Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Nú þegar líður frá atburðum helgarinnar undrar mig mest að svo er sem engin krísuáætlun um vinnubrögð og aðgerðir hafi verið til ef svo færi að stór viðskiptabanki þyrfti verulega aðstoð. Þar liggja þó hinir raunverulegu varnarhagsmunir þjóðarinnar.
Slík áætlun hlyti að fela m.a. í sér módel fyrir samráð og ákvarðanatökuferli og mismunandi fyrirfram kannaðar niðurstöður eftir mismunandi forsendum sem búið væri að forma og prófa í líkani m.a. fyrir dómínóáhrif. Allt eins og um hverja aðra hernaðaráætlun til varnar landinu væri að ræða. Einnig og ekki síður hvernig gætt væri trúnaðar um það sem leynt þyrfti að fara þar sem farið væri með hagsmuni sem jöfnuðust á við mikilvægustu öryggishagsmuni ríkisins og ríkisleyndarmál eins og nú hefur komið í ljós þar sem mesta ógnin aðfararnótt mánudags var að þegar hefði spurst út hvað væri í gangi og því engra kosta völ.
Því hefur nú verið spáð í a.m.k. 2 ár að að því kynni að koma að íslenskir bankar lentu í alvarlegum erfiðleikum. Allt þetta ár hefur verið augljós hætta á að Seðlabankinn og ríkisstjórn myndu standa frami fyrir máli eins og máli Glitnis eða öðru verra. Augljóst er virðist þó af því sem frést hefur af vinnubrögðum við úrvinnslu málsins að engin strategía eða áætlun um viðbrögð, vinnubrögð og vinnulag var til staðar þegar formaður bankaráðs Glitnis bað um kaffibolla hjá Davíð Oddssyni.
Öryggi um leynd yfir brýnum ríkishagsmunum voru í húfi
Slík áætlun hlyti að byggjast á aðgerðum sem skýr lagagrundvöllur væri fyrir, aðkomu ríkisstjórnar og viðskiptaráðuneytis og sjálfstæða upplýsingaöflun þeirra og öryggi um leynd yfir brýnustu ríkishagsmunum sem berlega voru hér í húfi. Ef það þess hefði verið gætt eins og vera bar hefði fyrir það fyrsta verið rýmri tími til stefnu, það hefði ekki verið hætta á að fréttin springi út á mánudagsmorgni, og ekki léki vafi á að Glitnir hefði sætt meðferð á jafnræðisgrunni þar sem hliðstæðar upplýsingar um annan banka hefðu leitt til sömu niðurstöðu, og sú niðurstað hefði verið fyrirfram nægilega vel könnuð til að lítill vafi léki á að ekki væri önnur betri.
Stjórnmál og samfélag | Fimmtudagur, 2. október 2008 (breytt kl. 22:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja það er þá ekki hægt að segja að jafnræðis sé ekki gætt. Fyrst Björgólfur yngri fékk kaffibolla í gærkvöldi hjá Geir Haarde varð að veita Kaupþingsmönnum kaffi í kvöld ... - en auðvitað var ekki rætt um neitt sem skipti máli - með formlegum hætti.
![]() |
Kaupþingsstjórar í stjórnarráðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Fimmtudagur, 2. október 2008 (breytt kl. 11:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sala á Glitni til Landsbanka hefur ekkert verið rædd - með formlegum hætti, segir viðskiptaráðherra. Og forsætisráðherra er ekki að funda með Björgólfum sem heimsækja hann í stjórnarráðið heldur að eiga við þá kaffispjall eins og hann gerir svo oft þegar slíkir menn koma við á Íslandi. Mynd af Visir.is/Daníel
Sigurður G Guðjónsson hefur upplýst að þegar seðlabankastjóri gerði Glitnismönnum take it or leave it tilboðið undir miðnætti á sunnudag hafi hann ekki einu sinni haft það skriflegt. Sigurður segir í fréttum:
Þeir höfðu ekki einu sinni fyrir því að gera tilboðið skriflega. Lögfræðingar stjórnarinnar og stjórnarformaður þurftu að koma á fund stjórnarinnar með munnlegt tilboð. Í 84 milljarða króna samningi hlýtur það að hljóma nokkuð einkennilega.
Ætli þá nokkrar viðræður hafi farið fram milli Seðlabanka og Glitnis vegna yfirtökunnar - með formlegum hætti.
Stjórnmál og samfélag | Miðvikudagur, 1. október 2008 (breytt 2.10.2008 kl. 00:43) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sá sem eitt sinn gat ekki sem forsætisráðherra framkvæmt einfalda þjóðaratkvæðagreiðslu sem tilskilin er í stjórnarskrá því ekki hefðu áður verið sett lög um framkvæmdina ráðstafar nú sem seðlabankastjóri án lagaheimildar eða aðkomu alþingis tæpum 100 milljörðum króna (gengi í dag) af opinberu fé í áhættuhlutfé í banka.
Það undarlega er að á blaðmannfundi um málið kvað hann bankann vel rekinn og með öflugt og gott eignasafn en sagði svo að bankinn hefði orðið gjaldþrota og ekki krónu virði ef ekki hefði verið gripið til þessarar aðgerðar þennan t.t. mánudagsmorgun.
Hér er allt fullt af óskýrðum mótsögnum.
Ég ætla ekki að láta sem ég viti hvað réttast hefði verið að gera í málinu enda líklega aðeins framtíðin sem getur skorið úr um það, en augljóslega virðist undirbúningi ákvörðunarinnar vera ábótavant jafnvel svo að ekki standist lög.Hvergi heimild til Seðlabankans til hlutfjárkaupa
Kristinn Gunnarsson upplýsir í grein sinni um málið að samkvæmt 7. grein laga um seðlabankann sé seðlabankanum heimilað að veita viðskiptabanka í erfiðleikum lán eða ábyrgð fyrir láni - en hvergi sé til lagabókstafur sem heimilar bankanum að kaupa svo mikið sem eitt lítið hlutabréf - hvað þá fyrir 600 milljón evrur.
Tilboð seðlabankastjóra og skilmálar til Glitnis voru samkvæmt Sigurði G Guðjónssyni lögmanni og stjórnarmanni í Glitni aðeins bornir fram munlega og lögfræðingar Glitnis þurftu að punkta efni þeirra niður til að geta borið undir eigendur bankans. - Þ.e. ekkert skriflegt tilboð var lagt fram af hálfu Seðlabanka, - hvernig gátu þá ráðherrar og ráðuneyti Samfylkingarinnar hafa yfirfarið málið af einhverju viti ef skilmálar og efni tilboðs voru ekki settir á blað áður en það var lagt fram?
Mér finnst afleitt hvað Björgvin G Sigurðsson gengur langt til að taka á sig og Samfylkinguna ábyrgð á málinu og meðferð þess. Það minnir á það versta sem sást til Framsóknarflokksins til að vera þægar undirsátur við hirð Davíðs.
Þeir Össur voru kallaðir til síðdegis á sunnudag til að standa frami fyrir orðnum hlut og fengu ekkert tækifæri til sjálfstæðrar könnunar og upplýsingaöflunar um málið með t.d. samtölum við Glitnismenn sjálfa og/eða sjálfstæða yfirferð og upplýsingaöflun sinna sérfræðinga og viðskiptaráðuneytisins.
Stjórnmál og samfélag | Miðvikudagur, 1. október 2008 (breytt kl. 14:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það situr eftir óþægindatilfinning vegna atburða gærdagsins. Margt er óskýrt. Hvers vegna kom Samfylkingin og bankamálaráðherra ekki að málinu fyrr en allt var um garð gengið og ákveðið? Ég kaupi það ekki að Ingibjörg Sólrún stödd New York, veik og í rannsóknum og bið eftir bráðaaðgerð á heila, hafi spilað stórt hlutverk við úrvinnslu málsins með Geir Haarde eins og staðhæft er.
Ef rekstur Glitnis og eignasafn er jafn gott og seðlabankstjóri og forsætisráðherra segja, hversvegna var þá ekki hægt að leggja bankanum lið með minni dómínóáhrifum en með yfirtöku hans á brunaútsöluverði, þ.e. veita lán í stað yfirtöku? Bankinn hefur t.d. ekki orðið fyrir alvarlegum útlánatöpum eins og fasteignabankarnir sem hafa rúllað útí í heimi.
Rúmar tvær vikur voru til stefnu fram að stórum gjalddaga, hversvegna þá þessi hraðskák um helgina sem svo lauk með því að bankanum var stillt upp við vegg á sunnudagskvöldi um það bil samtímis því að viðskiptaráðherra fékk loks upplýsingar um málið og stjórnarandstaða litlu seinna og Ingibjörg Sólrún var að undirbúa sig fyrir hættulega aðgerð í New York.Fréttastofu-crew var statt af tilviljun við stjórnarráðið á laugardegi þegar seðlabankastjórar koma af fundi forsætisráðherra? - Hvernig tilviljun er það? Eftir það er sagt að málið þyrfti afgreiðslu strax því nú væri allt fréttast út. - Hentug tilviljun ef einhver hefði viljað stilla bankanum upp við vegg.
Það er slæmt að Björgvini G Sigurðsson viðskiptaráðherra og Samfylkingin skyldi ekki vera með við vinnslu málsins frá upphafi í stað þess að Björgvin og Össur staðfesta aðeins ákvörðun Davíðs Oddssonar, en verra er að Björgvin taka að sér að verja þessi vinnubrögð.
Dómínóáhrif af yfirtöku og gengisfellingu hlutabréfa Glitnis eru svo mikil og miklu meiri en hefðu verið af láni til bankans að óverjandi er að báðir stjórnarflokkar og viðskiptaráðaherra skuli ekki hafa skipað veigamikið hlutverk við úrvinnslu og ákvörðun málsins.
Lífeyrissjóðir tapa við þessa aðgerð milljörðum króna og þurfa jafnvel að skerða lífeyrinn til skjólstæðinga sinna. Þannig eru hlutafjáreigendur líka sparifjáreigendur.
Óvissa um áframhaldandi fjármögnun bankans og endurnýjun lána er eftir sem áður til staðar þó stigið hafi verið yfir þennan tiltekna þröskuld, ríkið getur því allt eins tapað hlutfé sínu eins og ef það hefði lánsfé ef það hefði lánað og bankinn getur enn rúllað ef kreppan dýpkar.
Það er hugsanlegt að besta leið hafi verið farin en alls ekki víst, en þegar svona er staðið að málum er það óverjandi að málið sé ekki skoðað vandlega af báðum stjórnarflokkunum og sérfræðingum ráðuneyta sem það varða þar á meðal og ekki síst ráðuneyti bankamála.
Stjórnmál og samfélag | Þriðjudagur, 30. september 2008 (breytt kl. 15:56) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hér hljóta að markast endalok hreinnar markaðshyggju eins og hrun Berlínarmúrsins markaði hrun kommúnismans.
Fjármálasérfræðingur sagði á Sky sjónvarpsstöðinni í morgun að menn mættu marka hve alvarlegt efnahagsástand blasti við Bandaríkjunum að ekki fyrir löngu hefðu allir helstu talsmenn efnahagsstefnu bandarískra valdhafa sagt að það væri það síðasta sem þeir myndu nokkru sinni gera að verja miklu opinberu fé til bjargar einkafyrirtækjum, hvað þá allt að 1000 milljörðum dollara. - En nú væru þeir einmitt að gera það - að gera það síðasta sem þeir myndu gera.
Af því mætti ráða hve alvarlegt ástandið væri nú. Í ofnálag væri því líkast sem menn hefðu í höndum svo skuggalegar upplýsingar að lykilmenn sem máli skiptu og taldir væru harðir andstæðingar ríkisforsjár í Bandaríkjunum samþykktu samstundis þessar ráðstafanir þegar þeir fengju að sjá þessi gögn. Uppkaup ónýtra húsbréfa er aðeins hluti þessi sem bandarísk stjórnvöld eru að gera - þjóðnýting stærstu húsnæðis- og fjárfestingabanka heims og fleira er þess utan.
- Vonandi bara að þetta dugi til og marki viðsnúninginn.
- Hér hljóta þó líka að markast endalok hreinnar markaðshyggju eins og hrun Berlínarmúrsins markaði hrun kommúnismans. Við tekur það viðfangsefni að fylgja á ný leiðarvísi klassískra lýðræðis-jafnaðarmanna um hið blandaða hagkerfi og rifjast þá upp margt sem Jón Baldvin hefur haldið á lofti eftir að hann kom til baka úr utanríkisþjónustunni.
![]() |
Biðja um 700 milljarða dollara fjárveitingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 20. september 2008 (breytt kl. 16:56) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hælisleitendur á íslandi fá 10 þúsund krónur á mánuði annað fá þeir ekki í sínar hendur nema matarpakka frá Rauðakrossinum tvisvar í viku og skjól á hrörlegasta gististað sem ég hef litið inn á - og án allrar þjónustu. Það þarfnast því skýringa þegar stjórnvöld segja hvern hælisleitanda kosta 10 milljónir á ári.
Vart gefur fjölskrúðugri hóp fólks en 40 hælisleitendur víða að úr heiminum, með ólíkan bakgrunn og sögu og ólíkir á alla hugsanlega vegu.
Margir meðal þeirra eru með fullgilda pappíra og skjöl en bíða samt mánuðum og árum saman svara um hvort þeir fái að bjarga sér á Íslandi. Margir eru þeir flóttmenn frá löndum þar sem Ísland með bandamönnum sínum í NATO hefur háð einhverskonar stríðsrekstur þaðan sem hundruð þúsunda eða milljónir eru heimilislaus á flótta bæði nær og fjær upprunalegum heimilum sínum. Meðal þeirra er menntað fólk sem ég hitti með þekkta starfsferla; prófessor, sálfræðingur, þekktur blaðamaður og mikið fleiri. - En verða að bíða samt og sæta mikilli niðurlægingu hér.
Öllum ríkjum sem eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum eru lagðar ríkar skyldur á herðar vegna hælisleitenda og vegna mannréttindasáttmála sameinuðu þjóðanna. Það er í raun gert ráð fyrir að hver sem er gæti einn daginn orðið hælisleitendi þ.e. við öll gætum einn daginn þurft nauðug að flýja eigin heimkynni vegna náttúrhamfara eða stríðs eða annarra óáran.
Augljós ástæða fyrir því að það gæti hent okkur Íslendingar væru náttúrhamafarir.
Sum bláfátæk ríki hafa veitt hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum manna skjól og hæli undir þessum skyldum allra ríkja við alla íbúa jarðar.
Það er ekki merkilegt eða mikið þó við virðum okkar skyldur í þessum efnum við þá sem leita til okkar beint.Hælisleitandinn Farzad Rahmanian, frá Íran, hefur beðið svara í 3 ár. Á meðan fær hann ekki að vinna fyrir sér sjálfur þó þúsundir annarra útlendinga hafi verið fluttir inn í landið til að vinna á Íslandi fram hjá farfuglaheimilinu í Njarðvíkum þa

Neðsta myndin er tekin Þann 12. sept þegar Farzad Rahmanian frá Íran settist niður þar sem hann situr nú enn í snarvitlausu veðri. Hinar ofar eru teknar í dag 13. sept. 2008. Félagar hans höfðu fært honum Kraftgalla í millitíðinni, en annað hafði hann ekki þegið. Hann hefur ekki neittt matar eða drykkjar frá 11. september sl. þegar lögreglan réðst til inngöngu hjá 42 hælisleitendum.
.
![]() |
Hælisleitandi mótmælir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 13. september 2008 (breytt kl. 23:19) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Fréttaflutningur fjölmiðla og sjálf aðför lögreglu að hælisleitendum og heimilum þeirra er í hæsta máta gagnrýniverð.
Það er spurning hvort ekki verði að tryggja öllum og ekki síst hælisleitendum að til staðar sé talsmaður þeirra m.a. gagnvart fjölmiðlum við aðfarir og fullnustu ákvarðanna yfirvalda. Lögreglan ákveður og framkvæmir og skammtar sjálf upplýsingar til almennings í gegnum fjölmiðla m.a. til að réttlæta ákvarðanir sínar, og í þessu tilviki taka fjölmiðlar allir sem einn við upplýsingunum hráum og mata almenning en spyrja einskis.
- Af hverju stimplar lögrelga, jafn ólíkan hóp og hælisleitendur eru, alla sem einn og kyndir þannig undir fordómum og brýtur mannnréttindi?
- Af hverju er það saknæmt að hælisleitendur eigi einhverja peninga?
- Á hvaða forsendum var allt lausafé fólksins gert upptækt?
- Af hverju var ekki bara leitað hjá grunuðum einstaklingum?
- Má eiga von á því framvegis að þegar einn maður við götuna er grunaður um eitthvað ólöglegt að þá sé ráðist inná heimili allra sem búa við sömu götu?
- Hvernig eru peningar fyrir svarta vinnu merktir þannig að lögreglan þekki þá þegar hún sér þá?
- Hvernig veit lögreglan að handhafar tiltekinna peninga hafi unnið fyrir þeim með svartri vinnu?
- Hversvegna kvarta stjórnvöld yfir kostnaði af hælisleitendum en leyfir þeim ekki að vinna fyrir sér á meðan aðrir útlendingar eru fluttir til landsins til að vinna?
- Albönsk fjölskylda er sögð hafa framið versta glæpinn með því að halda leyndum pappírum sem gerðu hana löglega á Shengnesvæðinu og þar með á Íslandi í gegnum Grikkland, en er víst að fjölskyldan þekki Shengenreglurnar? og viti að hún varð lögleg á Íslandi með því að fá stimpil á Grikklandi? - Hversvegna ætti fjölskylda sem er hér í raun löglega að þykjast vera án slíks leyfis - nema vegna ókunnugleika?
- Hvað fá hælisleitendur mikinn pening í sínar hendur á meðan þeim er neitað um atvinnuleyfi og tækifæri til að sjá um sig sjálfa? Er það eftirsóknarverð fjárhæð?
- Er kostnaður okkar ekki kostnaður af því að neita fólkinu um að fá landvist og neita því um að vinna fyrir sér á meðan yfirvöld leita leiða til að reka það úr landi?
- Myndi ekki sparast mest með því að leyfa fólkinu að sjá um sig sjálft og vinna fyrir sér?
- Eiga ekki allir menn rétt á mannréttindum? - hvað kennum við um vestræn gildi - mannréttindi, lýðræði og réttlæti með framkomu okkar og aðförum?
- Virðum við mannréttindi og manngildi? Umgöngust við fólk eins og manneskjur?
- Er það einhvern tíman réttlætanlegt að refsa öllum bekknum fyrir sök eins?
- Getum við farið okkar fram gagnvart útlendingum og svipt þá mannréttindum sem við gerum sjálf skilyrðislausa kröfu um?
- Gerum við okkur grein fyrir afleiðingum svona aðfara. Það heyrðist talað um það að í morgun hefði verið veist að konum og börnum úr þeirra hópi í sundi og meðan ég staldraði við hjá þeim en eftir að sjónvarpsvélar voru farnar hrópaði fólk úr bílum sem keyrðu framhjá Immigrants go too hell - og einn á stórum vörubíl flautaði hátt og þungt og rétti fingurinn útum gluggann í átt að fólkinu. - Það var eðlilega reitt og sárt, og einhverjum varð að orði að það má berja hvaða rakka svo að hann glefsi að lokum til baka.
Lögreglan og fjölmiðlar hafa nú enn aukið á fordóma í garð útlendinga með því að stimpla alla hælisleitendur einhverkonar glæpamenn og þannig bætt í þjáningar saklausra sem þarfnast hælis.
Þessir sátu áfram og biðu svara.
![]() |
Hælisleitendur mótmæla aðgerðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 13. september 2008 (breytt kl. 02:38) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
Skólameistari MK segir ungmennum í Kópavogi að fara annað í nám ef þau hafi ekki efni á 130 þúsund króna fartölvu auk trygginga, forrita og tölvutösku og alls annars kostnaðar af bókakaupum og skólabyrjun.
Það er óásættanlegt að svona sé talað til fjölskyldnanna í bænum og að Menntaskólinn okkar geri þá kröfu til nemenda sinna að þeir eigi hver og einn sína eigin fartölvu til að burðast með hvern dag í og úr skólann þegar unnt er leysa sömu viðfangsefni í öðrum skólum með miklu skaplegri hætti og þjóðhagslega hagkvæmar.
Nú ætti að liggja fyrir niðurstaða um stórbættan námsárangur
Núna eru átta ár síðan þessi stefna var tekinn upp gegn skýrum andmælum samtaka tölvukennara og annarra sem töldu sig hafa þekkingu og reynslu af málinu. Það ættu því að liggja fyrir niðurstöður um bættan námsárangur nemenda MK á móti tölvukaupabyrði og tölvuburðs nemenda. Einnig ætti nú 8 árum seinna að vera unnt að vega árangurinn á móti kostnaðinum.
Til að heimila tilraunir á skólakefinu - tilraunir með börnin okkar, ætti þess alltaf að vera krafist að ljóst væri fyrirfram hvernig árangurinn verður mældur, -hvað teldist ásættanlegur árangur og hvað ekki og hvað sýndi að rétt væri að hætta tilrauninni til að valda ekki frekari skaða. Hér er á ferð tilraun byggð á tilgátu Björns Banasonar þv. menntmálaráðherra um snylligáfuna sem myndi kvikna af að hafa fartölvu í fanginu alla daga -og MK tók tilgátuna uppá sína arma.
Sem slík hlýtur tilraunin að hafa haft eitthvað skilgreint markmið og því viðmiðun til að meta árangurinn. - Nú er komið að því að krefjast verður upplýsinga um árangurinn. -Skilaði tilraunin betri almennum námsárangri og/eða öflugri frumkvöðlum á tölvusviði en við má búast úr sambærilegum hópi nemenda í öðrum skólum? -Ef hún skilaði betri árangri á einu sviði var það á kostnað árangurs á öðrum sviðum -eða ekki? -Eða er hún bara mikil útgjöld fyrir heimilin til að ná smáræðis sparnaði fyrir skólann.
Í dag nota allir menntaskólarnir netið með þeim hætti sem MK var bent á sínum tíma að yrði gert innan skamms, þ.e. að hver nemandi á sinn aðgangslykil og heimasvæði sem hann kemst á hvar sem hann sest við tölvu hvort sem er í skólanum eða útí heimi. -Á sama tíma hefur MK hinsvegar sett takmarkanir á hvað nemendur geta gert án þess að koma með tölvurnar sjálfar í skólann. Þ.e. skólinn var síðast þegar ég vissi að hindra greiðan aðgang nemenda sinna að gögnum og sínu svæði væru þeir staddir utan skólans.
Verr settir en aðrir?
Sé það rétt eru nemendur smartskólans því verr settir en nemendur annarra skóla í Reykjavík sem geta sest við hvaða tölvu hvar sem er í borginni eða í skólanum eða hvar sem er í heiminum og gengið beint að sínu efni á skólaneti skólans þeirra.
Það er kominn tími til að MK geri upp við Kópavogsbúa hverju hefur verið áorkað með tölvukvöðinni, og vegi með skýrum mælingum nytsemdina á móti kostnaðinum. Samkvæmt Mogga-fréttinni kosta ódýrustu tölvur sem uppfylla skilyrði MK 130 þúsund, við það bætist forritakostnaður og taska fyrir að lágmarki 35 þúsund sem gerir 165 þúsund krónur á mann. Heldur óvarlegt finnst mér að reikna með lengri endingatíma en tvö ár á tölvu í svona miklu hnjaski. Kostnaður hvers nemenda er því a.m.k. 330 þúsund krónur á 4 árum. Hafa þær krónur ávaxtast með mælanlegum og sannanlegum hætti í árangri nemenda MK og betri undirbúningi þeirra fyrir frekara nám?
Menntastofnun sem vill að mark sé tekið á henni hlýtur að hafa lagt til grundvallar svo stórri og dýrri tilraun sem auk þess er framkvæmd á kostnað nemenda sinna að tryggja að árangurinn yrði mældur með traustum og trúverðugum hætti.
![]() |
Sumir skólar gera kröfu um fartölvueign |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Þriðjudagur, 26. ágúst 2008 (breytt 11.9.2008 kl. 22:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég óttast að það eigi eftir að reynast afdrifarík mistök hjá Demókrötum að leyfa ekki bara Barack Obama að þroskast áfram næstu 8 ár og að vaxa betur af reynslu og ásmegin og virðingu áður en þeir létu hann ryðja Hillary Clinton úr vegi sínum. Fyrstu konunni í sögu USA sem átti raunhæfa möguleika að sigra frambjóðenda Repúblíkana í forsetaframboði og skortir ekkert af þessu, reynslu, þekkingu og víðtæka virðingu sem hún naut um allan heim einmitt fyrir skynsemi, þekkingu, reynslu og ekki síst kjark og heilindi.
Barack Obama er það ungur að hann ætti bara aukna möguleika eftir 8 ár og eftir 16 ár, - en nú var stund Hillary Clinton komin þegar konan var raunverulega líklegasti frambjóðandinn til að sigra Rebublicanann, - sú stund kemur ekki aftur hvorki eftir 8 ár eða 16 ár fyrst svona fór nú. Leið kvenna verður til muna torsóttari að þessu embætti eftir þetta því það verður bent á að fyrst Hillary átti ekki sjens tekur því ekki að reyna einhvern óþekktari, minni og mýkri jaxl en hún er.
Bandarískar konur misstu mikilvægan sigur úr greipum sér. Fyrir vikið munu þær ekki ala upp dætur sem spyrja í forundran geta menn verið forsetar þegar í framtíðinni einhver af karlkyninu hefði sóst eftir embættinu.
Þorir Obama að hafa svo sterka konu sér við hlið sem varaforsetaefni sitt?
Það væri þó mikill sigur fyrir Barack Obama sjálfan að finnast hann sjálfur vera nægilega stór til að þora að hafa Hillary Clinton sér við hlið sem varforsetaefni. - Það væru eingöngu misskilin ráð ráðgjafa hans og löngun Obama til að trúa þeim sem gætu talið einhvern annan kost vænlegri en að hafa Hillary með sér þessa vegferð. Og hin raunverulega ástæða væri þá ýmsar útgáfur af ótta við að hún og hennar föruneyti skyggði á hann - það er minnimáttarkennd og kjarkleysi.
Ef Obama er tilbúinn núna er hann stærri en slík minnimáttarkennd - að öðrum kosti er hann ekki tilbúinn hvort sem er og ætti að bíða og þroskast betur og lengur.
Að öllu líkindum táknar þetta frumhlaup og æðibunugangur Demókrata, að ímynda sér að til væri pólitíkus og forsetaefni með nægileg reynslu og þekkingu sem janframt væri ósnortin af Washington, bara það eitt að enn munu liðsmenn Bush ráða ríkjum í USA.
![]() |
Húseignir McCains vatn á myllu Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Föstudagur, 22. ágúst 2008 (breytt kl. 15:55) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)