Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Fáir hafa spottað eins og hætt þá sem telja það mikilvægt að Ísland eigi rödd og áhrif í ESB og Steingrímur J Sigfússon. Ekki aðeins hafa hann og skoðanabræður hans um Evrópumál talið það einskisvert að eiga aðkomu og rödd að borði ákvarðanna og samræðna í ESB heldur hafa þeir talið það einskis vert að eiga sæti í ráðherraráðinu, leiðtogaráðinu, framkvæmdastjórninni, á þingi Evrópusambandsins og jafnvel að eiga neitunarvald um stærri mál hafa þeir marglýst einskis vert, því Ísland sé svo smátt og meintur illur ásetningur Evrópu í garð Íslands sé svo eindreginn að engin von sé fyrir litla Ísland að gæta þar hagsmuna sinna eða að hafa þar nein áhrif sér í hag.
En nú segir Mogginn:Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, tók beitingu hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum í Bretlandi til umræðu á stjórnarnefndarfundi Evrópuráðsþingsins í Strassborg í dag [sjá framhaldið hér].
Svo undarlegt sem það er hefur hópur stjórnmálamanna og fylgissveina þeirra, annarsvegar undir forystu Davíðs Oddssonar og hinsvegar undir forystu Steingríms J Sigfússonar nú árum saman viljað skilgreina Íslands svo aumt og vanmegnugt að það væri ófært um að setjast til borðs með alvöru þátttakendum við borð ESB, enginn myndi hlusta á okkur eða virða okkur viðlits. Þannig viljað flokkað okkur með vesælustu örríkjum sem ekki eru raunverulegir þátttakendur á heimsborðinu, smærri en t.d. Lúxemborg og Malta sem hafa umtalsverð áhrif, og viljað setja okkur á bás örríkja Evrópu, punturíkja eins og Andorra, San Marínó og Mónakó, þ.e. ríkja sem aldrei hafa reynt að vera þátttakendur og haldið uppi sjálfstæðri utanríkisstefnu.
Nú er Steingrímur sem sagt í öllum fréttatímum að segja okkur frá því hvernig hann fékk fulltrúa Evrópuríkja á Evrópuþinginu til að hlusta á sig einan og málstað Íslands gegn Bretlandi, skapaði talsverðar umræður um málið á fundinum, fjölmargir hafi tekið fram að fyrir upplýsingar hans sæju þeir málið í nýju ljósi og enn fleiri rætt við hann eftir þingfundinn, undrast og fordæmt framgöngu Breta og lýst því að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir eðli málsins fyrr en við ræðu Steingríms.
Ekki efast ég augnablik um að þetta sé rétt hjá Steingrími enda í samræmi við reynslu allra annarra, að alltaf er hlustað á skýra rödd hvaðan sem hún kemur. Það að eiga rödd við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar er því hvarvetna grundvallaratriði og enda helsta baráttu- og réttindamál hópa og heilda í heiminum í dag. Því höfum við hafnað fyrir hönd Íslands með staðhæfingum um að rödd Íslands sé svo aum og vesæl að hún skipti engu máli, jafnvel þó hún ætti að auki atkvæðisrétt og stöku sinnum neitunarvald.
Rætt um hryðjuverkalög Breta á Evrópuráðsþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Sunnudagur, 30. nóvember 2008 (breytt kl. 16:19) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Það eru miklar gleðifréttir að Björn Bjarnason og sú stjórnsýsla sem undir hann heyrir er nú tilbúin til að sýna fólki frá fjarlægum hörmungarlöndum sem hingað hrekst stuðning og mannúð. - Eða hvernig ætti íslensk þjóð að geta ímyndað sér að heimurinn og íbúar hans ættu að sýna okkur, íbúum einnar ríkustu þjóðar heims samúð og skilning í erfiðleikum ef við erum ófær sjálf að veita samúð, skjól og tækifæri þeim fáu sem til okkar leita, oft úr verstu hörmungum og fátækt sem yfir heiminn dynja.
Ég gef mér að fyrst almennt hefur verið miklu lakari viðtaka hælisleitenda á Íslandi en t.d. í Kanada og á Norðurlöndum (hlutfallslega) og sú meðferð hefur notið í reynd og verki stuðnings þjóðarinnar þá skorti okkur sem þjóð verulega uppá samkennd, samúð og mannúð, - sem og skilning um að við sjálf getum orðið hælisleitendur - þ.e. þann þroska að geta sett sig í spor annarra.
Tveir íranskir hælisleitendur fái bráðabirgðadvalarleyfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 29. nóvember 2008 (breytt kl. 22:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nú hefur mótmælendum almennt og ekki síst anarkistum bæst öflugasti stuðningur við sín sjónarmið sem völ er á á Íslandi. Jafnt Davíð Oddsson seðlabankastjóri og forsætisráðherra í 13 ár sem og virtasti fjölmiðill landsins Morgunblaðið hafa fært fyrir því sterk rök og sýnt það í verki að engin ástæða sé til virða tiltekin lög við þær ástæður sem nú ríkja. Hin háheilögu lög um bankaleynd eigi t.d. ekki við núna að mati Mogga og Davíðs og því til áréttingar hefur Morgunblaðið brotið þau með afgerandi hætti.
Þetta er sama hugsun og liggur að baki hjá aktivistum að brjóta viljandi óréttlát eða óviðeigandi lög. Þetta var líka inntak baráttu Mahatma Gandhi sem t.d. stofnaði til skilríkjabrenna í Suður-Afríku, einnig þegar hann fór gönguna miklu á Indlandi niður að strönd til að búa til smávegis af salti, þar sem lög veittu Bretum einkaleyfi á framleiðslu salts. Þannig sýndi hann fram á fáránleika laganna. Fyrir það galt hann með fangelsun í allnokkur skipti.
Gandhi var löglærður og beitti aldrei ofbeldi og bar ekki hönd fyrir höfuð sér, hann vildi engan mann skaða þó auðugu bresku einokuninni hafi vafalaust fundist hann ræna spóni úr sínum aski, og yfirvöldum þótt hann óþolandi.
Þegar Bónusfánamaðurinn var handtekinn heyrði ég alloft hann braut lög.
Ef kemur til frekari mótmæla og gerninga sem þó skaða ekki líf og limi verður íslenska valdastéttin, lögreglan og yfirvöld að hafa það í huga að máttarstólpar valdastéttarinnar Davíð Oddsson og Mogginn og fleiri hafa eindregnast fært fram rökin fyrir því að nauðsyn brjóti lög. - Þingmenn og ráðherrar réttlæta það jafnvel að ný lög sem þeir nú setji séu mögulega handan ystu marka stjórnarskrár og mannréttindasáttmála með sömu rökum. Einnig brýtur lögreglan sjálf óvart lög eins og boðun til afplánunar og fl.
- Hvernig ætla þessi aðilar að hafna rökum mótmælenda um að nauðsyn brjóti óréttlát lög?
Ég vil þó eindregið mæla með að öll stjórnvöld og máttarstólpar samfélagsins virði sjálf lög og mannréttindi almennings og tjáningarfrelsi mótmælenda í víðum skilningi.
Stjórnmál og samfélag | Föstudagur, 28. nóvember 2008 (breytt kl. 22:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Og viðskiptaráðherra axli pólitíska ábyrgð. Það er mikill misskilningur Björgvins G Sigurðssonar að bíða þurfi niðurstöðu rannsóknanefndar til að ráðherra axli pólitíska ábyrgð og segi af sér. Það er algerlega andstætt pólitískri siðmenningu vesturlanda þar sem stjórnmálamenn axla pólitíska ábyrgð með afsögn ef þeirra málaflokkur verður fyrir alvarlegum áföllum.
Í þeim anda krafðist Ingibjörg Sólrún afsagnar stjórnar Seðlabankans og tók fram að hún snérist ekki um t.t. sök.
Ég hef því um hríð vonað að Samfylkingin og Björgvin Sigurðsson væru nógu stór og þroskuð til að sýna það fordæmi að Björgvin stæði upp og segði af sér án þess að sérstök sök væri sönnuð á hann. Þannig væri sýnt það fordæmi sem Samfylkingin þarf nú að sýna þjóðinni og samstarfsflokki sínum.
Enginn vafi er á að eftirá að hyggja má finna fjölmargt sem viðskiptaráðherra landsins, hver sem hann annars væri, hefði getað gert með öðrum hætti á 18 mánaða valdatíð fyrir svo hastarlega atburði sem þessa þar sem allt fór á versta veg. Bæði krafist meiri og betri upplýsinga sett sig betur inn í hluti og kveikt á perunni í það minnsta fljótlega eftir að allir fjölmiðlar fluttu okkur svartsýnustu fréttir í febrúar, mars og apríl sl. Einnig krafist gerðar vel prófaðra og yfirvegaðra neyðaráætlana í tíma og mikið fleira.
- Um það dugir ekki að segja það er alltaf auðvelt að vera vitur eftirá. Viðskiptaráðherra eins og aðrir æðstu yfirmenn fá laun fyrir að vita fyrirfram - sýna fyrirhyggju og forsjá.
Fyrst þetta gerðist með svo harkalegum hætti má alltaf finna ábyrgð og sök hjá þeim sem voru yfir málaflokknum þegar þeir gerðust. Þeir bera bæði ábyrgð ef þeir vissu ekkert og líka ef þeir vissu en aðhöfðust of lítið.
Björgvin Sigurðsson er svo ungur og efnilegur stjórnmálamaður að hann á greiða endurkomu aftur síðar í ráðherrastól - en nú er óðum að lokast gluggi hans fyrir afsögn með sæmd og sem lýsandi fordæmi um ábyrgð sem við viljum krefja bankastjóra seðlabankans.
Afsögn Björgvins er óhjákvæmileg, aðeins er spurning um með hve miklum fyrirgangi hún þarf að verða. Björgvin sagði frá upphafi þegar hann var spurður um ábyrgð Seðlabankastjóra að alls ekki væri hægt að leggja ábyrgð á Davíð - þar með tók Björgvin þá ábyrgð líka á sig og Samfylkinguna - nú veður hann að axla hana - með sæmd.
Stjórnmál og samfélag | Fimmtudagur, 27. nóvember 2008 (breytt kl. 21:40) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Neyðarstjórn kvenna stóð fyrir mótmælagerning og klæddi Jón Sigurðsson í bleikan kjól á mótmælafundinum sl. laugardag.
Það kryddaði tilveruna og skaðaði engan en skýrum skilaboðum var komið á framfæri með gerning.Það skaðaði heldur engan þó Bónusfáninn héngi nokkra mínútur yfir Alþingi - þó ég mæli ekki með slíkri athöfn.
--Nú þegar gengur á ýmsu í mótmælum er afar brýnt að allir geri skýran greinarmun á ofbeldi og saklausum gerningum sem er athöfn til tjáningar hvort sem er til mótmæla, til að koma skoðun á framfæri eða vekja spurningar - í raun listform án ofbeldis.
Anarkistar nota m.a. gerninga til að tjá sig, þ.e. þeir eru aktívístar. Margir halda að anarkistar hylji andlit sín til að geta falið sig fyrir lögum - svo er alls ekki. Þeir klæða af sér persónuna til að aðskilja hana skilaboðunum. Venjulegir pólitíkusar gera allt til að koma andliti sínu í sviðsljósin og fjölmiðlana en hugsjónaríkir anarkistar vilja láta skilaboð, málefni og sjónarmið standa ein án andlits eða persóna. Það er það sem liggur að baki svartra klæða með svartan höfuðklút um hár og andlit, -að fjarlægja persónuna úr skilboðunum.
Vilmundur heitinn Gylfason vakti mig til umhugsunar með merkum útvarpsþáttum um að frumkvöðlar anarkismans byggðu á fögrum hugsjónum. Það má þó segja að hugsjónin um foringjaleysi hafi skapað svo margskonar anarkisma að undir þeim hatti er nært allt til - gott og slæmt, hægri og vinstri - og þar innan um afar fögur sýn á manninn og mannkynið. - Það má hafa það í huga.
[Fleiri myndir smella og fletta hér - Smella ítrekað til að stækka]
Stjórnmál og samfélag | Þriðjudagur, 25. nóvember 2008 (breytt 26.11.2008 kl. 22:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
eða niðurlægjandi framkomu í garð mótmælenda.
Það var því verulegt stílbrot þessara yfirveguðu og skynsamlegu vinnubragða lögreglu að handataka Bónusfánamanninn sl. föstudag. Því er líkast sem einhver annar en þeir sem stjórnað hafa viðbúnaði undanfarnar vikur hafi gripið inní með þessum hætti og án samrás við þá yfirveguðu úrvals menn sem fram til þessa hafa stýrt störfum lögreglu gagnvart mótmælendum. Það fer enginn að segja mér að þarna sé um tilviljanir að ræða - sérstaklega þegar það er sagt að kennsl hafi verið borin á hann í heimsókn heimspekinema til Alþingis- Þar með vita menn alveg hvað þeir eru að gera þegar þeir ákveð að handtaka hann.
Starf embættis lögreglunnar og lögreglumannanna á vettvangi er afar vandasamt við þessar aðstæður. Einn vandaðisti yfirmaður lögreglunnar sagði við mig við fyrir rúmri viku á meðan líf og limir fólks eru ekki í hættu forðumst við að gera neitt sem gæti sett líf og limi í hættu Þetta er það skynsamlegasta sem ég heyrt embættismann segja frá upphafi kreppunnar.
Ég var við lögreglustöðina við Hverfisgötu í gær og tók myndir. Staða lögreglunnar hefur ekki orðið vandasamari en þar. Þegar einhverjum tókst að opna útidyr lögreglustöðvarinnar og reiðir mótmælendur fylltu forstofu stöðvarinnar, og einhverjir reyndu að brjóta upp forstofudyrnar, brugðust óttaslegnir lögreglumenn innan við dyrnar við fyrirvara laust og án aðvörunar með of kröftugum og langvarandi og tilviljunarkenndri piparúðaárás. Án þess að sjá hverjir urðu fyrir henni eða sjá hver árangur yrði og hætta strax og fólkið hörfaði. Strax og piparúðans varð vart snéri fólkið frá en fékk linnulitla kröfutuga gusu í góða stund yfir sig í lokuðu rými og komst ekki svo greitt í burtu vegna mannfjöldans að baki þeim.
Ef ég set mig í spor lögreglumannanna fyrir innan dyrnar get ég vel skilið ótta þeirra og að nota piparúða til viðvörunar, en set stórt spurningamerki við magn, kraft og tíma úðunar á fólkið sem var í lokuðu rými í forstofunni og að engin aðvörun skyldi gefin.
Lögreglumennirnir sem þá komu í kjölfarið og tóku sér stöðu á tröppum lögreglustöðvarinnar stóðu sig síðan afbragðs vel og létu ekki eðlilega reiði fólksins reiti sig til stjórnlausrar reiði eða hræðslu eða til frekari gagnaðgerða. Þeir lögreglumenn sem þarna voru eiga lof skilið fyrir það, - staða þessara lögreglumanna sem stóðu vaktina á tröppunum var ekki öfundsverð.
Munur á gerning og ofbeldi
Fyrir framhaldið er mjög mikilvægt að lögreglan, stjórnvöld og mótmælendur geri skýran greinarmun á gerningum og uppákomum, og svo raunverulegu ofbeldi. Sumir æðstu ráðmenn lögreglumála hafa heyrst í fjölmiðlum vera jafn argir yfir eggjakasti og ef um alvöru ofbeldi væri að ræða. Mótmælendur/aktívistar hafa gert skrýran greinar mun á þessu tvennu.
Bónusfánamaðurinn á heiður skilinn fyrir að hafa fram til þess kappkostað að tjá skoðanir sínar með ofbeldislausum gerningum og uppákomum sem vissulega geta angrað og pirrað yfirvöld og þá sem málið snertir og jafnvel tafið menn við vinnu, en ógna ekki né stofna öðru fólki í hættu og lagt áherslu á að láta ekki espa sig til ofbeldiskenndra viðbragða þrátt fyrir að hafa þurft að sæta órétti.
Á þessu tvennu gerning og ofbeldi er mikilvægur grundvallarmunur sem lögreglan á vettvangi gerir sér grein fyrir og vanir mótmælendur gera sér skýra grein fyrir.
Sjá mikilvæga linka um þetta mál:
Nei. - Dagblað í ríki sjoppunnar
Eva Hauksdóttir móðir Bónusfánamannsins
Ég get ekki séð, augun og andlitið brenna - Móðir 16 ára stúlku
Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn, hefur staðið sig afbragðs vel og ekki látið ögranir storka sér eða lögregluliði sem undir hann heyrir.
Var ekki látinn vita | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Sunnudagur, 23. nóvember 2008 (breytt 25.11.2008 kl. 01:49) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
[Nýjasta myndaalbúmið er hér]
Þrátt fyrir strekking og frost nóttina og morguninn fyrir mótmælafundinn voru um 10 þúsund manns sem mættu á Austurvöll. Ótrúlega stór hluti mótmælenda er miðaldra fólk og jafnvel eldra. Fólk sem á minningar um hve áhrifamikil almenn þátttaka í friðsömum mótmælafundum er. Þetta fólk mætti örugglega margt sjálft til mótmæla á Austurvelli í BSRB verkfallinu haustið 1984 þegar Austurvöllur fylltist af fólki og Albert Guðmundsson þáverandi fjármálaráðherra lýsti yfir við erlenda fjölmiðla áhyggjum af hættu á valdaráni og byltingu.
Hannes stal byltingunni 1984 og getur gert það aftur nú
Það var þá sem útvarpið þagnaði og Hannes Hólmsteinn stofnaði ólöglega útvarpsstöð í Valhöll, húsnæði Sjálfstæðisflokksins sem fór með forsæti ríkisstjórnar. Í raun markaði sá atburður upphaf valdatöku nýfrjálshyggjunnar og hreintrúarkapítalisma á Íslandi.
Það tímabil sem nú er að ljúka með ósköpum og þjóðargjaldþroti sem nú er mætt af þjóðinni með miklum fjöldafundi við Alþingi á Austurvelli hófst í raun á sama stað haustið 1984. - Það varð hugmyndafræðileg valdataka haustið 1984 - bylting nýfrjálshyggjunnar. Hannes stal byltingunni - og getur gert það aftur nú ef meirihluti fólks á Íslandi er áfram veikari fyrir eigin skjótfengna gróða en mannúð og samkennd, - við gætum sett kerfið á restart - einkavætt bankana sem fyrst og endurtekið leikinn um ofurlaunin og græðgina ef einstaklingar samfélagsins leggja ekki sérstaklega á sig nú að rækta með sér samúð, samkennd og samstöðu. Við verðum að skilja hvað klikkaði, og það sem klikkaði var kerfið sjálft, kapítalisminn klikkaði - við getum ekki byggt á kerfi sem gerir ráð fyrir að allt efnahagskerfið hrynji með reglulegu millibili og kallar það bara nauðsynlega hreingerningu.
Í raun er það rétt sem Geir og Hannes og Davíð og Björgvin segja að ekki sé við neinn einstakling að sakast um hrunið - því það var kerfið Kapítalismi sem klikkaði . Þó einstklingar hafi spilað leikinn af mis mikilli virðingu fyrir skyldum sínum og reglum og þeir sem áttu að fylgjast með þeim hafi sofið á verðinum - þá mun það alltaf verða þannig aftur ef við setjum kapitalismann bara á restart.
Við verðum nú að setja fólk og öryggi þess og líf í fyrsta sæti til frambúðar, en eignir og peninga þar fyrir aftan. Við verðum að byrja á tryggja að allir lifi kreppuna af, að allir hafi heimil, fæði og klæði og njóti aðhlynningar, hjúkrunar, lyfja og læknishjálpar ef þörf er á, einnig að allir hafi raunverulega jafnan rétt til náms óháð efnahag, sem tenist sterklega orðum og efndum ríkis og stjórnmálamanna um jafnan rétt óháð efnahag.
Lánastofnanir taka ekkert mark á tilmælum ráðherra
- Eða vita menn ekki að síðast þegar Alþingi gaf fjármálastofnunum eindregin tilmæli, var það fyrir rúmum 10 árum um að styrkja stöðu ábyrgðamanna, leitast við að hætta nota ábyrgðamenn og ganga ekki að þeim við innheimtu. Umræðan lognaðsit útaf með þeim yfirlýsingum en án þess að Alþingi setti lög, bankarnir kváðust ekki þurfa lög til að breyta rétt - en efndir voru nær engar. T.d. á sama tíma hélt Lánasjóður ísl. námsmanna (LÍN) áfram undir stjórn ríkisins að krefjast fullgildra ábyrgðamanna fyrir námslán og enn synjar LÍN ungmennum um að fá lán með foreldri fyrir ábyrgðamann ef foreldrið er t.d. með afnotagjald RÚV á vanskilaskrá. Ábyrgðareglur LÍN bitna af mörgum ástæðum sérstaklega á ungmennum sem koma frá efnaminni heimilum, þrátt fyrir að tilgangur sjóðsins sé að tryggja jafnan aðgang að námi óháð efnahag. - Sjóðurinn ályktaði hinsvegar sjálfur að við túlkun á þeirri grein kæmi efnhagur foreldra og fjölskyldu málinu ekki við, - enda ekki í þágu peninga og peingafólks. - Peningar og ekkert nema peningar eru alltaf í fyrsta sæti jafnvel í lánasjóði hjá ríkinu með samfélagsleg markmið.
Yfirlýsingar og tilmæli þingmanna, ráðherra og ríkisins til lánastofananna Eru því einar og sér einskis virði. Jafnvel LÍN tók ekkert mark á slíkum yfirlýsingum þings og ráðherra fyrir rúmum 10 árum. Allar þessar stofnanir tryggja hag peninganna fyrst og fólksins og tilgangs laganna sem þeir starfa eftir svo. Alþingi hefur enda oft sett lög til að gera innheimtu skilvirkari þ.e. afnema réttindi skuldara en vart eða aldrei til að styrkja réttarstöðu skuldara og ábyrgðamann enda andstætt hagmsunum peninga og banka.
Hagur og heilsa peninganna alltaf í fyrsta sæti
Vandamál Íslendinga er að hagur og heilsa peninganna hefur alltaf verið miklu hærra skrifuð á Íslandi en hagur og heilsa fólksins.- Eða hversvegna ætli hafi enn í lok góðærisins íslenskir þegnar þurft að búa árum saman í tjöldum í öllum veðrum á vetrum og sumrum og að hreiðra um sig í holum í Öskjuhlíðinni. Eða hvernig stóð á því þegar allir þessir peningar streymdu í landið að fólki með hamlanir vegna veikinda eða fötlunar var í vaxandi mæli úthýst af vinnumarkaði og gert erfiðara um vik að vera virkir og gildir þátttakendur?
Eina lausnin sem við eigum er ný útgáfa af stefnu lýðræðisjafnaðarmanna - þ.e. kratanna, með miklu þyngri áherslur á manninn, velferð og öryggi allra þegnanna í fyrsta sæti en öryggi peninga og gróða þar á eftir.
Samfélagsleg viðfangsefni krefjst samfélagslegra lausna
Stjórnmál og samfélag | Sunnudagur, 16. nóvember 2008 (breytt kl. 18:44) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Ég held að fátt fari eins illa fyrir brjóstið á okkur Íslendingum síðustu vikur og skrök, blekkingar og feluleikir.
Ég fór nú í annað sinn á mótmælin á Austurvelli. Í hitt skiptið varð ég vitni að því að fjölmiðlar og lögreglan sögðu bersýnilega ósatt um fjölda mótmælenda. - Ég var með mínar eigin myndir sem sýndu að a.m.k tvöfalt til fjórfalt fleiri voru viðstaddir mótmælin en sagt var.
Blöðin höfðu beinlínis fyrir því að velja myndir frá annars ágætum ljósmyndurum sínum sem sýndu sem mest gras en sem fæst fólk. Það er gert með því að nota myndir frá því þegar fólk er enn að safnast saman og áður en það færir sig nær sviðnu og nóg af grasi framan við sviðið.
Þessar blekkingar sem ætlað er að gera sem minnst úr mótmælunum gera líka mjög lítið úr því þeim einstaklingum sem mæta þar til að tjá hug sinn. Að því er virðist vísvitandi blekkingar fjölmiðla, lögreglu og yfirvalda sem fólk verður þannig sjálft vitni að felur í sér lítilsviðringu á lýðræðsilegri tjáningu og mótmælandinn upplifir persónuleg að vera ekki virtur viðlits og að látið sé sem hann hafi ekki verið þarna.
Fólk verður aðeins reiðara við þetta og sumir bregðast við með ýktari aðgerðum.
Ungt fólk sem upplifir þannig hvernig allar valdastofnanir og fjölmiðlar sameinast um að gera lítið úr því og lýðræðislegri tjáningu þeirra bregst við með ýktari aðgerðum næst, - aðgerðum sem ólíklegra er að hægt sé að þegja yfir. Yfirvöld lögregla og fjölmiðlar gera því illt verra við þessar aðstæður með því að skrökva um fjölda og þunga mótmæla, og ekki bætir úr að seðlabankastjóri hæðist að fólkinu. - Fólkið verður reiðara og grípur til róttækari aðgerða til að eftir því sé tekið.
Við og við hef ég unnið sem fréttaljósmyndari í 30 ár. Þær myndir sem sýna mestan fjölda fólks eru alltaf sannastar því þær eru teknar þegar flestir eru mættir og eyða ekki myndrými í gras eða annað sem ekki kemur fréttinni við. Ljósmyndari skáldar ekki hausum inná myndina þó hann nýti myndflötinn vel og sleppi grasinu. Ég veit fyrir víst að ljósmyndarar Mogga og Fréttablaðsins eru ekki svo lélegir fréttaljósmyndarar sem birtar myndir blaðanna og vefmiðlanna af fyrri mótmælafundum gætu gefið til kynna, mótmælum sem aðrir ljósmyndarar mynduðu einnig og sýna mikið meiri fjölda og sýna meiri þunga í mótmælunum en fréttamyndirnar sem birtar voru gera.
Greint frá mótmælunum erlendis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Sunnudagur, 9. nóvember 2008 (breytt kl. 12:08) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Það gleður mig ósegjanlega að hafa haft rangt fyrir mér um að Obama hefði misst af sigri með því að hafa ekki Hillary Clinton sér við hlið sem varaforsetaefni.
Nú rétt í þessu lýsti CNN Obama næsta forseta USA og að hann hefði tryggt sér 297 af 270 kjörmönnum sem hann þarf. McCane hefur aðeins 139 á þessari stundu. Þetta small inn með vesturströndinni sem kom öll fyrir Obama um leið kjörstöðum var lokað þar nú kl 04 að okkar tíma. Þegar samkeyrðar eru tölur frá útgöngukönnunum og fyrstu tölur einstakra kjördæma fylkjanna telur CNN óhætt að lýsa sigri Obama með því að hann hafi tryggt sér 297 kjörmenn.
Ég ætla rétt að vona að talningin taki ekki einhverja lykkju eða skrítna beygju eftir þetta eins og í Flórída fyrir 8 árum. Ég get ekki ímyndað mér hvað myndi gerast - það yrði uppreisn.
Þessi sögulega kosning markar vonandi gerbreytta stefnu frá tímabili Bush til betri framtíðar allrar veraldarinnar.
Framundan er mikil vinstri sveifla í heimunum þar sem sýnt er að lýðræðisjafnaðarstefnan og hið blandaða hagkerfi stendur eitt eftir sem vegvísir til framtíðar.
Obama kjörinn forseti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Miðvikudagur, 5. nóvember 2008 (breytt kl. 05:25) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Steingrímur J Sigfússon ber ekki minni ábyrgð á vanda okkar nú en en margir aðrir stjórnmálamenn þó augljóslega helstu stuðningsmenn stefnu valdherrans Davíðs Oddssonar og hugmyndafræðings hans Hannesar Hólmsteins beri langtum mesta ábyrgð.
Björgun krónunnar kostar okkur nú allan pakkann frá IMF, allt sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er að gera á íslandi er bara til að koma krónunni á flot að nýju og styrkja hana svo hún verði (kannski) nothæf. Stýrivextirnir og öll skilyrðin sem þeir setja, risalánið og vextirnir af því og þær fórnir sem þetta kostar okkur eru aðeins til að koma krónunni á flot, - sem svo er ekki víst að takist. Ef við værum ekki með krónu heldur evru væri engin króna til að bjarga og það allt því óþarft hvernig svo sem allt annað hefði farið. Svigrúm okkar og bjargir gætum við því notað beint í uppbyggingu.
Ábyrgð Steingríms er mest fyrir að hafa árum saman beitt hugmyndaflugi sínu og skynsemi til að finna sífellt upp nýjar hindranir gegn því að Íslendingar kanni hvað þeim byðist hjá Evrópusambandinu og hvað aðild myndi kosta okkur með aðildarviðræðum í stað þess að leita lausna og samninga, bera á fyrirhyggjusamt fólk ávirðingar um óþjóðhollustu og jafnvel landráð og hæðast að rökum upplýstra og vel menntaðra einstaklinga um að illa gæti farið fyrir okkur ef við gengjum ekki til þessa samstarfs fullvalda Evrópuþjóða og hræða þannig aðra frá að tjá hug sinn um efnið.
Steingrímur beitir enn öllu sínu hugmyndaflugi í sama tilgangi og tapar alltaf öllum okkar aðildarviðræðum við ESB fyrirfram.
Nú hafa viðvarnir þeirra sem vildu að við tryggðum efnahagslegt öryggi okkar og stöðugleika með ESB-aðild og evru allar sannast réttar - og vel það. Samt heldur Steingrímur áfram að finna tylliástæður til að ganga ekki til samstarfs Evrópuþjóða, sem við yrðum þó beinir aðilar að, en vill nú fela norska konungsríkinu, sem við eigum enga aðild að, stjórn peningamála á Íslandi.
Vitnað er til Maastricht-skilyrðanna fyrir upptöku evru um að hún yrði ekki möguleg hér í mörg ár. Það má vera að það reynist rétt en er alls ekki sjálfgefið. Skilyrðin hafa markmið og tilgang og ef hægt er að sýna fram á að tilganginum sé náð með öðrum hætti opnast alltaf möguleiki til að ræða hlutina. Maastricht-skilyrðin um stöðugleika þeirra landa sem ganga til liðs við evruna eru sett til að óstöðugleiki eins efnahagssvæðis eða ríkis ruggi ekki öllu evrusvæðinu með aðild sinni. Þar sem Ísland er jafn lítið og raun ber vitni er fyrirfram engin hætta á því að Ísland setji evrusvæðið á hvolf. Tilgangi markmiðanna er því náð fyrirfram. Það merkir þó ekki að víst sé að sú glufa dygði til að opna okkur dyr en beiti menn hugmyndaflugi sínu og skynsemi til að finna upp lausnir en ekki hindranir er aldrei fyrirfram vitað hvað ekki er hægt.
Ég sagði stundum við börnin mín þegar þau voru í þeim gírnum eins og börn gera að sjá ekkert nema hindranir fyrir að gera eitt eða annað:
Notaðu nú skynsemina til að finna lausnir en ekki til að upphugsa hindranir. Skynsamt fólk sem notar gáfur sínar til að finna hindranir finnur risa-hindranir en ef það notar gáfur sínar til að leysa vandmál sér það bara lausnir og viðfangsefni.
Steingrímur, notaðu nú þína miklu skynsemi til að finna lausnir og bestu leiðir fyrr okkur að samstarfi fullvalda Evrópuþjóða - ESB og evru eins fljótt og hægt er og til að tryggja hagsmuni okkar þar. - Hættu að nota skynsemi þína til að upphugsa hindranir, þú ert svo skynsamur að það eru þá heldur engar smáræðis hindranir sem þú finnur upp á. - Ábyrgð þín er mikil því það er hlustað á þig.
Stjórnmál og samfélag | Sunnudagur, 2. nóvember 2008 (breytt kl. 16:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)