Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Skrautlegir nýbúar með framandi yfirbragð

Mynd 2008 04 29 15 58 51Í gær rakst ég á nokkurn hóp nýbúa, framandi í útliti og með annað litarhaft en við eigum að venjast á þeirra líkum. Mér skilst að hópurinn hafi hreiðrað hér um sig undanfarin ár og reynt að setjast hér að án þess að margir hafi gert sér grein fyrir því.  Hans er t.d. hvergi getið í þeim prentuðu ritum og gögnum sem ég hef með höndum. Á netinu má þó finna heimildir um að undanfarin ár hafi nokkrar fjölskyldur Þessar framandi furðufugla reynt að koma sér fyrir hér á landi og þá á Vesturlandi t.d. við Andakílsá. Ég get ekki að því gert að fagna innileg í hjarta mér þegar ég uppgötva að fleiri vilji setjast að á Íslandi en áður og ekki síst þegar um svo litríka fugla er að ræða sem brandönd. 

Mynd 2008 04 29 16 05 42Þegar ég kom auga á 12-15 brandendur róta með goggnum í leirunum á Álftanesi gat ég með engu móti áttað mig á hvort hér voru á ferð smáar gæsir eða stórar endur, og þessa gerð fugla hafði ég aldrei séð áður. Þegar heim kom og ég skoðaði betur myndirnar varð ráðgátan aðeins dularfyllri, því í mörgu minntu þær á endur t.d. á flugi en svo aftur hitt ekki síður á gæsir, t.d. virtist bæði kollan og steggurinn í fljótu bragði vera eins, í sömu skrautlegu litunum sem er ólíkt öndum þar sem aðeins steggurinn er skrautlegur, aftur á móti virtust þær í lögun og stærð fremur vera eins og stóarar endur - þó ekki virtist muna miklu á þeim og margæsunum. Mynd 2008 04 29 15 59 07Ég sá þó ekki betur en verið gæti að steggirnir væru stærri og með rauðan hnúð við rauðan gogginn en kollurnar bara með rauða gogg að mestu án hnúðs.  Fuglarnir virtust róta í leirunum í leit að æti og héldu sér á svipuðum slóðum og margæsirnar og nokkrar æðakollur. Margæsirnar sá ég þó éta grænt þang en ekki þessa litríku nýbúa sem ég nú veit að heita brandendur og eru einmitt sagðar vera millistig milli gæsa og anda. 

Hvaðan þær koma og hvert hefðbundið varpsvæði brandanda er veit ég þó ekki en gaman væri að vita hvort einhverjir hér vita meira.

Fleiri myndir af brandöndunum eru hér í fuglaalbúminu mínu á spássíunni

Mynd 2008 04 29 16 10 47


Óvinurinn er fundinn og orrustuflugvélar bíta ekki á hann.

Þegar stríð vofir yfir lítilli þjóð og innrásarher vomir úti fyrir velktist enginn í vafa um að rétt væri að grípa til varna og byggja bandalög með öðrum þjóðum í von um að geta stökkt á brott árásarhernum eða hrundið árásinni.

Á sama tíma og Davíð Oddsson átti í heitstrengingum við Bandaríkjamenn vegna fjögurra herþota og fyrirsjánlegrar brottfarar bandaríska hersins sem fann engan óvin til að verjast voru þegar teikn á lofti um raunverulega óvini og alvöru árás á varnarlaust Ísland en forsætisráðherra okkar og síðar seðlabankastjóri vildi ekki ansa einu orði kröfu margra um  aðild að því efnahagslega varnarbandalagi sem eitt hefði getað gert okkur kleyft að verjast þeirri árás sem nú hefur verið gerð á landið.

HPIM0845Margir okkar færustu sérfræðinga hafa varað við því að Ísland væri efnahagslega varnarlaus bráð fyrir fjölmarga öfluga óvini.  Í ákafa okkar við leit að óvini sem  byssur og flugskeyti gætu grandað var í engu sinnt um raunverulegar varnir landsins, varnir gegn herforingjum voldugustu vogunarsjóða.

Ef nokkru sinni var ástæða fyrir okkur að gerast aðilar að NATO hefur nú árum saman ekki verið síðri ástæða fyrir okkur að gerast aðilar að ESB og þátttakendur í myntbandalaginu. Því betur sem aðrar af minni  þjóðum Evrópu hafa búist til efnahagslegra varna með þátttöku í ESB því augljósari bráð hefur Ísland orðið – Það að verja ekki landið með ESB aðild er jafngilt því að hafa landið varnarlaust á viðsjárverðum tímum þegar herir fara um og ræna þeim lendum sem þeir ráð við.

HPIM0720En þó stríðið sé skollið á og okkur takist nú að stökkva árásahernum á brott eftir samt talsvert tjón sem hann hefur þegar valdið þá býr framtíðin áfram yfir fjölmörgum hættum sem fráleitt er að verjast ekki með þátttöku í því efnahagslega varnarbandalagi sem ESB tvímælalaust er. Menn mega ekki lengur láta fáfræði og fordóma byrgja sér sýn til nauðsynlegra varna íslensku efnahagslífi – við erum síst fullvalda undir hælnum á fjárglæframönnum og ofurgamblerum, við tryggjum fullveldi okkar best með aðild að ESB og aukum jafnframt áhrif okkar.

Í dag tryggjum við raunverulega varnir Íslands gegn alvöru óvinum aðeins með þátttöku í ESB.

 


mbl.is Allir taka skort í Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vefritið: Var Páll Pétursson Nostradamus holdi klæddur?

Neðan greint er tekið af vef Vefritsins (smella) þar sem vitnað er til orða Páls Péturssonar árið 1992 um hvaða áhrif EES myndi þá hafa á atvinnustigið á Íslandi.  Kannast einhver við málflutninginn? - nákvæmlega sá sami og nú 16 árum seinna er hafður uppi um ESB. -Hvernig rættust orð Páls?

 „Nostradamus holdi klæddur

Þeir [forkólfar stéttarfélaganna] virðast loka augunum fyrir því að við erum að gerast aðilar að efnahagssvæði þar sem fast atvinnuleysi er um 10%. Með svipuðu lögmáli og vatnið rennur undan brekkunni hlýtur atvinnuleysi hér að aukast til stórra muna.

Páll Pétursson, fyrrv. ráðherra, í umræðum um aðild Íslands að EES, 25. ágúst 1992.“

Vefritið


Smá pabbamont

Bræðurnir Einar og HaukurEinar Axel yngri sonur minn (19 ára) tók fyrir nokkrum dögum við 1. verðlaunum í stæðrfræðikeppni framhaldsskólanna annað árið í röð, og svo aftur nú á sunnudaginn við 2. verðlaunum í eðlisfræðikeppni framhaldsskólanna.  Satt að segja finnst mér það orðið æði sannfærandi árangur hjá honum.  Einar hefur nú hafið störf í veitingasalnum Turninum á 19. og 20. hæð turnsins við Smáratorg og líst afar vel á sig þar, - allt sé þar einstaklega vandað og vel gert. Einar útskrifast væntanlega frá MR í vor og er að spá í hvaða nám taki við. Erla kærasta Einars sem er lengst til hægri á næstu myndi hér fyrir neðan er líka nemandi við MR og sérlega efnileg stúlka. Mynd_2008-03-14_20-43-08

Yngri dóttir okkar (2 strákar + 2 stelpur)  Hafdís Helga (18 ára) hefur lengi haft brennandi áhuga á leiklist og var í vetur oddviti leikfélags MH en með henni hefur starfað frjór og öflugur hópur krakka sem skólinn getur verið afar stoltur af. Þá hefur hún verið að leika í Skilaboðaskjóðunni í Þjóðleikhúsinu í vetur og birst í nokkrum atriðum í Spaugstofunni m.a. sem flugfreyja og svo í síðasta þætti, í hinum broslausa heimi Íslands eftir hrun sem þeir drógu upp, sem brúður Arnar Árnasonar og afgreiðslumær Kristjáns heiti ég Ólafssonar. Hún er nú að ljúka 3ða ári í menntaskóla en það togast á í henni hvort hún í framtíðinni eigi að leggja fyrir sig leiklistina eða mennta sig á heilbrigðissviði.
Mynd_2007-09-17_19-30-36Haukur Már eldri sonur okkar og elsta barn af fjórum var í vetur tilnefndur til menningarverðlauna DV fyrir þýðingu sína á Óraplágu Zizek sem Hið íslenska Bókmenntafélag gaf út. Hann er nú í Kaliforníu með unnustu sinni Bryndísi Björgvinsdóttur sem aftur er í meistaranámi við Berkley-háskólann (sjá hér).
Jórunn Edda (23ja ára) , eldri dóttir okkar er komin heim frá Ítalíu þar sem hún var í skiptinámi og fékk afbragðs einkunnir og er að ganga frá námslokum við HÍ þar sem eitthvað möndl er að láta námstímabil við erlenda háskóla í skiptinemasambandi við HÍ falla að námsskipulagi HÍ,  - og á svo enn eftir að ákveða framhaldið hjá sér. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband