Það má þó segja frá snjóflóðunum núna

Snjóflóð í röðum úr KubbnumÞegar ég var um hríð skólastjóri við Grunnskóla Súðavíkur á seinni hluta 9. áratugar síðustu aldar upplifði ég það mér til mikillar undrunar að fá skýr fyrirmæli frá valdameiri mönnum um að segja ekki fréttamönnum frá snjóflóðum sem ekki yllu alvarlegu tjóni til að fæla ekki fólk frá því að búa á Vestjörðum. „Við segjum ekki fréttir héðan sem vinna gegn uppbyggingu byggðar á vestfjörðum“ var mér sagt skýrt og skorinort eftir að ég hringdi í vin minn á fréttastofu RÚV og greindi honum frá því að þann morgun hefðu verið rudd 21 snjóflóð og minni spýjur í Súðavíkurhlíð sem meðal annars lokuðu vöruflutningabíl af milli flóða. Ég undraðist að heyra ekkert um þetta í hádegisfréttum svo ég hringdi suður og gaf vini mínum sem þar vann upp símanúmer Sveitastjóra, oddvita og hreppsstjóra og fleiri sem ég taldi að helst gætu gefið traustar upplýsingar um málið. Í kvöldfréttum kom svo lítil frétt um að snjóflóð (í eintölu) hefði tafið för kaupfélagsbílsins til Súðavíkur. - Ég fékk hinsvegar hringingu frá mektarmönnum bæjarins og alverlega áminningu um að svona fréttir segðum við ekki af Vestfjörðum svo lengi sem hægt væri að komast hjá því.

- Þessi mynd sem ég set hér með var tekin vorið 1989 þegar snjó var tekið að leysa úr hlíðum Kubbsins við innra hverfið á Ísafirði. Þar var þá sagt að væri engin hætta af snjóflóðum. Þessar spýjur sem lágu í lögum hver yfir annarri höfðu hinsvegar allar fallið í dimmum snjóbyljum án þess neinn vissi og svo áfram snjóað yfir þær áður en nokkur varð þeirra var en komu í ljós í leysingunum að vori. Þar var ekkert snjóflóð eða spýja skráð hjá Veðurstofu Íslands úr þessari hlíð þegar ég fór þangað með þessa mynd eftir Snjóflóðið í Súðavík 1995.

Snjóflóðahætta bagaði mig hinsvegar oft á meðan ég bjó fyrir vestan en ef ég ámálgaði það við mektarmenn bæjarins var mér svarað að áhyggjur mínar væru fullkomlega óþarfar. Oddviti sveitastjórnar í Súðavík kynnti mér t.d. stoltur teikningar af nýjum grunnskóla sem hann vildi reisa við nýja götu sem ætti að koma ofan við bæinn (Súðavík). Þetta sýndi hann mér til marks um hve áhyggjur mínar væru óþarfar - en einmitt þar féll svo stóra snjóflóðið á Súðavík örfáum árum seinna, - og tók leikskólann sem systir mín hafði barist gegn að yrði reistur þar vegna snjóflóðahættu en hún uppskar fyrir baráttu sína aðeins uppnefnið „skæruliðaforinginn“.

 Löngu fyrr hafði Hannibal Valdimarsson fengið því framgengt að byggt var grunnskólahús upp af Langeyrinni rúmum 2 kílómetrum innan við bæinn. Þar vildi Hannibal að bærinn byggðist upp á öruggum stað í kringum skólann því þar er engin snjóflóðahætta. Svo fór þó ekki heldur hélt bærinn áfram að byggjast upp undir Súðavíkurhlíðinni en skólinn stóð einmana en öruggur góðan spöl fyrir innan bæinn...  - þar til eina nótt að risastórt snjóflóð ruddist niður hlíðina og yfir lóðina þar sem nýja skólahúsið átti að rísa og tók með sér stóran hluta Súðavíkur,  - þá loks en ekki fyrr flutti bærinn að skólahúsinu sem Hannibal Valdimarssona hafði af forsjálni sinni og fyrirhyggju valið öruggan stað.

- Mótmælendur uppskera oft aðeins háðsglósur og hnökursyrði og merkilegt nokk fá þeir sjaldnast sóma af því þegar verstu áhyggjur þeirra reynast á rökum reistar og hinir fyrirhyggjulausu ráðamenn fá enga refsingu fyrir þegar þeim skjátlast svo hrapalega þrátt fyrir viðvaranir mótmælenda.


mbl.is Lokað vegna snjóflóðahættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir þennan pistil Helgi Jóhann. Ég vona að sem flestir lesi hann.

Kær kveðja úr hríðinni hér vestra.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.2.2008 kl. 09:53

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Helgi - mætti ég einhverntíma birta þessa mynd á vestfirska fréttavefnum skutull.is? Sá vefur er rekinn í sjálfboðavinnu, svo við höfum ekki (ennþá) aura til að borga fyrir myndbirtingar - en vonandi verður það síðar.

Þetta er flott mynd.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.2.2008 kl. 10:06

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Maður trúir bara ekki að svona fyrirhyggjuleysi og andvaraleysi eigi sér stað...gott hjá þér að birta þessa grein. Við eigum að geta treyst því að valdamenn hafi raunverulega hag fólksins alltaf númer eitt...

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.2.2008 kl. 10:43

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ólína þér er sjálfsagt að notan myndina eins og þú vilt. Ég á þó að eiga hana í meiri upplausn en ég setti hana á netið, ég skal kíkja eftir því og senda þér hvort sem svo hentar þér betur. Ég rifjaði það líka upp að þann sólbjarta vordag þegar snjóflóðin og spýjurnar blöstu loks við var samt eins og enginn tæki eftir þeim - það var hvort sem er komið yndislegt vor og þau gerast vart dásamlegri en fyrir vestan þ.e. ef þokan heldur sig úti, - og munstrin í snjónum sjást ekki svo vel nema stutta stund þegar sólin skín eftir hlíðinni endilangri og hnökrar á yfirborðinu mynda skarpa skugga .

Helgi Jóhann Hauksson, 8.2.2008 kl. 11:33

5 identicon

Athyglisverður vinkill á skipulagsmistök og mótmæli, fyrir utan merkilega mynd og upplýsingar um hvernig reynt er að stýra fréttum frá landshlutum í misskyldum tilgangi. Ég er viss um að ef ekki hefði verið þaggað niður í fréttum af „skaðlausum“ snjóflóðum yfir og við byggð þá hefðu Vestfirðingar sjálfir miklu fyrr skipulagt byggð sína af meiri fyrirhyggju bæði um staðsetningu og varnir - og kannski þar með ekki síður laðað fólk til búsetu með öryggiskenndinni - þegar það gæti fundið til raunverulegrar öryggiskenndar þó blindir snjóbyljir geisuðu.

Gunnar (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 13:22

6 Smámynd: Fallega fólkið í Leeds

Frábær pistill !  Eftir að hafa sjálf búið fyrir vestan þá kannast ég vel við þetta hugarfar og margt fleira sem getur fallið undir þetta...ja hvað á að kalla þetta..."trassaskap"...eða "loka augunum".

Kveðja, Halldóra Skúla

Fallega fólkið í Leeds, 8.2.2008 kl. 13:38

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Kærar þakkir fyrir að leyfa mér að nota myndina. Ég þigg það strax - því nú var verið að lýsa yfir viðbúnaðarstigi á norðanverðum Vestfjörðum og ég er að setja inn tilkynningu á skutul.is. Mun prýða hana myndinni þinni, hún er nærtæk og góð.

 Kær kveðja.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.2.2008 kl. 14:42

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Man einhver eftir norsku skýrslunni, sem hafði verið unnin stuttu fyrir snjóflóðin? Það kom fram í henni að á Vestfjörðum hefði verið byggt hugsunarlaust upp í hlíðar og fjöll. Takk fyrir.

Hvað haldið þið að stjórnvöld hafi gert? Jú, þau stungu skýrslunni ofan í skúffu. Ef allar óþægilegar skýrslur sem stjórnvöld á Íslandi væri stungið ofan í sömu skúffuna þá þyrfti sú skúffa að vera 40 feta gámur.

Smám saman hef ég gert mér grein fyrir að það er ekkert hugsað um öryggi almennings á Vestfjörðum, ekki frekar en sauðfjár. Hvað á fólk lengi að þurfa að vera í stórhættu að keyra á milli Súðavíkur og Ísafjarðar, áður en eitthvað verður gert?

Theódór Norðkvist, 8.2.2008 kl. 15:53

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Leiðrétting: 

Ef allar óþægilegar skýrslur sem stjórnvöld á Íslandi hafa stungið ofan í skúffu væri stungið ofan í sömu skúffuna þá þyrfti sú skúffa að vera 40 feta gámur.

Theódór Norðkvist, 8.2.2008 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband