Ásýnd og skipulag Kópavogs varðar alla bæjarbúa

Mynd_2007-06-23_16-35-26Kópavogsbúar verða nú að taka höndum saman og stöðva ofvaxin stórverktaka-krabbamein sem spretta nú upp og vaxa stjórnlaust í grónari hlutum bæjarins eftir að mest öllu nothæfu byggingalandi bæjarins var ausið út á umliðnum árum. Bæjarstjóri hefur lýst því yfir að Kópavogsbúar eigi að vera orðnir 50 þúsund eftir aðeins fáein ár. Íbúar bæjarins ættu að velta fyrir sér hvar tvöföldun bæjarbúa eigi að komast fyrir nú þegar mest allt gott byggingarland er upp urið. Jú augljóslega á að byggja upp í loftið og hvar sem nothæfur blettur finnst, hvort sem þar er fyrir opið svæði eða hús.

Rétti staðurinn til að stöðva þetta er hinn helgi reitur á Nónhæðin og rétti tíminn er núna.


Margt hefur verið vel gert í Kópavogi á umliðnum árum og þar sem bærinn sjálfur hefur á annað borð ákveðið að taka til hendinni t.d. við Kópavogslækinn hefur vel tekist til. - En það ætti þó fremur að vísa til þess í hve góðum bæ við viljum búa en að við látum hvaða skipulagsklúður sem er yfir okkur ganga.
Skipulag og ásýnd bæjarins mun ráða hvernig hann og hverfin byggjast til framtíðar og hvernig um hann verður gengið.
Það er engin tilviljun að sumstaðar er engin virðing borin fyrir umhverfinu og af stað fer keðjuverkun lækkandi fasteignaverðs og enn verri umgengni á meðan annarsstaðar fær ljúfleikinn og fegurðin að njóta sín óspjölluð. Skipulag og uppbygging hverfa ræður hvernig eðli þeirra þróast síðar og hvernig um þau verður gengið.

Á Nónhæð hefur samkvæmt skipulagi í um 20 ár verið gert ráð fyrir útivistarsvæði, þar er jafnvel merkt á aðalskipulagi byggð vætta og álfa og ákveðin helgi hvílir yfir hæðartoppnum. Það er enginn vafi að Kópavogsbær gæti gert það svæði jafn eligant og honum hefur tekist til annarsstaðar þar sem vilji hefur staðið til þess.  Reyndar ætti Kópavogsbær kannski að tengja saman álfabyggðirnar sínar, sem eru víða, með einhverjum sérstökum hætti og merkja gönguleiðir á milli þeirra. – Það gæti haft mikið gildi fyrir fjölmargt fólk innlent og erlent og bæinn í heild - Kópavogur á sögu sem tengist meira slíkum hlutum en flesta grunar sem svo aftur eru ekta íslenskir. Þess í stað á nú að ryðja einni álfabyggð í burtu og setja í staðin neðanjarðarbílastæði á tveimur hæðum jafn stór og Kringlan var ný, og auk lægri húsa munu 12 og 14 hæða turnar rísa uppúr henni.


Prúttið er partur af planinu


Mynd_2007-06-28_19-55-18Athyglisvert er að sú aðferð virðist notuð að fara að hætti prúttsölumanna og nefna fyrst eitthvað "hærra"  en til stendur “að selja íbúunum”. Þegar við  svo fáum strax nokkra lækkun byggingarmagns líður okkur eins og við höfum unnið persónulegan sigur og kaupum pakkann verði sem við hefðu aldrei sætt okkur við í hreinskiptum og heiðarlegum viðskiptum.
Þannig er t.d. afar athyglisvert að fyrstu og ýtrustu óskir verktakanna gera ráð fyrir nýtingahlutfallinu 0,94 að slepptum 18.000 fermetra bílakjallara, en afgreitt úr skipulagsnefnd og bæjarráði til kynningar fyrir íbúum er nýtingahlutfallið 1,1 eða nokkru meira en verktakinn lét sér dreyma um. Augljóslega á svo að skera eitthvað niður aftur að fengnum viðbrögðum íbúa, kannski niður í sama hlutfall og verktakinn bað um upphaflega eða 0.94  og þá eiga allir að geta verið ánægðir með framistöðu bæjaryfirvalda og hve vel þeir gæta hagsmuna bæjarbúa er það ekki?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Arnardóttir

Sæl Helgi.     Bendi þér þó á bloggið mitt

www.gudridur.blog.is

Bestu kveðjur, Guðríður

Guðríður Arnardóttir, 1.7.2007 kl. 22:31

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Takk Guðríður, þú átt heiður skilinn fyrir frábærar framstöðu síðna þó komst inn á þetta sjónarsvið stjórnmálanna, en hér hefur ykkur sameiginlega orðið alvarlega á í messunni að gera ykkur ekki ljósari alvöru þessa máls fyrir Kópavog í heild, en ég svara því betur hér á blogginu þínu (smella).

Helgi Jóhann Hauksson, 2.7.2007 kl. 01:43

3 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Þetta skipulag hefur ekkert með aðra íbúa Arnarneshæðarinnar að gera en mikið ofboðslega kemur það til með að hafa áhrif á þá sem búa Garðabæjamegin við arnarnesveginn án þess að þeir fái að segja múkk við þessum tillöggum.

Ég fyrir mína parta líst ekki á þessa skipulagningu og er ég inn af nágrönnunum Garðabæjarmegin.

Brynjar Hólm Bjarnason, 2.7.2007 kl. 09:30

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Jú svo er það nú auðvitað stórmál að á hæðinni búa ekki bara Kópavogsbúar, rétt hinum megin við veginn er Garðabær og íbúar suðurhliðar Arnarneshæðar. Nú þegar fara börn og unglingar á milli í leit að leiksvæðum og sparkvöllum og öðrum athafnasvæðum fyrir sig. Þegar valið er að ganga ekki frá grænu svæði Kópavogsmegin í þágu íbúanna heldur bæta á það meiri íbúðamassa eykst straumur barna úr þeirri áttinni yfir til nágranna í leit að freistandi viðfangsefnum og leiksvæðum. -Fyrir utan nú ásýnd bæjarins sjálfs , ímynd Kópavogs og svo útsýnið frá Garðabæ til Kópavogs og umferðarmálin.

Helgi Jóhann Hauksson, 2.7.2007 kl. 11:00

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Helgi, ég vil þakka þér fyrir að standa í þessari baráttu.  Það er greinilega einhver meinloka í íslenskum sveitarstjórnarmönnum að nauðsynlegt sé að nýta allt land til byggingar.   Núna er það Nónhæð næst er það Vatnsendahlíð og svæðið í kringum Guðmundarlund.  Þá er það stórskipahöfnin á Kársnesi og bryggjuhverfið og hesthúsasvæðið við Reykjanesbraut.  Þetta endar á því að steinsteypan þekur allt.  Það er alveg furðulegt að náttúruverndarsinnar geta farið í kröfugöngu til verndar Kárahnjúkum, en er alveg sama um sitt nánasta umhverfi.  Þar er í lagi að þekja allt með steinsteypu.

Mér er svo sem engin eftirsjá í Nónhæð, eins og hún lítur út í dag, en það má laga hæðina á annan hátt en að byggja þar 14 hæða hús.  Önnur svæði vil ég vernda og þar helst svæðið í kringum Guðmundarlund og út með Elliðavatni (austur með).  Af hverju þarf að setja þar niður 7.500 mannabyggð?

Eitt, varðandi prúttið.  Þetta er gömul aðferð og er oft beitt til að ná sínu fram.  Ég man eftir einu dæmi frá því að Ólafur Ragnar var fjármálaráðherra.  Þá hafði það spurst út að það ætti að hækka skatta um 6%.  Ólafur var spurður út í þetta og hann svaraði eitthvað á þessa leið: ,,Nei, nei, nei, það á ekki að hækka þá um 6%.  Það á bara að hækka þá um 4,5%."  Þannig urðu allir glaðir, því það átti BARA að hækka skattana um 75% af því sem menn höfðu haldið.  Það er mikilvægt í þessu máli með Nónhæð eins og öllum öðrum prútt málum Gunnars Inga, að þegar breytt tillaga kemur fram má ekki bera hana saman við fyrstu tillögu heldur skal bera hana saman við núverandi deiliskipulag.  Þ.e. þegar bærinn gerir næst tillögu um 8 hæða hús, þá er það hækkun um 7 hæðir, ekki lækkun um 6 hæðir.  Því skora ég á ykkur íbúa í kringum Nónhæð að standa fast á því, að hver einasta hæð umfram það sem núverandi deiliskipulag segir til um, er hækkun á byggingum, en ekki lækkun eins og Gunnar Ingi og Ármann Smári munu reyna að sannfæra ykkur um, þar sem ekki verður farið eins hátt upp í loftið og fyrstu tillögur segja til um.

Marinó G. Njálsson, 2.7.2007 kl. 16:12

6 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Ég sé ekki annað en að það þurfi að stofna samtök bæjarbúa um skipulagsmál til þess að þeir geti haft áhrif í þeim málaflokki sem skipta máli.  Bæjaryfirvöld geta nánast hagað svokallaðri grendarkynningu eins og þeim sýnis.  Möguleikar í búanna til að hafa áhrif á gang mála eru sáralítil.  Sjálfur bý ég beint á móti Smáralindinni og sem stendur er verið að reisa hæstu byggingu á Íslandi við hliðina á mér og framan við mig er verið að grafa fyrir öðru háhýsi sem ekki fást einu sinnu upplýsingar hjá bæjaryfirvöldum hvernig á að líta út.  Bæjaryfirvöld sýna íbúum bæjarins einfaldlega lítilsvirðingu og dónaskap þegar skipulagsmál eru annars vegar og þar fer fremst í flokki bæjarstjórinn sjálfur.

Helgi Viðar Hilmarsson, 2.7.2007 kl. 17:57

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Takk Marinó, þetta er mikilvægt.

- Og það er hárrétt Helgi Viðar að þegar fólk verður komið úr sumarfríum með haustinu verða ábyrgir Kópavogbúar að stofna heildarsamtök um skipulagsmálin í bænum. Í raun virðast fulltrúar allra flokka úti á þekju í þessum málum, sem svo aftur má vera að sé bara gott því það auðveldar Kópavogsbúum að stofna ópólitísk eða þverpólitísk samtök um málaflokkinn. Þetta háhýsadrit í bænum er skelfilegt og einmitt hvað er að gerast þarna niðurfrá? - Svo nota þeir það sem rök að vegna þess hvað þjónustubyggingarnar vaxa hratt og hátt í kringum smárlind og væntanlega á Gustssvæðinu verði að troðast inn í gróin íbúðarhverfin og byggja íbúðarhús líka hátt þétt og hratt á t.d. þessu opna svæði hér uppá Nónhæð.

Helgi Jóhann Hauksson, 2.7.2007 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband