Allir sem láta málin sig varða verða að senda mótmæli bæði vegna Nónhæðar og líka vegna Kársness á skipulag@kopavogur.is fyrir 21. ágúst nk. Það þarf ekki að vera flókið og fyrst og fremst að tjá fullan hug sinn. Ekki segjast vilja minni höfn ef maður vill enga höfn, eða minna hús ef maður vill ekkert hús. Og ef maður vill ekki aukna umferð í hverfið sitt segir maður það. - Og ef maður vill ekki að bætt verði þéttri íbúðabyggð á græna kollinn á Nónhæð þar sem lofað hefur verið í 20 ár grænu svæði í þágu íbúa og samfélags þá segir maður það, -að aðalskipulag skuli standa óbreytt.
Grundvallar breytingar í skipulagi í einu hverfi varðar í raun alla bæjarbúa þó svo þær séu jafnan aðeins kynntar þeim íbúum sem næstir búa. Ásýnd og umferð, hvernig innviðir sveitarfélagsins ráða við breytingarnar, skólar, veitukerfi, félagsþjónusta , öryggi, mengun, hávaði, birta, átroðningur, ákvaðranir sem byggja á fyrra skipulagi, lífsgæði sem í skipulagi felast, samfelldar aðlaðandi göngu- og hjólaleiðir og útivistarsvæði sem efla lýðheilsu. Allt varðar þetta alla því skerðing á einhverjum þáttum í einu hverfi veldur meira álagi á öðrum svæðum þangað sem fólk þarf þá að leita í staðin. - Því varða skipulagsmál í Kópavogi alla Kópavogsbúa -og næstu nágranna þeirra einnig.
Hér í Smárahverfinu þar sem verktakar vilja setja 230 íbúðir á lítinn reit á kolli Nónhæðar í stað græna kollsins sem þar átti að vera segja þeir ekkert mál sé að koma skólabörnunum fyrir í Smáraskóla.
Við Smárskóla eru nú 7 lausar "bráðabirgða" kennslustofur og skólinn hefur verið fjölmennasti skóli Kópavogs án þess að vera hannaður til þess. Þá er hverfið með 3700 íbúa en í greinagerð aðalskipulags Kópavogs er það kynnt sem stefna Kópavogs að 2500- 3000 íbúar séu bak við hvern grunnskóla.
Kennslustofurnar og þrengslin í Smárskóla blasa við, samt segja þeir það ekki vandamál þó yfir 100 nemendur bætist þar inn. Um lagnir og fráveitu vita þeir ekki hvort þarf að taka upp allt eldra kerfið (og götur) eða ekki, umferðamál vita þeir ekki hvernig þeir ætla að leysa, og svo ætla þeir að taka frá okkur svæði sem lofað hefur verið frá því fyrstu lóðum var úthlutað hér sem fyrst og fremst opið grænt svæði með hlutfallslega lítinn byggingareit frátekinn til samfélagsnota þ.e. kirkju, félagsheimili eða viðlíka.
Á Nónhæð gætu verið óteljandi möguleikar fyrir útivist og skrúðgarða:
- Börnin á leikskólanum kalla svæðið "töfraskóg", það gæti verið útgangspunktur við hönnun. Og "trén" gætu verið bæði venjuleg lifandi tré, skúlptúrar, steinsúlur, ljósasúlur og m.fl .
- Á aðalskipulagi eru merktar þarna byggðir álfa og vætta, það má bæta þeim punkti við og þá eru komnir endalausir möguleikar.
- Nónhæð getur skapað tengingu göngu- og hjólaleiða milli opinna svæða Kópavogs alla leið yfir að Elliðavatni, það er enn annar punktur (sjá kort hér).
- Helgur hringur (hvilft) er á kolli hæðarinnar, við endurhönnun væri sjálfsagt að leggja útaf honum einnig.
- Í deiliskipulegi frá 1991 er merktur "útsýnisturn" rétt neðan við hringtorgið á hæðinni, sjálfsagt væri að bæta honum á kollinn sjálfann.
- Kópavogsbær hefur með tillögum sínum nú opnað fyrir þann möguleika að aka inn á reitinn úr austri af Hlíðasmára, ef ekki yrðu byggð háhýsi má gera betur og hafa þá aksturstengingu af hringtorgi Arnarnesvegar suð-austan við reitinn inn á bílastæði fyrir reitinn og loka fyrir bílaumferð inná hann í gegnum hverfið sjálft.
- Í Kópavogi er gömul hefð fyrir að taka tillit til sagna og minni um álfa og huldufólk og hjátrú og þjóðtrú, þegar Baháíar eru nú farnir af reitnum getum við notað tækifærði og bæði virt það áfram og minnst þess enn betur.
- Allt aðrir og miklu fleiri möguleikar gefast þarna einnig sem eru margir einstakir á sinn hátt.
Að öllu þessu samanlögðu og í anda þess að leikskólakrakkarnir á hæðinni kalla Nónhæðarkollinn "töfraskóg" ætti að nýta þetta allt til að ganga þarna frá "töfraskógi" -skrúðgarði sem Kópavogur yrði stolltur af og með einhverskonar útsýnisturni (sbr deiliskipulag) með aðkomu frá hringtorginu á Arnarnesvegi fyrir akandi en úr báðum áttum fyrrir gangandi og hjólandi. Einnig aðstöðu til að teygja sig og hvíla við göngu milli grænna svæða Kópavogs sem Nónhæð tengir saman alla leið að Elliðavatni (sjá hér). - Þannig væri lýðheilsu Kópavogsbúa lagt öflugt lið um leið og við gætum öll orðið stoltari af bænum okkar.
Það er aðeins enn mikilvægara því meira sem er steypt upp í loftið í næsta nágrenni okkar við Smáralind og á Gustssvæðinu að standa vörð um þau fyrriheit um grænt svæði og skrúðagarða á kolli Nónhæðar eins og aðalskipulag og deiliskipulag hefur lofað íbúum Kópavogs allt frá því þetta svæði var fyrst tekið til skipulags.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Þriðjudagur, 14. ágúst 2007 (breytt 15.8.2007 kl. 14:47) | Facebook
Athugasemdir
Sæll Helgi og þakka þér fyrir öll þín innlegg varðandi skipulagsmál í Kópavogi, þau eru sett fram af heilindum og virðingu, það líkar mér vel.
Ég vil minna á að í Salnum í kvöld, miðvikudaginn 15. ágúst kl. 20, verður haldinn opinn fundur um skipulagsmál á Kársnesi. Þar verður kjörið tækifæri til að ræða opinskátt við skipulagsyfirvöld og vonandi verður einhverjum spurningum svarað þar.
kveðja, Ingibjörg
Ingibjörg Hinriksdóttir, 15.8.2007 kl. 08:29
Einstaklega athyglisverður punktur varðandi nýtingu á Nónhæðinni og að leggja útaf því að leikskólakrakkarnir kalla svæðið töfraskóg og alla möguleikana sem það gefur, bæði sem listaverkagarð og skrúðgarð með tilvísinun í hið auðuga ímyndunarafal m.a. með álfum og huldufólki sem auðvitað með einum eða öðrum hætti vísa til sköpunargáfu okkar. - Sá að þú skrífaðir "Huldu-fólk" með stórum staf í fyrirsögn hér nokkru neðar sama dag og minnst var Huldu Jakobsdóttur fv bæjarstjóra Kópavogs. Ekki víst að allir hafi áttað sig á því, en skildi ég ekki rétt að þú varst að vísa til þess að hugsanlega væri hægt að tegnja garðinn minningu Huldu og frumkvöðla Kópavogs.
Gunnar G (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 13:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.