Rógur er ógeðfeld list sem sumir iðka af markvissri snilld

Rógur er ógeðfeld list eða kúnst sem sumir iðka af markvissri snilld. Ég gerði mér ekki grein fyrir að til væri skynsamt, þroskað og vel menntað fólk sem beitti vísvitandi rógi til að ná markmiðum sínum fyrr en í alþingiskosningum 1987 að ég þá þrítugur að aldri og skólastjóri í Súðavík varði páskafríinu og öðrum lausum tíma mínum til að annast Skutul blað Alþýðuflokksins á Ísafirði og fleira kosningaefni fyrir flokkinn. Baráttan var hörð því Alþýðuflokkurinn átti vart von á nema einum þingmanni en Karvel Pálmason skipaði þá fyrsta sæti listans og Sighvatur Björgvinsson þingmaður annað sæti eftir sögulegt prófkjör. Mikilvægt þótti að koma þeim báðum inn á þing þó ekki væri nema til að halda þokkalegum sáttum innan flokksins. Öllum að óvörum tókst okkur reyndar einmitt það.
Draugadans_01En snúum okkur aftur að róginum. Þennan dag kom það í minn  hlut að sækja Sighvat Björgvinsson út á flugvöll og sinna ýmsu með honum. Fyrst og fremst stóð til að taka hópmynd af öllum listanum með hópi stuðningsmanna og allir brosandi með rós í hönd á tröppum Alþýðuhússins þ.e. bíósins,  og að því loknu að frambjóðendur dreifðu rósum til vegfarenda fyrir framan kaupfélagið. Þetta tókst allt mjög vel og dagurinn var einkar vel heppnaður, fagur og bjartur. M.a. náði ég góðri mynd af Sighvati gefa Matthíasi Bjarnasyni þáverandi heilbrigðis- og viðskiptaráðherra rós sem þáði hana með góðum þökkum og bros á vör.
Eitthvað var líka fundað og farið yfir málin og að loknum góðum degi ók ég Sighvati aftur útá flugvöll í síðdegisvélina suður.
Nú var kominn kvöldmatur og samt verk eftir óunnin áður en ég færi til Súðavíkur svo ég fór á ágætan matsölustað á Ísafirði þar sem þá fengust að okkar mati bestu pítur á landinu. Fleira fólk kunni að meta þennan ágæta stað svo á þessum tíma dags voru flest sæti setin. Þar sem ég var þar staddur einn á bási með sjálfum mér að njóta pítunnar sáttur við vel heppnað dagsverk kemur askvaðandi inná veitingastaðinn þekktur maður úr bænum, ríkisstarfsmaður, kannski 15 árum eldri en ég og virkur þátttakandi í kosningabaráttu annars stjórnmálflokks og vindur sér beint að gestunum á næsta borði sem hann virtist þekkja og spyr:

-    Hafiði heyrt þetta með Sighvat?
-    Ha! Hvað?
-    Sighvatur Björgvinsson var haugfullur að gefa rósir fyrir framan Kaupfélagið, hann kom fullur að sunnan og það hefur ekki runnið af honum síðan.
-    Neeeei?
-    Júúú ég get svarið það, það er ótrúlegt að maðurinn leyfi sér þetta um miðjan dag, hann gat varla staðið, skjögraði á milli bíla og skapaði stórhættu, - það er ekki hægt að þegja yfir svona löguðu.


Um leið og rógberinn hafði sleppt orðinu snéri hann sér að öðru borði og byrjaði með sama hætti. “Hafið þið heyrt það? …”

Mér var hinsvegar illa brugðið og stóð nú upp og spurði yfir alla hvað hann væri að leyfa sér að segja.
“Jújú þetta er alveg satt …” sagði hann.
“En heyrðu góði minn ég var bara rétt í þessu að koma frá því að aka Sighvati útá flugvöll og ég er búinn að vera með honum í allan dag frá því ég sótti hann útá völl í morgun og þar hefur bara alls ekkert vín eða ölvun komið við sögu” svaraði ég fullum hálsi.Vinnumyndir_ 2005-03-14 20-43-05

Þá gekk maðurinn rólega til mín og sagði mér að setjast aftur sem ég gerði og settist svo sjálfur hjá mér.
“Þú átt greinilega margt eftir ólært vinur minn”, sagði hann nú ábúðamikill. “Við Sighvatur erum ágætis kunningjar, ég veit  vel að hann var ekki fullur en svona er nú bara kosningabaráttan hér fyrir vestan, ég verð að hugsa um minn flokk og þetta rósavesen  ykkar er nú ekkert voðalega málefnalegt heldur, -eitthvað verðum við að gera á móti því. - Taktu þetta nú ekki of alvarlega svona er þetta bara…  - og verði þér að góðu” sagði hann svo og stóð upp og gekk út. Ég sat höggdofa eftir. – Gat þetta í alvöru verið að gerast fyrir framan mig að vel metinn og vel menntaður maður í góðri stöðu á miðjum aldri gengi bókstaflega um og lygi vísvitandi og markvist uppá annað fólk?

– Vá! 

Eftir þetta hef ég fylgst öðruvísi með öllum söguburði og séð mörg líkleg tilvik um vísvitandi lygi um fólk og persónur en þó aldrei með svo skýrum hætti að öll atvik gerðust fyrir framan mig. Allt fram að þessu hafði ég talið að illkvittnar og rangar sögur yrðu aðeins til sem einhverskonar sannleikur í hugum þeirra sem sköpuðu þær en af vanþekkingu, litlum upplýsingum, röngum ályktunum, misskilningi, vænisýki og ranghugmyndum, en ekki að venjulegt fullorðið fólk bókstaflega vísvitandi skapaði slíkar sögur fullkomlega vitandi um það væri að ljúga uppá fólk og héldi því fram að þetta væri viðtekið og sjálfsagt.

Ég hef ekki komist hjá að velta fyrir mér orðum mannsins um að "svona væri bara kosningabaráttan" og hvort eitthvað væri til í því. Það þarf ekki marga til að búa til sögur. Á löngum tíma hef ég heyrt allskyns staðhæfingar um fólk í pólitík og ekki síst þá sem eru "efnilegir" á ýmsum aldri og eru að byrja að gera sig gildandi - meiðandi staðhæfingar sem ég hef engin tök á að sannreyna en hafa mikli áhrif.  Sögurnar fara ekki hátt heldur eru sagðar í "trúnaði" og svo sér slúðri um að breiða þær út "í trúnaði".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góður sannleikur ,en svona er þetta þvi miður/En á löngum ferli hefur maður lært að það er best að trua ekki öllu sem sagt er sist i henni Politik/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 27.5.2007 kl. 20:27

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Viljirðu svívirða saklausan mann

segðu þá engar ákveðnar skammir um hann

 en láttu það svona í veðrinu vaka

að þú vitir að hann hafi unnið til saka.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.5.2007 kl. 00:48

3 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hef stundum verið að velta þessu fyrir mér. Maður á afskaplega erfitt með að trúa þvi, eins og þú segir, að fólk ljúgi vísvitandi upp á annað fólk. En þannig er nú víst til, því miður.

Jóna Á. Gísladóttir, 28.5.2007 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband