Færsluflokkur: Lífstíll
Efst á Nónhæð í Kópavogi hefur verið gert ráð fyrir opnu grænu svæði til útivistar og bænahúsi frá því þetta svæði kom fyrst í alvöru inn á aðalskipulag Kópavogsbæjar. Þegar skipulag annarrar íbúðabyggðar á Nónhæða var kynnt með bæklingi til að selja þar lóðir uppúr 1990 var sérstaklega mikið gert úr undurfögru tilbeiðslu- og bænahúsi sem ætti að vera þar og græna svæðinu þar í kring, í litprentuðum bæklingi Kópavogs um útivistarsvæði sem má nálgast á heimasíðu skipulagsdeildar bæjarins er enn mynd af þessu húsi og áréttað um útivistarsvæðið. Þar kemur einnig fram að langmestur meirihluti Kópavogsbúa notar útivistarsvæði bæjarins oftar en vikulega og helst þau sem eru næst heimili þeirra.
Þessi úrklippa hér til hliðar er úr skýrslu Kópavogsbæjar með aðalskipulagi 2000-2012.
Við gerð aðalskipulags Kópavogs 2000-2012 eru merktar inn hvar eru álfa- og vættabyggð í Kópavogi og þar er ein merkt á opna svæðinu á Nónhæð, þar er einnig áréttað að þessi reitur sé frátekinn fyrir opið svæði, einnig kemur fram með greinagerð um íbúðabyggðir að Nónhæð er þá þéttbýlasta svæði Kópavogs. Nónhæð var árið 2000 meira en þrefalt þéttbýlli en Kársnesið og tvöfalt þéttari en Fossvogurinn (sjá textamynd úr aðalskipulagi Kópavogs) Þó eru öll opin svæði meðtalin í Nónhæð en undanskilin í meðaltali hinn svæðanna. Þá kemur fram í skýrslunni að 2/3 hlutar Kópavogsbúa stunduðu atvinnu utan Kópavogs og því þyrfti að byggja upp athafnsvæði fremur en íbúðasvæði. Samt er íbúum Nónhæðar nú selt það sem rök fyrir blokkamassa á græna svæðinu að svæðið sé ekki nógu þéttbýlt og einnig að eftir svo mikla uppbyggingu athafnasvæða í nágrenninu verði að byggja meira íbúðarhúsnæði á móti. Þ.e. í aðalskipulagi voru það rök fyrir mikilli uppbyggingu athafnsvæða að atvinnusvæði skorti á móti íbúðabyggð en nú eru það rök að atvinnuhúsnæði sé orðið svo mikið á svæðinu að það verði aftur að auka íbúðabyggð á móti - þó svo taka þurfi undir hana úr aðalskipulagi grænt opið svæði og moka í burtu álfabyggð .
- Kópavogsbær hefur kosið að gera ekkert fyrir opna svæðið á Nónhæð árum saman og láta það liggja í fullkominni órækt, og nú notar skipulagsstjóri Kóp óræktina sem Kópavogsbær hefur stofnað til sem rök fyrir því að leyfa allt aðra notkun en var þar fyrirhuguð og merkt á skipulagi þegar verktakinn sem nú vill byggja keypti lóðina. Það er engin ný uppgötvun að eitthvað þurfi að gera fyrir svæði svo það verði vel nýtt útivistarsvæði, þannig er um öll útivistarsvæði.
Þarna er einnig afar eftirsóknavert útsýni sem annað hvort er hægt að opna öllum eða selja fáum, en skipulagsstjóri sagði um útsýni á fundinum með okkur að hann ætlaði ekki að segja hvað sagt væri um þá sem keyptu útsýni (sbr hljóðskrána hér til hliðar) en um þá sem seldu útsýni væri sagt að þeir væru snillingar .
Sá sem keypti land skipulagt sem opið svæði með bænahúsi í annars grónu hverfi á ekki kröfu á að gera þar neitt annað en það að byggja bænahús og sjá til þess að gengið sé frá opna svæðinu. Bæjaryfirvöld halda því fram að réttur lóðaeiganda sé mikill í Kópavogi (-meiri en lífsgæði íbúanna sem búa fyrir?) og þessvegna sé ekki hægt að neita þeim sem keypti opið svæði að byggja þar íbúðamassa. Samt vita allir að venjulegir íbúar sem ekki eru stórverktakar þurfa að sæta ótrúlegustu skorðum við minniháttar breytingum, t.d. er í Mogganum sl. sunnudag undir "Ummæli vikunnar" á bls 20 er vitnað í lögfræðing Ríkeyjar Pétursdóttur sem í 4 ár hefur barist fyrir því að fá að hafa einn hárgreiðslustól heima hjá sér án breytinga á húsi eða lóð, en fær alltaf synjun. "Aldrei séð annað eins á ævi minni" segir lögfræðingurinn um framkomu Kópavogsbæjar og þrjósku.
Réttur lóðareiganda til breytinga er auðvitað ekki meiri en bærinn veitir - og sá sem tekur þá áhættu að kaupa grænt svæði og vill byggja þar dýr íbúðarhús í stað útivistarsæðis íbúa og moka í burtu heilli Kringlu af jarðvegi fyrir bílakjallara, á engan rétt til annars en bænahússins og útivistarsvæðisins sem skipulagið gerði ráð fyrir. - Það er reyndar útaf fyrir sig rannsóknarefni hvers vegna menn taka yfir höfðu slíka áhættu og leyfa sér svo að gera kröfu á íbúa Kópavogs um að þeir uppfylli fyrir þá gróðavonina á kostnað lífsgæða sinna.
.
Vilja ekki að háhýsi rísi á Nónhæð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Miðvikudagur, 4. júlí 2007 (breytt 7.7.2007 kl. 20:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)