Steingrímur J Sigfússon og Ögmundur Jónasson að ógleymdu ASÍ hafa margoft sannað hve mikilvægt er að eiga rödd og aðkomu að vettvangi ákvarðanna Evrópu, þó svo hér sé Steingrímur að tala á vettvangi Evrópuráðsins en áhrif Ögmundar og ASÍ hafi verið í samráðsferlum við ákvarðanatökur ESB vegna málefna vinnumarkaðar Evrópu vegna aðildar íslenskra launþegasamtaka.
Í raun er öflug rödd og rök miklu meira virði ein og sér en atkvæði eitt og sér. Þess vegna skiptir aðild okkar að ESB gríðlega miklu máli því þar fáum við rödd og aðkomu að öllum ákvarðanatökuferlum ESB.
ESB er byggt upp á hugmyndum um samstöðulýðræði
Í ESB er í raun iðkað samstöðulýðræði sem merkir að leitast er við að mál séu ekki til lykta leidd við eindregna andstöðu einhvers aðila hópsins. Það birtist svo á margvíslega vegu, m.a. með því að allt annarskonar valdastofnun formar og leggur fram tillögur, þ.e. framkvæmdastjórn ESB, en sú sem tekur endanlegar ákvarðanir í málum sem er ráðherraráðið.
Á leiðinni þar á milli fara mál langa leið sem sumir kvarta yfir að sé of tímafrek. Tilgangurinn er þó samráð við alla sem mál snerta og að allar raddir komist að. Á þeirri vegferð ákvarðanna frá tillögum framkvæmdastjórnar (einn frá hverju landi) til ráðherraráðs (einn frá hverju landi) er Evrópuþingið mikilvægasti áfanginn en það getur ýmist fellt mál, sent til baka til frekari vinnslu eða kallað eftir málum frá framkvæmdastjórninni.
Þessi vegferð mála kallar líka á að öll gögn séu raunverulega uppi á borðum, að allt sé þýtt á öll tungumálin og öll gögn séu aðgengileg öllum. Það gerir feikna kröfur en gefur líka stundum höggstað á ESB þegar ekki er hægt að fela neitt og 27 þjóðir horfa yfir axlir allra embættismanna, en opnari og traustari stjórnsýsla finnst ekki.
Í þessu ferli samstöðu- og samráðslýðræðis sem íslendingar eru alls óvanir, hallar á þá stóru og valdmiklu í þágu þeirra litlu, - tilgangurinn er að það sé ekki afl heldur samstaða og sátt sem ráði niðurstöðu, þó svo stundum, jafnvel of oft, kosti það átök, samningatækni og hrossakaup að lenda málum.
Allir inn enginn út en við ein eftir í EFTA
Bandalagið var stofnað til að stuðla að varðveislu friðar í Evrópu með samstöðu, samskiptum og viðskiptum milli landanna. Árangurinn er sá að nær öll lýðræðisríki Evrópu hafa gengið í ESB en ekkert ríkjanna hefur íhugað úrsögn - á sama tíma sitjum við nær ein eftir í EFTA sem Bretar stofnuðu til að þurfa ekki að gang í EB en geta dreymt drauma um að ráða mestu allra um viðskipti bæði innan Breska Samveldis og í Evrópu. - En jafnvel Bretar eru löngu gengnir úr EFTA og í ESB.
Heimsveldisdraumar hafa áhrif á stöðu Breta
Enn leggja hagsmunaðilir sem eiga mikið undir í viðskiptum innan Breska samveldisins mikla áherslu á að eiga sína fulltrúa og talsmenn allstaðar þar sem viðskiptahagsmunir Breta koma við sögu, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir sum bresk fyrirtæki, sem fremur vilja vegna þeirra hagsmuna auka áhrif og völd Breta byggð á heimsveldisdraumnum og Breska samveldinu en á Evrópu.
Meðal breskra samveldissinna heitir það að horfa fremur til heimsins en til Evrópu - það merkir að fórna Evrópu-tengslum til að auka Samveldis-tengsl - enda þar er Bretland krúnan. Samvedlishagsmunir Breta leiddu þá um hríð frá ESB með stofnun EFTA en voru nær þjóðagjaldþroti að sögn Daniel Hannan í grein hans í Mogga þegar Bretar gengu í ESB (- og björguðu sér þá væntanlega frá þjóðargjaldþroti með ESB-aðildinni), það má því segja að Samveldið og viðskiptahagsmunir fyrirtækja innan þess hafi veikt stöðu Breta í Evrópu með því að tefja, seinka og trufla ESB-þáttöku Breta.
Geng ESB og fyrir Breska samveldið í 15 ár
Daniel Hannan, bretinn sem ESB-andstæðingar hampa mikið er fyrst og fremst Samveldissinni sem vill fórna Evróputengslum Breta til að byggja undir Samveldis- og heimsveldisdrauminn og þá viðskiptahagsmuni sem þar eru í veði. Hann hefur í 15 ár verið þingmaður á þingi ESB til að berjast geng ESB. Hann lagði það til á sínum tíma að Bretar gengju úr ESB og aftur í EFTA til að geta byggt upp á grundvelli Breska samveldisins í stað Evrópu - þ.e. á leifum breska heimsveldisins og draunum um endurreisn þess sem viðskiptaheildar.
Og rök úr þessum þankagangi kópera svo sumir Íslendingar.
Hins vegar vilja Norðurlandabúar ákafir fá okkur í ESB til að efla sitt lið, en fulltrúar Breta hafa engan áhuga á aðild Ísland að ESB þó þeir verði að sætta sig við hana ef við viljum, heldur segja Bretar allir sem einn að við ættum að láta okkur EES duga því þá senda þeir okkur reglur í áskrift en eru lausir afskipti smáþjóðar með kröfur og áhrif innan bandalgsins.
Jafnvel nafn samtaka ESB-andstæðinga Heimssýn er komið frá frasa breskra Samveldis- og heimsveldissinna horfum til heimsins sem merkir í þeirra munni eflum Breska Samveldið og látum okkur dreyma um heimsveldið.
Við eigum að vera menn til að þora að setjast til borðs þar sem ákvarðanir eru teknar og láta í okkur heyra og til okkar taka eins og Steingrímur J gerði hjá Evrópuráðinu.
- Og við eigum ekki að láta nokkurn mann segja okkur að þar sem við höfum rödd hefðum við ekki áhrif, - það sannar Steingrímur J manna best, hvað þá heldur þegar röddinni fylgir atkvæði og neitunarvald í grundvallarmálum.
Frysting tekin fyrir hjá Evrópuráðsþinginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 10. janúar 2009 (breytt 12.1.2009 kl. 05:34) | Facebook
Athugasemdir
Því miður enn eitt dæmið um bullukollalýðræðið þar sem menn sitja beggja vegna borðs hér og þar og hæst gellur í tómri tunnu vil ég segja því engu áorkar gasprið.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 10.1.2009 kl. 02:22
?????
Helgi Jóhann Hauksson, 10.1.2009 kl. 02:43
Guðrún komdu vinsamlega með efnisleg rök byggð á einhverri raunverulegri þekkingu. - Þið blásið upp rakalausum hræðsluáróður sem bara er það „hræðsluáróður“ - áróður til að hræða, - en vitið ekkert um hvernig ESB er byggt upp eða afhverju ríki sameinast um ESB og af 27 ríkjum hefur ekkert þeirra hugleitt að ganga út -á sama tíma sitjum við nær einir eftir í EFTA sem Bretar þó stofnuðu, - og skiljum ekkert í þessu - því stöðugt er logið að okkur.
Vel að merkja þá gerði ég mína lokaritgerð í stjórnmálafræði við HÍ undir heitinu „Ísland við samningaborðið — Andspænis fiskveiðistenfu ESB“. - Við gerð hennar uppgötvaði ég það merkilegast að stofnanir, ráðuneyti (þar á meðal sjávarútvegsráðuneyti og Hafró) og félagasamtök áttu nær ekkert sérefni um ESB og fiskveiðimálin og höfðu alls engan áhuga á að vita neitt um efnið - bara að geta fullyrt, staðhæft og skrökvað án þess að vita neitt.
Helgi Jóhann Hauksson, 10.1.2009 kl. 03:00
Hér eru t.d. ein rök: Örfáir mótmælendur í skipulögðum aðgerðum, svo sem hótel Borg, og heimsóknir í banka og eftirlitsstofnanir duga betur en 10.000 manna mótmæli fyrir jól.
Það er ein leið til að sefa fjöldann að tala og tala og láta fólkið heyra sín sjónarmið, en hunsa þau svo bara í framhaldinu.
Ég virði auðvitað skoðanir þeirra sem vilja ESB, en ég set ESB undir nákvæmlega sama hatt og alþjóðavæðingu: Eyðileggingu framleiðslu á vesturlöndum og flutning hennar til alræðisríkisins Kína, melamín, eiturefni í vörum, reglugerðir sem banna 1mm of lítil Kiwi, lítil mannréttindi o.s.frv.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 10:31
Sæll Helgi Jóhann og takk fyrir þessa samantekt.
Ég tek undir að það er nauðsynlegt að rödd okkar heyrist. Það er greinilegt á öllu að hún heyrst nú þegar á ýmsum vettvangi án þátttöku í Evrópusambandinu. Spurningin sem ég velti fyrir mér er þessi:
Er hugsanlegt að styrkur raddarinnar felist einmitt í því að vera ekki aðildarríki í Evrópusambandinu?
Þetta kanna að hljóma sem öfugmæli, en það sem ég á við er þetta: Nú þegar er aðkoma okkar nokkur. Það fer fram ákveðið samráð milli EFTA ríkjanna og ESB meðan mál eru í vinnslu. Við afgreiðslu laga fara mál fyrst í gegnum þriggja-þrepa-ferlið hjá fastanefnd EFTA og fá síðan afgreiðslu hjá hinni sameiginlegu EES nefnd, áður en þau koma til kasta Alþingis. Er hugsanlegt að sá raddstyrkur sem fengist með setu íslenskra þingmanna á Evrópuþinginu yrði minni en við höfum með núgildandi fyrirkomulagi?
Þó Evrópusambandið hafi samstöðulýðræðið í stafni tekur fastafulltrúi Letta fram í Mbl viðtali að fámannari þjóðir þurfi að hafa meira fyrir sínum málum en þær stóru. Ég reikna með að hann tali af reynslu.
Vek líka athygli á að reglur um neitunarvaldið munu væntanlega breytast talsvert áður en Íslandi gæfist kostur á inngöngu í sambandið. Innganga væri stórt mál og í mörg horn að líta.
Haraldur Hansson, 10.1.2009 kl. 12:33
Sæll Haraldur
Þessi dæmi um aðkomu okkar eru mjög takmörkuð og þröng en sýna hve mikilvæg aðkoma okar er og að þar sem við komumst að höfum við áhrif og á okkur er hlustað þegar svo ber undir.
Það er líka mín persónulega reynsla þar sem ég var um hríð fulltrúi Evrópsku Alzheimerssamtakanna í European Patients' Forum sem er samráðsvettvangur evrópskra sjúklingasamtaka og ESB við mótun heilbrigðisstefnu ESB. (Ég var eini íslendingurinn þar og nú er þar enginn.) Þegar menn eru mættir skiptir vægi atkvæða engu máli heldur aðeins hvað einstaklingarnir hafa að segja.
Það merkilegasta sem ég kynntist þar var að framkvæmdastjórarnir á sviði heilbrigðismála og lyfjamála, ásamt formönnum viðkomandi nefnda á Evrópuþinginu mættu og sátu raunverulega með okkur langar ráðstefnur, tókust á við fólk og fulltrúa um rök og sjónarmið, réttlættu sig og báðust afsökunar og fóru yfir hvað lofað hefði verið áður og hverju miðaði og hversvegna sumt sat fast og hvernig mætti hnika því. - Og svo sá maður það sem þarna kom fram mótast í vinnuplöggum hjá ESB.
- Ef íslenskir ráðherrar þingmenn eða ráðuneytisstjórar fást til að mæta á ráðstefnur íslenskra sjúklingasamtaka eða hjá ÖBÍ þá sitja þeir stutta stund (15 mín) í upphafi til að ávarpa sjálfir ráðstefnuna - og svo eru þeir farnir. - Þeir mæta ekki til að hlusta eða fræðast.
(Jón Kristjánsson var mikilvæg undantekning frá þessu, hann sat allar ráðstefnur sem hann gat en sagði því minna sjálfur.)
- Þegar eru þekkt alvarleg dæmi um að við höfum uppgötvað af tilviljun hjá ESB að detta væru inn tillögur um reglur sem hefðu alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland (t.d. á viðskipti með sjávarafurðir) - og við höfum þurft að sitja fyrir mönnum á göngum ESB til að ná til þeirra bara til að benda á okkar sjónarmið - og Íslendingunum tókst að láta hlusta á okkur og fá tillögum breytt. - Það eru ekki ferli sem við getum treyst á. - Við verðum að eiga hina formlegu að komu, vera formlega upplýst áður en mál fara of langt og geta formlega tekið mál upp á réttum vettvangi áður en tillögur fara of langt.
Helgi Jóhann Hauksson, 10.1.2009 kl. 14:08
Meira Haraldur
Ef eitthvað neitunarvald er til stðar má nýta það til að undirstrika önnur mál sem við teldum svo mikilvæg að þess þyrfti. Vinnubrögð „samstöðuákvarðanna“ hafa tvær hliðar annrsvegar að þær skila mestri sátt en hinsvegar að þær eru tímfrekar. Þegar þátttakendum fjölgar verður sáttin erfiðari og tímafrekari þó „samstöðuákvarðanir“ séu eftir sem áður markmiðið þá er það gert með því að fækka málaflokkum þar sem klárt neitunarvald er til staðar. -
Þetta heldur allt áfram að þróast - og ESB verður aldrei komið í eitthvað endanlegt form og einhvern daginn verður til einhver önnur lausn sem ríki taka sækja í þeim og fækkar aftur í ESB eins og við höfum horft á EFTA fjarar út. - EN það bara er ekki málið nú.
Helgi Jóhann Hauksson, 10.1.2009 kl. 14:22
Sæll aftur Helgi Jóhann og takk fyrir svarið.
Ef menn hafa "uppgötvað af tilvilljun" að mál væru til afgreiðslu er það líklega merki um að menn vinni ekki vinnuna sína frekar en að kerfið sjálft sé gallað.
Just for the record: Andstaða mín (eða ótti) við inngöngu í ESB er ekki byggð á þeim ástæðum sem menn tala mest um, þ.e. að missa yfirráð yfir auðlindum. Þó er full ástæða til að stíga varlega til jarðar og bregða stækkunarglerinu á alla þætti sem þetta varða.
Ég er fyrst og fremst skeptískur á inngöngu á þessum tímapunkti og eru þrjár ástæður helstar: 1) kreppan sem ég tel að við verðum að vinna okkur úr sjálf áður en til slíks samstarfs er stofnað, 2) fyrirsjáanlegt breytingaskeið Evrópusambandsins, og 3) sú óvissuferð sem evran er að leggja upp í vegna kreppunnar sem vofir yfir Evrópu.
Það má vera að aðstæður verði aðrar og betri eftir fáein ár, t.d. þegar kosið verður til Evrópuþingsins 2014. En á þessum tímapunkti tel ég þetta ekki góðan kost, hvað sem síðar kann að verða.
ps: Sé að þú hefur náð mynd af nefinu á mér á Austurvelli!
Haraldur Hansson, 11.1.2009 kl. 08:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.