Eru flugferðir ekki ætlaðar hreyfihömluðum? - Sinna ferðaskrifstofur ekki loforðum sínum við fólk bundið hjólastól?

Kanrí_2008-02-27_13-37-30Fyrir nokkrum dögum kom ég frá Kanaríeyjum nánar tiltekið Ensku-ströndinni. Nákominn eldri einstaklingur sem bundinn er við hjólastól og göngugrind þarfnaðist fylgdarmanna til að geta látið þann draum sinn rætast að komast á ný þrátt fyrir heilsutap í sólina og hitann í dimmasta skammdeginu. Sá fór oft til Kanaríeyja hér á árum áður en hefur heilsu sinnar vegna ekki komist um alllangt skeið. Við hjónin höfum hinsvegar aldrei fyrr farið til Kanaríeyja og áttum 30 ára brúðkaupsafmæli um þessar mundir svo viðkomandi kaus að slá tvær flugur í einu höggi og bjóða okkur hjónum með sér að því tilefni og fá þannig jafnframt nauðsynlega aðstoð.

Ferðin reyndist í heild afar ánægjuleg en einnig sérlega fróðleg um aðstæður og möguleika þeirra sem bundnir eru við hjólastól til að ferðast.


Rútan er ekki ætluð fyrir fatlaða

Kanrí_2008-03-03_14-41-04Það rifjaðist upp fyrir mér í aðdraganda þessarar ferðar þegar ég fyrir fáum árum var á ferð með annarri íslenskri ferðaskrifastofu, þar sem við fjölskyldan vorum komin upp í rútuna  sem flytja átti okkur frá flugvelli að hótelum á áfangastað komu tvær konur í gættina og reyndu að tala við bílstjórann, þráttuðu við fararstjórann sem var ung stúlka og kölluðu svo inn rútuna „getur nokkur aðstoðað okkur með mann í hjólastól?“.  Rúturnar sem flytja viðskiptavini íslensku ferðaskrifstofanna til og frá flugvelli eru jafnan með stórt farangursrými undir farþegarýminu, það er því all hátt klifur inn í rúturnar og þó nokkur þrep að stíga og í ofnaálag er hurðin einföld ætluð til að einn fari um í einu og því þröng ef einhver þarf aðstoð. Öllu jafna veitir maður þessu ekki sérstaka athygli en þegar fullorðinn ungur karlmaður mikið spastískur í hjólastól sem ekki hefur neina möguleika til að beita eigin afli við að komast inn er mættur við rútudyrnar kominn alla leið frá Íslandi verður þetta allt í einu hrópandi áberandi.

Konurnar tvær voru sjúkraliðar sem fylgdu unga manninum til drauma sinna um að komast í fyrsta sinn á ævinni á sólarströnd þrátt fyrir hreyfihömlun sína. Ef hann byggi á meginlandi Evrópu eða Ameríku væri tiltölulega einfalt að taka lest í sólina. Lestir eru rúmgóðar miðað við flugvélar en þegar sá fatlaði er Ísleningur á hann engan kost annan en að fara með flugvél ef hann vill eða þarf að komast af  þessu hrjóstruga og vindbarða skeri okkar, samt eigum við ekkert frumkvæði að því að bæta aðstöðu þeirra sem bundnir eru við hjólastól til ferðalaga, sem ættum vegna þessa að fara fyrir öðrum þjóðum í þessum efnum.

Ég stóð strax upp og gekk fram í rútuna og bauð fram aðstoð mína „hvað get ég gert?

Kanrí_2008-02-23_14-10-44Ja, við fengum margítrekum loforð ferðaskrifstofunnar um að séð yrði fyrir nauðsynlegum aðbúnaði og aðstoð til að þessi ungi maður kæmist alla leið að hótelinu okkar en svo bara stenst ekkert“ – þær voru gráti nær – „það hefur allt klikkað og nú segir bílstjórinn að það sé ekki hans hlutverk aðstoða við að koma honum inn í bílinn rútan sé ekki ætluð fyrir fatlaða og farastjórinn veit ekkert í sinn haus“. 

Ljóst var að aðeins einn kæmist um dyrnar í einu og þrepin upp í rútuna voru alls 5. Hvorug þeirra kvennanna hafði styrk til að bera unga manninn ein inn í rútuna þó svo fólk með spasma sé sjaldan mjög holdugt. Hann var þó öruggleg ekki undir 70 kg – Og farastjórinn  -  unga stúlkan lét sig hverfa á meðan á þessu stóð – enda fátt sem hún hefði getað gert úr þessu.

Það var ekki um annað að ræða en að biðja þær að setja hjólastólinn með bakið alveg upp að dyrunum standa sjálfur uppi í rútunni taka undir hendur unga mannsins við axlir og lyfta honum upp og reyna að bera hann þannig inn þrep fyrir þrep og að þær gættu svo að fótum hans. – Þetta tókst en hálf kauðslega, ég dróg fötin hans alveg upp um hann við þetta svo bert var á milli upp á bringu – en það tókst að koma honum í það sætið sem næst var. – Sama hátt höfðum við svo á til að koma honum út úr rútunni.
Ég var að springa úr mæði og frá í bakinu - en bar mig vel - óttaðist í nokkra daga að ég hefði eyðilegt í mér liðþófa í bakinu á ný en það var sem betur fer ekki.  Ungi maðurinn sýndi mér þakklæti sitt þrátt fyrir klúðurslega meðferð mína á honum svo það yljar mér enn um hjartaræturnar þegar ég hugsa til þess en um leið finn ég til skammar um hvernig við búum að þessu mæta fólki. - Hann gleymdist öllum alla leið frá hönnun bæði flugvélarinnar og rútunnar og innréttinga þeirra allt til ráðstafanna ferðaskrifstofunnar og uppfyllingu fyrirheita hennar á vettvangi.

Svo er það Kanarí

Kanrí_2008-02-23_14-04-00En semsagt nú var ég aftur kominn á ferð og nú sem fylgdarmaður sjálfur. Sú manneskja sem ég nú fylgdi var þó betur sett en ungi maðurinn sem að ofan greinir þar sem með göngugrind eða góðum stuðningi hún getur gengið skammar vegalengdir. Við það óöryggi og þær margvíslegu hindranir sem mættu okkur á ferðalaginu var mér oft hugsað til unga mannsins á Alicante-flugvelli hvernig allt brást honum og fylgdarkonum hans sem lofað var og allra þeirra sem líkt er ástatt um.

Nú í okkar tilfelli keypti hinn fatlaði einstaklingur ferðina strax í haust til að tryggja sér smáhýsi á einni hæð sem næst þjónustu og garðhliði íbúðarhótelsins vegna hreyfihömlunarsinnar. Þá skráði ferðskrifstofan strax að einstaklingurinn væri bundinn hjólastóli og ósk um aðstoð og þjónustu á ferðalaginu sem slíkur, m.a. um milligöngu ferðaskrifstofunnar um leigu á hjólastól úti og auðvitað sæti í flugvélinni í samræmi við hreyfihömlunina eins nálægt inngangi og salerni og unnt væri.

Minnugur reynslu unga mannsins á Alicante-flugvelli og fylgdarkvenna hans hringdi ég þegar dró að ferðalaginu all nokkrum sinnum í ferðskrifstofuna til að fá skýr svör um að ferðaskrifstofan hefði tryggt þá aðstöðu sem þörf var á. Skýrasta svarið sem ég fékk var „við höfum bara eina línu þar sem við skrifum „hjólastóll“ og svo verða bara allir að gera sitt“.

Aðstaða hreyfihamlaðra á flugferðalögum

Enginn þeirra sem ég talaði við hjá ferðaskrifstofunni í all nokkrum símtölum gat upplýst mig um hvað ég gæti gert til að tryggja bókun í sæti í flugvélinni sem næst salerni og inngangi þ.e. sæti í samræmi við þarfir hreyfihamlaðra en manneskja kunnug flugmálum benti mér á að tala við afgreiðsluna á Keflavíkurflugvelli. Kanrí_2008-02-27_18-06-11Þar var mér aftur sagt að séróskir ferðaskrifstofunnar kæmu til þeirra í tölvupósti daginn fyrir brottför og því væri líklega best að hafa enn samband við ferðaskrifstofuna að morgni þess dags – sem ég gerði. Það var þó ekki fyrr en ég sagði að flugafgreiðslan hefði upplýst mig um að ferðskrifstofan sendi til þeirra lista um séróskir að mér var lofað að sú í hjólastólnum yrði með á slíkum lista. Niðurstaðan varð 4ða sætaröð – engar augljósar ástæður voru sýnilegar fyrir því afhverju aðrir án hreyfihömlunar voru samt nær dyrum og salerni. T.d. er tekið fram á kvittun að ekki var selt sérstaklega í „betri sæti“ í þessu flugi.


Á leiðinni út var okkar manneskja eini hjólastólafarþeginn, á leiðinni heim voru þeir fjórir, engar leiðbeiningar fengust neinsstaðar um verklag við þjónustu við hjólastólafólk, hvað myndi gerast næst, hvernig séð yrði til þess að hjólastólamanneskjan kæmist leiðar sinnar, þ.e. hvernig ferðlagið yrði.

Nú vorum við semsagt komin í sæti í flugvélinni. Keflavík bauð ekki upp á neina lausn til að aka hjólastólafarþeganum inn flugvélina sjáf aðeins að dyrum. Á Kanarí var betur séð fyrir þessu þar sem boðið var uppá sérstök en einföld sæti á hjólum til aka inn eftir flugvélagagninum. Einn fjögurrra hjólastólafarþega á heimleið var einmitt algerlega hreyfihamlaður frá mitt og nýttist því vel slíkur stól inn flugvélina. – En svo var sætið fjarlægt úr vélinni.  Eftir það í 6 tíma sem farþeginn er um borð í flugvélinni hefur slíkur farþegi enga möguleika á að komast á salerni.

– Já flugvélasalernið. 

– Það er vart að ein fullfrísk manneskja komist fyrir á salernum flugvéla hvað þá heldur ef einhver þarf aðstoð á salerni – en þannig er nú veruleikinn þó það megi ekki segja upphátt svo neinn heyri að fjöldi fullorðins fólks á í ýmiskonar efiðleikum með losun á saur og þvagi, allmargir fullorðnir þurfa að nota bleyjur og sérstaklega utan heimilis síns og hreyfihamlaðir sem þannig háttar til um geta þurft allt frá lítilsháttar aðstoð til verulegrar aðstoðar. Og ljóst er að fullvaxnir karlmenn geta ekki einu sinni aðstoðað börn sín á flugvélasalernum eins og voru í þessari flugvél Futura. – Ég prísaði okkur sæl fyrir að ekki reyndi á slíka erfiðleika vitandi um að fleiri en flesta grunar þurfa að kljást við þá.

Íslendingar bundnir hjólastól komast ekkert nema með flugi - ættum að vera í fararbroddi um réttindi þeirra

Kanrí_2008-02-29_17-44-58 Nokkur atriði verðum við Íslendingar sérstaklega að berjast fyrir að gerð séu að alþjóðlegri reglu við hönnun innréttinga í farþegaflugvélar framvegis, þar á meðal að flugvélasalerni séu aðgengileg öllum, að gert sé ráð fyrir aðgengilegum flugsætum fyrir  hreyfihamlaða einstaklinga og fylgdarmenn þeirra sem fólk háð hjólastól hafi forgang um við röðun í sæti flugvélanna, einnig einföld atriði eins að um borð í hverri flugvél séu svona einfaldur „stóll“ á hjólum eins og Spánverjarnir notuðu á flugvellinum til að flytja eftir gangi flugvélarinnar og til sætis síns manneskju sem engan mátt hafði í fótum og þannig sé með lítilli fyrirhöfn gert kleift að flytja fólk með mikla hreyfihömlun til og frá salerni í flugvél á flugi.  

Það stendur okkur Íslendingum næst að sjá þetta og berjast fyrir úrbótum þar sem flug er eini ferðamátinn frá skerinu okkar til annarra landa og hlýrri svæða og vegna sögulegra tengsla okkar við flug og mannréttindi eigum við að ganga fremst í flokki við skýra kröfu um „flug fyrir alla“.  Að sama skapi getur samt verið erfitt fyrir eitt flugfélag að laga þessi atriði hjá sér ef hin gera það ekki þar sem þar með myndu þjónustuþyngri farþegar allir færa sig til þess án þess þó að í því fælust tekjur á móti. Það er því ekki um annað að ræða en að leysa svona mál með samræmdum reglum.

Las Palmas betri en Keflavík

Kanrí_2008-02-25_16-29-48Ok, svo vorum við komin undir miðnætti út til Kanarí og flugvöllurinn við Las Palmas reyndist standa sig vel miklu betur en Keflavík, en það fyrsta sem ég spurði farastjórann um var hvort ekki yrði tiltækur hjólastóll við hótelið (leigður) eins og um hefði verið rætt og ítrekað af minni hálfu óþolandi oft ef marka mátti viðbrögð starfsfólk ferðaskrifstofunnar. – „Ha, – nei – ég hef engir upplýsingar um neinn hjólastól eða að neinn farþegi þurfi slíka aðstoð – Reyndar gleymist alltaf að segja okkur fararstjórunum allt slíkt.“ 

Fyrir heimferð talaði ég tvisvar við annan farstjóra í viðtalstíma um hvort ekki væri víst að sá fatlaði yrði bókaður í sæti í fremstu röðum á heimleið. Þar sem ekki fékkst nákvæmara svar en „það verður að vona það“ ákváðum við að taka leigubíl snemma morguns klukkutíma áður en rúturnar kæmu að sækja farþega. Við vorum fyrst allra á staðinn og því fermst við bókunarborðið auk þess sem talað hafði verið við fararstjórana fyrirfram, engin forbókun var þó á okkur þegar opnað var fyrir innritun  – og þrátt fyrir að vera fyrst og fremst við innritunarborðið og haft mikið fyrir til þess fékkst ekkert bókað framar en í 5. sætaröð, hin sætin virtust úthlutuð fyrirfram bestu vinum og vandamönnum sem ekki höfði sérstaka sýnilega þörf fyrir þau. Munum að tekið er fram á kvittunum að ekki sé boðið uppá „betri sæti“ í þessu flugi og ekki var boðið uppá netinnritun svo enginn átti að hafa getað keypt sig framfyrir mikið hreyfihamlaða sem mættu fyrstir til innritunar og höfðu meldað sig sem slíka við ferðskrifstofuna frá því ferðin var keypt í haust.

Á flugvellinum í Las Palmas var hinsvegar til fyrirmyndar hvernig hjólastólafarþegar fengu fylgd og leiðsögn að þjónusutborði og svo aftur frá því og inn í flugvélina og að sæti sínu áður en öðrum farþegum var hleypt að vélinni. Þar á meðal var þeim lyft með sérstöku farartæki að dyrum og trillað með sérstökum stól eftir flugvélaganginum alla leið í sæti sitt - en svo var sá stóll aftur fjarlægður úr vélinni og því ekki til taks við komu til í Keflavíkur eða um borð í 6 tíma flugi til að hjálpa farþegum með slíka hreyfihömlun til salernis.

Við blasir vandi sem þarf vilja til að leysa

Með mikilli fjölgun aldraðra af þeim kynslóðum sem vanir eru frelsi ferðlaganna verður enn skýrara en áður alvarlegt skeytingaleysi ferðskrifstofa og flugfélaga í garð hreyfihamlaðra og þarfa þeirra. Engir finna eins fyrir því og Íslendingar með hreyfihamlanir þar sem þeir eiga enga aðra möguleika til langferða en flug. Íbúar meginlandanna komast æði langt með bílum og lestum ef svo ber við þar á meðal til sólarlanda - en Íslendingar ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg Árnadóttir

Mjög athyglisvert. Hef einmitt lent í því að fá ekki hjólastól við innritun í Keflavík þrátt fyrir að hafa fengið loforð um slíkt. Eitthvað verulega brogað við systemið hjá þeim. Var skárra á Kastrup þó ekki hafi það verið auðvelt.

Björg Árnadóttir, 9.3.2008 kl. 00:21

2 identicon

Ég er sammála með að mjög athugavert er með að þrátt fyrir að fólk sé mætt fyrst við innritun í flug til þess að eiga möguleika á að fá sem hentar því er oftast búið að bóka í 4-6 fremstu raðir í leigufluginu þó ekki sé hægt að innrita fyrir fram  ...mjög skrítið .. þó ekki því það er vitað að ef þú þekkir einhvern sem vinnur á flugvellinum eða er i áhöfnum véla þá er þetta hægt!!!!  Nú í febrúar var ég á ferð ásamt fjöslkyldunni þar sem einn einstaklingu var hreyfihamlaður þá var það aðallega salernisaðstaðan á flugvöllum sem mitt fólk talaði um þ.e. að salerni fyrir fatlaða var inni á salernum, annað hvort karla eða kvenna og ef aðstoðarmaður er af öðru kyni en sá fatlaði  getur  þetta verið mjög erfitt. Annað  sem þau hafa ákveðið frá fyrstu ferð er að hafa sinn eigin stól með sér því ekki er hægt að treyst á þjónustuna.  

Sigríður Þórðardóttir (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 01:04

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Síðast liðið haust fór ég til útlanda með öldruðum foreldrum mínum. Faðir minn, sem lést nú í janúar, var orðinn ansi slappur þarna í september. Þeim hafði verið lofað íbúð á jarðhæð af ferðaskrifstofunni.

Þegar við komum að hótelinu með rútunni (ég kannast við þetta með háu þrepin, því það var rétt svo að pabbi hefði sig upp þau) bað mamma mig að drífa mig strax í afgreiðsluna, á undan þeim (það þufti að ganga spölkorn, vegna þess hve þröngt er um stæði við hótelið), til þess að komast framarlega í röðina, skyldi ferðaskrifstofan hafa klikkað á þessu. Sem hún hafði vitanlega gert. Sem betur fer kom ég það snemma að enn var lítið mál að breyta bókuninni, sér í lagi þar sem það var annar eigendanna sem var í afgreiðslunni að taka á móti farþegum. Það hefði verið meira mál ef við hefðum treyst á að ferðaskrifstofan hefði staðið sig í stykkinu! 

Greta Björg Úlfsdóttir, 9.3.2008 kl. 10:18

4 identicon

Það þarf ekki mikla fórn frá flugfélögunum til að gera salerni rúmbetri og tryggja að 3 - 4 fremstu bekkir gengt inngangi væru rúmbetri og aðgengilegri fyrir mikið hreyfihamlaða einstaklinga og fylgdarmenn þeirra.

Þau sæti nýttust svo að sjálfsögðu öðrum þegar ekkert hjólastólafólk væri með í för.

Það kostar í vesta falli eina sætaröð eða 6 sæti af 190 - 270 en á móti léttist vélin bæði vegna færri farþega og minni farngurs þar á meðal minna magns þjónustuvöru sem því næmi, en nú er rukkað um 8 Evrur fyrir hvert umframkíló þegar haldið er í íslenska vél frá Las Palmas, svo einhvers virði hljóta kílóin að vera.

Þó ég hafi ekki séð slíkt í íslenskum vélum þá eru til mjög einfaldir, léttir og samanbrjótanlegir hjólastólar fyrir flugvélar í anda þjónustuvagnanna ætlaðir til að aðstoða mikið hreyfihmalaða innan flugvélarinnar en venjulegir hjólastólar komast ekki eftir ganginum t.d. frá sæti á salerni og til og frá útgöngudyrum - eða hvar haldið þið að algerlega hreyfihamlaðir séu staddir ef flugvél lendir nauð og rýma þarf flugvélina í skyndi - ekkert er skeytt um það sérstaklega að staðsetja þá einstaklinga nærri útgangi þó þess sé óskað og engum er kynnt hvað þarf að ger til að koma þeim út við neyðarástand þó lausninar séu til. - Lausninar eru til fyrir löngu og myndu nýtast einnig til að færa með léttu móti mikið hreyfihamlaða til og frá salenri og inn og út úr vélinni, en a.m.k. íslensku flugfélögin og ferðaskrifstofunar sinna ekki um að sýna þær lausnir - hreyfihamlaðir gætu þá streymt í fríið og heimtað að fá að nota þær á leiðinni.

Sveinn (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 12:43

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Mjög fróðlegur og gagnlegur pistill! Það er greinilega víða pottur brotinn. Ég held að flugfélögin vilji ekki fatlaða farþega í sínar flugvélar. Það er allt of mikið vesen fyrir flugfreyjurnar, sem hafa nóg að gera við að selja ilmvötn. Það þarf auðvitað að skerpa á löggjöfinni í þessum efnum. Kjörið verkefni fyrir duglega þingmenn.

Júlíus Valsson, 9.3.2008 kl. 12:46

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Takk fyrir þessi ágætu innlegg Björg, Sigríður, Gréta, Sveinn og Júlíus. Ég held reyndar einmitt eins og kemur fram hjá ykkur að það sé beinlínis stefna íslensku ferðskrifstofanna og  flugfélaganna að létta ekki hreyfihömluðum meira ferðalgið en þeir neyðast til og vilji gjarnana gleyma að þjónustu þá. Flugvellirnir eru miklu meðvitaðri en þeir sem selja þessu fólki þjónustu sína þ.e. ferðina. Trúlega vegna þess að það er ekki fjárhagslegru ávinnigur af því að vera braytryðjandi á þessu sviði þar sem þjónustuþungir farþegar gætu þá flykkst til þeirra en látið hina sem ekki standa sig vera - því þarf skýrar reglur til að opna öllum jafna möguleika og dreifa þunganum af því þannig að ekki íþyngi neinum verulega. - Við viljum öll að þetta sé í lagi ef við þurfum sjálf á slíkri þjónustu að halda eða börnin okkar, foreldrar okkar eða makar okkar. - Enginn veit sína ævina fyrr en öll er og til þess höldum við uppi samfélagi að bera byrðar saman og komast Þannig miklu lengra en annars.

Helgi Jóhann Hauksson, 9.3.2008 kl. 14:10

7 identicon

Sæll Helgi!

Það er þér líkt að koma með þennan ágæta pistil.

Það þarf auðvitað að huga að þessum málum öllum,

mikið betur.

Vildi bara þakka fyrir.

Unnur (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 22:51

8 Smámynd: Heidi Strand

Góður pistill Helgi og gott að vekja athygli á þessu ástandi.
Til hamingju með brúðkaupsafmælið!
Við sem höfum verið gift á fjórða áratug ættum skilið að fá riddarakrossinn. Þetta er ekki síðra afrek en að mæta í vinnuna.

Heidi Strand, 16.3.2008 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband