Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Nú liggur það þá loks fyrir samkvæmt könnun Gallup að vörubílstjórarnir eru ekki án stuðnings meðal þjóðarinnar. Reyndar held ég að með látunum við heimsókn forseta Palestínu hafi þeir komist næst því að missa samúð almennings. - Þvert á það sem reynt hefur verið að innprenta okkur óbreyttum almúganum fengu þeir hinsvegar samúðina til baka með aðgerðum lögreglunnar á Norðilingaholti. - Sjálfum finnst mér málsstaður bíllstjóra ekki koma því við hvaða skoðun ég hef á aðgerðum lögreglu gegn þeim.

Allir lögreglumenn sem ég þekki eru afbragðs menn og tvímælalaust meðal þeirra einstaklinga sem ég treysti best.

Það breytir því ekki að aðgerðir lögreglunnar á Norðlingaholti voru kjánleg leiksýning með yfirdrifnum leikbúningum sem átti að þjóna sama hlutverki og þegar herir fyrir nokkrum öldum voru klæddir skrautlegum og mikilúðlegum búningum og stilltu sér upp í breiðfylkingu andspænis óvininum til að skrautið og búningarnir hræddi almúgann og óvininn til uppgjafar og undirgefni. Því miður fannst ungu fólki þessi hersýning íslensku lögreglunnar hlægileg og ögrandi - eiginlega eins og skildirnir og hjálmarnir með andlitshlífum kölluðu á að í þá væri kastað eggjum.

Þegar á daginn leið stóðst ég ekki mátið að fara uppeftir og taka nokkrar myndir sem eru hér í albúmi á spássíu, ég kaus hinsvegar að skrifa ekki um málið fyrr en það hefði aðeins róast. Það verður hinsvegar að draga af því réttan lærdóm - og hann er ekki sá að lögreglan eigi að fá að vopnast rafmagnsbyssum.

Var þetta fólk lögreglunni svona mikil ógn?
Þegar ég kom uppeftir stóðu tugir lögreglumanna gráir fyrir járnum andspænis í mesta lagi jafn mörgum unglingum, börnum og kannski tug fullorðinna bílsstjóra. Fréttamenn og upptökumenn voru trúlega jafn margir og bílsstjóranir. Ég velti fyrir mér hvort lögreglunni væri virkilega alvara að telja sig þurfa að verja sig með þessum hætti andspænis þessu fólki (sjá myndir), og ef þess þurfti fyrr um daginn hversvegna núna? - Hvaða styrk sýnir lögreglulið sem þarf svo mikinn varnarviðbúnað gagnvart svo lítilli ógn? - Hún virðist þvert á móti hrædd og veik.

Myndir mínar sýna bæði lögregluna og fólkið sem hún stóð þannig andspænis þá klukkustund sem ég staldraði við. Ef lögreglan teldi þetta fólk svo hættulegt að slíkan varnarviðbúnað þyrfti við hvernig gat hún þá eftirlátið óvininum sjálfa bensínstöðina? Hvað myndi lögregla sem í alvöru teldi þetta fólk vera alvöru hættulegan múg reikna með að múgurinn gerði? - með bensín og bensíndælur rétt við hendina?
- Auðvitað vissi lögrelgan að engin hætta stafaði af þessu fólki - sviðsetningin var heldur ekki til varnar gagnvart því heldur illa misskilin uppfærsla fyrir sjónvarp, -engin slík ógn steðjaði að lögreglunni frá þessu fólki að réttlætti uppfærsluna.
Augljóslega var vegurinn lokaður miklu lengur vegna aðgerða lögreglunnar sem hindraði vörubílsstjórana frá að komast aftur til bíla sinna en ef ekkert hefði verið aðhafst fyrr en eftirá.
Í ofanálag snérist sá kafli atburðarásarinnar sem ég varð vitni að um að fjarlægja bíl foringjans Sturlu - en bíl Sturlu var lagt langt útí kanti á löglegu bílastæði þ.e. eins utarlega á löglegu bílastæði og unnt var - og til að fjarlægja þann bíl var m.a. brotin í honum rúða og tekið í sundur drifskaft.
Því miður hefur lögreglan þarna unnið stórfellt skemmdarverk á orðspori sínu meðal uppvaxandi kynslóða þessa lands og annarra landsmanna - fyrir nú utan að vera orðin að sérstöku aðhlátursefni með Gas-árásinni sinni. - Enginn vafi er á að enginn ein atburðarás hefur skaðað eins orðspor og traust til lögreglunnar á Íslandi og atburðirnir á Norðlingaholti.
.
![]() |
Meirihluti telur aðgerðir lögreglu gegn bílstjórum of harkalegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Fimmtudagur, 1. maí 2008 (breytt 3.5.2008 kl. 02:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Í gær rakst ég á nokkurn hóp nýbúa, framandi í útliti og með annað litarhaft en við eigum að venjast á þeirra líkum. Mér skilst að hópurinn hafi hreiðrað hér um sig undanfarin ár og reynt að setjast hér að án þess að margir hafi gert sér grein fyrir því. Hans er t.d. hvergi getið í þeim prentuðu ritum og gögnum sem ég hef með höndum. Á netinu má þó finna heimildir um að undanfarin ár hafi nokkrar fjölskyldur Þessar framandi furðufugla reynt að koma sér fyrir hér á landi og þá á Vesturlandi t.d. við Andakílsá. Ég get ekki að því gert að fagna innileg í hjarta mér þegar ég uppgötva að fleiri vilji setjast að á Íslandi en áður og ekki síst þegar um svo litríka fugla er að ræða sem brandönd.
Þegar ég kom auga á 12-15 brandendur róta með goggnum í leirunum á Álftanesi gat ég með engu móti áttað mig á hvort hér voru á ferð smáar gæsir eða stórar endur, og þessa gerð fugla hafði ég aldrei séð áður. Þegar heim kom og ég skoðaði betur myndirnar varð ráðgátan aðeins dularfyllri, því í mörgu minntu þær á endur t.d. á flugi en svo aftur hitt ekki síður á gæsir, t.d. virtist bæði kollan og steggurinn í fljótu bragði vera eins, í sömu skrautlegu litunum sem er ólíkt öndum þar sem aðeins steggurinn er skrautlegur, aftur á móti virtust þær í lögun og stærð fremur vera eins og stóarar endur - þó ekki virtist muna miklu á þeim og margæsunum.
Ég sá þó ekki betur en verið gæti að steggirnir væru stærri og með rauðan hnúð við rauðan gogginn en kollurnar bara með rauða gogg að mestu án hnúðs. Fuglarnir virtust róta í leirunum í leit að æti og héldu sér á svipuðum slóðum og margæsirnar og nokkrar æðakollur. Margæsirnar sá ég þó éta grænt þang en ekki þessa litríku nýbúa sem ég nú veit að heita brandendur og eru einmitt sagðar vera millistig milli gæsa og anda.
Hvaðan þær koma og hvert hefðbundið varpsvæði brandanda er veit ég þó ekki en gaman væri að vita hvort einhverjir hér vita meira.
Fleiri myndir af brandöndunum eru hér í fuglaalbúminu mínu á spássíunni
Stjórnmál og samfélag | Miðvikudagur, 30. apríl 2008 (breytt kl. 21:52) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þegar stríð vofir yfir lítilli þjóð og innrásarher vomir úti fyrir velktist enginn í vafa um að rétt væri að grípa til varna og byggja bandalög með öðrum þjóðum í von um að geta stökkt á brott árásarhernum eða hrundið árásinni.
Á sama tíma og Davíð Oddsson átti í heitstrengingum við Bandaríkjamenn vegna fjögurra herþota og fyrirsjánlegrar brottfarar bandaríska hersins sem fann engan óvin til að verjast voru þegar teikn á lofti um raunverulega óvini og alvöru árás á varnarlaust Ísland en forsætisráðherra okkar og síðar seðlabankastjóri vildi ekki ansa einu orði kröfu margra um aðild að því efnahagslega varnarbandalagi sem eitt hefði getað gert okkur kleyft að verjast þeirri árás sem nú hefur verið gerð á landið.
Margir okkar færustu sérfræðinga hafa varað við því að Ísland væri efnahagslega varnarlaus bráð fyrir fjölmarga öfluga óvini. Í ákafa okkar við leit að óvini sem byssur og flugskeyti gætu grandað var í engu sinnt um raunverulegar varnir landsins, varnir gegn herforingjum voldugustu vogunarsjóða.
Ef nokkru sinni var ástæða fyrir okkur að gerast aðilar að NATO hefur nú árum saman ekki verið síðri ástæða fyrir okkur að gerast aðilar að ESB og þátttakendur í myntbandalaginu. Því betur sem aðrar af minni þjóðum Evrópu hafa búist til efnahagslegra varna með þátttöku í ESB því augljósari bráð hefur Ísland orðið Það að verja ekki landið með ESB aðild er jafngilt því að hafa landið varnarlaust á viðsjárverðum tímum þegar herir fara um og ræna þeim lendum sem þeir ráð við.
En þó stríðið sé skollið á og okkur takist nú að stökkva árásahernum á brott eftir samt talsvert tjón sem hann hefur þegar valdið þá býr framtíðin áfram yfir fjölmörgum hættum sem fráleitt er að verjast ekki með þátttöku í því efnahagslega varnarbandalagi sem ESB tvímælalaust er. Menn mega ekki lengur láta fáfræði og fordóma byrgja sér sýn til nauðsynlegra varna íslensku efnahagslífi við erum síst fullvalda undir hælnum á fjárglæframönnum og ofurgamblerum, við tryggjum fullveldi okkar best með aðild að ESB og aukum jafnframt áhrif okkar.
Í dag tryggjum við raunverulega varnir Íslands gegn alvöru óvinum aðeins með þátttöku í ESB.
![]() |
Allir taka skort í Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Miðvikudagur, 9. apríl 2008 (breytt kl. 02:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Neðan greint er tekið af vef Vefritsins (smella) þar sem vitnað er til orða Páls Péturssonar árið 1992 um hvaða áhrif EES myndi þá hafa á atvinnustigið á Íslandi. Kannast einhver við málflutninginn? - nákvæmlega sá sami og nú 16 árum seinna er hafður uppi um ESB. -Hvernig rættust orð Páls?
Nostradamus holdi klæddur
Þeir [forkólfar stéttarfélaganna] virðast loka augunum fyrir því að við erum að gerast aðilar að efnahagssvæði þar sem fast atvinnuleysi er um 10%. Með svipuðu lögmáli og vatnið rennur undan brekkunni hlýtur atvinnuleysi hér að aukast til stórra muna.
Páll Pétursson, fyrrv. ráðherra, í umræðum um aðild Íslands að EES, 25. ágúst 1992.
Stjórnmál og samfélag | Þriðjudagur, 1. apríl 2008 (breytt kl. 15:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Einar Axel yngri sonur minn (19 ára) tók fyrir nokkrum dögum við 1. verðlaunum í stæðrfræðikeppni framhaldsskólanna annað árið í röð, og svo aftur nú á sunnudaginn við 2. verðlaunum í eðlisfræðikeppni framhaldsskólanna. Satt að segja finnst mér það orðið æði sannfærandi árangur hjá honum. Einar hefur nú hafið störf í veitingasalnum Turninum á 19. og 20. hæð turnsins við Smáratorg og líst afar vel á sig þar, - allt sé þar einstaklega vandað og vel gert. Einar útskrifast væntanlega frá MR í vor og er að spá í hvaða nám taki við. Erla kærasta Einars sem er lengst til hægri á næstu myndi hér fyrir neðan er líka nemandi við MR og sérlega efnileg stúlka.
Yngri dóttir okkar (2 strákar + 2 stelpur) Hafdís Helga (18 ára) hefur lengi haft brennandi áhuga á leiklist og var í vetur oddviti leikfélags MH en með henni hefur starfað frjór og öflugur hópur krakka sem skólinn getur verið afar stoltur af. Þá hefur hún verið að leika í Skilaboðaskjóðunni í Þjóðleikhúsinu í vetur og birst í nokkrum atriðum í Spaugstofunni m.a. sem flugfreyja og svo í síðasta þætti, í hinum broslausa heimi Íslands eftir hrun sem þeir drógu upp, sem brúður Arnar Árnasonar og afgreiðslumær Kristjáns heiti ég Ólafssonar. Hún er nú að ljúka 3ða ári í menntaskóla en það togast á í henni hvort hún í framtíðinni eigi að leggja fyrir sig leiklistina eða mennta sig á heilbrigðissviði. Haukur Már eldri sonur okkar og elsta barn af fjórum var í vetur tilnefndur til menningarverðlauna DV fyrir þýðingu sína á Óraplágu Zizek sem Hið íslenska Bókmenntafélag gaf út. Hann er nú í Kaliforníu með unnustu sinni Bryndísi Björgvinsdóttur sem aftur er í meistaranámi við Berkley-háskólann (sjá hér).
Jórunn Edda (23ja ára) , eldri dóttir okkar er komin heim frá Ítalíu þar sem hún var í skiptinámi og fékk afbragðs einkunnir og er að ganga frá námslokum við HÍ þar sem eitthvað möndl er að láta námstímabil við erlenda háskóla í skiptinemasambandi við HÍ falla að námsskipulagi HÍ, - og á svo enn eftir að ákveða framhaldið hjá sér.
Stjórnmál og samfélag | Þriðjudagur, 1. apríl 2008 (breytt kl. 18:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Það er ansi merkileg frogangasröðunin hjá lögreglunni okkar. Hún bregst hart við hverskonar mótmælum og andmælum svo sem ef menn flagga mótmælaborðum á vélum eða mannvirkjum sem snerta það efni sem mótmælt er, -hika ekki augnablik við að senda her lögreglumanna til að fylgja 3 ungum janaðarmönnum sem voga sér að líma andmælaskjal á hurð kínverska sendiráðsins þegar enginn opnar til að veita því viðtöku, -lögreglan hafði mikinn viðbúnað fyrir austan þegar mótmæla-tjaldbúðir voru þar vegna Kárahnjúka svo enginn ynni nú skemmdarverk eða tefði vinnu, -allir muna fjölmennt lögreglulið sem skýldi kínverskum ráðmönnum frá því að berja augum neitt sem væri appelsínugult og fruntaskap í garð þeirra sem reyndu að láta Kínverjana vita af mótmælunum, - og nú lætur lögreglan fréttast að til standi að handtaka vörubifreiðastjóra sem hafa farið sér of hægt í umferðinnu undanfarið og lögreglan veifar framan í fréttamenn lagákvæðum um 6 ára fangelsi fyrir tafir á umferðinni,
- en lögreglan getur ekkert aðhafst til að stöðva stórfelld eignaspjöll í hjarta höfuðborgar okkar og skemmdarverk á ásýnd hennar enda ber veggjakrotið og rúðubortið og vanrækslan ekki sérstök skýr skilaboð til stjórnvalda eða um stjórnvöld - nema auðvitað um að leyfa verktökum að brjóta og byggja eins og þá langar til.
- Lögreglan okkar lét okkur vita með vopnuðum sérsveitum og grá fyrir járnum að miðbæjargestir sem ekki gætu haldið í sér þvagi í miðbænum skyldu skilyrðislaust handteknir og sektaðir, eins vel og þar er séð fyrir salernum, einnig ef einhver sæist henda rusli,
- en lögreglan getur ekkert aðhafst til að hindra stórfellda eyðileggingu á ásýnd höfuðborgar okkar með veggjakroti og eyðileggingu hverskonar ef það eru ekki öldurhúsagestir á heimferð að kasta þvagi eða bein pólitísk mótmæli heldur þvert á móti áfastar skemmdir sem ekki skolast í burtu með rigningavatninu en henta vel eignamönnum og verktakabullum sem vilja kaupa ódýrt til að rífa og byggja nýtt.
![]() |
Kraumandi óánægja kaupmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 29. mars 2008 (breytt 30.3.2008 kl. 05:27) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Stjórnvöld hafa flutt hér mikilvæg og skýr skilaboð til umheimsins um að íslensk stjórnvöld geti og muni standa við bakið á íslensku bönkunum. Trúlega eru þetta bæði mikilvægustu og réttustu aðgerðir sem stjórnvöld geta gripið til akkúrat í augnablikinu og rétt að endurtaka þau skilaboð sem oftast og víðast og byggja undir þau með trúverðugleika.
Hitt er svo annað mál að bankarnir hafa lagt í ævintýraför með traust og lánshæfismat íslenska þjóðarbúsins í vegarnesti og virkjað það óspart til að moka inn fé til æðstu stjórnenda sinna og eigenda. Hátt lánshæfismat bankanna byggði á traustu og háu lánsfjármati Íslands.
Sú staða sem nú er komin upp ætti að minna okkur rækilega á að þrátt fyrir allt eru bankarnir að virkja sameign þjóðarinnar þ.e. lánstraust og tiltrú okkar, íslenska ríkisins og þjóðarinnar, - í framtíðinni verður það að koma skýrt fram hjá bönkunum að þeir viti það og umgangist bæði okkur og þjóðarverðmætin af þeirri virðingu sem af þeirri ástæðu ber.
Bankarnir hefðu aldrei getað ráðist í þá för sem þeir lögðu í án þess að íslenska ríkið teldist standa með þeim sem bakhjarl og þeir yrðu nú einskis virði ef við flyttum ekki skýr skilaboð þegar á reynir að við gerðum það í reynd, séum bakhjarl þeirra tilbúin og megnug að ábyrgjast skuldbindingar þeirra. - En bankar gleymið því ekki eftirleiðis að þið eruð ekkert án okkar.
![]() |
Uppsveiflunni lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Föstudagur, 28. mars 2008 (breytt kl. 20:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)

![]() |
Segir Ísland afar vel rekið land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Miðvikudagur, 26. mars 2008 (breytt kl. 17:31) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það sannast nú sem margir hafa verið að segja lengi að Davíðs Oddssonar yrði helst minnst fyrir þá skelfilegu skammsýni að þverskallast við öllum hugmyndum um aðildarviðræður og ESB-aðild í kjölfar flestra EFTA-ríkjanna.
Það var ljóst fyrir meira en 10 árum og hefur aðeins sífellt orðið skýrara síðan, - og auðvitað skýrast nú við svona áföll hve alvarlegur hrokinn var um að segjast ekki vilja leggja fátækari þjóðum Evrópu fjárhagslegt lið með aðild okkar að ESB þegar allt lék í lyndi, því ESB myndi kannski kosta ríka Ísland pening - segjast plumma sig best eitt og sér og hafna bandalagi með öðrum fullvalda ríkjum Evrópu þegar enn var tími til - og standa svo nú einn, örlítill, berskjaldaður og óvarinn fyrir ofurbröskurum heimsins sem veðja nú á að Ísland fari á hausinn og stýra auðvitað sínum málum til að svo verði.
- Maður tryggir ekki eftirá!
-Þegar ég stúderaði stjórnmálafræði sem ákafast 1994-1997 var niðurstaða mín í BA ritgerð um efnið að við mættum ekki draga inngöngu lengur en svo að við yrðum komin inn þegar fiskveiðistefnan væri endurnýjuð árið 2002 til að hafa áhrif á hana þar sem til lengri tíma væri aðild hvort sem er óumflýjanleg. Reyndar kom mér mest á óvart hve margt í reglum ESB er okkur hagfellt og hve margar þeirra eigin yfirlýsinga og reglna eru okkur hagstæðar við réttan skilning á aðstæðum okkar þ.e. þeim að við eigum ekki sameiginleg fiskimið með ESB nema fyrir flökkustofna og að við er mjög háð fiskveiðum.
Strax það grunnákvæði að sameiginlegur vandi krefst sameiginlegra lausna" (þ.e. að ESB er ekki að blanda sér í mál sem ekki eru sameignlegur vandi ríkjanna) og að hvern vanda skuli leysa sem næst vettvangi og óteljandi stór og lítil fordæmi um að fiskveiðistefnan sé af skynsemi og skilningi sérsniðin að ólíkum hafsvæðum og aðstæðum ætti að gera það óþarft að óttast samningaborð ESB. T.d. gilda um margt aðrar reglur á Miðjarðarhafinu en á hafsvæðunum umhverfis Bretland og enn annað á Eystrasalti og Kattegat, og þá hefur ESB aldrei skipt sér af fiskveiðum fjarlægra eyja undir yfirráðum aðildarlandanna t.d. Frakka - og strax þegar Færeyjingar höfnuðu því að fara með Dönum í ESB var því lýst yfir að ef færeyjingar kysu síðar væri ESB tilbúið að leggaj sig fram um að finna lausn fyrir fiskveiðar hins norræna eyríkis sem væri svo háð fiskveiðum.
Ætti því að vera ljóst að okkar sterkustu vopn eru eigin yfirlýsingar og reglur ESB og bara með því að draga fram viðeigandi grunnreglur ESB og fordæmi þeirra sjálfra ætti fiskveiðistefnan ekki að vera vandamál - heldur þvert á móti baktrygging ef fiskveiðistofnar hryndu á Íslandsmiðum. - Af þeirri ástæðu og mörgum öðrum meðal annars vegna kosta myntbandalagsins sem þá var búið að setja á fót mætti ekki dragast að við gengjum í ESB.
Engir græða eins mikið á bandalögum fullvalda ríkja og smáríki
Í dag ættu allir að sjá hve samtrygging með öðrum fullvalda þjóðum er mikilvæg örríki eins og Íslandi. Það er ein grunnkenning smáríkjafræða að engir græði eins mikið á bandalögum við aðrar fullvalda þjóðir og smáríkin. - Samt sló Davíð Oddsson alltaf slíkt tal útaf borðum sem þvætting, almáttugt Ísland þyrfti ekkert á slíku bandalagi að halda sem þó miklu stærri þjóðir töldu sig þurfa.
Mér hefur lengi fundist dularfullt hvað raunverulega liggur að baki hinni harðvítugu andstöðu Davíðs Oddsonar við ESB aðild svo ekki sé talað um þar sem að hann sjálfur stýrði nefnd Sjálfstæðisflokks sem árið 1988 komst að þeirri niðurstöðu að við ættum sem fyrst að ganga til slíkra aðildarviðræðna.
Mín niðurstaða er að aðeins tvennt geti í raun skýrt andstöðu Davíðs annað væri hræðsla við að setjast að borðum með alvöru þátttakendum alþjóðakerfisins - það er að litla Ísland eigi að hegða sér eins og þæg og góð örríki svo sem Mónaco, Andorra, Monte Carlo og Lichtenstein og flokka sig með þeim þar sem það ráði ekki við að vera alvörur Evrópuríki - Og ef ekki það þá hreinlega af annarlegum ástæðum - ótta við að eitthvað eða einhverjir mikilvægari Davíð en þjóðin og heildarhagsmunir þjóðarinnar misstu sérgæði eða sérhagsmunavald þegar okkar kerfi þyrfti að uppfylla skilyrði um almennt jafnræði og vandaða stjórnsýsluhætti.
![]() |
Eitraður vogunarsjóður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Sunnudagur, 23. mars 2008 (breytt 24.3.2008 kl. 03:23) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
Fyrir nokkrum dögum kom ég frá Kanaríeyjum nánar tiltekið Ensku-ströndinni. Nákominn eldri einstaklingur sem bundinn er við hjólastól og göngugrind þarfnaðist fylgdarmanna til að geta látið þann draum sinn rætast að komast á ný þrátt fyrir heilsutap í sólina og hitann í dimmasta skammdeginu. Sá fór oft til Kanaríeyja hér á árum áður en hefur heilsu sinnar vegna ekki komist um alllangt skeið. Við hjónin höfum hinsvegar aldrei fyrr farið til Kanaríeyja og áttum 30 ára brúðkaupsafmæli um þessar mundir svo viðkomandi kaus að slá tvær flugur í einu höggi og bjóða okkur hjónum með sér að því tilefni og fá þannig jafnframt nauðsynlega aðstoð.
Ferðin reyndist í heild afar ánægjuleg en einnig sérlega fróðleg um aðstæður og möguleika þeirra sem bundnir eru við hjólastól til að ferðast.
Rútan er ekki ætluð fyrir fatlaða
Það rifjaðist upp fyrir mér í aðdraganda þessarar ferðar þegar ég fyrir fáum árum var á ferð með annarri íslenskri ferðaskrifastofu, þar sem við fjölskyldan vorum komin upp í rútuna sem flytja átti okkur frá flugvelli að hótelum á áfangastað komu tvær konur í gættina og reyndu að tala við bílstjórann, þráttuðu við fararstjórann sem var ung stúlka og kölluðu svo inn rútuna getur nokkur aðstoðað okkur með mann í hjólastól?. Rúturnar sem flytja viðskiptavini íslensku ferðaskrifstofanna til og frá flugvelli eru jafnan með stórt farangursrými undir farþegarýminu, það er því all hátt klifur inn í rúturnar og þó nokkur þrep að stíga og í ofnaálag er hurðin einföld ætluð til að einn fari um í einu og því þröng ef einhver þarf aðstoð. Öllu jafna veitir maður þessu ekki sérstaka athygli en þegar fullorðinn ungur karlmaður mikið spastískur í hjólastól sem ekki hefur neina möguleika til að beita eigin afli við að komast inn er mættur við rútudyrnar kominn alla leið frá Íslandi verður þetta allt í einu hrópandi áberandi.
Konurnar tvær voru sjúkraliðar sem fylgdu unga manninum til drauma sinna um að komast í fyrsta sinn á ævinni á sólarströnd þrátt fyrir hreyfihömlun sína. Ef hann byggi á meginlandi Evrópu eða Ameríku væri tiltölulega einfalt að taka lest í sólina. Lestir eru rúmgóðar miðað við flugvélar en þegar sá fatlaði er Ísleningur á hann engan kost annan en að fara með flugvél ef hann vill eða þarf að komast af þessu hrjóstruga og vindbarða skeri okkar, samt eigum við ekkert frumkvæði að því að bæta aðstöðu þeirra sem bundnir eru við hjólastól til ferðalaga, sem ættum vegna þessa að fara fyrir öðrum þjóðum í þessum efnum.
Ég stóð strax upp og gekk fram í rútuna og bauð fram aðstoð mína hvað get ég gert?Ja, við fengum margítrekum loforð ferðaskrifstofunnar um að séð yrði fyrir nauðsynlegum aðbúnaði og aðstoð til að þessi ungi maður kæmist alla leið að hótelinu okkar en svo bara stenst ekkert þær voru gráti nær það hefur allt klikkað og nú segir bílstjórinn að það sé ekki hans hlutverk aðstoða við að koma honum inn í bílinn rútan sé ekki ætluð fyrir fatlaða og farastjórinn veit ekkert í sinn haus.
Ljóst var að aðeins einn kæmist um dyrnar í einu og þrepin upp í rútuna voru alls 5. Hvorug þeirra kvennanna hafði styrk til að bera unga manninn ein inn í rútuna þó svo fólk með spasma sé sjaldan mjög holdugt. Hann var þó öruggleg ekki undir 70 kg Og farastjórinn - unga stúlkan lét sig hverfa á meðan á þessu stóð enda fátt sem hún hefði getað gert úr þessu.
Það var ekki um annað að ræða en að biðja þær að setja hjólastólinn með bakið alveg upp að dyrunum standa sjálfur uppi í rútunni taka undir hendur unga mannsins við axlir og lyfta honum upp og reyna að bera hann þannig inn þrep fyrir þrep og að þær gættu svo að fótum hans. Þetta tókst en hálf kauðslega, ég dróg fötin hans alveg upp um hann við þetta svo bert var á milli upp á bringu en það tókst að koma honum í það sætið sem næst var. Sama hátt höfðum við svo á til að koma honum út úr rútunni.
Ég var að springa úr mæði og frá í bakinu - en bar mig vel - óttaðist í nokkra daga að ég hefði eyðilegt í mér liðþófa í bakinu á ný en það var sem betur fer ekki. Ungi maðurinn sýndi mér þakklæti sitt þrátt fyrir klúðurslega meðferð mína á honum svo það yljar mér enn um hjartaræturnar þegar ég hugsa til þess en um leið finn ég til skammar um hvernig við búum að þessu mæta fólki. - Hann gleymdist öllum alla leið frá hönnun bæði flugvélarinnar og rútunnar og innréttinga þeirra allt til ráðstafanna ferðaskrifstofunnar og uppfyllingu fyrirheita hennar á vettvangi.
Svo er það Kanarí
En semsagt nú var ég aftur kominn á ferð og nú sem fylgdarmaður sjálfur. Sú manneskja sem ég nú fylgdi var þó betur sett en ungi maðurinn sem að ofan greinir þar sem með göngugrind eða góðum stuðningi hún getur gengið skammar vegalengdir. Við það óöryggi og þær margvíslegu hindranir sem mættu okkur á ferðalaginu var mér oft hugsað til unga mannsins á Alicante-flugvelli hvernig allt brást honum og fylgdarkonum hans sem lofað var og allra þeirra sem líkt er ástatt um.
Nú í okkar tilfelli keypti hinn fatlaði einstaklingur ferðina strax í haust til að tryggja sér smáhýsi á einni hæð sem næst þjónustu og garðhliði íbúðarhótelsins vegna hreyfihömlunarsinnar. Þá skráði ferðskrifstofan strax að einstaklingurinn væri bundinn hjólastóli og ósk um aðstoð og þjónustu á ferðalaginu sem slíkur, m.a. um milligöngu ferðaskrifstofunnar um leigu á hjólastól úti og auðvitað sæti í flugvélinni í samræmi við hreyfihömlunina eins nálægt inngangi og salerni og unnt væri.
Minnugur reynslu unga mannsins á Alicante-flugvelli og fylgdarkvenna hans hringdi ég þegar dró að ferðalaginu all nokkrum sinnum í ferðskrifstofuna til að fá skýr svör um að ferðaskrifstofan hefði tryggt þá aðstöðu sem þörf var á. Skýrasta svarið sem ég fékk var við höfum bara eina línu þar sem við skrifum hjólastóll og svo verða bara allir að gera sitt.
Aðstaða hreyfihamlaðra á flugferðalögum
Enginn þeirra sem ég talaði við hjá ferðaskrifstofunni í all nokkrum símtölum gat upplýst mig um hvað ég gæti gert til að tryggja bókun í sæti í flugvélinni sem næst salerni og inngangi þ.e. sæti í samræmi við þarfir hreyfihamlaðra en manneskja kunnug flugmálum benti mér á að tala við afgreiðsluna á Keflavíkurflugvelli. Þar var mér aftur sagt að séróskir ferðaskrifstofunnar kæmu til þeirra í tölvupósti daginn fyrir brottför og því væri líklega best að hafa enn samband við ferðaskrifstofuna að morgni þess dags sem ég gerði. Það var þó ekki fyrr en ég sagði að flugafgreiðslan hefði upplýst mig um að ferðskrifstofan sendi til þeirra lista um séróskir að mér var lofað að sú í hjólastólnum yrði með á slíkum lista. Niðurstaðan varð 4ða sætaröð engar augljósar ástæður voru sýnilegar fyrir því afhverju aðrir án hreyfihömlunar voru samt nær dyrum og salerni. T.d. er tekið fram á kvittun að ekki var selt sérstaklega í betri sæti í þessu flugi.
Á leiðinni út var okkar manneskja eini hjólastólafarþeginn, á leiðinni heim voru þeir fjórir, engar leiðbeiningar fengust neinsstaðar um verklag við þjónustu við hjólastólafólk, hvað myndi gerast næst, hvernig séð yrði til þess að hjólastólamanneskjan kæmist leiðar sinnar, þ.e. hvernig ferðlagið yrði.
Nú vorum við semsagt komin í sæti í flugvélinni. Keflavík bauð ekki upp á neina lausn til að aka hjólastólafarþeganum inn flugvélina sjáf aðeins að dyrum. Á Kanarí var betur séð fyrir þessu þar sem boðið var uppá sérstök en einföld sæti á hjólum til aka inn eftir flugvélagagninum. Einn fjögurrra hjólastólafarþega á heimleið var einmitt algerlega hreyfihamlaður frá mitt og nýttist því vel slíkur stól inn flugvélina. En svo var sætið fjarlægt úr vélinni. Eftir það í 6 tíma sem farþeginn er um borð í flugvélinni hefur slíkur farþegi enga möguleika á að komast á salerni.
Já flugvélasalernið.
Það er vart að ein fullfrísk manneskja komist fyrir á salernum flugvéla hvað þá heldur ef einhver þarf aðstoð á salerni en þannig er nú veruleikinn þó það megi ekki segja upphátt svo neinn heyri að fjöldi fullorðins fólks á í ýmiskonar efiðleikum með losun á saur og þvagi, allmargir fullorðnir þurfa að nota bleyjur og sérstaklega utan heimilis síns og hreyfihamlaðir sem þannig háttar til um geta þurft allt frá lítilsháttar aðstoð til verulegrar aðstoðar. Og ljóst er að fullvaxnir karlmenn geta ekki einu sinni aðstoðað börn sín á flugvélasalernum eins og voru í þessari flugvél Futura. Ég prísaði okkur sæl fyrir að ekki reyndi á slíka erfiðleika vitandi um að fleiri en flesta grunar þurfa að kljást við þá.
Íslendingar bundnir hjólastól komast ekkert nema með flugi - ættum að vera í fararbroddi um réttindi þeirra
Nokkur atriði verðum við Íslendingar sérstaklega að berjast fyrir að gerð séu að alþjóðlegri reglu við hönnun innréttinga í farþegaflugvélar framvegis, þar á meðal að flugvélasalerni séu aðgengileg öllum, að gert sé ráð fyrir aðgengilegum flugsætum fyrir hreyfihamlaða einstaklinga og fylgdarmenn þeirra sem fólk háð hjólastól hafi forgang um við röðun í sæti flugvélanna, einnig einföld atriði eins að um borð í hverri flugvél séu svona einfaldur stóll á hjólum eins og Spánverjarnir notuðu á flugvellinum til að flytja eftir gangi flugvélarinnar og til sætis síns manneskju sem engan mátt hafði í fótum og þannig sé með lítilli fyrirhöfn gert kleift að flytja fólk með mikla hreyfihömlun til og frá salerni í flugvél á flugi.
Það stendur okkur Íslendingum næst að sjá þetta og berjast fyrir úrbótum þar sem flug er eini ferðamátinn frá skerinu okkar til annarra landa og hlýrri svæða og vegna sögulegra tengsla okkar við flug og mannréttindi eigum við að ganga fremst í flokki við skýra kröfu um flug fyrir alla. Að sama skapi getur samt verið erfitt fyrir eitt flugfélag að laga þessi atriði hjá sér ef hin gera það ekki þar sem þar með myndu þjónustuþyngri farþegar allir færa sig til þess án þess þó að í því fælust tekjur á móti. Það er því ekki um annað að ræða en að leysa svona mál með samræmdum reglum.
Las Palmas betri en Keflavík
Ok, svo vorum við komin undir miðnætti út til Kanarí og flugvöllurinn við Las Palmas reyndist standa sig vel miklu betur en Keflavík, en það fyrsta sem ég spurði farastjórann um var hvort ekki yrði tiltækur hjólastóll við hótelið (leigður) eins og um hefði verið rætt og ítrekað af minni hálfu óþolandi oft ef marka mátti viðbrögð starfsfólk ferðaskrifstofunnar. Ha, nei ég hef engir upplýsingar um neinn hjólastól eða að neinn farþegi þurfi slíka aðstoð Reyndar gleymist alltaf að segja okkur fararstjórunum allt slíkt.
Fyrir heimferð talaði ég tvisvar við annan farstjóra í viðtalstíma um hvort ekki væri víst að sá fatlaði yrði bókaður í sæti í fremstu röðum á heimleið. Þar sem ekki fékkst nákvæmara svar en það verður að vona það ákváðum við að taka leigubíl snemma morguns klukkutíma áður en rúturnar kæmu að sækja farþega. Við vorum fyrst allra á staðinn og því fermst við bókunarborðið auk þess sem talað hafði verið við fararstjórana fyrirfram, engin forbókun var þó á okkur þegar opnað var fyrir innritun og þrátt fyrir að vera fyrst og fremst við innritunarborðið og haft mikið fyrir til þess fékkst ekkert bókað framar en í 5. sætaröð, hin sætin virtust úthlutuð fyrirfram bestu vinum og vandamönnum sem ekki höfði sérstaka sýnilega þörf fyrir þau. Munum að tekið er fram á kvittunum að ekki sé boðið uppá betri sæti í þessu flugi og ekki var boðið uppá netinnritun svo enginn átti að hafa getað keypt sig framfyrir mikið hreyfihamlaða sem mættu fyrstir til innritunar og höfðu meldað sig sem slíka við ferðskrifstofuna frá því ferðin var keypt í haust.
Á flugvellinum í Las Palmas var hinsvegar til fyrirmyndar hvernig hjólastólafarþegar fengu fylgd og leiðsögn að þjónusutborði og svo aftur frá því og inn í flugvélina og að sæti sínu áður en öðrum farþegum var hleypt að vélinni. Þar á meðal var þeim lyft með sérstöku farartæki að dyrum og trillað með sérstökum stól eftir flugvélaganginum alla leið í sæti sitt - en svo var sá stóll aftur fjarlægður úr vélinni og því ekki til taks við komu til í Keflavíkur eða um borð í 6 tíma flugi til að hjálpa farþegum með slíka hreyfihömlun til salernis.
Við blasir vandi sem þarf vilja til að leysa
Með mikilli fjölgun aldraðra af þeim kynslóðum sem vanir eru frelsi ferðlaganna verður enn skýrara en áður alvarlegt skeytingaleysi ferðskrifstofa og flugfélaga í garð hreyfihamlaðra og þarfa þeirra. Engir finna eins fyrir því og Íslendingar með hreyfihamlanir þar sem þeir eiga enga aðra möguleika til langferða en flug. Íbúar meginlandanna komast æði langt með bílum og lestum ef svo ber við þar á meðal til sólarlanda - en Íslendingar ekki.
Stjórnmál og samfélag | Laugardagur, 8. mars 2008 (breytt 9.3.2008 kl. 13:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)