Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
Krían er skyndilega hætt að verpa á Sv horninu. En nú finnst mér Það ekki síður merkilegt að finna vart þresti á reyniberjatrjám borgarinnar í haust til að ljósmynda. Í október undanfarin ár hef ég ár skimað eftir fallegum þröstum við berjaát á reyniberjatrjánum fyrir myndefni - en viti menn þrestir sjást varla á höfuðborgar- svæðinu þetta haust - og heldur ekki starrar, vart lóur og jafnvel gæsir eru miklu færri en venjulega.
Hvað spörfuglana varðar er vart hægt að kenna um ætisskorti þar sem berjatré eins og reynitrén eru hlaðin berjum sem aldrei fyrr. Mér tekst hinsvegar vart að finna þresti í berjatrjám í haust - og reyndar heldur ekki aðra fugla.
Auðnutittlingar eru í grenitrjám í Fossvogskirkjugarði og éta fræin innan úr gernikönglum og þar er svo sem eitthvað líka af öðrum spörfuglum svo sem þröstum en ótrúlega lítið miðað við það sem þar er venjulega á haustin.
Jafnvel mávar sem venjulega sitja á hverjum staur í mínu hverfi á haustin sjást ekki í haust, og gæsirnar koma ekki á túnin hér eins og venjulega. - Hvað ætli sé að gerast?
Hefur verið gripið til of harkalegra aðgerða til að fæla mávana frá svo aðrir fuglar hafi fælist líka? -eða er eitthvað að gerast í náttúrunni sem við áttum okkur ekki á? - Hver veit svo sem? Gaman væri að fá skoðanir annarra um þetta.
Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 20. október 2007 (breytt kl. 22:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Ekki vegna þess að ekki hafi birt af degi vikurnar sem sólar naut ekki við því vissulega birti af degi þá daga líka - en þorpið féll í skugga fjallanna og það sá ekki til sólar. Vart getur yndislegri dag en þann þegar sólar nýtur á ný í skammdeginu þó aðeins sé nokkrar mínútur.
Nú segja byggingameistarar og skipulagsyfirvöld í Kópavogi að skuggar skipti ekki máli þann helming ársins sem sól er lægst á lofti, að sólin sé einskis virði á haustin og veturna. Þeir ættu kannski að spyrja þá sem ekki njóta sólar vikum og mánuðum saman hvers virði þeim finnst sólin þegar hún birtis á ný.
Við Kópavogsbúar verðum að spyrja okkur í haust og vetur þegar sólar nýtur milli langra skugga fagra daga hvort okkur finnst þær stundir einskis virði.
Eru stór háhýsi heppilegt byggingaform þar sem sól er aldrei hátt á lofti og dagar eru stóran hluta ársins stuttir og dimmir með fáum en að sama skapi dýrmætum sólarglætum?
Ef byggingayfirvöld í Kópavogi taka að heimila breytingar á skipulagi gróinna íbúðasvæða og jafnvel taka áður frátekna græna reiti undir háhýsabyggð þá getur hver sem er átt von á því sama í sinn bakgarð yfir sitt heimili.
Samkvæmt svæðisskipulagi Höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir að Kópavogsbúar verði 28 þúsund árið 2012 en aðeins 27 þúsund árið 2024, þ.e. að Kópavogur sé nú að verða full byggður. Bæjarstjóri okkar lýsti því hinsvegar nýlega að hann stefndi að því að Kópavogsbúar yrðu 50 þúsund innan 10 ára eða nær tvöfalt fleiri.
Þar sem byggingaland Kópavogs er að verða full nýtt verða Kópavogsbúar að spyrja sig hvar bæjarstjórinn ætlar að koma fyrir nærri tvöföldum þeim íbúafjölda sem svæðisskipulag gerir ráð fyrir. Það er aðeins hægt með því að nema land innan um gróna byggð undir þétta háhýsakjarna. Öðruvísi getur bæjarstjórinn vart séð slíka fjölgun fyrir sér. Þá er ekki öll sagan sögð því það á að byggja enn örar upp atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsnæði.
Það er því aðeins kímsproti af þessari stórbrotnu sýn bæjarstjórans sem birtist okkur nú í 20 hæða húsi við Smáratorg og öðru viðlíka við Smáralind og fram komnum tillögum um 30 hæðir og 40 hæðir í næsta nágreni í Kópavogsdal.
Þeir Kópavogsbúar sem háð hafa sína baráttu undanfarið víðsvegar um bæinn gegn yfirgangi lóðabraskara og byggingaverktaka hafa gefið okkur innsýn í það á hverju við eigum von næstu ár.
Það verður að teljast ósennilegt að bæjarbúar hvar í flokki sem þeir standa láti þetta yfir sig ganga nú þegar þeir sjá að þeirra heimili getur fallið í skuggann næst. Það er því spurning hvort bæjarfulltrúar ætli að standi í lappirnar hér og nú eða hvort þeir séu að bíða eftir einskonar uppreisn íbúanna?
Ef fer sem horfir verður ekki aðeins á Vestfjörðum haldin hátíð þegar sólar nýtur á ný eftir dimmasta skammdegið heldur verður ekki síður sólarhátíð í Kópavogsdal þegar sólin loks gægist aftur upp fyrir háhýsafjöllin eftir sólarlausan vetur.
Stjórnmál og samfélag | Föstudagur, 19. október 2007 (breytt kl. 23:24) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)