Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
ORF-Líftækni ræktar bygg með virkum mannapróteinum svo sem HGH (vaxtahormón). Það er gert með splæsigeni með viðbættum prómótor sem knýr plöntuna til að sí-framleiða prótein eftir uppskrift gens úr mönnum í fræi sínu óháð þörfum plöntunnar og þó plantan myndi aldrei kalla eftir próteini frá geninu einu og sér nema vegna prómótorsins sem knýr hana til að framleiða eftir uppskrift gensins.
Á löngum tíma við slíka ræktun er blöndun við annað bygg til manneldis eða fóðrunar meira en líkleg og vitað er einnig að bygg og melgresi geta frjóvgast saman þó afkomedur fram að þessu séu taldir ófrjóir. Þá er almennt varað við óstöðugleika genabreyttra lífvera og því óvæntum útkomum (dæmi: EMS) og að bakteríur hafi þegar tekið upp gen sem bætt er í allar erfðabreyttar lífverur og gerir þær á stofnfrumstigi ónæmar fyrir sýklalyfjum sem notuð eru til að drepa frumur sem ekki hafa veitt splæsigeninu viðtöku. Fyrst og fermst eru þó allar svona breytingar sem sleppa frá okkur óafturkallanlegar.
Hér ætla ég aðeins að rekja hversvegna ég tel ekkert eftirlit hafi verið með ræktunarreit ORF í Gunnarsholti hvorki af hálfu ORF eða Umhverfisstofnunar, engin úttekt hafi verið gerð af Umhverfisstofnun á uppsetningu reitsins eins og áskilið er og engir eftirlitsmenn hafi komið þar föstudaginn 14. ágúst eins og framkvæmdastjóri ORF heldur nú fram og eftirlit í sumar verið annað hvort afar lítið eða alls ekkert.
Um þetta gæti mér skjátlast en ætla hér að leggja fram mín rök og gögn.
Þess er að geta að í tilkynningu til ESB segir að svæðið sé vaktað (monitored), merkt skiltum (signs) í fleirtölu og girt rafmagnsgirðingu. Af samhenginu verður að telja að átt sé við mannhelda girðingu skilti sem segja fólki hvað þar fari fram og vöktun sé til að fylgjast með ástandi svæðisins og mannaferðum um það.
Ég vil taka fram að ég hef enga hugmynd um eða yfir höfðuð neinar vísbendingar um hverjir skáru akur ORF, og ekki aðrar vísbendingar um hvenær það var gert en þær sem í myndum mínum felast þar sem m.a. má sjá að sár stráanna eru þornuð og gulnuð sunnudaginn 16. ágúst kl 15:30 og mold á upprifnum rótum er þá þegar þurr. Jafnframt sést á myndunum frá þriðjudeginum á undan, þ.e. 11. ágúst að þá kl 17:00 var akurinn óskorinn og ósnertur.
Ljóst er hinsvegar að ORF hafði ekki hugmynd um hvað hefði gerst fyrr en tilkynning um það barst fjölmiðlum og hrekst þá úr einu skjóli á annað í staðhæfingum sínum um dagsetningar og eftirlit. Trúverðugleika og áreiðanleika fyrirtækisins verður að meta í því ljósi.
Umhverfis akur Orf í landi Gunnarsholts er einföld girðing með enn einfaldara hliði sbr myndir. Vera kann að girðingin eigi að gefa dýrum rafmagn en engar merkingar eða viðvaranir um það voru á girðingunni að hún væri rafmagnsgirðing og ekki gaf hún mér rafmagn við að klofa yfir hana við hliðið.
Hliðið er hnýtt aftur með grænu snæri. Þegar inn fyrir er komið er fyrst úr sér vaxið grassvæði en svo tekur við plægt og sléttað moldarsvæði þar sem reiturinn er á miðju svæðinu, sbr mynd.
Moldin er þarna sérlega laus í sér og loftkennd trúlega vegna hás hlutfalls gjósku úr Heklu enda var þetta svæði allt foksvæði þar til Landgræðslan tók til sinna ráða. Fyrir vikið marka fótspor all djúp för í moldina. Dráttavélarför frá sáningu voru einnig mjög skýr og augljós. En það var hreinlega óþægilegt að verða þess áskynja hve skýr fótspor aðkoma mín að reitnum markaði í mjúka moldina. Ég gætti þess þó að stíga hvergi nærri bygginu sjálfu sem var í kjarna ræktunarreitsins sjálfs með hafra-ræktun umhverfis.
Af því hve mín eigin fótspor mörkuðust djúp og skýr þykist ég vita fyrir víst að ef einhver annar hefði komið sömu leið þ.e. frá hliðinu að ræktunarreitnum hefðu spor hans verið mér augljós og sýnileg. Engin önnur fótspor en mín lágu hinsvegar inn að reitnum þá leið, hvorki á þriðjudeginum þann 11. ágúst, né sunnudaginn 16. ágúst.
Vafalaust gætu skemmdarvargar hafa komið hvaða leið sem er inn á reitinn en ólíklegt verður að telja að eftirlitsaðilar hefðu ekki farið um hliðið. Þaðan lágu hinsvegar engin sýnileg fótspor nema mín og aðeins ein dráttavélarför sem augljóslega tengdust sáningunni. Þau lágu inná reitinn, eftir beðunum til sáningar með beygjum og snúningi við enda þeirra, einn hring til baka umhverfis reitinn og útaf reitnum aftur sömu leið og inná hann.
Plæging hafði berlega farið fram löngu fyrir sáningu þar sem öll ummerki hennar voru miklu grónari og meira veðruð eftir fok og rigningar en förin og ummerkin eftir sáninguna.
Af ummerkjunum myndi ég halda að sá sem setti upp fuglanetið yfir reitinn hefði komið með dráttavélinni þar sem engin sjálfstæð fótspor nógu nýleg voru inná reitinn.
Af þessum ummerkjum sem staðfest eru hér með myndum tel ég ekki að neinn hafi farið inná svæðið síðan sáð var. Það er t.d. ekki hægt að sjá hvernig fuglanetið væri að standa sig og hvort þyrfti að laga það nema fara langleiðina að því.
Þegar ég kom þarna á sunnudeginum þann 16. hélt ég að ORF væri búið að uppskera byggið og hefði tekið hluta af höfrunum í rannsóknarskyni.
Á miðvikudeginum 19. ágúst sendi „Illgresi“ frá sér tilkynningu um að hafa skemmt akurinn eða þremur dögum eftir að ég var þarna á sunnudeginum þegar sár stráanna voru augljóslega þegar þornuð og gul í endann (sbr myndir í fyrra bloggi um efnið). ORF lýsti því umsvifalaust yfir að skemmdarverkið hefði verið unnið aðfaranótt eða snemma morguns miðvikudags 19. ágúst. Það var ítrekað við alla fjölmiðla, - þar til ég birti í bloggi mínu myndir sem sýndu að ummerkin voru að minnsta kosti tveggja daga gömul þremur dögum fyrr, eða þar með a.m.k. 5 daga gömul á miðvikudeginum.
Eftir að ég birti á bloggi mínu myndir þar sem ég sýndi fram á að skemmdirnar gætu vart verið yngri en 2ja til 5 daga gamlar þegar ég var þarna á sunnudeginum 16. ágúst, lýsti ORF því yfir að eftirlitsmenn þeirra hefðu kannað svæði á föstudeginum 14. ágúst. - Nú vill svo til að þetta er ekki heldur í samræmi við ummerki.
Fyrir það fyrsta voru eins og fyrr segir engin ný fótspor frá hliðinu að svæðinu þegar ég kom þarna þann 16. ágúst nema mín frá þriðjudeginum, en afar ólíklegt verður að teljast að starfsmenn ORF eða Landgræðslunnar gangi ekki um hliðið þegar þeir koma þarna til eftirlits. Í annan stað var allt annað traðk inná svæðið með ólíkindum lítið miðað við það sem þarna hafði gerst þ.e. kornið hafði verið skorið og beð rifið upp. Það voru heldur engin ný hjólför inni á svæðinu hvorki eftir dráttavél eða annað farartæki.
Loks þá hef ég myndir af hliðinu og bæði snærinu og hnútnum sem það var bundið með bæði þann 11. ágúst og aftur 16. ágúst og nokkuð augljósleg hefur ekkert verið hreyft við snærinu eða hnútnum sem hliðið er fest með í millitíðinni. Bandið liggur eins þann 16. ágúst og það gerði á þriðjudeginum þann 11. ágúst, þá er hnúturinn eins og spottinn frá honum er ósnertur og eins, þ.e. engir höfðu farið um hliðið.
Öll ummerki umferðar eða öllu heldur fullkominn skortur á ummerkjum um að farið hefði verið um hliðið og að ræktunarreitnum gera það ólíklegt að nokkur eftirlitsmaður hafi farið þar um síðan traktorinn fór þar þegar sáð var, og næsta útilokað að rétt sé að eftirlitsmenn hafi kannað reitinn föstudaginn 14. ágúst eins og ORF heldur nú fram.
Það verður því jafnvel að teljast ólíklegt að Umhverfisstofnun hafi rækt þá skyldu sína að taka út uppsetningu reitsins eftir sáningu og uppstillingu, því við það hefðu verið skilin eftir fótspor yfir mjúka moldimna til og frá reitnum.
Þess utan er ber svo akstursleiðin frá þjóðveginum að svæðinu með sér að hún hefur ekkert eða nær ekkert verið ekin í sumar. Hafi verið ekið að girðingunni til eftirlits er það þó algerlega ófullnægjandi því ekki er hægt að sjá þaðan hvernig fuglanetið væri farið eða hvort skepnur hafi komist í og bitið iðagrænan reitinn.
Stjórnmál og samfélag | Mánudagur, 24. ágúst 2009 (breytt 25.8.2009 kl. 22:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ég er í óttalegum vandræðum með þessar myndir af tilraunareit ORF í ljósi frétta dagsins.
Þriðjudaginn 11. ágúst sl fór ég með Heiðu konu minni að Gunnarsholti til að freista þess annarsvegar að taka myndir af íslenskri byggrækt skömmu fyrir uppskeru og hinsvegar að sjá hvort og hvernig ORF - Líftækni hefði sáð fyrir korni á grundvelli leyfis um útiræktun á erfðabreyttu byggi sem afgreitt var frá Umhverfisstofnun seinni hluta júní og taka myndir af því og frágangi þess.
Skemmst er frá að segja að við fundum bæði stóra og ægifagra bygg-akra með fullþroskuðu gullnu byggi og grænan rannsóknareit ORF.
Það vakti þó athygli okkar að svo virtist sem enginn hefði farið að rannsóknareitnum síðan sáð var í hann í vor. Net sem ORF er skyldað til að hafa yfir ræktuninni var rifið, ritjulegt og illa sett yfir, með að því er virtist mjög veikum stoðum og festingum.
Þetta má sjá hér á myndum (nafn myndanna er tímasetning þeirra).
Þar sem verið gat að hirðuleysislegt netið og frágangurinn væri tilfallandi þetta eina augnablik sem ég tók myndirnar, en hugsast gæti að eftirlitsmenn ORF kæmu í reglulegar eftirlitsferðir, ákváðum við að stefna að því að koma aftur eftir nokkra daga til að sjá hvort ástandið hefði væri bætt og taka þá fleiri myndir.
Ef ekkert hefði verið lagað í millitíðinni myndi það vera til vitnis um afar slakt eftirlit, hirðuleysislegan frágang og margskonar brot á skilyrðum umhverfisstofnunar fyrir leyfi og lýsingum á framkvæmd í tilkynningu til ESB.
Svo við komum aftur á vettvang á sunnudaginn 16. ágúst kl 15:30. Bóndi var að slá og hirða tún rétt hjá í næsta nágrenni.
Mér til mikillar undrunar var búið að „uppskera“, en afar illa virtist gengið um akurinn. Þar sem mér skilst að hæst hlutfall sé af hinu vænta próteini fyrir fullan þroska fræsins, var samt ekki svo órökrétt að þegar væri búið að skera. Hafrarnir umhverfis byggið, sem eiga að vera bygginu til varnar, voru slegnir í einu beði inn að bygginu og út hinum megin en allt byggið var slegið innúr reitnum og virtist sem axið hefði verið hirt og stráið skilið eftir eins og maður getur ímyndað sér við venjulega uppskeru.
Hafrarnir umhverfis voru svo á kafla rifnir upp og slegnir að hluta í ysta beði. Ég ímyndaði mér að ummerkin væru kannski eftir sýnatökur, þó umgegnin væri ekki til fyrirmyndar. Það var þó ekki úr stíl við það sem ég hafði séð þarna 5 dögum fyrr.
Orðið gamalt á sunnudag
Við athugun á myndunum frá sunnudeginum frá því fyrir 3 dögum (nafn myndanna er tökutími þeirra) sé ég hisnvegar að sár stráanna er þá þegar þornað og gulnað. Það var því ekki nýtt á sunnudaginn. Einnig eru moldarkönglar sem fylgdu upprifnum plöntum þurrir að sjá en moldin undir blaut. Þeir sýna því líka að nokkur tími er um liðinn frá því plönturnar voru rifnar upp á sunnudaginn.
Segja verkið unnið aðfaranótt miðvikudags eða miðvikudagsmorgun
Forráðamann ORF segja skemmdarverk hafa verið unnið nú aðfaranótt miðvikudags eða á miðvikudagsmorgun, en ljóst er að það hafði þegar verið unnið þegar ég tók myndir þar á sunnudag, og virðist helst hafa verið unnið 2-5 dögum fyrr.
Ljóst er að ORF hefur ekkert eftirlit haft með tilraunareit sínum, uppgötvaði fyrst hvað hefði gerst þegar tilkynning barst fjölmiðlum um það og verður þá að fela þá staðreynd að jafnvel þó mögulega meira en vika væri síðan þetta gerðist hefðu þeir ekki hugmynd um það.
Fleiri myndir hér.
![]() |
Mikið tjón fyrir lítið fyrirtæki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Fimmtudagur, 20. ágúst 2009 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)