Klámið er löngu gengið yfir allt ásættanlegt velsæmi og reynir sífellt að toppa sjálft sig, en satt best að segja hélt ég nú á tímum upplóstranna um hleranir og njósnamiðstöð lögreglu, að eftir að Steingrímur J hreyfði kröfu sinni í Silfri Egils, um að stofnuð yrði ,,netlögregla" til að fylgjast með umferð efnis á netinu myndi greinast merkjanleg minnkun í stuðningi við hann og VG. Það hefur ekki orðið, heldur þvert á móti hefur Steingrímu og VG enn bætt við sig fylgi samkvæmt skoðanakönnunum sem auðvitað er gaman og ánægjulegt fyrir hans hönd, og á margan hátt verðskuldað.
En nú hefur Steingrímur ítrekað í útvarpsviðtali áform sín um netlöggu og að leggja þurfi lögreglunni til tæki, tól og aðstöðu "til að fylgjast með umferð á netinu".
Þeir sem eru eldri en tvævetur hrökkva við þegar svona er talað, ekki síst í kjölfar frétta um hleranir lögreglu frá fyrri tíma. Hér er um afar vandmeðfarið mál að ræða. Það er til dæmis grundvallar munur á því hvort lögregla fær heimild til að fylgjast með netnotkun borgaranna eða aðeins því efni sem birt er á netinu (og það er vart vandamálið hér). Ef lögreglan á að fá tæki og tól til að fylgjast með netnotkun borgaranna til "klámhundaveiða", er óhjákvæmilegt að hún verði ýmissa annarra hluta vísari í leiðinni því hún veit ekki fyrirfram hverjir eru sekir. T.d. hverjir sækjast eftir ýmsu jaðar-pólitísku efni t.d. þeirra ungdómssamtaka sem líta á sig sem einskonar heild í grasrót Evrópu og brýst nú fram í mótmælum við niðurbrot Ungdómshússins í Kh. - Eða fjármálalegum upplýsingum, eða um aðgerðir stjórnarandstöðunnar til að vinna kosningar, eða trúarlegum upplýsingum .... og svo frv.
Það er enginn leið að tryggja fyrirfram að aðgerðir og eftirlit beinist bara að verstu "klámhundum" þegar upplýsinga er aflað til að finna hverjir eru "klámhundar". Auk þess vitum við af sögu lögreglueftirlits allstaðar í heiminum að þegar til staðar eru uppsett og auðnýtanleg tæki á lögreglustöð til að afla upplýsinga um samskipti manna þá eru þau notið við hvert hentugt tækifæri þegar lögregla eða yfirvöld finna til venjulegrar vænisýki sinnar og vanmáttar. Skiptir þá engu hvort við völd er hægri eða vinstri stjórn.
Auk þess að þá breytir vitneskjan um netlöggu með svo greiðan aðgang nethegðun fólks. Ekki bara "klámhunda" heldur líka þeirra sem afla sér hugmyndafræðilegs lesefnis, hvort sem stjórnvöld raunverulega fylgjast með þeim eða ekki. Sumir myndu hugsanlega forðast að "leita" að og opna síður nátturverndarsinna ef þeir vildu ekki að sitjandi ríkisstjórn teldi þá halla undir þann málsstað, aðrir færu ekki inná síður anarkista ef þeir vissu að netlögreglan væri í virku eftiliti með efni sem fólk sækir sér og svo framvegis.
Fyrir utan að Stengrímur veit ekki hverskonar ríkisvald verður hér í framtíðinni t.d. hvort þjóðernissinnar nái hér völdum í samsteypustjórn með (ímynduðum) nýjum hægriflokki og ef SJS væri búinn að koma á netlögreglu þyrfti engu að breyta til þess beinlínis að leita að "útlendingasleikjum" í stað "klámhunda".
Klámið er löngu gengið yfir allt ásættanlegt velsæmi og reynir sífellt að toppa sjálft sig, en eftirlit þarf með alþjóðlegu samstarfi að beinast að framleiðlsu þess og birtingu en ekki að borgurunum og netnotkun þeirra. Einnig þarf að hindra að klámi sé ekki otað að fólki og börnum óumbeðið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 10. mars 2007 (breytt kl. 20:06) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.