Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Lekinn
Það var rétt að leka samtali Árna Matt og Darling í fjölmiðla. Að mínu mati bera orð Árna með sér að hann var að reyna eftir föngum að vera heiðarlegur og hreinskilinn við Darling og að lofa ekki upp í ermina á sér án þess á neinn hátt að afneita skyldum Íslands. Samtalið réttlætir því á engan hátt viðbrögð Breta.
Á móti má þó segja að samtalið sýni að íslensk stjórnvöld voru illa undirbúin og vissu vart sitt rjúkandi ráð. Vísa ég þá aftur til undrunar minnar í eldra bloggi um að ekki hafi verið til staðar þróuð og prófuð krísuáætlun vegna bankakreppu hjá Seðlabankanum og eftir atvikum ríkisstjórninni þar sem vitað hafði verið lengi að það gat gerst að íslenskur banki lenti í áhlaupi eða annarri krísu.
- En Árni kemur miklu betur útúr þessu samtali en ég óttaðist, og það var rétt að leka samtalinu. Darling hafði vitnað í það við hörð viðbrögð Breta og því sjálfsagt að það væri birt í heild.
Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (IMF)
Stjórnvöld hafa varið hagsmuni okkar gagnvart bæði Bretum og IMF - og á þeim grunni sótt um aðstoð og samstarf við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (IMF). Það er náttúrulega alrangt hjá Steingrími J Sigfússyni að IMF sé peningalögga.
Við Íslendingar erum stofnaðilar að þessum sjóði sem er einmitt samkvæmt stofnskrá ekki síður Rauði-krossinn á sviði gjaldeyrisviðskipta en lögga. En hann þarf að sækja til sín gríðlega mikla peninga til að gegna hlutverki sínu og þeir sem leggja þá til hafa tilhneigingu til að reyna að krækja á þá eigin peningalegum hagsmunum og horfa yfir öxl sjóðsins við notkun þeirra svo sjóðurinn er vissulega togaður í báðar áttir. Hér reynir því enn á að við þekkjum vel til og beitum forsendum og rökum sjóðsins sjálfs í þágu okkar hagsmuna og minnum hann á hlutverk sitt. Það virðist hafa verið gert hér og dugað vel. Enginn vafi er að störf mætra íslendinga við sjóðinn og þekking þeirra á honum hafa hér komið okkur að miklum notum.
Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 25. október 2008 (breytt kl. 14:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er ekkert sem gerir Vinstri græna að náttúrlegum andstæðingum aðildar Íslands að samstarfi fullvalda Evrópuríkja í ESB. Þvert á móti.
Ef við lítum til hinnar sögulegu arfleiðar og hugmyndalegs grunns þá var t.d. Karl Marx afar mótfallinn þjóðríkjamódelinu og hans draumsýn var um landamæralausa Evrópu.
Norrænir flokkar sem eru líkastir VG hafa flestir, að fenginni reynslu, snúist til stuðnings við ESB.
VG og forverar hans hafa verið stuðningsmenn æðri menntunar. Það að við erum utan ESB kostar okkur nú að íslensk ungmenni hafa orðið miklu takmarkaðri aðgang að háskólanámi í Evrópu en var áður þrátt fyrir stóraukið skiptinám vegna EES. Nú þurfa íslendingar að greiða full skólagjöld t.d. í Bretlandi og sæta inngöngukvótum með íbúum fjarlægra og ótengdra þjóða þegar aðrir þegnar Evrópu eiga þar forgang.
ESB hefur reynst öflugasti vettvangur umhverfismála í heiminum og forystuafl á því sviði. Ótal margt fleira má telja þar sem ESB aðild lyftir undir önnur stefnumál VG það breytir þó ekki því að ESB er langt í frá draumríkið og þar þarf sífellt að leggjast á sveif með samherjum til að hnika málum í rétta átt og halda góðum málum í horfinu en jafnvel það eru rök fyrir aðild en ekki því að halda sig einangruðum í burtu frá umheiminum.
VG verður að endurskoða hug sinn til ESB og bjóða Samfylkingu og Framsóknarflokki uppá raunhæft samstarf sem leiði til aðildarviðræðna svo mögulegt verði að senda Sjálfstæðisflokk í langþráð frí.
Stjórnmál og samfélag | Fimmtudagur, 23. október 2008 (breytt 25.10.2008 kl. 04:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Geir, Ingibjörg og þið hin í ríkisstjórninni þið verðið að segja okkur satt og hreinskilnislega frá og sannið til að við erum tilbúin að leggja ýmislegt á okkur.
Um það bil þegar ég stofnaði heimili og eignaðist elsta barnið okkar fyrir mörgum árum var hjónaband foreldra minna að leysast upp. Við þær aðstæður gaf karl faðir minn mér heilræði: Helgi minn, mundu að hafa konuna þína alltaf með í ráðum um allt sambandi við peningamálin ykkar, ekki leyna hana neinu. Seinna urðum við Heiða konan mín fyrir miklu fjárhagslegu áfalli, misstum íbúðina okkar og ótrúlegir erfiðleikar fylgdu - en hjónabandið hélt.
Og ég er ekki í vafa um að það má ég þakka þessu heilræði föður míns sem sat í mér og ég fylgdi. Þrátt fyrir allt fór ekki traustið okkar í milli og með það og börnin okkar fyrir okkar einu eign gátum við látið ýmislegt yfir okkur ganga.
Ríkisstjórnin má ekki hegða sér nú gagnvart þjóðinni eins og karl sem fer með peningamál fjölskyldunnar eins og sitt einkamál í laumi fyrir eiginkonunni. Ef ríkisstjórnin sýnir okkur traust og trúnað, segir okkur satt og talar við okkur eins og fullgilda þátttakendur en ekki eins og börn þá mun hún finna að við stöndum með henni og erum tilbúin að láta ýmislegt yfir okkur ganga til að komast í gegnum erfiðleikana með ríkisstjórninni. Ef hún er að reyna leyna okkur sannleikanum og er óhreinskilin þá mun hratt skilja leiðir með þjóðinni og ríkisstjórninni og við þær aðstæður verður á litlu að byggja til framtíðar.
Þið öll í ríkisstjórninni þið verðið að segið okkur jafnóðum satt og hreinskilnislega frá og við verðum tilbúin að leggja ýmislegt á okkur. Ef þið hinsvegar leynið okkur sannleikanum og blekkið okkur og felið raunverulega stöðu mála og reynið að redda hlutum í laumi þá skilja leiðir með okkur og ykkur.
Stjórnmál og samfélag | Fimmtudagur, 23. október 2008 (breytt kl. 14:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég tók nokkrar myndir af kröfufundinum um afsögn Davíðs Oddssonar. Hér gerist það sama og þegar fjölmiðlafrumvarpinu var mótmælt á Austurvelli á sínum tíma að yfirvöld töldu sig þurfa skrökva niður fjölda mótmælenda. Sjónvarpsáhorfendur beggja stöðva sáu náttúrulega vel að miklu fleiri en á fimmta hundrað voru á Austurvelli en hér má vel sjá það líka.
Sjá myndaalbúmið hér (semlla).
![]() |
Mótmæla Davíð Oddssyni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 18. október 2008 (breytt 19.10.2008 kl. 00:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
Í dag fæddist yndisleg lítil stúlka, - en samt svo stór og skýr og lifandi, heilar 17 merkur að þyngd og 53 sentímetrar að lengd. Þetta er fyrst barnabarnið okkar Heiðu, dóttir Einars Axels þriðja barnsins okkar og Erlu unnustu hans.
Dásamlegur sólargeisli sem sópar í einni svipan í burtu öllu svartnættinu sem grúft hefur yfir fréttum. Svo heilbrigð og lifandi og virtist strax forvitin um tilveruna sem birtist henni. Ótrúlega þæg og róleg í fangi pabba síns sem var að rifna úr stolti og hamingju. Fæðingin var strembin en allt fór vel og undursamlegt hvernig erfiði fæðingarinnar víkur þegar barnið er komið í heiminn
.
Stjórnmál og samfélag | Sunnudagur, 12. október 2008 (breytt 16.10.2008 kl. 21:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)

Sjálfum finnst mér afar ósennilegt að nokkur hafi reynt að kaupa krónur og flytja mikla peninga til Íslands á þeim tímapunkti þegar gengið var á hraðferð niðurávið og allir reyndu augljóslega einmitt að flytja peninga í hina áttina úr krónum í pund, evrur og dollara þ.e. að verða sér úti um gjaldeyri og losa sig við krónur. Bankarnir voru augljóslega í óða önn að kaupa gjaldeyri til að standa við erlendar skuldbindingar sínar og flytja peninga frá Íslandi.
Jafn ósennilegt og það er að nokkur nema ríkið teldi sig hafa hag af því að flytja pening heim frá Bretlandi á þessum tímapunkti verður einmitt að upplýsa hvort þetta sé rétt hjá Gordon Brown að þetta hafi verið gert, en einnig hver reyndi að flytja peninga heim? Hvort það var fyrir eða eftir yfirtöku fjármálaeftirlitsins á Landsbankanum og hvort það var einkaaðili eða ríkið?
Stjórnmál og samfélag | Föstudagur, 10. október 2008 (breytt kl. 08:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Í frægu Kastljósviðtali við Davíð Oddsson seðlabankastjóra líkti hann sér við slökkvilið sem kæmi á brunavettvang og vanþakklát viðbrögð fv eigenda Glitnis væru vegna gufunnar sem myndaðist við slökkvistarfið.
Að mínu mati var þetta viðtal við Davíð skelfilegt í alla staði. Hann sýndi okkur viðtekið virðingarleysi sitt í tali sínu með orðum eins og óreiðumenn um tugi þúsunda hluthafa bankanna og ástarbréf um venjuleg skuldabréf almennings.
Í raun þarf að skrifa það niður og fara yfir orð hans og spyrja við hverja setningu hvað hún merkir til að átta sig á hve skelfilegt þetta viðtal var. Afdrifaríkust var sú staðhæfing Davíðs að nú yrði Ísland skuldlaust því við myndum einfaldlega ekki borga skuldir bankanna, - og þegar matsfyrirtækin áttuðu sig á því kæmi lánshæfismatið okkar strax til baka???.
Í einu vettvangi felldi Davíð þannig allt sem eftir stóð af erlendum hluta bankakerfisins okkar og hefur vafalaust kippt stoðum undan margháttuðum íslenskum rekstri erlendis. - Strax og ég heyrði hann segja þetta varð mér að orði að nú ættu hinir sönnu snillingar og fagmenn íslenska bankakerfisins í Kaupþing ekki nokkurn einasta séns að lifa næsta dag.
Algengasta spurningin frá erlendum fréttamönnum til fréttastofu Rúv í gær var hvað er með þennan seðlabankastjóra?
Davíð Oddsson mætti á vettvang íklæddur í gervi slökkviliðsmanns en dældi aðeins olíu á eldana.
![]() |
Atburðir í Bretlandi felldu Kaupþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Fimmtudagur, 9. október 2008 (breytt kl. 07:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Við krísuástand birtist oft algerlega ný hlið á fólki. Sumir lyppast niður og vita ekki sitt rjúkandi ráð þegar ósköp dynja yfir. - Ingibjörg Sólrún er dæmi um hið gangstæða og hefur oft staðið sig best þegar mest á reynir og er því mikill missir af því að hún er ekki heil heilsu og til staðar núna.
- En á móti birtist nú Þorgerður Katrín í sínu besta formi og sýnir að hún er þeirrar gerðar sem nýtir allt sitt besta þegar mest á reynir. Svör hennar undanfarið og skýrt sjálfstæði og sjálfsöryggi vitna um að hún fókusi extra vel í krísu og greini aðalatriði frá aukaatriðum og þori að vita hvenær þarf að taka ákvörðun og hvenær ekki. - Það er helsta huggunin í augnablikinu.
![]() |
Biðlað til helstu vinaþjóða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Sunnudagur, 5. október 2008 (breytt kl. 22:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)

![]() |
Kallar á endurskoðun á leikreglum fjármálakerfisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Föstudagur, 3. október 2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Steingrímur J Sigfússon getur vissulega vitnað til þess að hann eins og margir aðrir tortryggðu góðæri byggt á spilaborgum. Ef einhver talaði af efasemdum um fjármálastöðuna var það hrópað niður sem óábyrgt tal sem auðveldlega gæti eitt og sér fellt stoðir efnahagslífsins - svo flestir þögðu eða í besta falli bara hvísluðu um það - þannig þurfti heldur enginn að hlusta.
En nú ræðst Steingrímur á þá sem vefengja mátt krónunnar okkar til að standa stöðug undir þessu öllu eins og áður var ráðist á hann og þá sem vöruðu við skýja- og spilaborgunum og segir okkur tala niður krónuna.
Ef við höfum eitthvað lært á því sem hefur gerst þá er það kannski það helst að við verðum að mega tjá sannfæringu okkar og skoðanir á stoðum efnahagslífsins hvort sem um er að ræða einkavæðingu og gengi verðbréfa eða krónur og Evrur. Allar skoðanir verða að fá að koma svo skýrt fram sem efni standa til. Steingrímur ætti síst að banna mönnum það og reyna segja það efasemdamönnunum að kenna nú að krónan svigni nú og láti undan byrði sinni. - Við höfum margir lengi varað við því að hún gæti ekki risið undir því sem á hana væri lagt og eigum fullan rétt á að bera fram þá skoðun okkar eins og Steingrímur sínar.
Því fer fjarri að allt væri í himnasælu ef við værum með evru, jafnvel kreppu-stormurinn úti væri sá sami og nú geisar -en jörðin væri þó kyrr undir okkur á meðan hann gengi yfir.
![]() |
Það á að boða okkur til fundar og læsa okkur inni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Fimmtudagur, 2. október 2008 (breytt 3.10.2008 kl. 04:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)