Krían er skyndilega hætt að verpa á Sv horninu. En nú finnst mér Það ekki síður merkilegt að finna vart þresti á reyniberjatrjám borgarinnar í haust til að ljósmynda. Í október undanfarin ár hef ég ár skimað eftir fallegum þröstum við berjaát á reyniberjatrjánum fyrir myndefni - en viti menn þrestir sjást varla á höfuðborgar- svæðinu þetta haust - og heldur ekki starrar, vart lóur og jafnvel gæsir eru miklu færri en venjulega.
Hvað spörfuglana varðar er vart hægt að kenna um ætisskorti þar sem berjatré eins og reynitrén eru hlaðin berjum sem aldrei fyrr. Mér tekst hinsvegar vart að finna þresti í berjatrjám í haust - og reyndar heldur ekki aðra fugla.
Auðnutittlingar eru í grenitrjám í Fossvogskirkjugarði og éta fræin innan úr gernikönglum og þar er svo sem eitthvað líka af öðrum spörfuglum svo sem þröstum en ótrúlega lítið miðað við það sem þar er venjulega á haustin.
Jafnvel mávar sem venjulega sitja á hverjum staur í mínu hverfi á haustin sjást ekki í haust, og gæsirnar koma ekki á túnin hér eins og venjulega. - Hvað ætli sé að gerast?
Hefur verið gripið til of harkalegra aðgerða til að fæla mávana frá svo aðrir fuglar hafi fælist líka? -eða er eitthvað að gerast í náttúrunni sem við áttum okkur ekki á? - Hver veit svo sem? Gaman væri að fá skoðanir annarra um þetta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 20. október 2007 (breytt kl. 22:13) | Facebook
Athugasemdir
Merkileg athugasemd. Sammála að æað er lítið um spörfugla í borginni. Þess ber þó a geta að á öllum heiðum er nú krökkt af berjhaft um og frost hafa verið með minna móti og kann það að hafa áhrif. Þetta þarf þó að rannsaka nánar. Fínar myndir hjá þér!
Júlíus Valsson, 20.10.2007 kl. 10:46
Sorgleg fjarvera flestra smáfuglanna hefur mér sýnzt vera staðreynd síðan í vor. Ég er sammála ykkur, Helgi og Júlíus, það þarf að finna skýringu á þessu. Getur verið, að skorturinn á sandsílum í hafinu valdi því, að vargfugl hafi lagzt frekar á smáfuglinn?
Jón Valur Jensson, 20.10.2007 kl. 12:55
PS. Virkilega fallegar eru þær myndirnar þínar. Kemur við hjartað í manni, hvað orðið hafi um þessa smávini okkar.
Jón Valur Jensson, 20.10.2007 kl. 12:57
Takk Halla, Júlíus og Jón fyrir innlegg - og já takk, ég tek flestar myndir hér sjálfur þar á meðal þessar.
Eftir að hafa skimað um hríð eftir fuglum á höfuðborgarsvæðinu í hast fór ég vegna starfa minna til Akureyrar - og viti menn þar var þrastasöngurinn nánast ærandi og haugur af þröstum á hverju tré - og Akureyringar hafa verið merkilega duglegir við að rækta reynitré. Ég fór líka útfyrir bæinn og tók eftir að þegar ég gekk þar aðeins um móann flugu upp þrestir af lynginu um allt - svo ekki voru þeir komnir í bæinn vegna þess að ekkert væri að éta annarstaðar.
Það hafði hvarflað að mér að ríkt og ófrosið berjalyng hefði seinkað haustkomu þrastanna í bæinn (Reykjavík) - en oft er hellingur þeirra í Reykjavík fram undir októberlok svo nú ætti að hafa sést breyting og þeir komið í bæinn eftir að svo hressilega hefur fryst á nóttinni eins og undanfarið, því vissulega fara berin á trjánum ekki eins fljótt illa og á lynginu, - svo ég er enn meira undrandi en fyrr þegar þeir enn sjást vart. Lóan í vetrarbúningi (án svörtu bringunnar) sem venjulega hefur fyllt sum tún á haustin sést heldur varla á svæðinu.
Helgi Jóhann Hauksson, 20.10.2007 kl. 16:16
Fallegar myndir þínar. Kríuvarpið hefur gengið illa í 3 ár vegna skorts á sandsíli og meðal annars af sömu ástæðu flykktist sílamáfurinn inn í borgina þar sem hann var skotinn.
Það er sungið hér í reyniviðnum hjá okkur alla morgna en ég sé enga fugla. Það voru miklu fleiri fuglar undanfarin ár.
Heidi Strand, 20.10.2007 kl. 21:16
Sá reyndar í morgun, rifrildi á milli þrastar og snjótittlings(sólskríkju) á girðingu milli lóðanna, þótt gnægð reynitrjáa hafi verið í nágreninu. Er farin að renna í grun að það sé farið að nálgast þetta árlega fyllerí spörfuglanna. Þá eru fuglarinr farnir að hlakka mikið til og hegða sér kannski ekki vel. Þeir rífast við hvorn annann og metast um síðasta haust og bíða óþreyjufullir eftir frostnóttunum.
En eigum við ekki öll rétt á upplyftingu, þó það sé bara einu sinni á ári og fuglarnir lenda ofurölvi í kattarkjafti, en mennirnir lenda ofurölvi í sjálfs sín kjafti.
Eigðu góða nótt
Fishandchips, 21.10.2007 kl. 00:26
OK fuglarnir eru semsé fundnir, voru að rífast á girðingunn.
Valur (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 00:31
ég ætlaði bara að segja að á austurlandi, amk í garðinum mínum, er búið að vera krökkt af þröstum, brjálað fyllirí í gangi einsog fishandchips greinir frá, kisan mín er bara hrædd við lætin. En þetta eru merkilegar umræður, það getur vel (illa?) verið að eitthvað sé á ferðinni í náttúrunni sem við verðum ekki vör við, enda fara flest öll náttúruleg og "yfirskilvitleg" ferli fram hjá okkur mönnunum
halkatla, 21.10.2007 kl. 01:31
Við Laugardalinn er enginn skortur á þröstum, hef sjaldan heyrt önnur eins læti og berja"fyllerí" eins og síðustu daga, það gjörsamlega ómar allt í görðunum hérna.
Guttormur, 22.10.2007 kl. 23:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.