu mér línu á bjg@ru.is

Björk Guðbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 11:08

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er auðvitað hárrétt Babbitt að við fáum aukið vald og áhrif yfir bæði okkar eigin málum sem við höfum ekki áhrif á í dag t.d. reglusetningu í ESB sem við lútum nú þegar en að auki fáum við meiri áhrif og völd á málefnum umheimsins en áður. Þess vegna aukum við vald okkar en skerðum það ekki með ESB aðild.
Ef það má kalla stöðu okkar í dag „fullveldi“ þá hefðum við „fullveldi extra“ eftir inngöngu í ESB. - Auðvitað er engin þjóð bókstaflega fullvalda um öll sín mál- jafnvel USA er háð alþjóðalögum og samningum þó þeir eigi erfitt með að viðurkenna það og svo eru allar þjóðir háðar ákvörðunum annarra og t.d. efnahagsstöðu stóru efnahagskerfanna USA, ESB, Japan og jafnvel Kína.
- Óráðssía í húnsæðismálum í USA hefur t.d. nú þegar kostað íslendinga hundruð milljarða króna, - erum við þá fullvalda? - Eða hvað merkir það að vera fullvalda ríki? - Er það einhverskonar skýrlífi og einangrunarstefna? - Að gera enga díla við neinn? - Eiga engin mök við neinn annan á taflaborði þátttakanda alþjóðamálanna? - Er skopparkringla fullvalda? - enginn getur tekið á henni  eða komist að henni og hún skutlast samstundis til og frá ef hún er snert - varðveitir fullveldi sitt vel - eða hvað? Værum við ekki þess háttar áhrifalausir leiksoppar örlaganna ef við þorum ekki að setjast til borðs með alvöru þátttakendum alþjóðakerfisins og taka á okkur skyldur og öðlast réttindi og áhrif sem því fylgja? Er það fullveldi að vera skopparakringla annarra?

Helgi Jóhann Hauksson, 14.2.2008 kl. 13:26

9 Smámynd: Björn Heiðdal

Af orðum þínum að dæma ertu valdasjúkur!  Sjúkt fólk á aldrei að taka ákvarðanir sem snerta líf og limi annara.  Það er oft varla í ástandi til að sjá um sig sjálft.  En það er kjarninn í þessari ESB aðildarumræðu.  Við getum ekki séð um okkur sjálf og íslenskir stjórnmálaleiðtogar séu óhæfir til að stjórna landinu.  Það kann að vera rétt en varla eru þeir mikið betri Sarkozy og Blair. 

Björn Heiðdal, 15.2.2008 kl. 20:16

10 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Undarlegur vinkill á málin Björn og hrópandi mótsögn, hvorki meira né minna en valdasjúkur fyrir hönd íslendinga en vill líka afsala öllum völdum til útlendinga. - Hvernig sem það er sva hægt.


- Veit ekki hvort svona innlegg sé svaravert eða eigi hér erindi - skal samt láta sem svo sé.
Megin atriðið er að allar ákvarðanir sem varða heiminn í heild varða okkur þar með og við getum haft afstöðu til þeirra og sjónarhorn á þau mál sem skiptir máli fyrir okkur og fyrir umheiminn auk þess sem þau mál geta snert okkur beint með stórbrotnum hætti. - Þessvegna gert okkur gjaldþrota sem þjóð.

Menn settu á laggirnar þing og svo þjóðþing fyrir löngu til að sem flestar raddir og sjónarhorna um hvert mál heyrðust því reynslan sýnir að þannig er líklegast að réttar og réttlátar ákvarðanir séu teknar. - Það er því hagsmunir hverrar ákvörðunar að allar raddir sem hana varða heyrist - og víst er að Ísland er öðruvísi og reynsla okkar önnur og því er rödd okkar sérstök og á  að heyrast þegar ákvarðanir eru teknar fyrir Evrópu og umheiminn.

Hitt að um leið og þú ásakar mig um valdasýki þar sem ég vilji að íslendingar taki þátt þar sem hinar stóru ákvarðanir eru teknar  þá hnýtir þú við að með ESB sé verið að afsala öllu valdi til útlendinga. Hvort ætlar þú að ásaka mig um að sækjast eftir sjúklega miklu valdi til íslendinga eða vilja afsala öllum völdum íslendinga til útlendinga - þetta eru svo hrópandi mótsagnir að ómögulega geta báðar staðhæfingar þínar átt rétt á sér, - reyndar hvorug.

Helgi Jóhann Hauksson, 15.2.2008 kl. 20:48

11 Smámynd: Björn Heiðdal

Mér virðast aðalega vera uppi tvö sjónarmið um það afhverju við eigum að ganga í ESB.  1) Við erum ómöguleg og þurfum utanaðkomandi hjálp. 2) Við þurfum að hafa meiri áhrif á ákvarðanir ESB öllum til hagsbóta.

Ég er sammála því að Íslendingar þurfi viðskipti við útlönd til að dafna og gott væri ef við gætum haft veruleg áhrif á stefnu ESB í málum sem snúa að okkur.  En þessi valdasýki sem blundar í mörgum er mér ekki að skapi.  Tilhvers þarf ESB forseta?  Tilhvers þarf ESB her?  Tilhvers þarf ESB sameiginlega utanríkisstefnu?  Ef ESB er bara samstarfsvettvangur fullvalda þjóða ætti ekkert af þessu að þurfa.

Frændi minn er mjög spenntur fyrir ESB útaf öllum styrkjunum sem hann gæti fengið og fær reyndar núna með EES samstarfinu.  Margir vilja losna við gengisáhættu í viðskiptum og sumir halda kannski að fleiri fiskar fáist í soðið með inngöngu.  En ég segi nei við þig og alla aðra því ESB er að þróast í ranga átt.  

Björn Heiðdal, 15.2.2008 kl. 21:42

12 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta finnst mér allt gildar spurningar.

En spurningin um hversvegna við eigum að hafa áhrif við borð ESB finnst mér vera nákvæmlega sama spurning og af hverju við ættum ekki bara öll að lifa eins og Fjalla-Eyvindur og  Halla þ.e. eingruð án samskipta við annað fólk. - Af hverju ættu Ísfirðingar að heimta þingmenn á Alþingi eða Breiðhyltingar að vilja skipta sér að því sem fram fer í ráðhúsinu við Tjörnina?

Um her þá er stofnun hans ekki á dagskrá að ESB þó áhugi sé á að ESB löndin samræmi hernaðarstefnu sína og geti sýnt hernðarlega samstöðu. Öll viðfangsefni ESB líkt og allra annarra félaga þarf að ræða og fjalla um, sumu er hafnað en annað samþykkt eins og gengur,  og stundum er niðurstað þeirra okkur að skapi og stundum ekki. Líkurnar á að þær séu okkur að skapi eru miklu meiri ef við erum þar með rödd við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. 

Annars virðast herir vera friðsamlegri eftir því sem fleiri þjóðir eiga samstarf. Þannig var ESB beinlínis stofnað eftir seinni heimstyrjöldina undir þeim formerkjum að draga úr hættu á stríði milli Evrópuþjóða. Kenningin var sú að því meiri sameiginlega hagsmuni og viðskipti sem Evrópuþjóðir ættu því minni væri hættan á stríði. Hernaðrsamvinna ESB ætti því að draga úr hættu á að her sé beitt frermur en hitt. Það hefur t.d. sýnt sig að hernaðarsamvinna Nato-ríkja hefur nær eytt stríðshættu þeirra í milli í það minnsta. Svo eru Bandaríkin  t.d. miklu árásagjarnari ein og sér en í bandalagi með öðrum ríkjum - það sama á við hvert ríki fyrir sig. Þessvegna er hernaðarsamvinna í eðli sínu friðvænleg og í sjálfu sér jákvæð. 

Þá vill ESB sýna Bandaríkjunum að ef þau draga sig útúr NATO eða gerast of árásargjörn geti Evrópa verið án þeirra - Evrópa eigi valkost.

Hvernig sem ESB þróast þá erum við háðir þeim og höfum gengist undir ríkar skuldbindingar við ESB - með inngöngu breytast áhrif þeirra lítið gagnvart okkur en við getum látið rödd okkar heyrast þar og haft áhrif á að þróunin verði okkur fremur að skapi en annars væri. Fyrir utan allskyns öryggi og stöðugleika sem fylgdi aðild.

Helgi Jóhann Hauksson, 15.2.2008 kl. 22:57

13 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég sé að þessi umræða hjá þér er á trúarlegum nótum.  Þá gilda rök lítið og menn segja jú víst út í það óendanlega.  Þeir sem hafa einhverjar efasemdir um fulla aðild eru afskrifaðir sem Evrópuhatarar.

Þessi svör þín við mínum spurningum minna á svör úlfsins í ævintýrinu um Rauðhettu.  ESB er að þróast í átt að stóru ríkjabandalagi með sameiginlegan her og forseta.  En þú kýst að gera mjög lítið úr mínum áhyggjum.  Kallar nánast þessa "hraðsveit", sem á að geta beitt sér hvar sem er í heiminum með stuttum fyrirvara, friðarskáta sem selja nýbakaðar smákökur.  Svarar engu um nýjan forseta og heldur að Íslendingar í dag séu allir upp á fjöllum að tína grös.

Ég held að þú sért að rugla saman asíunum sem tína dósir upp úr ruslinu og frænda mínum, Fjalla-Eyvindi.

Björn Heiðdal, 16.2.2008 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband