Sá háttur sem Hafnfirðingar höfðu á kosningunni um álverið er á margan hátt lofsverður, þar á meðal að bæjarfulltrúar og bæjarstjórinn skyldu láta öðrum eftir skoðanamótun. Um það ber fulltrúum allra flokka í bænum lof. Málið var einfaldlega ekki gert flokkspólitískt innan bæjarins.
Það er því hvort tveggja jafn ósmekklegt þegar reynt er að höggva til Samfylkingarinnar á þeirri forsendu að bæjarstjórinn hafi ekki tekið opinbera afstöðu -og þegar Samfylkingunni einni er bæði eignaður og kenndur þessi merki atburður. Vissulega átti Samfylkingin hér frumkvæði en aðrir flokkar í Hafnarfirði fylgdu henni og studdu þessa málsmeðferð um allt sem mestu varðar, þar á meðal að láta bæjarbúum eftir að að taka afstöðu án þess að pólitíkusarnir stýrðu skoðanamyndun.
Það er þó ekki þar með sagt að öðruvísi geti ekki átt við undir öðrum kringumstæðum. Mál eru einfaldlega mis flokkspólitísk og eðlisólík t.d. hvort um grundvallarstefnu er að ræða eða einstaka ákvörðun þó stór sé, landsmál eða sveitarstjórnarmál. Það tíðkaðist t.d. ekki að stjórnmálamenn tækju afstöðu í kosningum um áfengisútsölur og hundahald hér áður, en næsta víst munu þeir taka afstöðu ef máli verður skotið til þjóðarinnar af forseta með synjun á staðfestingu laga, og auðvitað munu þeir taka afstöðu ef ESB samningur fær einhverntíman að fara fyrir þjóðina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Sunnudagur, 1. apríl 2007 (breytt kl. 17:13) | Facebook
Athugasemdir
Stærsta mál samtímans, sem sumir kalla svo, Kárahnjúkavirkjun, var keyrð í gegn á einu kjörtímabili, án þess að minnst hefði verið á hana fyrir kosningarnar 1999. Tillögum um þjóðaratkvæðagreiðslu var bara eytt. Hefði ekki átt að vera ein slík þá ?
Pétur Þorleifsson , 1.4.2007 kl. 17:26
Samfylkining á lof skilið fyrir að taka upp beint lýðræði þegar svona er annars vegar, enda erfitt að fara að skilgreina álver til hægri eða vinstri. Það má eftirvill gagnrýna samfylkinguna fyrir að hafa ekki tekið afstöðu til málsins. Hammurbi hefði fundist það jafnvel til marks um enn meiri styrk, að þora að taka afstöðu en samt setja þetta í dóm götunnar. Tek ofan fyrir Samfylkunni.
Næsta skref, kjósa um framtíðarskipulag allrar borgarinnar. Svo geta flokkarnir deilt um það í bæjar og borgarstjórnum hvernig best er að framkvæma áætlunina.
Hammurabi, 1.4.2007 kl. 18:07
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar á hrós skylið fyrir staðfestuna og láta ekki uppi um sína afstöðu, þetta er jú Bæjarstjórn allra Hafnfirðinga.
Til hamingju
Ævar (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 20:01
Ef stjórnmálamennirnir sjálfir láta ekki uppi skoðanir sínar á mikilvægum málefnum, eiga þeir þá ekki að snúa sér að einhverjum öðrum störfum?
Júlíus Valsson, 2.4.2007 kl. 14:13
Er það ekki líka mikilvæg skoðun og stór ákvörðun að fela íbúum að greiða atkvæði um svona mál? - Reyndar miklu stærri en spurningin sem lögð var fyrir íbúana.
Helgi Jóhann Hauksson, 2.4.2007 kl. 16:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.