Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Verða líka að gagnast þeim sem vegna veikinda eða fötlunar eru bundnir við heimili sitt

Þingið þrifiðÞað er afar mikilvægt að þetta snjallræði þeirra Guðmundar Steingrímssonar og Össurar Skarphéðinssonar að skilgreina störf sem hægt er að vinna hvar sem er, standi líka þeim til boða sem vegna ýmist eigin fötlunar og veikinda eða vegna veikinda maka og fjölskyldumeðlima eru bundnir á heimilum sínum og hafa ekki getað bundið sig í fasta 9-5 vinnu á vinnumarkaði utan heimilis af þeim sökum. Það eru öflugir starfskraftar og margskonar verðmæt reynsla og þekking sem farið hefur forgörðum vegna skorts á viðeigandi tækifærum fyrir þetta fólk sem svo háttar til um, og þeir þurfa ekki síður á tækifærunum að halda til að afla sér og sínum tekna  en aðrir hvar svo sem þeir búa.
mbl.is Ætla að skilgreina störf sem hægt er að vinna hvar sem er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvað þarf að veiða marga hvali til að halda stofnunum niðri?

Brimið brýtur ströndinaEins og ég benti á hér fyrr héldum við því fram þegar við veiddum að jafnaði um 500 hvali að þær veiðar hefðu engin áhrif á stofnana, sama höfum við sagt um "vísindaveiðar" okkar að þær hefðu engin áhrif á stofnstærðir hvala sem fara um hafsvæði Íslands. Nú segir hinsvegar sjávarútvegsráðherra við Sky sjónvarpið að við verðum að veiða hvali til að halda jafnvægi í lífríki hafsins. Þá er eðlilegt að spurt sé: hvað þurfa íslendingar að veiða marga hvali á ári til að geta haldið niðri stofnum sem 500 dýra veiði hafði engin áhrif á (ef eitthvað er að marka okkar eigin málflutning og röksemdarfærslur)? 

Hvort myndu hvalveiðarnar vera sjálfbærar þ.e. ekki skerða eða raska stofnunum? - eða  værum við að veiða til að minnka og halda niðri hvalastofnunum svo þeir tækju ekki frá okkur fisk? - Og hvað  marga hvali þyrftum við Íslendingar að veiða til að geta haft slík árhrif á stofnana ein og sér án veiða stóru hvalveiðiþjóðanna sem veiddu svo margfalt meira en við svo sem Rússar, Portúgalir, Norðmenn, Bandaríkjamenn og Kanadamenn?


mbl.is Japanar segjast ekki hætta við áform um hnúfubakaveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjóta sífellt ítrekað og áfram gegn grundvallarforsendu kerfisins

City_4325vÞegar ráðist var í að hanna þær breytingar á leiðakerfi Strætó bs sem tóku gildi fyrir tveimur árum var megin forsendan að til að auka notkun almenningssamganga yrði að ná upp þéttri tíðni ferða þannig að notandinn þyrfti ekki að kunna tímatöflur heldur einfaldlega vita að ef hann færi á tiltekna stöð í nágrenni sínu þá kæmi vagn innan fárra mínútna. Til að ná þessu markmiði var kerfið grisjað og svo skipt upp í tvennskonar leiðir, stofnleiðir eða S-vagnana sem næðu þessari krítísku tíðni ferða og færu því á 10 mínútna fresti frá helstu íbúðahverfum beint í helstu skóla-, athafna- og atvinnuhverfi og svo almenna hverfisvagna sem gengju á 20 til 30 mínútna fresti og flyttu farþega í skiptistöðvar eftir þörfum. Talið var að 10 mínútna tíðni stofnleiðanna væri það sem þyrfti til að ná þessari krítísku tíðni að farþegum fyndust þeir ekki þurfa að bíða eða kunna tímatöflu utanað heldur gætu treyst því að ekki væri löng bið í næst vagn bara ef þeir færu útá næstu biðstöð.

Þegar kerfið var svo tilbúið en áður en það var tekið í notkun fannst stjórn Strætó kerfið samt vera of dýrt, þó vandlega hefði verið hönnuð ódýrasta útgáfa sem gat uppfyllt þessa grundvallarforsendu, og krafðist niðurskurðar. Strax í byrjun var því farin sú leið að eyðileggja grunnforsenduna um að farþegi gæti treyst því "að vagninn væri að koma" þar sem ákveðið var að 10 mínútna tíðnin gilti aðeins fyrst á morgnanna og svo aftur í stuttan tíma síðdegis, þá var kvöldtími á 30 mínútna fresti og svo á 60 mín fresti síðast á kvöldin.

Þannig að í stað aðeins 2ja mismunandi tíðnitíma í eldra kerfinu og megin markmiðsins sem hönnuðirnir höfðu lagt upp um að einfalda og þétta tímatöflur í þ.m. fyrir stofnleiðir var nú stjórn Strætó búin að skipta hverju degi á stofnleiðum upp í 5 mismunandi tímatíðni á hverri stofnleið. Fyrst snemm-morguntími á 10 mín fresti, þá miðdegistími á 20 mín fresti, svo síðdegistími aftur á 10 mínútna fresti þá kvöldtími á 30 mín fresti og loks síðkvöldtími á 60 mín fresti. Jafnvel þeir sem notuðu vagnana daglega lærðu ekki hvenær tímarnir breyttust á þeim stöðvum sem þeir þruftu að fara um.

Áframhaldandi hringl og breytingar á tíðni ferða og tímatöflum færa Strætó svo sífellt fjær því að ná mikilvægasta markmiði þeirra breytinga sem stefnt var að þ.e. að farþegar gætu treyst því "að vagninn væri að koma", - í það minnsta á stofnleiðum.

Margskonar annað rugl fylgdi breytingunum og oftast vegna þess að yfirstjórn Strætó gerði breytingar frá vinnu hönnuðanna og í trássi við þá. Strax kom reyndar í ljós að ekki aðeins eyðilagði niðurfelling helmings ferða um miðjan daginn megin tilgang breytinganna heldur kom lítill sparnaður á móti því erfitt var að skipuleggja vinnutíma vagnstjóra þannig að þeir væru í vinnu fyrst í 2-3 klukkutíma snemma morguns, yrðu svo sendir launalaust heim og ættu síðan að koma aftur nokkra klukkutíma síðdegis. En hafa ber í huga að launakostnaður er 90% af rekstrarkostnaði Strætó.

Mér liggur ýmislegt fleira á hjarta um ruglið í rekstri og skipulegi Strætó ætla ekki að hafa þetta lengra núna en má vera að meira komi seinna.



mbl.is Mikil óánægja meðal vagnstjóra hjá Strætó bs. um breytingar á vaktakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökfræði íslensku hvalveiðimannanna gegnur ekki upp

720Þegar við veiddum í kringum 500 hvali á ári sögðum við að veiðar okkar hefðu engin áhrif á hvalastofnana. Við vildum því með þeim rökum vera undanþegin takmörkunum og frekari boðum og bönnum á veiðum á þeim forsendum. Eftir að hvalveiðibannið var sett halda hvalveiðimenn því hinsvegar fram að við verðum að veiða hvali til að halda niðri hvalastofnunum svo þeir éti ekki frá okkur allan fiskinn.

Ég skil því ekki alveg hvernig rökfræði íslensku hvalveiðimannanna getur gengið upp. Augljóslega hafði 500 hvala veiði meiri áhrif á litla og minnkandi stofna 1985 þegar við fullyrtum að veiðar okkar hefðu engin áhrif á stofnana en nú þegar þeir segja að íslendingar verði að veiða til að halda niðri ört stækkandi hvalastofnunum. - Hvað þurfum við þá eiginlega að veiða mörg dýr núna til að hafa slík áhrif ein og sér og án veiða annarra sem við höfðum ekki með veiðum á 500 dýrum fram til 1985?

- Eigum við ekki bara að hætta þessari vitleysu og snúa okkur að einhverju sem vænlegra er til árangurs? 


mbl.is Japanar opnir fyrir málamiðlunum á hvalveiðifundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rógur er ógeðfeld list sem sumir iðka af markvissri snilld

Rógur er ógeðfeld list eða kúnst sem sumir iðka af markvissri snilld. Ég gerði mér ekki grein fyrir að til væri skynsamt, þroskað og vel menntað fólk sem beitti vísvitandi rógi til að ná markmiðum sínum fyrr en í alþingiskosningum 1987 að ég þá þrítugur að aldri og skólastjóri í Súðavík varði páskafríinu og öðrum lausum tíma mínum til að annast Skutul blað Alþýðuflokksins á Ísafirði og fleira kosningaefni fyrir flokkinn. Baráttan var hörð því Alþýðuflokkurinn átti vart von á nema einum þingmanni en Karvel Pálmason skipaði þá fyrsta sæti listans og Sighvatur Björgvinsson þingmaður annað sæti eftir sögulegt prófkjör. Mikilvægt þótti að koma þeim báðum inn á þing þó ekki væri nema til að halda þokkalegum sáttum innan flokksins. Öllum að óvörum tókst okkur reyndar einmitt það.
Draugadans_01En snúum okkur aftur að róginum. Þennan dag kom það í minn  hlut að sækja Sighvat Björgvinsson út á flugvöll og sinna ýmsu með honum. Fyrst og fremst stóð til að taka hópmynd af öllum listanum með hópi stuðningsmanna og allir brosandi með rós í hönd á tröppum Alþýðuhússins þ.e. bíósins,  og að því loknu að frambjóðendur dreifðu rósum til vegfarenda fyrir framan kaupfélagið. Þetta tókst allt mjög vel og dagurinn var einkar vel heppnaður, fagur og bjartur. M.a. náði ég góðri mynd af Sighvati gefa Matthíasi Bjarnasyni þáverandi heilbrigðis- og viðskiptaráðherra rós sem þáði hana með góðum þökkum og bros á vör.
Eitthvað var líka fundað og farið yfir málin og að loknum góðum degi ók ég Sighvati aftur útá flugvöll í síðdegisvélina suður.
Nú var kominn kvöldmatur og samt verk eftir óunnin áður en ég færi til Súðavíkur svo ég fór á ágætan matsölustað á Ísafirði þar sem þá fengust að okkar mati bestu pítur á landinu. Fleira fólk kunni að meta þennan ágæta stað svo á þessum tíma dags voru flest sæti setin. Þar sem ég var þar staddur einn á bási með sjálfum mér að njóta pítunnar sáttur við vel heppnað dagsverk kemur askvaðandi inná veitingastaðinn þekktur maður úr bænum, ríkisstarfsmaður, kannski 15 árum eldri en ég og virkur þátttakandi í kosningabaráttu annars stjórnmálflokks og vindur sér beint að gestunum á næsta borði sem hann virtist þekkja og spyr:

-    Hafiði heyrt þetta með Sighvat?
-    Ha! Hvað?
-    Sighvatur Björgvinsson var haugfullur að gefa rósir fyrir framan Kaupfélagið, hann kom fullur að sunnan og það hefur ekki runnið af honum síðan.
-    Neeeei?
-    Júúú ég get svarið það, það er ótrúlegt að maðurinn leyfi sér þetta um miðjan dag, hann gat varla staðið, skjögraði á milli bíla og skapaði stórhættu, - það er ekki hægt að þegja yfir svona löguðu.


Um leið og rógberinn hafði sleppt orðinu snéri hann sér að öðru borði og byrjaði með sama hætti. “Hafið þið heyrt það? …”

Mér var hinsvegar illa brugðið og stóð nú upp og spurði yfir alla hvað hann væri að leyfa sér að segja.
“Jújú þetta er alveg satt …” sagði hann.
“En heyrðu góði minn ég var bara rétt í þessu að koma frá því að aka Sighvati útá flugvöll og ég er búinn að vera með honum í allan dag frá því ég sótti hann útá völl í morgun og þar hefur bara alls ekkert vín eða ölvun komið við sögu” svaraði ég fullum hálsi.Vinnumyndir_ 2005-03-14 20-43-05

Þá gekk maðurinn rólega til mín og sagði mér að setjast aftur sem ég gerði og settist svo sjálfur hjá mér.
“Þú átt greinilega margt eftir ólært vinur minn”, sagði hann nú ábúðamikill. “Við Sighvatur erum ágætis kunningjar, ég veit  vel að hann var ekki fullur en svona er nú bara kosningabaráttan hér fyrir vestan, ég verð að hugsa um minn flokk og þetta rósavesen  ykkar er nú ekkert voðalega málefnalegt heldur, -eitthvað verðum við að gera á móti því. - Taktu þetta nú ekki of alvarlega svona er þetta bara…  - og verði þér að góðu” sagði hann svo og stóð upp og gekk út. Ég sat höggdofa eftir. – Gat þetta í alvöru verið að gerast fyrir framan mig að vel metinn og vel menntaður maður í góðri stöðu á miðjum aldri gengi bókstaflega um og lygi vísvitandi og markvist uppá annað fólk?

– Vá! 

Eftir þetta hef ég fylgst öðruvísi með öllum söguburði og séð mörg líkleg tilvik um vísvitandi lygi um fólk og persónur en þó aldrei með svo skýrum hætti að öll atvik gerðust fyrir framan mig. Allt fram að þessu hafði ég talið að illkvittnar og rangar sögur yrðu aðeins til sem einhverskonar sannleikur í hugum þeirra sem sköpuðu þær en af vanþekkingu, litlum upplýsingum, röngum ályktunum, misskilningi, vænisýki og ranghugmyndum, en ekki að venjulegt fullorðið fólk bókstaflega vísvitandi skapaði slíkar sögur fullkomlega vitandi um það væri að ljúga uppá fólk og héldi því fram að þetta væri viðtekið og sjálfsagt.

Ég hef ekki komist hjá að velta fyrir mér orðum mannsins um að "svona væri bara kosningabaráttan" og hvort eitthvað væri til í því. Það þarf ekki marga til að búa til sögur. Á löngum tíma hef ég heyrt allskyns staðhæfingar um fólk í pólitík og ekki síst þá sem eru "efnilegir" á ýmsum aldri og eru að byrja að gera sig gildandi - meiðandi staðhæfingar sem ég hef engin tök á að sannreyna en hafa mikli áhrif.  Sögurnar fara ekki hátt heldur eru sagðar í "trúnaði" og svo sér slúðri um að breiða þær út "í trúnaði".


Er umferðabrot glæpur? - á að refsa fyrir þau af miklum þunga?

Folk_Gay_PP2003_0002BBEru þungar refsingar fyrir umferðarlagabrot réttlætanlegar?

Frá 1997 hafa refsingar fyrir umferðalagabrot verið margþyngdar og  viðurlög aukin. M.a. með punktakerfi, margföldun sekta og lengri sviptingu ökuréttinda, þá eru sum umferðalagabrot felld undir sakaskrá og því bæði í refsingu og skráningu orðin sambærileg við refsibrot vegna glæpa. – En er umferðarlagabrot eitt og sér glæpur?

Þó rétt teldist að refsa fyrir hættu sem fólk skapar fer við ákvörðun refsingar ekki fram neitt mat á þeirri hættu sem ökumaður raunverulega veldur eða hvort hann skapaði yfir höfuð einhverja hættu. Hættan getur t.d. verið jafnmikil eða meiri ef ökumaður hreinsar ekki hrím af rúðum sínum á mesta umferðatíma (5000 kr sekt) og ef hann ekur bíl með áfengi lítið yfir mörkum í blóði sínu stutta vegalengd þar sem enginn annar bíll eða manneskja fer um á þeim tíma - eða bara setið kyrr í heitum bílnum sínum (þyngstu refsingar).

Ef maður fremur undirbúna árás á annan mann er augljóst að til staðar er fórnarlamb og illur tilgangur geranda um að valda öðrum skaða. -Það er augljóslega glæpur. Ef glæpamaðurinn er stöðvaður þar sem hann ætlar að fremja glæp sinn er samt ljóst að hann ætlaði sér að valda öðrum tjóni. Venjulegt umferðalagabrot er þó hvorugt þar er hvorki fórnarlamb eða markmið um að skaða neinn, það er aðeins agabrot án fórnarlambs eða ills ásetnings, en refsingar fyrir umferðalagbrot geta verið þyngri en fyrir glæpi.
Ef  maður er tekinn fyrir of hraðann akstur á fáförnum vegi eða annar með leifar af áfengi í blóði sínu á leið til vinnu snemma á sunnudagsmorgni áður en bærinn vaknar er ljóst að hvorugur hefur valdið neinum öðrum skaða ekkert fórnarlamb er til staðar og hvorugur ætlaði að valda neinum öðrum skaða. Samt eru nú refsingar vegna slíkra brota jafnvel orðnar þyngri en vegna margra ofbeldisglæpa m.a. vegna þess að engar heimildir eru til að gera refsingu skilorðsbundna vegna umferðalagabrota en refsing fyrir árás eða tilraun til árásar getur öll verið skilorðsbundin. 300 þúsund króa sekt og fangelsi sé hún ekki greidd, svipting ökuleyfis í eitt ár eða meira, ökutæki gerð upptæk eru nú refsingar vegna agabrota í umferðinni án þess brotamaður hafi valdið neinum tjóni eða yfir höfuð ætlað að valda neinum tjóni, - enginn illur tilgangur, engum skaði gerður, ekkert fórnarlamb og gerendur langoftast venjulegt fólk þ.e. alls engir "ökuníðingar".
En ætli svona refsingar dragi úr augljósri sjálfseyðingarhvöt raunverulegra ökuníðinga þegar næst til þeirra? eða auki hana kannski frekar? eða ætli svipting hindri alvöru hættulega ökumenn frá að aka réttindalausir?

Hver er árangurinn af hertum refsingum vegna umferðarlagbrota undangengin 10 ár?
Eða hjá öðrum þjóðum?
Réttlætir hann refsingarnar?
Eða er bara verið að afla ríkissjóði tekna?
Eða er yfir höfðu réttlátt að sektir séu stórauknar á alla línunna í von um að ná kannski að hrófla við þeim ríku sem ekki aðeins finnast sektir smápeningar heldur fara létt með að nota launaða bílstjóra og leigubíla eins og þá listir ef þeir missa ökuréttindi, þegar aftur efnalitlir finna illþyrmilega fyrir refsingunni og sumir geta vart verið án bíls vegna starfs eða heilsu og missa því fótanna í lífinu vegna refsingar fyrir umferðarlagabrot án fórnarlambs.

Þegar svo þungt er refsað venjulegu fólki sem aldrei fyrr hefur fengið punkt í ökuferilsskrá og jafnvel aldrei valdið tjóni í umferðinni eða brotið neitt annað af sér, verður alvarlega að hugleiða tvennt þ.e. hvort ekki eigi að haga refsingum vegna umferðarlagabrota í hlutfalli við tekjur fólks eins og gert er á norðurlöndum og hvort ekki verði að skilorðsbinda önnur viðurlög eins og ökuleyfissviptingu, svo umferðalagabrotum sé ekki harðar refsað en t.d. árásum.
Og við eigum fyrirfram að gera ráð fyrir því þegar svona breytingar eru gerðar á lögum og reglum að rannsakað sé hvaða varanleg heildaráhrif þær hafa til að hjálpa okkur við seinni ákvarðanir. Annars trappast refsingarnar sífellt upp því á ný kemur fram krafa um enn hert viðurlög því ljóst er að fyrstu vikur eftir að fréttir koma um hert viðurlög batnar ástandið merkjanlega en fellur svo ekki bara allt aftur í sama farið hversu þungar sem refsingarnar eru?

En jafnvel þó einhver árangur násit er þá réttlátt að stórskaða líf  “brotamanns” með svo þungum refsingum án neinna virkra heimilda til að taka tillit til aðstæðna hans og t.d. að skilorðsbinda refsingu hans þ.e. að ef hann brýtur ekki ef sér í umferðinni í einhver ár falli hún niður? Við meðferð alvöru glæpa er það talið mikilvægt og gagnlegt agatæki, - hversvegna ekki í umferðinni?

Það er að mínu viti réttlætanlegt að beita réttlátum agaviðurlögum vegna hættu sem menn skapa þó ekki verði tjón en þá þarf að fara fram mat á hætunni og beita hliðstæðum viðurlögum við hliðstæða hættu, en ætti þá ekki líka að mega refsa öllum öðrum sem augljóslega skapa óþarfa hættu í umferðinni þar með töldum verktökum, hönnuðum, yfirmönnum vegagerðarinnar, bæjarverkfræðingum og öðrum sem með athöfnum sínum og athafnaleysi  skapa hættu sem sýna má fram á að sé óþörf, hvort sem hún hefur þegar valdið tjóni eða ekki?



Ætti þá Landsvirkjun ekki að greiða fyrir virkjanaleyfi sín?

Sólin sest í SnæfellsjökulEf Landsvirkjun heldur því fram að leyfi fyrir Norðlingaölduvirkjun/-veitu sé verðmæt eign Landsvirkjunar og notar það sem rök gegn því að láta leyfið aftur af hendi til þjóðarinnar er þá ekki deginum ljósara að Landsvirkjun ætti að greiða fyrir öll slík leyfi viðunandi verð, eða greiddi Landvirkjun jafngildi þeirra verðmæta sem fyrirtækið telur felast í þessu leyfi þegar það fékkst?  Ætlar Landsvirkjun að vanvirða þjóðina sem hefur veitt henni án endurgjalds leyfi til allra virkjanna hennar og vísa nú til ónotaðs virkjanaleyfis sem verðmæta eign til að neita þjóðinni um að vernda þessi miklu náttúrverðmæti?

Ásættanlegur pakki?

Hannes Holmsteinn á horninuAð öllu samanlögðu virðist pakkinn sem Samfylkingin fær vera ásættanlegur. Heldur hallar á Samfylkinguna í skiptingu málaflokka og ráðuneyta en á móti kemur að túlka má stjórnarsáttmálann þannig að hann bæti það upp. Það er auðvitað meira í stíl Samfylkingarinnar að leggja meiri áherslu á málefnin en ráðuneyti. Eftir sem áður er það þó í ráðuneytunum sem málefnin komast til framkvæmda, svo það verður að sjá hvernig úr verður spilað.

Það er sjálfsagt að jafnaðarmenn séu vel á vaktinni og veiti sínum flokki og ríkisstjórninni uppbygglegt og hjálplegt aðhald til að halda mönnum við efnið. Þessi ríkisstjórn getur enn orðið hvort sem er frjálslynd velferðarstjórn eða alræði íhaldsins. Framkvæmdin í ráðuneytunum sker úr um það.

Ég styð þessa ríkisstjórn en áskil mér rétt til að benda á þegar hún skransar til á veginum eða ég hef tilefni til að óttast hvert stefnir án þess að neinn þurfi að móðgast við það eða telja að ég sé horfinn frá stuðningi við Samfylkinguna og stjórnina.


mbl.is Íslendingar taki forustu í baráttu gegn haf- og loftmengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi réttlæta málefnin færri og veigaminni málaflokka

Landsfundur Samfylkingarinnar 14Ef borið er saman við skiptingu Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á ráðuneytum og málaflokkum lætur Samfylking af hendi landbúnaðarmál og heilbrigðismál (án tryggingamála) en fær í staðin aðeins samgöngumál, þá hverfa húsnæðismál frá félagsmálaráðuneytinu til fjármálaráðherra, þ.e. til Sjálfstæðisflokks.

Össur tekur við helmingnum af því sem Valgerður Sverrisdóttir hafði ein lengst af (þar til fyrir ári að Jón Sigurðsson tók við því) þ.e. Iðnaðarráðneytinu en Björgvin tekur við hinum helmingnum viðskiptaráðuneytinu. Þeir tveir skipta milli sín því sem Valgerður Sverrisdóttir annaðist ein. - Þetta jaðrar við að vera niðurlægjandi því auk þess var Framsón aðeins 18% flokkur en Samfylkingin er núna 27% flokkur. Vonandi er þó hægt að segja eftir að málefnasamningurinn liggur fyrir að málefnin hafi verið látin ráða - að Samfylkingin hafi áorkað meiru um skuldbindandi málefni en kemur fram með skiptingu málaflokka og ráðuneyta. Sagt var frá því í fréttum að flokksstjórn Sjálfstæðisflokks hafi margoft klappað og fagnað þegar Geir kynnti samning flokkanna - vonandi ekki yfir því hvernig hann hefur leikið á Samfylkinguna. Engar forsendur voru fyrir því eins og staðan er/var að Samfylkingin fengi áberandi minni hlut en Framsókn hafði.


mbl.is Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyndardómurinn á bak við fylgishrun Framsóknar:

dal-03-09Heill pólitískur vetur er liðinn síðan Halldór Ásgrímsson hvarf úr stjórnmálum og Jón Sigurðsson tók við Framsóknarflokknum eftir áfall Framsóknar í sveitarstjórnarkosningunum fyrir ári.
Til að finna aftur rætur sínar og hverfa skýrt frá Evrópustefnu Halldórs heyrðist  “þjóðhyggja” í hverri setningu Jóns Sigurðssonar í haust og fram eftir vetri, - en ekkert breyttist, fylgið hélt áfarm að kvarnast af Framsóknarflokknum þó nær ekkert væri eftir. Þegar dró að kosningum vildi flokkurinn leika sama leik og hann lék undir forystu Halldórs Ásgrímssonar fyrir fjórum árum þegar flokkurinn tvöfaldaði fylgi sitt frá afar óhagstæðum skoðanakönnunum við upphaf kosningabaráttu til kjördags, - en það tókst ekki nú enda hvorki Evrópustefnan eða Halldór Ásgrímsson rót vanda Framsónar.

Önnur skýring sem týnd er til er samstarf við Sjálfstæðisflokkinn sem samkvæmt kenningunni á alltaf að skilja samstarfsflokkinn eftir fylgislausan og er þá vísað til Alþýðuflokksins sem varð aðeins tæp 11% í kosningunum 1971 þegar Viðreisnarstjórnin féll og álíka lítill 1995 eftir 4 ára samstarf með Sjálfstæðisflokki Davíðs Oddssonar. Í báðum þeim tilvíkum er litið framhjá því að 1971 og 1995 komu fram öflug klofningsframboð úr Alþýðuflokknum sem tóku frá honum fylgi, 1971 Samtök frjálslyndra og jafnaðarmanna, og 1995 Þjóðvaki undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur sem fékk yfir 7% fylgi. 

Ég held því að þessi kenning um að allir flokkar komi illa útúr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sé einfaldlega rökleysa og eigi ekki stoð í raunveruleikanum heldur sé það einfaldlega undir flokkunum sjálfum komið hvernig þeir komi út úr ríkistjórnarþátttöku hverju sinni.

Helgi einn í heiminumEn snúum okkur aftur að Halldóri Ásgrímssyni og kenningunni um að kjósendur séu enn að refsa Framsókn fyrir Halldór Ásgrímsson og stefnu hans.
Hún stenst engan veginn. Fyrir utan að engin leið er lengur að refsa Halldóri þar sem hann er farinn á braut, þá hefur pólitískur minnisskortur kjósenda miklu fremur verið vandamál en langrækni þeirra langt yfir pólitísk líf og pólitískan dauða stjórnmálamanna og verk þeirra. Við sáum flokka sveiflast ótrúlega á 8 vikum í kringum kosningar, VG missti 13% frá toppi skoðanakannana til kosninga og Samfylking bætti við sig 8% og fyrir fjórum árum tvöfaldaði Framsókn fylgi sitt í kosningabaráttunni, - og samt eru til þeir sem halda að kjósendur séu svo langræknir að þeir séu enn að refsa Halldóri Ásgrímssyni sem hvarf á braut fyrir ári síðan.

Menn létu fyrir ári sem Evrópustefna Halldórs ætti sök á fylgishruni flokksins  - samt varð fylgishrunið mest í þéttbýlinu þar sem stuðningur við Evrópuaðild er mestur. Forysta Framsóknar keypti þó skýringuna og nýi formaðurinn sem sumir tóku að uppnefna “fornmann” talaði um “þjóðhyggju” í hverri setningu til að slíta nýju Framsókn frá Evrópu-Framsókn Halldórs, -en skoðanakannanir sýndu engan bata enda var hún ekki rót vandans.

Framsókn kemur nú út úr kosningum álíka illa og Alþýðuflokkurinn í sínum verstu kosningum  og var þó Alþýðuflokkurinn alltaf miklu minni flokkur en Framsókn og ekki svona lítill nema þegar burðarmikil klofningsframboð forystumanna hans sjálfs tóku frá honum fylgi.

Hver er þá skýringin á hruni Framsóknar?

dal-17-08Tryggð og hollusta eru sterkustu og vanmetnustu öfl stjórnmálanna.  Framsóknarflokkurinn hefur einfaldlega verið að skreppa saman síðan SÍS hrundi og  kaupfélögin tóku að loka. Fólk sem bar tryggð til kaupfélaganna bar flest líka tryggð til Framsóknarflokksins. Tryggð við kaupfélögin var uppspretta tryggðar við Framsókn. Fólk átti öll sín viðskipti í Kaupfélögunum sem sáu landsbygðarfólki víða fyir öllum nauðsynjum. Kaupfélögin voru samvinnufyrirtæki fólksins sjálfs, það lagði þar inn framleiðsluvörur sínar og tók út hráefni, tæki og aðrar bjargir sínar, eða starfaði í frystihúsum og fiskvinnslufyrirtækjum kaupfélaganna um allt land og iðnaðarfyrirtækjum samvinnuhreyfingarinnar sem sá fólki á landsbyggðinni beint og óbeint fyrir vinnu og lifibrauði. Atkvæði greitt Framsóknarflokknum var framlag til atvinnu, vöruframboðs og öryggis í skjóli Samvinnuhreyfingarinnar og Samvinnuhreyfingin sá fólkinu fyrir öryggi. – En svo hrundi það allt og hefur ekki komið til baka. – Í þess stað urðu jafnvel sum bæjarfélög án verslana, án frystihúsa og án heimilda til fiskveiða og kaupfélögin með allri sinni atvinnustarfsemi hurfu, ...og tryggð við Framsókn hefur verið að fjara út síðan.

Að hluta til er auðvitað um að kenna vanmætti forystu Framsóknar til að bregðast við þessum nýju og breyttu aðstæðum en um það hefur Jón Sigurðsson augljóslega verið jafn vanmáttugur og Halldór Ásgrímsson, og óvíst að Framsóknarflokkurinn hafi átt neitt mögulegt svar til að halda fyrri stöðu sinni eða nú að endurheimta hana. Hann ætti þó að geta í krafti þeirrar tryggðar sem hann enn nýtur að geta endurskipulagt sig og styrkt eitthvað, en til þess verður hann að horfast í augu við hverjar voru rætur þeirrar miklu tryggðar sem hann naut og þá veit hann líka hversvegna hana þvarr og að fyrri staða næst aldrei aftur.

Þegar kaupfélögin hurfu morknuðu tryggðarrætur Framsóknar og fylgið hefur verið að skolast í burtu síðan.



Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband